Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Orðið strandaglópur er í nútímamáli oft notað um fólk sem ekki kemst leiðar sinnar vegna atvika sem það hefur enga stjórn á en stundum eru gerðar athugasemdir við þessa notkun. Orðið kemur fyrir í fornu máli í myndinni strandarglópur, og er þar notað í bókstaflegri merkingu eins og Jón G. Friðjónsson bendir á í Merg málsins – í Sturlungu segir t.d.: „kemur hann norðan að firði, þá er skipið létt út, og er orðinn strandarglópur“, þ.e. „missir af skipinu og stendur sem glópur á ströndinni – glápir á skipið sigla frá landi“ segir Jón. En hann bendir einnig á að yfirfærð merking er þekkt úr bréfi í Biskupsskjalasafni frá 17. öld – „því bréf mín sem út eiga að sendast með norðanskipum kalla sjálf að skuli þau ei verða strandaglópar“.
Þarna er orðið notað um bréf og fleiri dæmi eru um að það sé notað um hluti, en vissulega er það oftast haft um fólk. Það er skýrt 'sá eða sú sem verður eftir e-s staðar' í Íslenskri nútímamálsorðabók og 'maður sem verður af skipi eða öðru farartæki' eða 'sá sem er stöðvaður á ferð sinni og kemst ekki lengra' í Íslenskri orðabók. Í Merg málsins er sambandið verða strandaglópur e-s staðar skýrt 'verða of seinn; einangrast e-s staðar'. Sumum finnst orðið óheppilegt og neikvætt vegna þess að glópur merkir 'kjáni, flón‘' en því fer fjarri að glópska valdi því alltaf að fólk verði strandaglópar.
Það er alkunna að merking samsettra orða er fjarri því að vera alltaf summa eða fall af merkingu orðhlutanna. Þegar samsetning er komin í verulega notkun getur hún farið að lifa sjálfstæðu lífi og slitið sig að meira eða minna leyti frá uppruna sínum. Í þessu tilviki er ljóst að þrátt fyrir upprunann tengja málnotendur nútímans orðið yfirleitt hvorki við nafnorðið strönd né nafnorðið glópur, heldur við sögnina stranda í merkingunni 'komast ekki áfram', 'komast ekki leiðar sinnar' – orðhlutinn -glópur gegnir bara því hlutverki að vísa til einstaklings. En vissulega er ekki óeðlilegt að orðhluti sem er svo neikvæður þegar hann er sjálfstætt orð trufli sumt fólk og leiði til þess að því finnist orðið gildishlaðið en ekki hlutlaust.
Mynd:
Eiríkur Rögnvaldsson. „Hvað er átt við með orðinu strandaglópur?“ Vísindavefurinn, 18. ágúst 2025, sótt 18. ágúst 2025, https://visindavefur.is/svar.php?id=87893.
Eiríkur Rögnvaldsson. (2025, 18. ágúst). Hvað er átt við með orðinu strandaglópur? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=87893
Eiríkur Rögnvaldsson. „Hvað er átt við með orðinu strandaglópur?“ Vísindavefurinn. 18. ágú. 2025. Vefsíða. 18. ágú. 2025. <https://visindavefur.is/svar.php?id=87893>.