
Elstu íslensku gróðurfélögin eru hins vegar talin rétt um 15 milljóna ára gömul og hafa fundist í setlögum í Þórishlíðarfjalli í Selárdal í Arnarfirði og fyrir ofan Botn í Súgandafirði. Mest ber á lauftrjám í Selárdal, einkum arnarbeyki (Fagus friedrichii), en leifar barrtrjáa eru meira áberandi í Botni. Gróðurfélögin voru þá þegar af mismunandi gerðum og réðu umhverfisaðstæður mestu um hvaða félög voru ríkjandi á hverjum stað, en í þeim ber allmikið á plöntum náskyldum núlifandi plöntum sem einkenna heittempruð miðjarðarsvæði. Má þar nefna evrópuvatnafuru (Glyptostrobus europaeus), magnólíu (Magnolia) og hjartatré (Cercidiphyllum). Þá hafa fundist í þessum setlögum leifar fornrauðviðar (Sequoia abietina), plöntur af grátviðarætt (Cupressaceae) og greninálar (Picea). Einnig hefur fundist arnarlind (Tilia selardalense), askur (Fraxinus), álmur (Ulmus), birki (Betula), hvítplatanviður (Platanus leucophylla), kastanía (Aesculus), lyngrós (Rhododendron) og toppur (Lonicera). Rannsóknir sýna að þegar plöntur numu land á frum-Íslandi var það enn tengt við meginland Evrópu og Norður-Ameríku, en landsvæðið var og er hluti af Grænlands-Skotlands-þverhryggnum. Stór hluti hans var ofan sjávarmáls frá upphafi tertíertímabils fyrir um það bil 65 milljónum ára. Frekara lesefni á Vísindavefnum:
- Eiga plöntur forfeður? eftir Jón Má Halldórsson
- Hvernig var tertíertímabilið á Íslandi? eftir Sigurð Steinþórsson
- Hvernig hefur íslensk flóra breyst í grófum dráttum frá landnámi? eftir Hörð Kristinsson
- Margrét Theódóra Jônsdóttir, Skyldleiki íslensku tertíerflórunnar við núlifandi flóru í Norður-Ameríku. Sótt 23.2.2010.