Hafa fundist einhverjar fornleifar frá Rómarveldi á Íslandi? Svo sem peningar eða önnur ummerki um að áhrif Rómarveldis hafi náð til landsins með einhverjum hætti?Elstu fornleifar sem hér hafa fundist eru rómverskir peningar. Þeirra á meðal er rómverskur koparpeningur sem sleginn var í Litlu-Asíu á árunum 270-75 e.Kr. Hann fannst í uppblásnum rústum á Bragðavöllum í Hamarsfirði árið 1933. Í rústunum fundust einnig gripir með ótvíræðum víkingaaldareinkennum. Um þessa fornleifafundi er fjallað nánar í tveimur svörum eftir Orra Vésteinsson við spurningunum Hafa rómverskir munir fundist hér á landi? og Hversu gamall er elsti peningur á Íslandi? Í fyrra svarinu segir meðal annars þetta um peningana:
Tveir þeirra eru úr líklegu, og einn úr ótvíræðu víkingaaldarsamhengi, og því ljóst að fólk hefur haft þá með höndum hér á víkingaöld. Hvort þeir bárust hingað á þeim tíma, með fólki sem hafði eignast þá einhversstaðar annarsstaðar, eða hvort þeir hafa fundist hér er hinsvegar óvíst og hafa fræðimenn talsvert brotið um það heilann.Um hugtakið fornleifar er hægt að lesa í svari við spurningunni Hvað eru fornleifar? Fornleifar eru þar skilgreindar sem allt „það sem hefur orðið eftir frá gamalli tíð.“ Þar er átt við allar leifar sem geta veitt vísbendingar um lífshætti fólks til forna, eins og til dæmis byggingarústir, gripi, gamla öskuhauga, leifar eftir eldamennsku og þess háttar.
- Myndin birtist í bókinni Kuml og haugfé í heiðnum sið á Íslandi, 2. útgáfa, Reykjavík 2000. Ljósmyndari: Ívar Brynjólfsson, Þjóðminjasafni Íslands.