Sólin Sólin Rís 05:47 • sest 21:09 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 11:52 • Sest 06:25 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 01:29 • Síðdegis: 14:32 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 08:11 • Síðdegis: 20:41 í Reykjavík

Hvað er basalt?

Sigurður Steinþórsson

Basalt nefnist sú bergtegund sem Ísland er að mestu gert úr og á vorri tungu kallast blágrýti. Orðið „basalt“ er talið vera komið úr egypsku (báhún = flöguberg) en til forna fluttu Rómverjar grjót frá Grikklandi sem þeir kölluðu basaltes (= grjóthart berg). Heitið hefur þannig ekkert með efnasamsetningu basalts að gera, eins og annars mætti ætla, því basalt er sagt vera „basískt“, nefnilega lágt í kísilsýru, en til dæmis líparít (ríólít) „súrt“ - ríkt í kísilsýru. Sú skipting í súrt og basískt byggist á þeirri ranghugsun 19. aldar manna að bergbráð sé kísilsýrulausn, og steindirnar sölt (silíköt) af sýrunni, til dæmis sé ólivín, Mg[SiO4] magnesín-salt af kísilsýru. Nú orðið þykir kurteisara að tala um basaltískt berg fremur en basískt.

Basalt er algengasta bergtegund á yfirborði jarðar.

Basalt er algengasta bergtegund yfirborðs jarðar; hafsbotnarnir eru basalt, sem og úthafseyjar eins og Ísland og enn fremur rúmmálsmiklar myndanir á meginlöndunum. Og ekki má gleyma tunglinu og Mars.

Basalt storknar úr þeirri kviku sem myndast þegar möttulefni bráðnar. Það má skilgreina með efnasamsetningu sinni (kísill (kísiloxíð SiO2) = 45-52%), og einnig með steindasamsetningu sinni, plagíóklas (labrador) og pýroxen (ágít). Þar fyrir utan eru í basalti aðrar steindir í minna mæli og fer eftir efnasamsetningu bergsins hverjar og í hve miklum mæli, til dæmis ólivín (hátt MgO), magnetít (hátt FeO), ilmenít (hátt TiO2) og svo framvegis.

Basalt frá tunglinu sem geimfarar í Apolló 17 tóku með sér til jarðar.

Þegar basaltísk bráð storknar fer það eftir aðstæðum hvaða bergtegund myndast; grófkristallað gabbró myndast við hæga kristöllun djúpt í jörðu, fínkornótt grágrýti (dólerít) í grunnstæðum innskotum eða þykkum hraunum, dulkornótt basalt í hraunum á yfirborði og basaltgler (túff) við hraðkólnun í vatni.

Myndir:

Höfundur

Sigurður Steinþórsson

prófessor emeritus

Útgáfudagur

3.10.2011

Spyrjandi

Orri Sigurjónsson, f. 1994

Tilvísun

Sigurður Steinþórsson. „Hvað er basalt?“ Vísindavefurinn, 3. október 2011. Sótt 17. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=59291.

Sigurður Steinþórsson. (2011, 3. október). Hvað er basalt? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=59291

Sigurður Steinþórsson. „Hvað er basalt?“ Vísindavefurinn. 3. okt. 2011. Vefsíða. 17. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=59291>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvað er basalt?
Basalt nefnist sú bergtegund sem Ísland er að mestu gert úr og á vorri tungu kallast blágrýti. Orðið „basalt“ er talið vera komið úr egypsku (báhún = flöguberg) en til forna fluttu Rómverjar grjót frá Grikklandi sem þeir kölluðu basaltes (= grjóthart berg). Heitið hefur þannig ekkert með efnasamsetningu basalts að gera, eins og annars mætti ætla, því basalt er sagt vera „basískt“, nefnilega lágt í kísilsýru, en til dæmis líparít (ríólít) „súrt“ - ríkt í kísilsýru. Sú skipting í súrt og basískt byggist á þeirri ranghugsun 19. aldar manna að bergbráð sé kísilsýrulausn, og steindirnar sölt (silíköt) af sýrunni, til dæmis sé ólivín, Mg[SiO4] magnesín-salt af kísilsýru. Nú orðið þykir kurteisara að tala um basaltískt berg fremur en basískt.

Basalt er algengasta bergtegund á yfirborði jarðar.

Basalt er algengasta bergtegund yfirborðs jarðar; hafsbotnarnir eru basalt, sem og úthafseyjar eins og Ísland og enn fremur rúmmálsmiklar myndanir á meginlöndunum. Og ekki má gleyma tunglinu og Mars.

Basalt storknar úr þeirri kviku sem myndast þegar möttulefni bráðnar. Það má skilgreina með efnasamsetningu sinni (kísill (kísiloxíð SiO2) = 45-52%), og einnig með steindasamsetningu sinni, plagíóklas (labrador) og pýroxen (ágít). Þar fyrir utan eru í basalti aðrar steindir í minna mæli og fer eftir efnasamsetningu bergsins hverjar og í hve miklum mæli, til dæmis ólivín (hátt MgO), magnetít (hátt FeO), ilmenít (hátt TiO2) og svo framvegis.

Basalt frá tunglinu sem geimfarar í Apolló 17 tóku með sér til jarðar.

Þegar basaltísk bráð storknar fer það eftir aðstæðum hvaða bergtegund myndast; grófkristallað gabbró myndast við hæga kristöllun djúpt í jörðu, fínkornótt grágrýti (dólerít) í grunnstæðum innskotum eða þykkum hraunum, dulkornótt basalt í hraunum á yfirborði og basaltgler (túff) við hraðkólnun í vatni.

Myndir: