Sólin Sólin Rís 04:07 • sest 22:59 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 23:38 • Sest 06:52 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:41 • Síðdegis: 20:01 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:41 • Síðdegis: 13:46 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 04:07 • sest 22:59 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 23:38 • Sest 06:52 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:41 • Síðdegis: 20:01 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:41 • Síðdegis: 13:46 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvað er orðið innviðir gamalt og hvernig hefur merking þess breyst í málinu?

Eiríkur Rögnvaldsson

Orðið innviðir heyrist og sést mjög oft um þessar mundir. Þetta er ekki nýtt orð – það kemur fyrir þegar í fornu máli og er þá eingöngu notað í bókstaflegri merkingu um tréverk í skipi, annað en ytra byrði. Síðar er einnig farið að nota orðið um hús – „Kirkjan að ytri súð og innviðum mjög lasleg og ágengileg“ segir í skjali frá 1677 í Biskupsskjalasafni. Enn síðar var farið að nota orðið í líkingamáli, t.d. um mannslíkamann – „þó kalla menn innvidi høfuds og briósts viscera“ segir í Ritum Lærdómslistafélagsins 1791. Þarna er verið að tala um innri gerð líkamans en merkingin er enn óeiginlegri í Norðanfara 1876: „eða lýsir ekki brjefkaflinn í Norðlingi innviðum mannsins?“. Hér er orðið eiginlega notað í merkingunni ‘innræti’.

Innviðir gamallar kirkju í Sodankylä í Lapplandi. Orðið innviðir kemur fyrir þegar í fornu máli og er þá eingöngu notað í bókstaflegri merkingu um tréverk í skipi, annað en ytra byrði. Síðar er einnig farið að nota orðið um hús og enn síðar í líkingamáli.

Ýmis gömul dæmi eru um að orðið sé notað um hvers konar innri gerð, áþreifanlega eða huglæga. „Verði ekki því meiri gætni viðhöfð, er ekki óhugsandi að bresti í innviðum fylkjasambandsins áður en lýkur“ segir í Heimskringlu 1895. „Enginn maðr þekkir út í yztu æsar innviði náunga síns“ segir í Fjallkonunni 1896. „Innviðir í þessari sögu er barátta á milli gamla tíðarandans og hins nýja“ segir í Heimskringlu 1901. „Þá sér lærisveinninn innviði jurtarinnar“ segir í Skinfaxa 1913. Orðið var lengst af notað í þeim tveim merkingum sem gefnar eru í tveim fyrri útgáfum Íslenskrar orðabókar – fyrst einkum sem ‘máttarviðir inni í byggingu, skipi e.þ.h.’ og síðar einnig ‘burðarásar félagssamtaka, innri styrkur e-s e.þ.h.’

En í seinni tíð er orðið notað sem þýðing á enska orðinu infrastructure sem merkir ‘the basic systems and services, such as transport and power supplies, that a country or organization uses in order to work effectively’ eða ‘grunnkerfi og þjónustur, svo sem samgöngur og orkuveitur, sem land eða stofnun þarf á að halda til að starfa eðlilega’. Í samræmi við þetta hefur þriðja merkingin bæst við í Íslenskri orðabók: ‘helstu þættir samfélagsins, t.d. samgöngu-, mennta- og heilbrigðiskerfi (e. infrastructure)’. Í Íslenskri nútímamálsorðabók er þetta orðað svo: ‘helstu þættir sem stuðla að virkni samfélags, s.s. samgöngumannvirki og orkukerfi’. Þetta varð fljótlega aðalmerking orðsins og tíðni þess hefur aukist gífurlega á þessari öld.

Þessi notkun virðist hafa hafist á níunda áratugnum þótt orðið sé skráð sem „nýlegt nýyrði“ í Málfregnum 1998. Í Pressunni 1989 segir: „Þannig yrðu tekjur af sölu veiðileyfa tekjustofn til að viðhalda innviðum (infrastructure) landsbyggðarinnar, samgöngukerfi og grunnþjónustu.“ Í Morgunblaðinu sama ár er talað um „samgöngur og ýmis almenn atriði sem talist hafa til hinna svokölluðu „innviða þjóðfélagsins“ (e. Infrastructure) samkvæmt hefðbundnum skilgreiningum“. Í Sögu sama ár segir: „Umræður um verklegar framkvæmdir snerust mikið um eflingu á innviðum efnahagslífsins (infrastrúktúr) og má þar nefna virkjun fallvatna, lagningu járnbrauta, rekstur strandferðaskipa, vega- og brúagerð og fleira í þeim dúr.“

Í seinni tíð hefur orðið innviðir verið notað sem þýðing á enska orðinu infrastructure, í merkingunni 'grunnkerfi og þjónustur, svo sem samgöngur og orkuveitur, sem land eða stofnun þarf á að halda til að starfa eðlilega’.

Í raun og veru er ekki um mikla merkingarbreytingu að ræða vegna þess að orðið hafði áður verið notað á mjög fjölbreyttan hátt eins og að framan segir. Aðalbreytingin felst í því að orðið er í raun gert að íðorði. En þessari breytingu fylgir þó þörf fyrir að láta orðið vísa til einstakra innviða, t.d. orkukerfis eða samgangna, og því fylgir þörf fyrir að nota orðið í eintölu þótt það hafi fram undir þetta nær eingöngu verið haft í fleirtölu. Allnokkur dæmi eru um eintöluna frá síðustu árum, s.s. „BSRB-liðar segja að póstþjónusta sé mikilvægur innviður“ í Fréttablaðinu 2019 og „Rafmagn hætti að vera „innviður“ og varð að „vöru“ rétt eins og fiskur og olía“ í Viðskiptablaðinu 2015. Þetta er eðlileg og óhjákvæmileg breyting á notkun orðsins.

Mér finnst vera mjög vel til fundið að nýta gamalgróið orð eins og innviðir sem íslenskun á infrastructure og sú þýðing er komin inn í ýmis orðasöfn í Íðorðabankanum. Stundum veltir fólk því fyrir sér hvort þetta orð sé að útrýma orðinu mannvirki, en þegar að er gáð er ljóst að hvorugt getur orðið komið alveg í stað hins – ýmsir innviðir eru ekki mannvirki og ýmis mannvirki eru ekki innviðir. Vissulega geta bæði orðin þó stundum vísað til hins sama, eins og t.d. orkuversins í Svartsengi – það er vitanlega mannvirki, en það er jafnframt mikilvægur innviður og hluti af innviðum Suðurnesja, orkukerfinu. Auðvitað er þó hægt að ofnota þetta orð eins og önnur, og sjálfsagt að huga að því hvort orð eins og mannvirki ætti stundum betur við.

Myndir:

Höfundur

Eiríkur Rögnvaldsson

prófessor emeritus í íslenskri málfræði

Útgáfudagur

27.5.2024

Spyrjandi

Óskar Helgi

Tilvísun

Eiríkur Rögnvaldsson. „Hvað er orðið innviðir gamalt og hvernig hefur merking þess breyst í málinu?“ Vísindavefurinn, 27. maí 2024, sótt 23. júlí 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=86486.

Eiríkur Rögnvaldsson. (2024, 27. maí). Hvað er orðið innviðir gamalt og hvernig hefur merking þess breyst í málinu? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=86486

Eiríkur Rögnvaldsson. „Hvað er orðið innviðir gamalt og hvernig hefur merking þess breyst í málinu?“ Vísindavefurinn. 27. maí. 2024. Vefsíða. 23. júl. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=86486>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvað er orðið innviðir gamalt og hvernig hefur merking þess breyst í málinu?
Orðið innviðir heyrist og sést mjög oft um þessar mundir. Þetta er ekki nýtt orð – það kemur fyrir þegar í fornu máli og er þá eingöngu notað í bókstaflegri merkingu um tréverk í skipi, annað en ytra byrði. Síðar er einnig farið að nota orðið um hús – „Kirkjan að ytri súð og innviðum mjög lasleg og ágengileg“ segir í skjali frá 1677 í Biskupsskjalasafni. Enn síðar var farið að nota orðið í líkingamáli, t.d. um mannslíkamann – „þó kalla menn innvidi høfuds og briósts viscera“ segir í Ritum Lærdómslistafélagsins 1791. Þarna er verið að tala um innri gerð líkamans en merkingin er enn óeiginlegri í Norðanfara 1876: „eða lýsir ekki brjefkaflinn í Norðlingi innviðum mannsins?“. Hér er orðið eiginlega notað í merkingunni ‘innræti’.

Innviðir gamallar kirkju í Sodankylä í Lapplandi. Orðið innviðir kemur fyrir þegar í fornu máli og er þá eingöngu notað í bókstaflegri merkingu um tréverk í skipi, annað en ytra byrði. Síðar er einnig farið að nota orðið um hús og enn síðar í líkingamáli.

Ýmis gömul dæmi eru um að orðið sé notað um hvers konar innri gerð, áþreifanlega eða huglæga. „Verði ekki því meiri gætni viðhöfð, er ekki óhugsandi að bresti í innviðum fylkjasambandsins áður en lýkur“ segir í Heimskringlu 1895. „Enginn maðr þekkir út í yztu æsar innviði náunga síns“ segir í Fjallkonunni 1896. „Innviðir í þessari sögu er barátta á milli gamla tíðarandans og hins nýja“ segir í Heimskringlu 1901. „Þá sér lærisveinninn innviði jurtarinnar“ segir í Skinfaxa 1913. Orðið var lengst af notað í þeim tveim merkingum sem gefnar eru í tveim fyrri útgáfum Íslenskrar orðabókar – fyrst einkum sem ‘máttarviðir inni í byggingu, skipi e.þ.h.’ og síðar einnig ‘burðarásar félagssamtaka, innri styrkur e-s e.þ.h.’

En í seinni tíð er orðið notað sem þýðing á enska orðinu infrastructure sem merkir ‘the basic systems and services, such as transport and power supplies, that a country or organization uses in order to work effectively’ eða ‘grunnkerfi og þjónustur, svo sem samgöngur og orkuveitur, sem land eða stofnun þarf á að halda til að starfa eðlilega’. Í samræmi við þetta hefur þriðja merkingin bæst við í Íslenskri orðabók: ‘helstu þættir samfélagsins, t.d. samgöngu-, mennta- og heilbrigðiskerfi (e. infrastructure)’. Í Íslenskri nútímamálsorðabók er þetta orðað svo: ‘helstu þættir sem stuðla að virkni samfélags, s.s. samgöngumannvirki og orkukerfi’. Þetta varð fljótlega aðalmerking orðsins og tíðni þess hefur aukist gífurlega á þessari öld.

Þessi notkun virðist hafa hafist á níunda áratugnum þótt orðið sé skráð sem „nýlegt nýyrði“ í Málfregnum 1998. Í Pressunni 1989 segir: „Þannig yrðu tekjur af sölu veiðileyfa tekjustofn til að viðhalda innviðum (infrastructure) landsbyggðarinnar, samgöngukerfi og grunnþjónustu.“ Í Morgunblaðinu sama ár er talað um „samgöngur og ýmis almenn atriði sem talist hafa til hinna svokölluðu „innviða þjóðfélagsins“ (e. Infrastructure) samkvæmt hefðbundnum skilgreiningum“. Í Sögu sama ár segir: „Umræður um verklegar framkvæmdir snerust mikið um eflingu á innviðum efnahagslífsins (infrastrúktúr) og má þar nefna virkjun fallvatna, lagningu járnbrauta, rekstur strandferðaskipa, vega- og brúagerð og fleira í þeim dúr.“

Í seinni tíð hefur orðið innviðir verið notað sem þýðing á enska orðinu infrastructure, í merkingunni 'grunnkerfi og þjónustur, svo sem samgöngur og orkuveitur, sem land eða stofnun þarf á að halda til að starfa eðlilega’.

Í raun og veru er ekki um mikla merkingarbreytingu að ræða vegna þess að orðið hafði áður verið notað á mjög fjölbreyttan hátt eins og að framan segir. Aðalbreytingin felst í því að orðið er í raun gert að íðorði. En þessari breytingu fylgir þó þörf fyrir að láta orðið vísa til einstakra innviða, t.d. orkukerfis eða samgangna, og því fylgir þörf fyrir að nota orðið í eintölu þótt það hafi fram undir þetta nær eingöngu verið haft í fleirtölu. Allnokkur dæmi eru um eintöluna frá síðustu árum, s.s. „BSRB-liðar segja að póstþjónusta sé mikilvægur innviður“ í Fréttablaðinu 2019 og „Rafmagn hætti að vera „innviður“ og varð að „vöru“ rétt eins og fiskur og olía“ í Viðskiptablaðinu 2015. Þetta er eðlileg og óhjákvæmileg breyting á notkun orðsins.

Mér finnst vera mjög vel til fundið að nýta gamalgróið orð eins og innviðir sem íslenskun á infrastructure og sú þýðing er komin inn í ýmis orðasöfn í Íðorðabankanum. Stundum veltir fólk því fyrir sér hvort þetta orð sé að útrýma orðinu mannvirki, en þegar að er gáð er ljóst að hvorugt getur orðið komið alveg í stað hins – ýmsir innviðir eru ekki mannvirki og ýmis mannvirki eru ekki innviðir. Vissulega geta bæði orðin þó stundum vísað til hins sama, eins og t.d. orkuversins í Svartsengi – það er vitanlega mannvirki, en það er jafnframt mikilvægur innviður og hluti af innviðum Suðurnesja, orkukerfinu. Auðvitað er þó hægt að ofnota þetta orð eins og önnur, og sjálfsagt að huga að því hvort orð eins og mannvirki ætti stundum betur við.

Myndir:

...