Halló aftur Vísindavefur Háskóla Íslands, af hverju skemmist rafmagnsdót eða eitthvað annað tengt rafmagni í vatni? Kveðja, Eysteinn, 7 ára.Raftæki innihalda rafrásir, sem stjórna leiðum og styrk rafstrauma í tækinu. Rafrásirnar eru lokaðar lykkjur af rafleiðurum og íhlutum með mismunandi svörun við rafstraumi eða rafspennu. Rafleiðararnir eru oftast koparvírar, en íhlutirnir geta verið svokallaðar mótstöður sem takmarka rafstrauma, ljósgjafar, til dæmis LED-ljóstvistar, rafhreyflar sem breyta raforku í hreyfiorku, eða rafstraumslokar/hlið af ýmsum gerðum. Íhlutirnir eru byggðir fyrir einhverja hámarksspennu eða hámarksstraum. Fari rafspennan eða rafstraumurinn yfir þau þolmörk, bráðnar eða brennur íhluturinn og rafrásin hættir sinni virkni.

Einföld rafrás með þremur íhlutum: rafhlöðu, mótstöðu og ljósgjafa. Ef mótstaðan blotnar kemst rafstraumur framhjá henni og heildarstraumurinn getur farið yfir þolmörk ljósgjafans svo hann bráðnar og hættir að leiða rafstraum.
- Yfirlitsmynd: File:Short circuit by water RJ45 PoE.JPG - Wikimedia Commons. (Sótt 28.04.2025).
- Mynd í svari: AÓ.