Sólin Sólin Rís 02:54 • sest 24:04 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 22:20 • Sest 01:15 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 04:25 • Síðdegis: 16:57 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:36 • Síðdegis: 23:12 í Reykjavík

Hvar er akkeri gullskipsins sem sökk undan ströndum Skeiðarársands?

Helgi Þorláksson

Skemmst er frá að segja að þessari spurningu verður ekki svarað með neinni nákvæmni út frá íslenskum ritheimildum, eftir því sem best er vitað, og varla munu koma í leitirnar gögn erlendis þar sem fram kemur nákvæm ákvörðun strandstaðar. Ef til vill má finna leifar þessa skips einhvers staðar á Skeiðarársandi en hætt er við að það verði lítið annað en brak eitt. Kannski er ekki vonlaust um að finna megi fallbyssur og akkeri en annars er lítil von um verðmætan farm.

Skipið strandaði 19. september 1667 þegar það hrakti undan ofviðri frá Hjaltlandi þar sem það beið fylgdar herskipaflota heim til Hollands. Þetta var Austurindíafar sem var á heimleið frá Indónesíu og var siglt norður fyrir Bretlandseyjar af ótta við atlögu enskra herskipa á Ermarsundi enda stóð stríð Hollendinga og Englendinga sem hæst. Annað hollenskt skip, sem beið líka fylgdar við Hjaltland, hrakti til Færeyja og brotnaði þar. Í Desjamýrarannál segir að fyrrnefnda skipið hafi strandað við Skeiðarárós og kann annállinn vel að vera sannfróður um þetta. Í flestum annálum öðrum, sem segja frá atburðinum, er einungis nefndur Skeiðarársandur og þeim ber saman um að alllangur vegur hafi verið til byggða frá strandstað en í því sambandi nefna þeir Öræfi sem mun merkja Öræfasveit. Einn annáll nefnir Sólheimasand og annar tekur það upp eftir honum og er þetta vafalaust brenglun.


Skeiðarársandur.

Skeiðarársandur skiptist í Svínafellsfjöru, sem er nær Ingólfshöfða, og Skaftafellsfjöru, sem er fjær, og hafa menn lengi trúað að strandið hafi orðið á hinni síðarnefndu. Þarna hefur Skeiðará farið víða og oft breytt farvegi sínum og er líklega ekki auðvelt að ákveða hvar ós eða ósar hennar muni hafa verið árið 1667. Auk þess er líklegt að fjaran hafi gengið allmikið fram þannig að leifanna væri helst að leita inni á sandinum en óvíst er hversu langt upp á hann beri að fara í leitarskyni. Í ályktunum um að ströndin hafi gengið fram er miðað við að flök skipa sem strönduðu þarna fyrir öld eða svo liggja í sandinum um 30 m uppi í fjörukambinum.

Gullskipið nefndist Het Wapen van Amsterdam og tíunda annálar að í því hafi verið gull, perlur, silfur og kopar, auk annarra verðmæta. Í annálunum er frá því greint að margt hafi náðst af hinum verðmæta farmi strax eftir strandið og segir að 50-60 menn hafi bjargast af skipinu og flutt með sér varning að austan. Fram kemur að yfirvöld hafi tilkynnt að strandgóssið væri vogrek, og ætti því að vera í vörslu embættismanna. Sýslumönnum var skipað að senda þegar í stað það sem bjargaðist til Bessastaða og er svo að skilja að allan veturinn 1667-8 hafi menn verið að ná einhverju af góssinu og sýslumenn hafi komið því suður á Álftanes. Otte Bjelke, sem vann að því að láta gera skans á Bessastöðum veturinn 1667-8, virðist hafa fylgst vel með heimtum og komið allmiklu í lóg hérlendis við sölu en flutt andvirðið og hið óselda til Kaupmannahafnar. Eigendur Indíafarsins fengu leyfi Danakonungs til að senda tvö skip til landsins til að bjarga einhverju af verðmætum þess og eru fallbyssur nefndar sérstaklega. Óvíst er að þessi skip hafi verið send, eins og Marie Simon Thomas getur í bók sinni Onze Ijslansvaarders frá 1935 (bls. 128, 255-9) og er raunar ekki líklegt.

Forkólfar þeirra sem leituðu að gullskipinu í nærri þrjá áratugi munu hafa haft að leiðarljósi að það hefði sokkið strax á allmiklu dýpi og skrokkur þess væri heill í sandinum (samanber bókina Kristinn í Björgun (1986), 127). En Lúðvík Kristjánsson dró fram heimild sem hefði átt að slá allmikið á þessa sannfæringu. Lúðvík greindi frá þessum heimildarfundi í verki sínu Íslenzkum sjávarháttum, fyrsta bindi, sem kom út árið 1980, og túlkar þannig að svo sé að sjá að enn um 90 árum eftir strandið hafi menn verið að rífa skipið sem bendi til að ekki hafi verið auðvelt að ná viðnum (bls. 279-80). Leitarmenn munu hafa þekkt þessa heimild en litu samt svo á að skrokkurinn hefði varðveist í heilu lagi (Kristinn í Björgun, sama stað).

Leitin að skipinu virtist annars bera mikinn árangur 1982 þegar tekin voru sýni úr flaki á um 10 m dýpi á Svínafellsfjöru, bæði viðarsýni og tjörusýni. Þau voru talin gömul og var hermt að dómbærir menn teldu að þau gætu vel verið frá 17. öld. Ráðist var í ótrúlega miklar framkvæmdir sumarið eftir, 1983, enda veitti Alþingi 50 milljóna króna ríkisábyrgð. Meðal annars var farvegi Skeiðarár breytt og mikið stálþil rekið niður. Í lok ágúst töldu leitarmenn sig vera að koma að flakinu á um 14 m dýpi og töluðu um að finna mætti kryddlykt af sýnum sem tekin voru. Þótti þetta koma vel heim við það að í farmi Indíafarsins hefði verið allmikið af kryddi. Flaug fyrir að hollensk yfirvöld teldu skipið vera hollensk menningarverðmæti en það vakti kurr meðal Íslendinga. Allfjölmennur hópur hollenskra fréttamanna kom á staðinn til að segja sem gerst frá fundinum sem reyndist vera þýskur togari með gufuvél og hét Friederich Albert. (Hér er stuðst við Hvað gerðist á Íslandi 1983 (1984), 321-3).

Margir höfðu á orði að leitarmenn sýndu þrautseigju, djörfung og dug og ófáir hrifust með enda var beitt heillandi tækni við leit og gröft. Framkvæmdirnar 1983 voru sannarlega hið mesta ævintýri. Hitt var verra að ekki voru nægilega skýr rök fyrir því að eftir miklu væri að slægjast og túlkun leitarmanna á heimildinni sem Lúðvík Kristjánsson dró fram orkar mjög tvímælis.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Mynd:

Höfundur

Helgi Þorláksson

prófessor emeritus í sagnfræði við HÍ

Útgáfudagur

6.9.2000

Spyrjandi

Benedikt Kristjánsson, f. 1986

Tilvísun

Helgi Þorláksson. „Hvar er akkeri gullskipsins sem sökk undan ströndum Skeiðarársands?“ Vísindavefurinn, 6. september 2000. Sótt 19. júní 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=881.

Helgi Þorláksson. (2000, 6. september). Hvar er akkeri gullskipsins sem sökk undan ströndum Skeiðarársands? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=881

Helgi Þorláksson. „Hvar er akkeri gullskipsins sem sökk undan ströndum Skeiðarársands?“ Vísindavefurinn. 6. sep. 2000. Vefsíða. 19. jún. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=881>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvar er akkeri gullskipsins sem sökk undan ströndum Skeiðarársands?
Skemmst er frá að segja að þessari spurningu verður ekki svarað með neinni nákvæmni út frá íslenskum ritheimildum, eftir því sem best er vitað, og varla munu koma í leitirnar gögn erlendis þar sem fram kemur nákvæm ákvörðun strandstaðar. Ef til vill má finna leifar þessa skips einhvers staðar á Skeiðarársandi en hætt er við að það verði lítið annað en brak eitt. Kannski er ekki vonlaust um að finna megi fallbyssur og akkeri en annars er lítil von um verðmætan farm.

Skipið strandaði 19. september 1667 þegar það hrakti undan ofviðri frá Hjaltlandi þar sem það beið fylgdar herskipaflota heim til Hollands. Þetta var Austurindíafar sem var á heimleið frá Indónesíu og var siglt norður fyrir Bretlandseyjar af ótta við atlögu enskra herskipa á Ermarsundi enda stóð stríð Hollendinga og Englendinga sem hæst. Annað hollenskt skip, sem beið líka fylgdar við Hjaltland, hrakti til Færeyja og brotnaði þar. Í Desjamýrarannál segir að fyrrnefnda skipið hafi strandað við Skeiðarárós og kann annállinn vel að vera sannfróður um þetta. Í flestum annálum öðrum, sem segja frá atburðinum, er einungis nefndur Skeiðarársandur og þeim ber saman um að alllangur vegur hafi verið til byggða frá strandstað en í því sambandi nefna þeir Öræfi sem mun merkja Öræfasveit. Einn annáll nefnir Sólheimasand og annar tekur það upp eftir honum og er þetta vafalaust brenglun.


Skeiðarársandur.

Skeiðarársandur skiptist í Svínafellsfjöru, sem er nær Ingólfshöfða, og Skaftafellsfjöru, sem er fjær, og hafa menn lengi trúað að strandið hafi orðið á hinni síðarnefndu. Þarna hefur Skeiðará farið víða og oft breytt farvegi sínum og er líklega ekki auðvelt að ákveða hvar ós eða ósar hennar muni hafa verið árið 1667. Auk þess er líklegt að fjaran hafi gengið allmikið fram þannig að leifanna væri helst að leita inni á sandinum en óvíst er hversu langt upp á hann beri að fara í leitarskyni. Í ályktunum um að ströndin hafi gengið fram er miðað við að flök skipa sem strönduðu þarna fyrir öld eða svo liggja í sandinum um 30 m uppi í fjörukambinum.

Gullskipið nefndist Het Wapen van Amsterdam og tíunda annálar að í því hafi verið gull, perlur, silfur og kopar, auk annarra verðmæta. Í annálunum er frá því greint að margt hafi náðst af hinum verðmæta farmi strax eftir strandið og segir að 50-60 menn hafi bjargast af skipinu og flutt með sér varning að austan. Fram kemur að yfirvöld hafi tilkynnt að strandgóssið væri vogrek, og ætti því að vera í vörslu embættismanna. Sýslumönnum var skipað að senda þegar í stað það sem bjargaðist til Bessastaða og er svo að skilja að allan veturinn 1667-8 hafi menn verið að ná einhverju af góssinu og sýslumenn hafi komið því suður á Álftanes. Otte Bjelke, sem vann að því að láta gera skans á Bessastöðum veturinn 1667-8, virðist hafa fylgst vel með heimtum og komið allmiklu í lóg hérlendis við sölu en flutt andvirðið og hið óselda til Kaupmannahafnar. Eigendur Indíafarsins fengu leyfi Danakonungs til að senda tvö skip til landsins til að bjarga einhverju af verðmætum þess og eru fallbyssur nefndar sérstaklega. Óvíst er að þessi skip hafi verið send, eins og Marie Simon Thomas getur í bók sinni Onze Ijslansvaarders frá 1935 (bls. 128, 255-9) og er raunar ekki líklegt.

Forkólfar þeirra sem leituðu að gullskipinu í nærri þrjá áratugi munu hafa haft að leiðarljósi að það hefði sokkið strax á allmiklu dýpi og skrokkur þess væri heill í sandinum (samanber bókina Kristinn í Björgun (1986), 127). En Lúðvík Kristjánsson dró fram heimild sem hefði átt að slá allmikið á þessa sannfæringu. Lúðvík greindi frá þessum heimildarfundi í verki sínu Íslenzkum sjávarháttum, fyrsta bindi, sem kom út árið 1980, og túlkar þannig að svo sé að sjá að enn um 90 árum eftir strandið hafi menn verið að rífa skipið sem bendi til að ekki hafi verið auðvelt að ná viðnum (bls. 279-80). Leitarmenn munu hafa þekkt þessa heimild en litu samt svo á að skrokkurinn hefði varðveist í heilu lagi (Kristinn í Björgun, sama stað).

Leitin að skipinu virtist annars bera mikinn árangur 1982 þegar tekin voru sýni úr flaki á um 10 m dýpi á Svínafellsfjöru, bæði viðarsýni og tjörusýni. Þau voru talin gömul og var hermt að dómbærir menn teldu að þau gætu vel verið frá 17. öld. Ráðist var í ótrúlega miklar framkvæmdir sumarið eftir, 1983, enda veitti Alþingi 50 milljóna króna ríkisábyrgð. Meðal annars var farvegi Skeiðarár breytt og mikið stálþil rekið niður. Í lok ágúst töldu leitarmenn sig vera að koma að flakinu á um 14 m dýpi og töluðu um að finna mætti kryddlykt af sýnum sem tekin voru. Þótti þetta koma vel heim við það að í farmi Indíafarsins hefði verið allmikið af kryddi. Flaug fyrir að hollensk yfirvöld teldu skipið vera hollensk menningarverðmæti en það vakti kurr meðal Íslendinga. Allfjölmennur hópur hollenskra fréttamanna kom á staðinn til að segja sem gerst frá fundinum sem reyndist vera þýskur togari með gufuvél og hét Friederich Albert. (Hér er stuðst við Hvað gerðist á Íslandi 1983 (1984), 321-3).

Margir höfðu á orði að leitarmenn sýndu þrautseigju, djörfung og dug og ófáir hrifust með enda var beitt heillandi tækni við leit og gröft. Framkvæmdirnar 1983 voru sannarlega hið mesta ævintýri. Hitt var verra að ekki voru nægilega skýr rök fyrir því að eftir miklu væri að slægjast og túlkun leitarmanna á heimildinni sem Lúðvík Kristjánsson dró fram orkar mjög tvímælis.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Mynd:...