Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Stutta svarið er nei, það gátu ekki allir skrifað í gamla daga. Langa svarið er svolítið flóknara því það skiptir máli hvenær „gamla daga“ var og einnig hvað átt er við með því að kunna að skrifa.
Ef farið er langt aftur í aldir, svo sem til miðalda, var skriftarkunnátta fyrst og fremst forréttindi valdhafa, menntamanna og presta, hvort sem það var á Íslandi eða annars staðar í hinum vestræna heimi. Þekkingin var líka kynjuð því fleiri karlar en konur kunnu að skrifa. Hið sama átti við um lestrarkunnáttu en mikilvægt er að halda því til haga að lestur og skrift fór ekki endilega saman því fólk gat lært að lesa án þess að læra að skrifa.
Þegar kom fram á síðari hluta 18. aldar en einkum á 19. öld sóttist sífellt fleira fólk úr alþýðu- og miðstétt eftir því að læra að skrifa. Þetta var hluti af ferli sem fræðimenn kalla fjöldalæsi (e. mass literacy) en með því er vísað til byltingar í lestrar- og skriftarkunnáttu almennings. Það hélst í hendur við viðamiklar samfélagsbreytingar þar sem nýjar hugmyndastefnur á borð við upplýsinguna (með aukinni bókaútgáfu, vísindaathugunum og veraldarhyggju) höfðu áhrif. Tækninýjungar og iðnvæðing ýttu undir þéttbýlismyndun, lýðræðishugmyndir skutu rótum og nútímasjálfið, ný sjálfsmynd sem hvíldi á hugmyndum um sjálfræði og einstaklingsvitund, varð til.
Það var fólkið sjálft sem sóttist eftir því að læra að skrifa í stað þess að skriftarkennslan væri valdboð að ofan. Vissulega var skrift kennd í barnaskólum víða erlendis snemma á 19. öld en aðgengi barna að skólum var afar mismunandi. Fólk varð sér því úti um forskriftir og skriffæri og erlendis voru gefnar út leiðbeiningabækur þegar á 18. öld um það hvernig ætti að bera sig að við að skrifa og stíla bréf.
Skriftina notaði fólk til að skrifa skrifa ástvinum eða kunningjum bréf og segja fréttir af sjálfum sér og elskendur skrifuðu ástarbréf. Þannig varð til það sem kallað er „kunningjabréfið“ (e. familiar letter) eða hversdagsleg ritun sendibréfa til aðgreiningar frá hinum formlegu embættisbréfum. Fólk fór líka í auknum mæli að skrifa dagbækur.
Þetta bréf skrifar Þórunn Pálsdóttir til Páls Pálssonar bróður síns árið 1820. Hún er þá 9 ára, eins og segir í bréfinu, og lærir að skrifa. Aftan við bréfið hefur amma hennar Sigríður Ørum bætt við nokkrum línum fyrir Þórunni þar sem fram kemur að henni gangi betur að skrifa með krít en bleki, sem skýrir blekklessurnar, og að hún fái litla tilsögn. Bréfið hefur Páll bundið inn í litla bók ásamt fleiri persónulegum bréfum og skjölum, Lbs. 230 8vo. Mynd: Handritasafn, Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn.
Á Íslandi var staðan þannig undir lok 18. aldar að ekki var skylda að kenna börnum að skrifa og raunar benda heimildir til að það viðhorf hafi verið ríkjandi langt fram á 19. öld að það væri óþarfi að stúlkur og fátækir drengir lærðu að skrifa því þau þyrftu ekki á þeirri kunnáttu að halda í lífinu. Lestur var aftur á móti skylda og skilyrði þess að fermast frá því undir miðja 18. öld. Þá varð lestrarkunnátta smám saman skilyrði fermingar (tilskipanir 1741 og 1744) og þegar húsagatilskipun var sett árið 1746 var kveðið á um að börnum yrði kennt að lesa.[1] Börnin lærðu þó ekki endilega að lesa sér til skilnings því lærdómurinn gekk oft út á utanbókarlærdóm svo hægt væri að svara spurningum um trúarboðskapinn. Kennslan fór fram inni á heimilinu, svokölluð heimafræðsla, og hvort börnin lærðu eitthvað fleira en að lesa (og trúarlærdóminn) var komið undir vilja foreldranna.[2]
Það var ekki einfalt mál að læra að skrifa eða hagnýta sér þá þekkingu. Læra þurfti stafina og beita pennanum (fjaðurstafnum) rétt, eiga pappír, skrifpúlt, borð eða kannski bara fjöl til að leggja á hnén. Það þurfti blek, þerripappír eða sand til að þerra blekið, innsigli og hníf til að tálga oddinn á fjaðurpennanum. Allt kostaði þetta peninga og ekki sjálfgefið að fátækt fólk hefði efni á að kaupa þessa hluti.
Heimildir sýna að fólk hafði ýmsar leiðir til að tileinka sér þessa eftirsóttu þekkingu. Ýmsar frásagnir eru til frá ungmennum á fyrri hluta og um miðbik 19. aldar, ekki síst stúlkum, sem urðu sér úti um forskrift þvert á vilja forráðamanna og æfðu sig að skrifa með broddstaf á ís, moldarflag eða sand.
Ekki voru gefnar út sambærilegar leiðbeiningabækur um skrift hér á landi og erlendis en fyrstu leiðbeiningar um hvernig bera skuli sig að komu út í bókinni Nýársgjöf handa börnum árið 1841. Í bókinni eru þýddar sögur handa börnum en lokakaflinn er leiðbeiningar um skrift, „Skrifreglur“, og er í 23 liðum. Í 22. lið segir frá því „hvernig menn eiga að sitja þegar þeir skrifa“:[3]
Menn verða að sitja sér svo hægt og haganlega sem orðið getur. Skrifarinn á að sitja uppréttur enn eigi boginn í baki, með nokkuð niðurlútu höfði, til þess hann sjái vel hvernig hann skrifar. Hvort sem menn skrifa við dagsbirtu eður við ljós, er bezt að birtan komi frá vinstri hendi. Skrifarinn má eigi halla sér fram á borðið eður snerta það með brjóstinu, því slíkt er mjög hættusamt fyrir heilsuna; ekki má hann heldur krossleggja fæturna. Framhandleggur hinn vinstri liggi allur á borðinu og pappírnum, en hinn hægri aðeins til hálfs. Hæð borðsins verður að fara eptir hæð skrifarans; pappírinn liggi beint fram undan honum, þó nokkru meir til hægri handar, því þá er hægast að skrifa línurétt.
Ekki eru til áreiðanlegar heimildir um hve margir kunnu að skrifa á 19. öld og samanburður milli landa er erfiður því ýmist er talað um fjölda fullorðinna í hópi skrifandi eða sem hlutfall af öllum landsmönnum. Í Noregi er til dæmis talið er að innan við 20% fullorðinna hafi kunnað að skrifa við upphaf 19. aldar en í Svíþjóð er á sama tíma talað um að 15-20% af öllum Svíum hafi verið skrifandi.
Hvað Ísland varðar eru til vísbendingar frá 1839. Þá sendi Hið íslenska bókmenntafélag í Kaupmannahöfn spurningalista til allra sóknarpresta landsins þar sem þeir voru beðnir um að svara 70 spurningum um um náttúru, veðurfar, landslag, skemmtanir, vinnu, hegðun, heilsufar og fleira. Svörin hafa verið gefin út undir heitinu Sýslu- og sóknalýsingar Hins íslenska bókmenntafélags. Spurningar númer 59 og 60 voru: „Hve margir eru þar skrifandi?” og „Aldur og kyn þeirra, sem ekki eru skrifandi?”
Svör prestanna eru mjög mismunandi. Sumir senda nákvæmar tölur um fjölda skrifandi og óskrifandi eftir kyni og jafnvel aldri. Aðrir tala um að „margir“ eða „fáir“ kunni að „klóra“ eða „pára“. Svo er það spurningin hvað það þýði að vera „sendibréfsfær“ eða ekki. Sé tekið mið af þeim tölum sem þó birtast í svörum prestanna má ætla að um það bil þriðjungur fólks hafi kunnað að skrifa, eða 20–50% fullorðinna karlmanna og 10–30% kvenna. Það er þó ekki ólíklegt að fleiri hafi getað skrifað einfaldan texta á blað. Í skjalasöfnum landsins má finna sendibréf frá 19. öld, sem skrifuð eru af fullorðnu fólki, einkum konum, þar sem stafagerðin er barnsleg og málfarið einfalt.
Leiðbeiningar um hvernig halda skal á skriffæri, leiðbeiningar úr enskri bók frá 1611.
Rannsóknir erlendis benda til þess að fólk hafi ekki látið hugmyndir um réttritun, stafsetningu og rétta uppsetningu trufla sig þegar kom að því að skrifa hversdagsleg bréf eða orðsendingar til vina og ástvina. Fræðimenn eru sammála um til að teljast skrifandi sé nóg að vera fær um að mynda stafi og gera sig skiljanlegan í einföldu máli.
Það eru kannski þannig bréf sem presturinn í Höfðasókn í Þingeyjarsýslu á við þegar hann segir í svari sínu árið 1840: „Af karlmönnum eru aðeins fimm bændur sæmilega skrifandi og unglingar þar á borð við, í heila kallinu, en þó konur og nokkrar stúlkur pári hvörjar öðrum, má það eigi heita skrift.“[4]
Það sem kemur skýrt fram í svörum prestanna, sem flest berast 1839 og 1840, er að mikill áhugi er á að læra að skrifa og það er einkum yngra fólkið, og þá helst drengir og ungir karlmenn, sem sækjast eftir því. Óskrifandi er fólk af eldri kynslóðinni, einkum konur.
Það var loks árið 1880 sem sett voru lög um uppfræðing barna í skrift og reikningi (nr. 2/1880) þar sem kveðið var á um öll börn skyldu læra að skrifa og reikna, auk lesturs. Á þeim tíma var enn talsvert af fólki óskrifandi, jafnvel ungu fólki. Sem dæmi um það má nefna að árið 1882 mótmælti Valgerður Þorsteinsdóttir skólastýra á Kvennaskólanum á Laugalandi í Eyjafirði hugmyndum skólanefndarinnar um að krefjast þess að stúlkur þyrftu að kunna skrift og reikning til að fá inngöngu í skólann „því slíkar námsgreinar lærast hjer sæmilega fljótt, en mörg stúlka hefir sú komið hjer, að ei kunni skript nje reikning til muna“.[5]
Það má því gera ráð fyrir að frá og með 1880 hafi öll börn á Íslandi lært að skrifa. Enn var þó fólk af eldri kynslóðinni sem ekki kunni að skrifa (eða treysti sér ekki til þess). Í endurminningum rithöfundarins Sigríðar Björnsdóttur frá Miklabæ (1891-1975) segir hún frá því þegar hún var tíu ára gömul rétt upp úr 1900 og skrifaði bréf fyrir tvær gamlar og óskrifandi konur til barna þeirra í Ameríku.[6]
Kannski hefur það ekki verið fyrr en á millistríðsárunum, þegar síðustu kynslóðir óskrifandi Íslendinga voru horfnar, sem óhætt er að segja að allir á Íslandi hafi kunnað að skrifa.
Tilvísanir:
Ätt läsa och att skriva. Två vågor av vardagligt skriftbruk i Norden 1800–2000. Ritstj. Ann-Catrine Edlund. Nordliga studier 3. Vardagligt skriftbruk 1. Umeå: Umeå universitet och Kungl. Skytteanska Samfundet 2012. https://umu.diva-portal.org/smash/get/diva2:534711/FULLTEXT01.pdf
David A Gerber, Authors of Their Lives. The Personal Correspondence of British Immigrants to North America in the Nineteenth Century. New York og London: New York University Press, 2006.
Davíð Ólafsson, Frá degi til dags. Dagbækur, almanök og veðurbækur 1720-1920. Sýnisbók íslenskrar alþýðumenningar 27. Reykjavík: Háskólaútgáfan, 2021.
Erla Hulda Halldórsdóttir, Nútímans konur. Menntun kvenna og mótun kyngervis á Íslandi 1850–1903. Reykjavík: Háskólaútgáfan, RIKK og Sagnfræðistofun, 2011.
Erla Hulda Halldórsdóttir. „Gátu allir á Íslandi skrifað í gamla daga?“ Vísindavefurinn, 10. september 2025, sótt 10. september 2025, https://visindavefur.is/svar.php?id=87942.
Erla Hulda Halldórsdóttir. (2025, 10. september). Gátu allir á Íslandi skrifað í gamla daga? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=87942
Erla Hulda Halldórsdóttir. „Gátu allir á Íslandi skrifað í gamla daga?“ Vísindavefurinn. 10. sep. 2025. Vefsíða. 10. sep. 2025. <https://visindavefur.is/svar.php?id=87942>.