Sólin Sólin Rís 10:52 • sest 15:43 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:25 • Síðdegis: 19:43 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:09 • Síðdegis: 13:45 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:52 • sest 15:43 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:25 • Síðdegis: 19:43 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:09 • Síðdegis: 13:45 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hversu mörgum íslenskum skipum var sökkt í seinni heimsstyrjöldinni?

Skúli Sæland

Í seinni heimsstyrjöldinni urðu allmargir mannskaðar á íslenskum skipum en þá var einnig tími mikilla tækifæra því skortur var á sjávarafurðum á Bretlandseyjum og Íslendingar fengu hátt verð fyrir fisk. Sömuleiðis þurftu bandamenn að hafa tryggar flutningaleiðir fyrir herlið þeirra hérlendis og því var hægt að hafa miklar tekjur af sjóflutningum.

Þetta leiddi til þess að íslensku útgerðirnar reyndu að halda skipum sínum eins lengi á sjó og unnt var, jafnvel þótt þau væru orðin úr sér gengin, viðhaldi væri ábótavant eða veður væru válynd. Rétt er að taka fram að kreppan mikla var ein aðalástæða þess hve gamall skipakostur landsmanna var. Mörgum útgerðanna hafði reynst ógerningur að huga nægilega að viðhaldi og endurnýjun og það dró dilk á eftir sér þegar vanbúin skipin lentu í hernaðarátökum.

Í þessu svari verður einungis fjallað um skip sem talið er að hafi beinlínis verið sökkt í stríðinu af kafbátum, flugvélum eða tundurduflum.


Þrír þýskir kafbátar á siglingu.

Töluvert er vitað um árásir þýskra kafbáta og flugvéla á íslensk skip. Skýrslur kafbátaforingja eru greinargóðar en nokkur óvissa ríkir um afdrif einstakra skipa því mörgum kafbátum var sökkt áður en þeir náðu heim til hafnar.

Við upphaf styrjaldarinnar lýstu Þjóðverjar yfir bannsvæði umhverfis Bretlandseyjar í því skyni að knýja Breta til uppgjafar. Eftir hernám Íslands létu þeir bannsvæði einnig ná umhverfis það. Hófu þeir miklar árásir með skipum, flugvélum og þó aðallega kafbátum á skip á þessu hafsvæði og ætluðu þannig að koma í veg fyrir birgðaflutninga til landsins. Sömuleiðis hófu þeir að leggja tundurdufl nærri þekktum skipaleiðum til að trufla siglingar sem mest.

Íslensku skipin treystu á að hlutleysi landsins myndi vernda þau fyrir árásum og flögguðu stöðugt íslenska fánanum auk þess sem fáninn var málaður á hliðar skipanna og upplýstur að næturlagi til að vekja enn frekar athygli á þjóðerni skipsins.

Íslenskir sjómenn voru svo lánsamir að Þjóðverjum auðnaðist aldrei að sökkva íslenskum skipum með flugvélum né skipum þó að nokkuð væri um loftárásir á íslensk fiskiskip.

Kafbátar Þjóðverja voru okkur skeinuhættir og þeir sökktu alls átta íslenskum skipum í styrjöldinni. Að auki sökktu þeir þremur erlendum leiguskipum í þjónustu Eimskipa. Einnig er vitað að einn bátur hafi farist af völdum tundurdufls.

Kafbátarnir voru búnir bæði fall- og vélbyssum en hættulegustu vopnin voru tundurskeytin sem hægt var að skjóta úr launsátri. Stundum brugðust tundurskeytin, sérstaklega í fyrri hluta stríðsins en þá voru mörg skeyti gölluð og hittu ekki skotmarkið. Kafbátaforingjarnir brugðu því oft á það ráð að ráðast á skip ofansjávar með fallbyssunum. Þessari árásartækni beittu þeir sérstaklega ef þeir hugðust sökkva litlum fiskiskipum.

Kafbátahernaður Þjóðverja var áhrifaríkastur þegar þeir söfnuðust saman í svokallaðar úlfahjarðir (e. wolfpack) og réðust á skipalestir. Undir stjórn reyndra og sókndjarfra kafbátaforingja eins og Erichs Topps og Ottos Kretschmers gátu úlfahjarðirnar tætt í sundur varnir skipalestanna.

Þann 11. mars 1941 kom fyrsta íslenska skipið til hafnar í Vestmannaeyjum eftir árás þýsks kafbáts. Fimm úr áhöfn Fróða ÍS 454 höfðu fallið og skipið var illa laskað. Í raun virðist sem einungis ótti kafbátaforingjans Eitel-Friedrich Kentrats á kafbátnum U-74, um að Fróða væri beitt sem agni í gildru, hafi komið í veg fyrir að skipinu væri sökkt. Kentrat afréð nefnilega að hverfa frá atlögunni eftir aðeins klukkutíma skothríð þegar birti af degi.


Fróði ÍS 454.

Strax í kjölfarið bárust fregnir af því að fiskiskipin Reykjaborg RE 64 og Pétursey ÍS 100 hefðu verið skotin í kaf. Kafbátaforinginn Erich Topps á U-552 var fyrstur til að sökkva íslensku skipi, þegar Reykjaborgin fór í sjóinn þann 10. mars 1941 um 460 sjómílur suðaustur af landinu og 140 sjómílur norður af Barra Head í Skotlandi. Topp reyndist einn sigursælasti kafbátaforingi Þjóðverja og sökkti alls 198.617 brúttólestum. Hann hlaut eina æðstu orðu Þjóðverja, riddarakrossinn með eikarlaufum og sverðum. Topp lifði af stríðið og varð síðar flotaforingi í V-þýska flotanum.

Tveimur dögum síðar sökkti U-37 undir stjórn Asmus Nicolais Clausens Pétursey við 59,33°N og 12,16°V. Lengi vel ríkti töluverð óvissa á Íslandi um afdrif Péturseyjar. Það var ekki fyrr en 5. september að brak úr bátnum fannst. Pétursey reyndist síðasta skipið af þeim 55 sem kafbáturinn sökkti því eftir þessa árásarferð var hann gerður að kennslu og þjálfunarbát.

Mannfallið þennan mánuð var mikið. Með Reykjaborg féllu 12 áhafnarmeðlimir og einn farþegi og með Pétursey fórust 10 til viðbótar. Til að bæta gráu ofan á svart þá var Reykjaborgin stærsti og glæstasti togari landsmanna, alls 685 brúttólestir.

Þessar árásir urðu rétt fyrir utan við yfirlýst bannsvæði Þjóðverja umhverfis Bretlandseyjar. Íslenska ríkisstjórnin kom því formlegum kvörtunum á framfæri til Þjóðverja en þeir svöruðu með því að stækka svæði sem náði þá einnig umhverfis Ísland. Héldu Þjóðverjar því fram, sem satt var, að hernumið landið veitti Bretum ómetanlegan stuðning við birgðaöflun og aðdrætti. Eftir þetta sóttu þýsku kafbátarnir og flugvélarnar miskunnarlaust að íslensku skipunum á hafi úti.

Vélbáturinn Hólmsteinn ÍS 155 var einungis ársgamall þegar honum var sökkt í lok maí 1941. Áhafnarmeðlimir voru svo ólánsamir að þeir urðu varir við kafbátinn U-204 sem var á leiðinni til fundar við birgðaskipið Belchen skammt sunnan Grænlands. Kafbátsforingi U-204, Walter Kell, taldi að áhöfn Hólmsteins myndi gefa upp staðsetningu kafbátsins og þótti því vissara að sökkva honum. Hólmsteinn naut þess vafasama heiðurs að vera fyrsti báturinn sem bæði Kell og kafbáturinn U-204 sökktu.

Þann 29. júní 1941 tókst kafbátnum U-564 undir stjórn Reinhards Suhrens að granda es. Heklu við suðurodda Grænlands við hnitin 58.20°N, 43°V þar sem hún var á leiðinni til Ameríku að sækja vörur. Hekla var nýkomin úr ferðum til Bretlands og var Eimskipafélag Íslands hf. nýbúið að taka skipið á leigu til Ameríkusiglinga. Það lá vel á áhöfninni því hún taldi sig vera að sigla um hættuminni slóðir en áður auk þess sem treyst var á að hlutleysi Íslands myndi verða skipinu til bjargar. Íslensku kaupskipin byrjuðu að sigla í skipalestum austur til Bretlandseyja eftir að Þjóðverjar lýstu yfir hafnbanni á Ísland í kjölfar þess að hafa sökkt Reykjaborginni og Péturseynni. Hins vegar var ekki talin þörf á slíku umstangi þegar siglt var vestur um haf. Bandaríkin voru hlutlaus og treyst var á að íslenski fáninn myndi vernda skipin.

Hekla sökk á einungis tveimur mínútum eftir að tundurskeyti hitti hana og með henni fórust 14 manns. Þetta var fyrsta árásarferð U-564 og fyrsti kafbáturinn undir stjórn Suhrens sem líkt og Topp fékk riddarakrossinn með eikarlaufum og sverðum.

Það liðu þrjár vikur áður en fréttin um afdrif Heklu spurðist heim til Íslands. Sjómenn á farmskipum voru slegnir miklum óhug við fregnirnar og neituðu að sigla áfram við óbreytt ástand. Kom til verkfalla og varð að lokum úr að íslensku flutningaskipin sigldu eftir þetta einungis í samfloti með skipalestum undir vernd bandamanna vestur um haf.

Þann 5. september 1941 var Jarlinum GK 272 sökkt af U-141 undir stjórn Philipps Schülers við hnitin 58,24°N, 11,25°V. Jarlinn var 190 brúttólestir og einn stærsti línuveiðari okkar Íslendinga. Með honum fórust 11 manns og þar á meðal einn úr fjölskyldu eigendanna, hásetinn Óskar Theódór Óskarsson, einungis 22 ára. Báturinn hét áður Anders og er hann oft skráður undir því nafni sem fórnarlamb Schülers. Eftir þetta fór U-141 ekki fleiri árásarferðir heldur var hann gerður að kennslubát.

Enn eitt reiðarslagið reið yfir 24. október 1942 þegar togarinn Jón Ólafsson hvarf sporlaust með 13 manna áhöfn. Þetta var einn af stærstu togurum okkar, alls 425 brl., vel búinn og mikið aflaskip. Því var mikil eftirsjá í honum. Í ljós kom að kafbáturinn U-383 undir stjórn Horst Kremsers hafði rambað á Jón Ólafsson á heimleið frá Bretlandi djúpt suður af Ingólfshöfða, líklega við hnitin 61°N, 15°V. Líkt og átti við um Jarlinn rúmu ári áður kom ekki í ljós fyrr en eftir stríð hver afdrif skipsins urðu. Jón Ólafsson reyndist eina fórnarlamb U-383 í stríðinu.

Í byrjun nóvember 1944 var es. Goðafoss að koma til hafnar í Reykjavík eftir að hafa verið forystuskip fyrir skipalestinni UR-142. Skipalestin hafði hreppt slæmt veður nóttina áður og hafði flosnað upp. Voru skipin að tínast til hafnar eitt af öðru morguninn eftir og reyndust kafbátnum U-300 auðveld bráð þar sem hann beið skammt undan Garðskaga. Kafbáturinn náði fyrst að sökkva olíuskipinu Shirvan þennan morgun en í stað þess að halda strax á braut hélt hann sig í nágrenninu bæði til að tryggja að skipið sykki og í von um að koma skeytum sínum í fleiri fley.

Þegar Goðafoss bar að stuttu seinna stoppaði farþegaskipið til þess að bjarga áhöfn Shirvan. Aðeins stuttu síðar sökkti Hein Goðafossi og nú fórust 17 eða 18 af þeim 19 skipbrotsmönnum Shirvan sem teknir höfðu verið um borð í Goðafoss auk þess sem 24 Íslendingar og einn breskur merkjamaður féllu.

Es. Dettifossi var sökkt 21. febrúar 1945 einungis 76 dögum áður en stríðinu lauk. Þetta var mikið áfall fyrir íslensku þjóðina sem enn var í sárum eftir missi Goðafoss. Með Dettifossi fórust 12 úr áhöfn og 4 farþegar. Dettifoss var nýlagt úr höfn í Belfast í skipalestinni UR-155 á heimleið til Íslands með viðkomu í Loch Ewe þegar tundurskeyti smaug rétt fyrir aftan skip sem sigldi samsíða Dettifossi og beint inn í bakborðssíðu skipsins.

Þetta var fyrsta árásarferð U-1064 sem var fyrsti kafbáturinn undir stjórn Hermanns Schneidewinds og Dettifoss var fyrsta og eina skipið sem hann sökkti. Kafbáturinn varð síðar einn af fáum þýskum kafbátum sem voru afhentir Sovétmönnum sem endurskýrðu hann S-83 og notuðu hann til fjölda ára.

Til viðbótar við þessi íslensku skip missti Eimskipafélagið þrjú af erlendum leiguskipum sínum. Það voru þau Longtaker, Montana og SS Balladier. Longtaker og Montana voru bæði dönsk skip sem bandaríska hersiglinganefndin (e. US Maritime Commission) tók eignarnámi. Longtaker hét upphaflega Sessa og nafn Montana var Paula. Balladier var hins vegar bandarískt leiguskip.

Breskt tundurduflSem fyrr segir er aðeins vitað með vissu um eitt íslenskt skip sem varð tundurdufli að bráð. Það gerðist þegar mótorbáturinn Vigri fórst með þriggja manna áhöfn rúmlega fjórum sjómílum utan við Vattarnes á Austurlandi 31. október 1942. Vera má að þýskt tundurdufl hafi sökkt honum því þýski kafbáturinn U-117 hafði nýlokið við að leggja seguldufl um 6 sjómílum utan við Vattarnes. Duflin voru hins vegar á 15 metra dýpi og voru þeirrar gerðar að þau gátu einungis sprungið ef stálskrokkur skips sigldi nálægt því. Ekki eru til nægar upplýsingar um Vigra til að sjá hvort hann var smíðaður úr stáli eða timbri en sennilegra er að hann hafi verið smíðaður úr timbri. Því er ólíklegt að seguldufl hefði grandað honum. Hitt er svo annað að nokkuð var um bresk rekdufl á svæðinu og þykir líklegt að þau hafi grandað Vigra.

Bretar höfðu lagt fjölmörg tundurdufl allt frá Skotlandi til Grænlands með viðkomu á Færeyjum og Íslandi. Árangurinn varð hins vegar rýr og olli bandamönnum líklega meiri skakkaföllum en Þjóðverjum. Auk þess sýndi það sig að festingar tundurduflanna þoldu hvorki álag vetrarveðursins né sterk sjávarföllin í úthafinu. Algengt var því að duflin slitnuðu upp frá festingum sínum í tundurduflagirðingunum. Þó nokkur dæmi voru um að búnaðurinn sem átti að gera tundurduflin óvirk við viðlíka tilfelli brygðist og enn fremur að festingin sem slitnaði með duflunum festist aftur í botni og gerði duflið virkt á ný. Skapaðist af þessu mikil hætta meðfram ströndum landsins og segja má að bresku rekduflin hafi líka verið stöðugur vágestur í höfunum eftir að styrjöldinni lauk.

Til viðbótar þessum skipum sem nú hafa verið talin upp hurfu þó nokkur skip en ekki er vitað hvernig þau fórust. Má hér nefna sérstaklega togarana Max Pemberton RE 278, Sviða GK 7, ms. Pálma SI 66 og ms. Hilmi ÍS 39. Þessi skip hurfu án sýnilegrar ástæðu með manni og mús. Ekki hafa fundist gögn sem benda til þess að kafbátar né flugvélar hafi ráðist á skipin og því er sennilegra að dufl hafi grandað skipunum, hafi þeim á annað borð verið sökkt af vígtólum stórveldanna. Ef svo er þá er sennilegast að um bresk rekdufl hafi verið að ræða því þýsku duflin voru annaðhvort lögð á öðrum tíma en þegar viðkomandi skip fórust eða nokkuð traustur sjálfseyðingarbúnaður sem komið hafði verið fyrir í duflunum hefði átt að vera búinn að eyða þeim.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Heimildir og myndir:

Ég hef stuðst alfarið við heimildarrit Jóns Björnssonar frá Bólstaðarhlíð, Íslensk skip 1-5, þar sem ákvarða þurfti nöfn skipa, skráningarnúmer, stærð, eigendur og aldur. Sérstakar þakkir vil ég færa Guðmundi Helgasyni fyrir að veita mér aðgang að heimasíðu sinni uboat.net.

  • Friðþór Eydal: Vígdrekar og vopnagnýr. Hvalfjörður og hlutur Íslands í orrustunni um Atlantshafið, Bláskeggur, Kópavogi, 1997.
  • – '' –, Fremsta víglína. Átök og hernaðarumsvif á Austurlandi í heimsstyrjöldinni síðar, Bláskeggur, Reykjavík, 1999.
  • Gunnar M. Magnúss: Virkið í norðri. Hernám Íslands,Ísafoldarprentsmiðja, Reykjavík, 1947.
  • – '' –, Virkið í norðri. Sæfarendur, Ísafoldarprentsmiðja, Reykjavík, 1950.
  • Hulda Sigurborg Sigtryggsdóttir: Í skotlínu. Siglingar og skipskaðar Eimskipafélagsins í síðari heimsstyrjöld, Almenna bókafélagið, Kópavogi, 1992.
  • Jón Björnsson: Íslensk skip I-V, Iðunn, Reykjavík 1990-1999.
  • Steinar J. Lúðvíksson: Þrautgóðir á raunastund. Björgunar og sjóslysasaga Íslands II-III, Hraundrangi: Örn og Örlygur,1970-71.
  • Tómas Þór Tómasson: Heimsstyrjaldarárin á Íslandi1939-1945 1.-2. bindi, Örn og Örlygur, Reykjavík, 1984.
  • Þór Whitehead: Ísland í hers höndum, Vaka-Helgafell, Reykjavík, 2002.
  • – '' –, Ísland í síðari heimsstyrjöld, Vaka-Helgafell, Reykjavík, 1999.
  • ubootwaffe.net
  • Deutsche U-Boote 1935-1945
  • US Navy Armed Guard WWII Veterans
  • American Merchant Marine at War
  • Warsailors.com
  • World War II Warship Photos. Sótt 30.1.2004.
  • The Ships List
  • Grein um 'mine' á vefsetri Britannica Encyclopædia

Höfundur

Skúli Sæland

sagnfræðingur

Útgáfudagur

30.1.2004

Spyrjandi

Hafþór Úlfarsson
Guðjón Vésteinsson, f. 1988

Tilvísun

Skúli Sæland. „Hversu mörgum íslenskum skipum var sökkt í seinni heimsstyrjöldinni?“ Vísindavefurinn, 30. janúar 2004, sótt 3. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=3976.

Skúli Sæland. (2004, 30. janúar). Hversu mörgum íslenskum skipum var sökkt í seinni heimsstyrjöldinni? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=3976

Skúli Sæland. „Hversu mörgum íslenskum skipum var sökkt í seinni heimsstyrjöldinni?“ Vísindavefurinn. 30. jan. 2004. Vefsíða. 3. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=3976>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hversu mörgum íslenskum skipum var sökkt í seinni heimsstyrjöldinni?
Í seinni heimsstyrjöldinni urðu allmargir mannskaðar á íslenskum skipum en þá var einnig tími mikilla tækifæra því skortur var á sjávarafurðum á Bretlandseyjum og Íslendingar fengu hátt verð fyrir fisk. Sömuleiðis þurftu bandamenn að hafa tryggar flutningaleiðir fyrir herlið þeirra hérlendis og því var hægt að hafa miklar tekjur af sjóflutningum.

Þetta leiddi til þess að íslensku útgerðirnar reyndu að halda skipum sínum eins lengi á sjó og unnt var, jafnvel þótt þau væru orðin úr sér gengin, viðhaldi væri ábótavant eða veður væru válynd. Rétt er að taka fram að kreppan mikla var ein aðalástæða þess hve gamall skipakostur landsmanna var. Mörgum útgerðanna hafði reynst ógerningur að huga nægilega að viðhaldi og endurnýjun og það dró dilk á eftir sér þegar vanbúin skipin lentu í hernaðarátökum.

Í þessu svari verður einungis fjallað um skip sem talið er að hafi beinlínis verið sökkt í stríðinu af kafbátum, flugvélum eða tundurduflum.


Þrír þýskir kafbátar á siglingu.

Töluvert er vitað um árásir þýskra kafbáta og flugvéla á íslensk skip. Skýrslur kafbátaforingja eru greinargóðar en nokkur óvissa ríkir um afdrif einstakra skipa því mörgum kafbátum var sökkt áður en þeir náðu heim til hafnar.

Við upphaf styrjaldarinnar lýstu Þjóðverjar yfir bannsvæði umhverfis Bretlandseyjar í því skyni að knýja Breta til uppgjafar. Eftir hernám Íslands létu þeir bannsvæði einnig ná umhverfis það. Hófu þeir miklar árásir með skipum, flugvélum og þó aðallega kafbátum á skip á þessu hafsvæði og ætluðu þannig að koma í veg fyrir birgðaflutninga til landsins. Sömuleiðis hófu þeir að leggja tundurdufl nærri þekktum skipaleiðum til að trufla siglingar sem mest.

Íslensku skipin treystu á að hlutleysi landsins myndi vernda þau fyrir árásum og flögguðu stöðugt íslenska fánanum auk þess sem fáninn var málaður á hliðar skipanna og upplýstur að næturlagi til að vekja enn frekar athygli á þjóðerni skipsins.

Íslenskir sjómenn voru svo lánsamir að Þjóðverjum auðnaðist aldrei að sökkva íslenskum skipum með flugvélum né skipum þó að nokkuð væri um loftárásir á íslensk fiskiskip.

Kafbátar Þjóðverja voru okkur skeinuhættir og þeir sökktu alls átta íslenskum skipum í styrjöldinni. Að auki sökktu þeir þremur erlendum leiguskipum í þjónustu Eimskipa. Einnig er vitað að einn bátur hafi farist af völdum tundurdufls.

Kafbátarnir voru búnir bæði fall- og vélbyssum en hættulegustu vopnin voru tundurskeytin sem hægt var að skjóta úr launsátri. Stundum brugðust tundurskeytin, sérstaklega í fyrri hluta stríðsins en þá voru mörg skeyti gölluð og hittu ekki skotmarkið. Kafbátaforingjarnir brugðu því oft á það ráð að ráðast á skip ofansjávar með fallbyssunum. Þessari árásartækni beittu þeir sérstaklega ef þeir hugðust sökkva litlum fiskiskipum.

Kafbátahernaður Þjóðverja var áhrifaríkastur þegar þeir söfnuðust saman í svokallaðar úlfahjarðir (e. wolfpack) og réðust á skipalestir. Undir stjórn reyndra og sókndjarfra kafbátaforingja eins og Erichs Topps og Ottos Kretschmers gátu úlfahjarðirnar tætt í sundur varnir skipalestanna.

Þann 11. mars 1941 kom fyrsta íslenska skipið til hafnar í Vestmannaeyjum eftir árás þýsks kafbáts. Fimm úr áhöfn Fróða ÍS 454 höfðu fallið og skipið var illa laskað. Í raun virðist sem einungis ótti kafbátaforingjans Eitel-Friedrich Kentrats á kafbátnum U-74, um að Fróða væri beitt sem agni í gildru, hafi komið í veg fyrir að skipinu væri sökkt. Kentrat afréð nefnilega að hverfa frá atlögunni eftir aðeins klukkutíma skothríð þegar birti af degi.


Fróði ÍS 454.

Strax í kjölfarið bárust fregnir af því að fiskiskipin Reykjaborg RE 64 og Pétursey ÍS 100 hefðu verið skotin í kaf. Kafbátaforinginn Erich Topps á U-552 var fyrstur til að sökkva íslensku skipi, þegar Reykjaborgin fór í sjóinn þann 10. mars 1941 um 460 sjómílur suðaustur af landinu og 140 sjómílur norður af Barra Head í Skotlandi. Topp reyndist einn sigursælasti kafbátaforingi Þjóðverja og sökkti alls 198.617 brúttólestum. Hann hlaut eina æðstu orðu Þjóðverja, riddarakrossinn með eikarlaufum og sverðum. Topp lifði af stríðið og varð síðar flotaforingi í V-þýska flotanum.

Tveimur dögum síðar sökkti U-37 undir stjórn Asmus Nicolais Clausens Pétursey við 59,33°N og 12,16°V. Lengi vel ríkti töluverð óvissa á Íslandi um afdrif Péturseyjar. Það var ekki fyrr en 5. september að brak úr bátnum fannst. Pétursey reyndist síðasta skipið af þeim 55 sem kafbáturinn sökkti því eftir þessa árásarferð var hann gerður að kennslu og þjálfunarbát.

Mannfallið þennan mánuð var mikið. Með Reykjaborg féllu 12 áhafnarmeðlimir og einn farþegi og með Pétursey fórust 10 til viðbótar. Til að bæta gráu ofan á svart þá var Reykjaborgin stærsti og glæstasti togari landsmanna, alls 685 brúttólestir.

Þessar árásir urðu rétt fyrir utan við yfirlýst bannsvæði Þjóðverja umhverfis Bretlandseyjar. Íslenska ríkisstjórnin kom því formlegum kvörtunum á framfæri til Þjóðverja en þeir svöruðu með því að stækka svæði sem náði þá einnig umhverfis Ísland. Héldu Þjóðverjar því fram, sem satt var, að hernumið landið veitti Bretum ómetanlegan stuðning við birgðaöflun og aðdrætti. Eftir þetta sóttu þýsku kafbátarnir og flugvélarnar miskunnarlaust að íslensku skipunum á hafi úti.

Vélbáturinn Hólmsteinn ÍS 155 var einungis ársgamall þegar honum var sökkt í lok maí 1941. Áhafnarmeðlimir voru svo ólánsamir að þeir urðu varir við kafbátinn U-204 sem var á leiðinni til fundar við birgðaskipið Belchen skammt sunnan Grænlands. Kafbátsforingi U-204, Walter Kell, taldi að áhöfn Hólmsteins myndi gefa upp staðsetningu kafbátsins og þótti því vissara að sökkva honum. Hólmsteinn naut þess vafasama heiðurs að vera fyrsti báturinn sem bæði Kell og kafbáturinn U-204 sökktu.

Þann 29. júní 1941 tókst kafbátnum U-564 undir stjórn Reinhards Suhrens að granda es. Heklu við suðurodda Grænlands við hnitin 58.20°N, 43°V þar sem hún var á leiðinni til Ameríku að sækja vörur. Hekla var nýkomin úr ferðum til Bretlands og var Eimskipafélag Íslands hf. nýbúið að taka skipið á leigu til Ameríkusiglinga. Það lá vel á áhöfninni því hún taldi sig vera að sigla um hættuminni slóðir en áður auk þess sem treyst var á að hlutleysi Íslands myndi verða skipinu til bjargar. Íslensku kaupskipin byrjuðu að sigla í skipalestum austur til Bretlandseyja eftir að Þjóðverjar lýstu yfir hafnbanni á Ísland í kjölfar þess að hafa sökkt Reykjaborginni og Péturseynni. Hins vegar var ekki talin þörf á slíku umstangi þegar siglt var vestur um haf. Bandaríkin voru hlutlaus og treyst var á að íslenski fáninn myndi vernda skipin.

Hekla sökk á einungis tveimur mínútum eftir að tundurskeyti hitti hana og með henni fórust 14 manns. Þetta var fyrsta árásarferð U-564 og fyrsti kafbáturinn undir stjórn Suhrens sem líkt og Topp fékk riddarakrossinn með eikarlaufum og sverðum.

Það liðu þrjár vikur áður en fréttin um afdrif Heklu spurðist heim til Íslands. Sjómenn á farmskipum voru slegnir miklum óhug við fregnirnar og neituðu að sigla áfram við óbreytt ástand. Kom til verkfalla og varð að lokum úr að íslensku flutningaskipin sigldu eftir þetta einungis í samfloti með skipalestum undir vernd bandamanna vestur um haf.

Þann 5. september 1941 var Jarlinum GK 272 sökkt af U-141 undir stjórn Philipps Schülers við hnitin 58,24°N, 11,25°V. Jarlinn var 190 brúttólestir og einn stærsti línuveiðari okkar Íslendinga. Með honum fórust 11 manns og þar á meðal einn úr fjölskyldu eigendanna, hásetinn Óskar Theódór Óskarsson, einungis 22 ára. Báturinn hét áður Anders og er hann oft skráður undir því nafni sem fórnarlamb Schülers. Eftir þetta fór U-141 ekki fleiri árásarferðir heldur var hann gerður að kennslubát.

Enn eitt reiðarslagið reið yfir 24. október 1942 þegar togarinn Jón Ólafsson hvarf sporlaust með 13 manna áhöfn. Þetta var einn af stærstu togurum okkar, alls 425 brl., vel búinn og mikið aflaskip. Því var mikil eftirsjá í honum. Í ljós kom að kafbáturinn U-383 undir stjórn Horst Kremsers hafði rambað á Jón Ólafsson á heimleið frá Bretlandi djúpt suður af Ingólfshöfða, líklega við hnitin 61°N, 15°V. Líkt og átti við um Jarlinn rúmu ári áður kom ekki í ljós fyrr en eftir stríð hver afdrif skipsins urðu. Jón Ólafsson reyndist eina fórnarlamb U-383 í stríðinu.

Í byrjun nóvember 1944 var es. Goðafoss að koma til hafnar í Reykjavík eftir að hafa verið forystuskip fyrir skipalestinni UR-142. Skipalestin hafði hreppt slæmt veður nóttina áður og hafði flosnað upp. Voru skipin að tínast til hafnar eitt af öðru morguninn eftir og reyndust kafbátnum U-300 auðveld bráð þar sem hann beið skammt undan Garðskaga. Kafbáturinn náði fyrst að sökkva olíuskipinu Shirvan þennan morgun en í stað þess að halda strax á braut hélt hann sig í nágrenninu bæði til að tryggja að skipið sykki og í von um að koma skeytum sínum í fleiri fley.

Þegar Goðafoss bar að stuttu seinna stoppaði farþegaskipið til þess að bjarga áhöfn Shirvan. Aðeins stuttu síðar sökkti Hein Goðafossi og nú fórust 17 eða 18 af þeim 19 skipbrotsmönnum Shirvan sem teknir höfðu verið um borð í Goðafoss auk þess sem 24 Íslendingar og einn breskur merkjamaður féllu.

Es. Dettifossi var sökkt 21. febrúar 1945 einungis 76 dögum áður en stríðinu lauk. Þetta var mikið áfall fyrir íslensku þjóðina sem enn var í sárum eftir missi Goðafoss. Með Dettifossi fórust 12 úr áhöfn og 4 farþegar. Dettifoss var nýlagt úr höfn í Belfast í skipalestinni UR-155 á heimleið til Íslands með viðkomu í Loch Ewe þegar tundurskeyti smaug rétt fyrir aftan skip sem sigldi samsíða Dettifossi og beint inn í bakborðssíðu skipsins.

Þetta var fyrsta árásarferð U-1064 sem var fyrsti kafbáturinn undir stjórn Hermanns Schneidewinds og Dettifoss var fyrsta og eina skipið sem hann sökkti. Kafbáturinn varð síðar einn af fáum þýskum kafbátum sem voru afhentir Sovétmönnum sem endurskýrðu hann S-83 og notuðu hann til fjölda ára.

Til viðbótar við þessi íslensku skip missti Eimskipafélagið þrjú af erlendum leiguskipum sínum. Það voru þau Longtaker, Montana og SS Balladier. Longtaker og Montana voru bæði dönsk skip sem bandaríska hersiglinganefndin (e. US Maritime Commission) tók eignarnámi. Longtaker hét upphaflega Sessa og nafn Montana var Paula. Balladier var hins vegar bandarískt leiguskip.

Breskt tundurduflSem fyrr segir er aðeins vitað með vissu um eitt íslenskt skip sem varð tundurdufli að bráð. Það gerðist þegar mótorbáturinn Vigri fórst með þriggja manna áhöfn rúmlega fjórum sjómílum utan við Vattarnes á Austurlandi 31. október 1942. Vera má að þýskt tundurdufl hafi sökkt honum því þýski kafbáturinn U-117 hafði nýlokið við að leggja seguldufl um 6 sjómílum utan við Vattarnes. Duflin voru hins vegar á 15 metra dýpi og voru þeirrar gerðar að þau gátu einungis sprungið ef stálskrokkur skips sigldi nálægt því. Ekki eru til nægar upplýsingar um Vigra til að sjá hvort hann var smíðaður úr stáli eða timbri en sennilegra er að hann hafi verið smíðaður úr timbri. Því er ólíklegt að seguldufl hefði grandað honum. Hitt er svo annað að nokkuð var um bresk rekdufl á svæðinu og þykir líklegt að þau hafi grandað Vigra.

Bretar höfðu lagt fjölmörg tundurdufl allt frá Skotlandi til Grænlands með viðkomu á Færeyjum og Íslandi. Árangurinn varð hins vegar rýr og olli bandamönnum líklega meiri skakkaföllum en Þjóðverjum. Auk þess sýndi það sig að festingar tundurduflanna þoldu hvorki álag vetrarveðursins né sterk sjávarföllin í úthafinu. Algengt var því að duflin slitnuðu upp frá festingum sínum í tundurduflagirðingunum. Þó nokkur dæmi voru um að búnaðurinn sem átti að gera tundurduflin óvirk við viðlíka tilfelli brygðist og enn fremur að festingin sem slitnaði með duflunum festist aftur í botni og gerði duflið virkt á ný. Skapaðist af þessu mikil hætta meðfram ströndum landsins og segja má að bresku rekduflin hafi líka verið stöðugur vágestur í höfunum eftir að styrjöldinni lauk.

Til viðbótar þessum skipum sem nú hafa verið talin upp hurfu þó nokkur skip en ekki er vitað hvernig þau fórust. Má hér nefna sérstaklega togarana Max Pemberton RE 278, Sviða GK 7, ms. Pálma SI 66 og ms. Hilmi ÍS 39. Þessi skip hurfu án sýnilegrar ástæðu með manni og mús. Ekki hafa fundist gögn sem benda til þess að kafbátar né flugvélar hafi ráðist á skipin og því er sennilegra að dufl hafi grandað skipunum, hafi þeim á annað borð verið sökkt af vígtólum stórveldanna. Ef svo er þá er sennilegast að um bresk rekdufl hafi verið að ræða því þýsku duflin voru annaðhvort lögð á öðrum tíma en þegar viðkomandi skip fórust eða nokkuð traustur sjálfseyðingarbúnaður sem komið hafði verið fyrir í duflunum hefði átt að vera búinn að eyða þeim.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Heimildir og myndir:

Ég hef stuðst alfarið við heimildarrit Jóns Björnssonar frá Bólstaðarhlíð, Íslensk skip 1-5, þar sem ákvarða þurfti nöfn skipa, skráningarnúmer, stærð, eigendur og aldur. Sérstakar þakkir vil ég færa Guðmundi Helgasyni fyrir að veita mér aðgang að heimasíðu sinni uboat.net.

  • Friðþór Eydal: Vígdrekar og vopnagnýr. Hvalfjörður og hlutur Íslands í orrustunni um Atlantshafið, Bláskeggur, Kópavogi, 1997.
  • – '' –, Fremsta víglína. Átök og hernaðarumsvif á Austurlandi í heimsstyrjöldinni síðar, Bláskeggur, Reykjavík, 1999.
  • Gunnar M. Magnúss: Virkið í norðri. Hernám Íslands,Ísafoldarprentsmiðja, Reykjavík, 1947.
  • – '' –, Virkið í norðri. Sæfarendur, Ísafoldarprentsmiðja, Reykjavík, 1950.
  • Hulda Sigurborg Sigtryggsdóttir: Í skotlínu. Siglingar og skipskaðar Eimskipafélagsins í síðari heimsstyrjöld, Almenna bókafélagið, Kópavogi, 1992.
  • Jón Björnsson: Íslensk skip I-V, Iðunn, Reykjavík 1990-1999.
  • Steinar J. Lúðvíksson: Þrautgóðir á raunastund. Björgunar og sjóslysasaga Íslands II-III, Hraundrangi: Örn og Örlygur,1970-71.
  • Tómas Þór Tómasson: Heimsstyrjaldarárin á Íslandi1939-1945 1.-2. bindi, Örn og Örlygur, Reykjavík, 1984.
  • Þór Whitehead: Ísland í hers höndum, Vaka-Helgafell, Reykjavík, 2002.
  • – '' –, Ísland í síðari heimsstyrjöld, Vaka-Helgafell, Reykjavík, 1999.
  • ubootwaffe.net
  • Deutsche U-Boote 1935-1945
  • US Navy Armed Guard WWII Veterans
  • American Merchant Marine at War
  • Warsailors.com
  • World War II Warship Photos. Sótt 30.1.2004.
  • The Ships List
  • Grein um 'mine' á vefsetri Britannica Encyclopædia
...