Sólin Sólin Rís 05:12 • sest 21:41 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 08:09 • Síðdegis: 20:27 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 02:12 • Síðdegis: 14:14 í Reykjavík

Hvað er expressjónismi í tónlist?

Jón Gunnar Þorsteinsson

Hugtakið expressjónismi kom fyrst fram í myndlist en var síðar tengt við stefnu í tónlist. Stefnan spratt fram við upphaf 20. aldar, meðal annars sem andóf gegn impressjónisma, enda hugtökin andstæð. Impression merkir áhrif og er þar átt við áhrif hins ytri veruleika á listamanninn. Expression merkir hins vegar tjáning, og þar skiptir mestu að tjá það sem býr innra með listamanninum. Sjálfstjáning er þess vegna mikilvægur þáttur í expressjónisma.

Nýjar hugmyndir í sálarfræði, sér í lagi verk austurríska sálgreinandans Sigmunds Freud (1856-1939), höfðu sterk áhrif á expressjónisma. Í forgrunni voru kenningar Freuds um dulvitundina sem var falin undir hinni eiginlegu vitund og því lítt aðgengileg. Eitt af markmiðum expressjónisma var að kanna dulvitund mannsins með listsköpun.

Helsta tónskáld expressjónismans var Þjóðverjinn Arnold Schönberg (1874-1951). Hann er oft talinn eitt af áhrifamestu tónskáldum 20. aldarinnar. Schönberg var að mestu sjálfmenntaður, enda af efnalitlu fólki kominn. Eitt af fyrstu verkum hans var í anda hins svonefnda nýþýska skóla, Verklärte Nacht op. 4, en ómstríður hljómur verksins þótti hins vegar mjög framúrstefnulegur og að sumra mati beinlínis hneykslanlegur. Undir lok fyrsta áratugar 20. aldar einkenndist tónlist Schönbergs af því sem nefnt hefur verið tóntegundaleysi á íslensku eða atónalítets. Um það er nánar fjallað í svari við spurningunni Hvað er tóntegundaleysi og hvaða tónskáld hafa helst tileinkað sér það?

Arnold Schönberg er helsta tónskáld expressjónískrar tónlistar. Málverkið er sjálfsmynd Schönbergs í expressjónískum stíl frá árinu 1910.

Helstu verk Schönbergs frá þessum tíma eru: Þrír þættir fyrir píanó op. 11, Erwartung (Eftirvænting) op. 17 og Fimm þættir fyrir hljómsveit op. 16, öll samin árið 1909. Þessi verk eru talin vera upphafið á expressjónisma í tónlist.

Verkið Erwartung er rúmlega 30 mínútna óperueinleikur fyrir hljómsveit og sópransöngkonu. Það var frumflutt árið 1924 í Prag. Texti verksins var saminn af Marie Pappenheim (1882-1966), skáldkonu og nemanda í læknisfræði, og leitaði hún meðal annars fanga í kenningum Freuds um hysteríu og bældar hvatir. Óljóst er hvort frásögnin í verkinu sé raunveruleg eða einungis birtingarmynd brenglaðs huga persónunnar, en slíkt var algengt í sumum kvikmyndaverkum expressjónismans, til dæmis Das Cabinet des Dr. Caligari (1920). Verkið er af sumum talið vera eitt af höfðverkum módernisma í tónlist.

Önnur merk tónskáld sem sömdu expresssjónísk verk á fyrri hluta 20. aldar voru aðallega tveir lærisveinar Schönbergs: Alban Berg (1885-1835) og Anton Webern (1883-1945). Þekktasta verk Berg er óperan Wozzeck sem var frumflutt árið 1925. Hún er byggð á leikriti eftir þýska leikritaskáldið Georg Büchner (1813-1837) og tóntegundaleysið í verkinu er látið tákna ýmis konar hrylling og taugaveiklun í anda expressjónískrar tónlistar.

Efni til hlustunar og áhorfs á vefnum YouTube:

Heimild og frekara lesefni:
  • Árni Heimir Ingólfsson, Saga tónlistarinnar: Tónlist á Vesturlöndum frá miðöldum til nútímans, Forlagið, Reykjavík 2016.

Spurningu Emmu er hér svarað að hluta.

Höfundur

Jón Gunnar Þorsteinsson

bókmenntafræðingur og ritstjóri Vísindavefsins

Útgáfudagur

21.7.2023

Spyrjandi

Emma, Áslaug

Tilvísun

Jón Gunnar Þorsteinsson. „Hvað er expressjónismi í tónlist?“ Vísindavefurinn, 21. júlí 2023. Sótt 27. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=84979.

Jón Gunnar Þorsteinsson. (2023, 21. júlí). Hvað er expressjónismi í tónlist? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=84979

Jón Gunnar Þorsteinsson. „Hvað er expressjónismi í tónlist?“ Vísindavefurinn. 21. júl. 2023. Vefsíða. 27. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=84979>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvað er expressjónismi í tónlist?
Hugtakið expressjónismi kom fyrst fram í myndlist en var síðar tengt við stefnu í tónlist. Stefnan spratt fram við upphaf 20. aldar, meðal annars sem andóf gegn impressjónisma, enda hugtökin andstæð. Impression merkir áhrif og er þar átt við áhrif hins ytri veruleika á listamanninn. Expression merkir hins vegar tjáning, og þar skiptir mestu að tjá það sem býr innra með listamanninum. Sjálfstjáning er þess vegna mikilvægur þáttur í expressjónisma.

Nýjar hugmyndir í sálarfræði, sér í lagi verk austurríska sálgreinandans Sigmunds Freud (1856-1939), höfðu sterk áhrif á expressjónisma. Í forgrunni voru kenningar Freuds um dulvitundina sem var falin undir hinni eiginlegu vitund og því lítt aðgengileg. Eitt af markmiðum expressjónisma var að kanna dulvitund mannsins með listsköpun.

Helsta tónskáld expressjónismans var Þjóðverjinn Arnold Schönberg (1874-1951). Hann er oft talinn eitt af áhrifamestu tónskáldum 20. aldarinnar. Schönberg var að mestu sjálfmenntaður, enda af efnalitlu fólki kominn. Eitt af fyrstu verkum hans var í anda hins svonefnda nýþýska skóla, Verklärte Nacht op. 4, en ómstríður hljómur verksins þótti hins vegar mjög framúrstefnulegur og að sumra mati beinlínis hneykslanlegur. Undir lok fyrsta áratugar 20. aldar einkenndist tónlist Schönbergs af því sem nefnt hefur verið tóntegundaleysi á íslensku eða atónalítets. Um það er nánar fjallað í svari við spurningunni Hvað er tóntegundaleysi og hvaða tónskáld hafa helst tileinkað sér það?

Arnold Schönberg er helsta tónskáld expressjónískrar tónlistar. Málverkið er sjálfsmynd Schönbergs í expressjónískum stíl frá árinu 1910.

Helstu verk Schönbergs frá þessum tíma eru: Þrír þættir fyrir píanó op. 11, Erwartung (Eftirvænting) op. 17 og Fimm þættir fyrir hljómsveit op. 16, öll samin árið 1909. Þessi verk eru talin vera upphafið á expressjónisma í tónlist.

Verkið Erwartung er rúmlega 30 mínútna óperueinleikur fyrir hljómsveit og sópransöngkonu. Það var frumflutt árið 1924 í Prag. Texti verksins var saminn af Marie Pappenheim (1882-1966), skáldkonu og nemanda í læknisfræði, og leitaði hún meðal annars fanga í kenningum Freuds um hysteríu og bældar hvatir. Óljóst er hvort frásögnin í verkinu sé raunveruleg eða einungis birtingarmynd brenglaðs huga persónunnar, en slíkt var algengt í sumum kvikmyndaverkum expressjónismans, til dæmis Das Cabinet des Dr. Caligari (1920). Verkið er af sumum talið vera eitt af höfðverkum módernisma í tónlist.

Önnur merk tónskáld sem sömdu expresssjónísk verk á fyrri hluta 20. aldar voru aðallega tveir lærisveinar Schönbergs: Alban Berg (1885-1835) og Anton Webern (1883-1945). Þekktasta verk Berg er óperan Wozzeck sem var frumflutt árið 1925. Hún er byggð á leikriti eftir þýska leikritaskáldið Georg Büchner (1813-1837) og tóntegundaleysið í verkinu er látið tákna ýmis konar hrylling og taugaveiklun í anda expressjónískrar tónlistar.

Efni til hlustunar og áhorfs á vefnum YouTube:

Heimild og frekara lesefni:
  • Árni Heimir Ingólfsson, Saga tónlistarinnar: Tónlist á Vesturlöndum frá miðöldum til nútímans, Forlagið, Reykjavík 2016.

Spurningu Emmu er hér svarað að hluta....