Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Upphaflega spurningin var í tvennu lagi. Hér er síðari hlutanum svarað. Öll spurningin var þessi:
Hver eru lágmarkslaun á Íslandi? Hver er talin lágmarks upphæð í krónum til framfærslu einstaklings?
Eins og fram kemur í svari við spurningunni Hver eru lágmarkslaun á Íslandi? er óheimilt að greiða lægri laun fyrir tiltekið starf en tilgreint er í kjarasamningi. En hver gæti verið lægsta upphæð sem hægt er að komast af með sér til framfærslu á mánuði á Íslandi?
Háskóli Íslands upplýsir erlenda nemendur sem hyggja á nám um að það kosti ekki minna en 224.333 krónur á mánuði fyrir einstakling að framfleyta sér í Reykjavík.[1] Inni í þeirri tölu eru 40 þúsund krónu lágmark vegna bóka og námsgagna (á önn) og 22 þúsund krónu lágmark vegna tómstundaiðju og afþreyingar. Kostnaður við húsnæði, rafmagn, mat og strætó talinn um 162 þúsund krónur að lágmarki. Þessar tölur eru byggðar á gögnum frá Velferðarsviði Reykjavíkurborgar. Á heimasíðu félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins er að finna reiknivél fyrir neysluviðmið.[2] Viðmiðin voru fyrst birt árið 2011, meðal annars vegna úrvinnslu lánastofnana á eftirmálum hrunsins 2008, en hafa ekki verið uppfærð síðan árið 2019. Á vefsíðu ráðuneytisins kemur fram að aðferðafræðin sem útreikningur neysluviðmiðanna byggir á sé gölluð og að unnið sé að heildarendurskoðun á allri umgjörð þeirra.
Ekki er hægt að svara afdráttarlaust spurningunni um hver sé lægsta upphæð sem hægt sé að komast af með á Íslandi á mánuði.
Umboðsmaður skuldara setur fram framfærsluviðmið á heimasíðu sinni.[3] Barnlaus einstaklingur er talinn þurfa 213 þúsund krónur á mánuði í mat og drykk, fatnað, lækniskostnað, tómstundir, samskipti og samgöngur. Þá á eftir að bæta við húsaleigu, rafmagni og hita, tryggingum innbús og svo framvegis. Barnlaus hjón eru talin þurfa 300 þúsund krónur á mánuði til reksturs án húsaleigu. Hjón með eitt barn eru talin þurfa um 360 þúsund krónur á mánuði.
Aðstæður ráða miklu um hversu mikið eða lítið einstaklingar og sambýlingar telja sig þurfa til að komast af. Ungur námsmaður í erlendri borg hefur líklega aðrar þarfir og önnur viðmið en eldri einstaklingur. Þetta endurspeglast í kostnaðarviðmiðum HÍ annars vegar og umboðsmanns skuldara hins vegar. HÍ telur erlendan háskólanema komast af með svipaða upphæð í heildarútgjöld og umboðsmaður skuldara telur einstakling sem býr einn þurfa áður en kemur að húsnæðisútgjöldunum. Þarna er lauslega áætlað 50-100% munur á, enda er annars vegar verið að áætla algjört lágmark fyrir útgjöld yfir 6-12 mánaða tímabil (HÍ) og hins vegar viðvarandi útgjaldapakka yfir lengra tímabil (umboðsmaður skuldara). Þessi munur kjarnar þann vanda sem þeir sem reyna að setja framfærsluviðmið standa frammi fyrir. Hægt er að finna dæmi um einstaklinga og fjölskyldur sem hafa komist af með afar takmörkuð fjárútlát yfir stuttan tíma.
Ekki er hægt að svara afdráttarlaust spurningunni um hver sé lægsta upphæð sem hægt sé að komast af með á Íslandi á mánuði. Fyrst þarf að spyrja hversu gamall viðkomandi er. Foreldrar hafa framfærsluskyldu gagnvart þeim sem yngri eru en 18 ára. Spurningin á því aðeins við þá sem eldri eru. En útgjaldaþörf þeirra fer eftir ytri aðstæðum: Býr einstaklingurinn einn eða er hann hluti af fjölskyldu, hversu gamall er viðkomandi, er viðkomandi atvinnulaus, í skóla, í vinnu? Býr viðkomandi í eigin húsnæði, er hann að greiða vexti og afborganir af lánum því tengt, eða býr viðkomandi í láns- eða leiguhúsnæði? Er viðkomandi með barn eða börn á framfæri? Þannig má lengi halda áfram að telja upp.
Tilvísanir:
Þórólfur Matthíasson. „Hver er lægsta upphæð sem dugir til framfærslu á mánuði á Íslandi?“ Vísindavefurinn, 1. september 2023, sótt 8. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=85361.
Þórólfur Matthíasson. (2023, 1. september). Hver er lægsta upphæð sem dugir til framfærslu á mánuði á Íslandi? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=85361
Þórólfur Matthíasson. „Hver er lægsta upphæð sem dugir til framfærslu á mánuði á Íslandi?“ Vísindavefurinn. 1. sep. 2023. Vefsíða. 8. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=85361>.