Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Latneska heitið fyrir jarðveg er sol, dregið af solum (jörð). Í rómönskum málum er orðið sol notað yfir jarðveg og heiti jarðvegsflokka, enda sömuleiðis á -sol eða zol í mörgum flokkunarkerfum fyrir mold, eins og til dæmis Andosol og Podzol. Enska heitið er soil en stafurinn „i“ er kominn inn í nafnið fyrir misskilning samkvæmt orðabók Websters (af orðinu solium, sem merkir sæti). Jarðvegur er jafnan nefndur jörð á norrænum málum.
Ekki er alveg ljóst af hverju moldin er kölluð jarðvegur á íslensku. Hugsanlega má rekja uppruna orðsins til latneskrar orðabókar frá 17. öld eftir Guðmund Andrésson (d. 1688), en þar er orðið jarðvegur notað fyrir latneska orðið arvum. Eiginleg merking arvum er plægt land eða akuryrkjuland, og vísar þá vegur í jarðvegur til plógfarsins, ef að líkum lætur. Bjarni Guðleifsson og Brynhildur Bjarnadóttir[1] veltu því fyrir sér hvort hugtakið „jarðvegur“ gæti átt rætur í fjárgötunum um landið í skemmtilegri hugleiðingu um moldina. Aðrir tengja það fremur gömlu þjóðleiðunum um landið.
„Jarðvegur“ – plógfarið. Hugsanlega má rekja hugtakið „jarðvegur“ til gamallar þýðingar á latneska hugtakinu „arvum“ – akuryrkjuland.
Hugakið mold er miklu eldra og í raun mun rökréttara, sem og orðið jörð, sem er notað í öðrum norrænum málum. Texti í Snorra-Eddu rennir stoðum undir þessa notkun: „Jörðin var gjör af holdi Ýmis, en björgin af beinunum.“ Hér má geta sér þess til að jörðin vísi til moldar en ekki jarðarinnar í heild, enda björgin gerð af beinum. Það er því vel við hæfi að nota hugtakið jörð til að einkenna heiti á jarðvegsflokkum, svo sem mójörð og brúnjörð. Texti nýrrar biblíuþýðingar styður frekari við notkun moldarhugtaksins, en þar stendur: „Því að mold ert þú, og til moldar skaltu aftur hverfa“. Enn fremur segir þar: „Þá mótaði Drottinn Guð manninn af moldu jarðar og blés lífsanda í nasir hans. Þannig varð maðurinn lifandi vera.“ Orðið Adam er eins konar orðaleikur, dregið af adamah, sem er jörð eða akurlendi.
Tilvísun:
^ Bjarni E. Guðleifsson og Brynhildur Bjarnadóttir. (2019). Náttúruþankar. Bókaútgáfan Hólar, bls 19.20.
Þessi text birtist fyrst í bókinni „Mold ert þú“ – Jarðvegur og íslensk náttúra (Ólafur Arnalds, 2023, Iðnú). Textinn er lítillega aðlagaður Vísindavefnum. Bókin öll er aðgengileg á www.moldin.is
Upprunalega var spurt: Hvað getiði sagt mér um mold? og er henni svarað að hluta hér.
Ólafur Arnalds. „Af hverju er mold oft kölluð jarðvegur á íslensku?“ Vísindavefurinn, 9. janúar 2026, sótt 10. janúar 2026, https://visindavefur.is/svar.php?id=88346.
Ólafur Arnalds. (2026, 9. janúar). Af hverju er mold oft kölluð jarðvegur á íslensku? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=88346
Ólafur Arnalds. „Af hverju er mold oft kölluð jarðvegur á íslensku?“ Vísindavefurinn. 9. jan. 2026. Vefsíða. 10. jan. 2026. <https://visindavefur.is/svar.php?id=88346>.