Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
ForsíðaFélagsvísindiLögfræðiEru líkamlegar refsingar (þar með taldar flengingar) á börnum bannaðar með lögum á Íslandi?
Annars vegar má hér líta á orðið "refsing" þannig að átt sé við viðurlög, sem ríkisvaldið beitir þá, sem hafa verið ákærðir og fundnir sekir um afbrot. Refsing í þessum skilningi er annars vegar refsivist (fangelsi) og hins vegar fésektir. Önnur líkamleg refsing en frelsissvipting með fangelsi er ekki leyfð samkvæmt íslenskum lögum, en þó ber að hafa í huga að til eru ýmis refsikennd viðurlög, sem ekki teljast til refsinga, svo sem réttindasviptingar, eignaupptaka og fleira. Álitaefni um leyfilega valdbeitingu foreldra gagnvart börnum snúa því strangt til tekið ekki að refsingu í lagalegum skilningi.
Hins vegar kann spyrjandi að hafa í huga "refsingu" af hálfu foreldra eða uppalenda barna og unglinga. Helstu ákvæði um skyldur foreldra og forsjáraðila barna er annars vegar að finna í barnalögum nr. 20/1992 og hins vegar í lögum nr. 58/1992 um vernd barna og ungmenna. Samkvæmt 29. grein barnalaga ber foreldrum að sýna barni sínu umhyggju og nærfærni og gegna forsjár- og uppeldisskyldum sínum svo sem best hentar hag barns og þörfum. Samkvæmt 64. grein barnaverndarlaga varðar það fangelsi allt að þremur árum eða sektum að beita barn refsingum, hótunum eða ógnunum, ef ætla má að það skaði barnið andlega eða líkamlega. Með svipuðum hætti er einnig refsivert að misþyrma barni andlega eða líkamlega, samanber a-lið 63. greinar laganna. Af framangreindum ákvæðum laga verður að sjálfsögðu ekki ályktað að hvers konar valdbeiting gagnvart börnum sé óheimil. Hins vegar samræmast líkamlegar refsingar, svo sem markvissar flengingar, yfirleitt ekki skyldum foreldris gagnvart börnum sínum og gætu í vissum tilvikum verið refsiverðar samkvæmt fyrrnefndum ákvæðum barnaverndarlaga.
Skúli Magnússon. „Eru líkamlegar refsingar (þar með taldar flengingar) á börnum bannaðar með lögum á Íslandi?“ Vísindavefurinn, 6. október 2000, sótt 9. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=976.
Skúli Magnússon. (2000, 6. október). Eru líkamlegar refsingar (þar með taldar flengingar) á börnum bannaðar með lögum á Íslandi? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=976
Skúli Magnússon. „Eru líkamlegar refsingar (þar með taldar flengingar) á börnum bannaðar með lögum á Íslandi?“ Vísindavefurinn. 6. okt. 2000. Vefsíða. 9. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=976>.