Sólin Sólin Rís 05:15 • sest 21:38 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 01:18 • Sest 04:30 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:36 • Síðdegis: 19:53 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:39 • Síðdegis: 13:42 í Reykjavík

Hversu djúpt hefur verið borað niður í jörðina?

EDS

Dýpsta hola sem boruð hefur verið niður í jörðina er á Kólaskaga í Rússlandi. Holan nefnist á ensku Kola Superdeep Borehole. Hafist var handa við borun hennar árið 1970 og var markmiðið sett á að komast 15.000 m niður. Árið 1979 var holan orðin tæplega 9.600 m og fór þar með fram úr Bertha Rogers-holunni í Oklahoma í Bandaríkjunum sem áður hafði verið sú dýpsta. Áratug síðar, árið 1989, var holan á Kólaskaga orðin 12.262 m. Þá var komið í ljós að hiti í henni var mun meiri en vísindamenn höfðu gert ráð fyrir, 180°C við botn en ekki 100°C. Ekki var talið fýsilegt að halda áfram lengra niður þar sem hitinn gæti verið skaðlegur bornum. Síðan þá hefur ekki verið borað dýpra.

Dýpsta hola sem boruð hefur verið er á Kólaskaga, 12.262 m djúp en aðeins rúmlega 20 cm í þvermál. Hún hefur verið vandlega lokuð í áratugi.

Holan á Kólaskaga var boruð í jarðfræðilegum tilgangi og leiddi verkefnið ýmislegt áhugavert í ljós. Til að mynda áttu jarðfræðingar von á að á nokkurra kílómetra dýpi væru skil á milli graníts og basalts og byggðu það á hegðun jarðskjálftabylgja. Hins vegar voru þessi skil milli bergtegunda ekki til staðar og ekki var borað í gegnum basalt þessa rúma 12 km sem farið var niður. Breytingin á jarðskjálftabylgjunum er því fremur talin tengjast ummyndun í granítinu sjálfu en ekki breytingu á bergtegund. Tengt þessu myndbreytta bergi kom í ljós mikið vatn, nokkuð sem menn bjuggust ekki við á svona miklu dýpi, og einnig mikið magn vetnisgass. Þá fundust steingerðar leifar svifþörunga niður á næstum 7 km dýpi, í bergi sem er yfir 2 milljóna ára gamalt.

Lengi vel var holan á Kólaskaga ekki aðeins sú dýpsta heldur einnig sú lengsta. Árið 2008 var loks boruð lengri hola og var það úti fyrir strönd Katar í Persaflóa. Sú hola er 12.289 m löng. Enn lengri hola, 12.345 m, var boruð árið 2011 úti fyrir Sakhalín-eyju og önnur árið 2012 sem er 12.376 m löng.

Þessar nýrri holur eiga það sameiginlegt að vera ekki alveg lóðréttar heldur halla aðeins og ná því ekki að skáka Kólaskagaholunni þegar kemur að dýpt þótt lengdin sé aðeins meiri. Þær eiga það líka sameiginlegt að hafa allar verið boraðar á nokkrum vikum til samanburðar við næstum tvo áratugi sem það tók Sovétmennina að bora á Kólaskaga. Það þriðja sem skilur þarna á milli er að holan á Kólaskaga var boruð til þess að rannsaka jarðskorpuna en hinar voru boraðar í tengslum við olíu– og gasiðnað.

Heimildir og mynd:

Höfundur

Útgáfudagur

14.7.2017

Spyrjandi

Helena Gunnarsdóttir, Jón Torfi Hauksson, Eyþór Ingi

Tilvísun

EDS. „Hversu djúpt hefur verið borað niður í jörðina?“ Vísindavefurinn, 14. júlí 2017. Sótt 26. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=18880.

EDS. (2017, 14. júlí). Hversu djúpt hefur verið borað niður í jörðina? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=18880

EDS. „Hversu djúpt hefur verið borað niður í jörðina?“ Vísindavefurinn. 14. júl. 2017. Vefsíða. 26. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=18880>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hversu djúpt hefur verið borað niður í jörðina?
Dýpsta hola sem boruð hefur verið niður í jörðina er á Kólaskaga í Rússlandi. Holan nefnist á ensku Kola Superdeep Borehole. Hafist var handa við borun hennar árið 1970 og var markmiðið sett á að komast 15.000 m niður. Árið 1979 var holan orðin tæplega 9.600 m og fór þar með fram úr Bertha Rogers-holunni í Oklahoma í Bandaríkjunum sem áður hafði verið sú dýpsta. Áratug síðar, árið 1989, var holan á Kólaskaga orðin 12.262 m. Þá var komið í ljós að hiti í henni var mun meiri en vísindamenn höfðu gert ráð fyrir, 180°C við botn en ekki 100°C. Ekki var talið fýsilegt að halda áfram lengra niður þar sem hitinn gæti verið skaðlegur bornum. Síðan þá hefur ekki verið borað dýpra.

Dýpsta hola sem boruð hefur verið er á Kólaskaga, 12.262 m djúp en aðeins rúmlega 20 cm í þvermál. Hún hefur verið vandlega lokuð í áratugi.

Holan á Kólaskaga var boruð í jarðfræðilegum tilgangi og leiddi verkefnið ýmislegt áhugavert í ljós. Til að mynda áttu jarðfræðingar von á að á nokkurra kílómetra dýpi væru skil á milli graníts og basalts og byggðu það á hegðun jarðskjálftabylgja. Hins vegar voru þessi skil milli bergtegunda ekki til staðar og ekki var borað í gegnum basalt þessa rúma 12 km sem farið var niður. Breytingin á jarðskjálftabylgjunum er því fremur talin tengjast ummyndun í granítinu sjálfu en ekki breytingu á bergtegund. Tengt þessu myndbreytta bergi kom í ljós mikið vatn, nokkuð sem menn bjuggust ekki við á svona miklu dýpi, og einnig mikið magn vetnisgass. Þá fundust steingerðar leifar svifþörunga niður á næstum 7 km dýpi, í bergi sem er yfir 2 milljóna ára gamalt.

Lengi vel var holan á Kólaskaga ekki aðeins sú dýpsta heldur einnig sú lengsta. Árið 2008 var loks boruð lengri hola og var það úti fyrir strönd Katar í Persaflóa. Sú hola er 12.289 m löng. Enn lengri hola, 12.345 m, var boruð árið 2011 úti fyrir Sakhalín-eyju og önnur árið 2012 sem er 12.376 m löng.

Þessar nýrri holur eiga það sameiginlegt að vera ekki alveg lóðréttar heldur halla aðeins og ná því ekki að skáka Kólaskagaholunni þegar kemur að dýpt þótt lengdin sé aðeins meiri. Þær eiga það líka sameiginlegt að hafa allar verið boraðar á nokkrum vikum til samanburðar við næstum tvo áratugi sem það tók Sovétmennina að bora á Kólaskaga. Það þriðja sem skilur þarna á milli er að holan á Kólaskaga var boruð til þess að rannsaka jarðskorpuna en hinar voru boraðar í tengslum við olíu– og gasiðnað.

Heimildir og mynd:

...