Hversu mikið af upptökum frá Ríkisútvarpinu hafa glatast í gegnum tíðina? Hvað er það helsta sem hefur glatast?Á tímarit.is má skoða alla útgefna dagskrá Ríkisútvarpsins frá upphafi útsendinga. Til þess að svara spurningunni nákvæmlega mætti bera saman dagskrá útvarpsins við það efni sem varðveitt er í safni RÚV. Það er svo nokkuð huglægt mat hvaða útsenda efni er merkilegast. Frá upphafi hefur upptökutæknin líka sniðið okkur stakk. Frá 1930-1950 Ríkisútvarpið hóf útsendingar 20. desember 1930. Fyrstu árin voru dagskrárliðir yfirleitt fluttir beint í hljóðnema og því ekki teknir upp. Tónlist var að mestu spiluð af plötum, en frásagnir, fréttir og viðtöl lifðu einungis á meðan útsendingin var í loftinu. Því er ekkert varðveitt af útvarpsefni frá fyrstu árum Ríkisútvarpsins, og í þeim skilningi má segja að það efni hafi ekki glatast því það var einfaldlega ekki tekið upp. Elstu hljóðritanir útvarpsins eru á lakkplötum Fyrsta þekkta upptakan er frá 15. október 1935 og er viðtal Vilhjálms Þ. Gíslasonar (síðar útvarpsstjóra) við myndlistarmanninn Jóhannes Sveinsson Kjarval. Árin 1935-1950 voru valdir dagskrárliðir útvarpsins teknir upp á lakkplötur með plötuskurðarvél. Tæknin var bæði erfið í notkun og viðkvæm; plöturnar þoldu ekkert hnjask og ekki var hægt að breyta upptökunni eftir á. Mikið af tónlist var tekið upp á lakkplötur til daglegrar notkunar í útvarpið. Árið 1947 kom stálþráðurinn til sögunnar sem upptökutæki. Hann reyndist illa og var aðeins í notkun í tvö ár. Þessi upptökutækni, plötur og stálþráður, var þung í vöfum og erfið til úrvinnslu í sambandi við fréttaöflun. Lítið af fréttum var því aflað á vettvangi. Fréttir voru skrifaðar og þulur las þær upp. Þær upptökur sem til eru frá þessum árum hafa þó verið yfirfærðar á stafrænt form og varðveittar safni RÚV. Frá 1950-2010 Með tilkomu segulbanda upp úr 1950 varð unnt að varðveita mun meira efni en áður. Segulbönd gerðu einnig kleift að færa upptökutæki á vettvang og klippa og vinna upptökur eftir á. Segulbönd voru þó dýr og erfitt að nálgast þau, þannig að þau voru oft endurnýtt. Frekar lítið er því varðveitt af því efni sem hljóðritað var á fyrstu árum segulbandsins en meira eftir því sem fram liðu stundir. Það má segja að einhverjar upptökur á segulböndum hafi glatast því segulbandið var notað aftur og aftur. Fjárhagur, framboð á segulböndum og tæknilegar hindranir leyfðu ekki að öll dagskrá útvarpsins yrði varðveitt með þeim hætti sem við þekkjum í dag. Í safni RÚV eru varðveitt rúmlega 72.000 segulbönd með upptökum, hvert er um það bil klukkustund að lengd. Stór hluti þeirra hefur verið yfirfærður á stafrænt form og gerður aðgengilegur í safni RÚV.

Stór hluti af segulbandasafni Ríkisútvarpsins hefur verið yfirfærður á stafrænt form og gerður aðgengilegur í safni RÚV.
- Gunnar Stefánsson. (1997). Útvarp Reykjavík, Saga Ríkisútvarpsins 1930-1960, Sögufélag, bls 285-287.
- Yfirlitsmynd: RÚV. (2018). https://www.ruv.is/frettir/innlent/telja-ruv-studio-hafa-osanngjarnt-forskot
- Mynd af lakkplötu: Helga Lára Þorsteinsdóttir.
- Mynd af yfirfærðu efni: Ragnar Visage - RÚV. (2024). https://www.ruv.is/frettir/innlent/2024-09-18-segulbondin-koma-heim-421939
