Sólin Sólin Rís 05:15 • sest 21:38 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 01:18 • Sest 04:30 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:36 • Síðdegis: 19:53 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:39 • Síðdegis: 13:42 í Reykjavík

Hver var Claude Lévi-Strauss og hvaða áhrif hafði hann á mannfræðina?

Gísli Pálsson

Mannfræðingurinn Claude Lévi-Strauss (1908-2009) var einn af áhrifamestu kenningasmiðum síðustu aldar. Hann lagði í upphafi stund á lögfræði og heimspeki við Sorbonneháskóla, en í kjölfar vettvangsferðar á slóðir Brasilíuindjána hneigðist hugur hans æ meir að mannfræði. Skömmu eftir að hann sneri aftur til Frakklands frá Brasilíu braust seinni heimsstyrjöldin út. Lévi-Strauss flúði til New York þar sem hann taldi að sér væri ekki vært í heimalandinu. Gyðinglegt ættarnafn hans var óheppilegt vegarnesti í hersetinni Parísarborg.

Lévi-Strauss í safnheimsókn í Ríó ásamt öðrum mannfræðingum úr Columbia-háskólanum. Lévi-Strauss er lengst til vinstri.

Dvöl Lévi-Strauss í New York hafði afdrifarík áhrif á feril hans. Hér kynntist hann mörgum af áhrifamestu fræðimönnum samtímans á sviði mannfræði, málvísinda og heimspeki. Á skömmum tíma tileinkaði hann sér haldgóða þekkingu á mannfræðirannsóknum og lagði drög að fyrstu verkum sínum. Bók hans Formgerðir sifja, sem kom út árið 1949, þótti byltingarkennt verk, en þar freistaði hann þess að varpa ljósi á reglurnar að baki ættrakningu ólíkra sifjakerfa. Bókin er að mörgu leyti dæmigerð fyrir helstu verk hans, hún er tyrfin og langt frá því að vera aðgengileg. Með bókinni Regnskógabeltið raunamædda (1955) sýndi hann hins vegar á sér allt aðra hlið, en sú bók er eitt af helstu bókmenntaverkum Frakka frá síðari helmingi tuttugustu aldar.

Það er engan veginn auðvelt að lýsa kenningu Lévi-Strauss í fáum orðum. Kjarninn í strúktúralismanum er kannski sá að gera ráð fyrir að allt sem maðurinn skapar endurspegli „formgerðir“ mannshugans. Tungumálin eru aðeins eitt dæmi: Þau eru gerólík en eiga öll eitthvað sammerkt, sem rekja má til þess hvernig hugur homo sapiens er gerður og starfar. Önnur dæmi eru goðsögur, trúarbrögð, listir og svo mætti lengi telja. Samkvæmt þessu eru allar goðsögur - norræn goðafræði og goðafræði Forngrikkja og annarra þjóða - áþekk glíma manna við sams konar tilvistarvanda. Líkt og tungumálin, sagði Lévi-Strauss, byggir öll hugsun mannsins á tvenndum af einu eða örðu tagi: heitt/kalt, upp/niður, plús/mínus.

Þótt strúktúralismi Lévi-Strauss hafi verið frumleg nýjung og áhrifa hans gæti í margs konar rannsóknum, var hann barn síns tíma. Áþekkur strúktúralismi setti svip á önnur fræði á seinni hluta 20. aldar, meðal annars kenningar um vitsmunaþroska barna (Jean Piaget), málvísindi (Roman Jakobson, Noam Chomsky) og líffræðilega erfðahyggju (François Jacob). Höfundar þessara kenninga drógu yfirleitt ekki dul á það sem sameinaði þá, leitina að öreindum, reglum eða kóðum sem skýrðu þroska manna, athafnir og sköpunarverk.

Verk Lévi-Strauss höfðu afar mikil áhrif á kenningalega umræðu á mörgum sviðum, langt út fyrir raðir mannfræðinga. Hugmyndir hans um innviði mannshugans skírskotuðu til breiðs hóps á vettvangi mannvísinda. Lévi-Strauss skipaði sér þannig á bekk með helstu hugsuðum síðustu aldar. Undanfarin ár hafa metnaðarfullar og heildrænar kenningar á borð við strúktúralisma hins vegar átt undir högg að sækja. Margt hefur grafið undan þeim: örar og illskiljanlegar breytingar á flestum sviðum mannlífs, póstmódernísk gagnrýni á hvers kyns stórasannleik og áleitnar efasemdir um gildi vísinda í manngerðum heimi sem lætur illa að stjórn. Strúktúralisminn, af hvaða tagi sem hann er, hefur verið í róttækri endurskoðun að undanförnu, en helst er það sennilega í líffræði sem hugsun strúktúralismans stendur enn traustum fótum. Erfðahyggjan sem gerir ráð fyrir að erfðaefnið sé „lykillinn“ að lífinu sjálfu, vexti lífverunnar og heilsu er hvarvetna ofarlega á baugi, þótt hún sæti líka vaxandi gagnrýni.

Bernharður Hollandsprins afhendir Leví-Strauss Erasmusverðlaunin í maí 1973

Oftar en ekki hefur bjartsýni og ákafi strúktúralistanna sem settu svip á kenningalega umræðu á mörgum fræðasviðum um miðbik síðustu aldar, gott ef ekki alla þjóðfélagsumræðu, orðið að víkja fyrir kenningalegu fjöllyndi. Margir gagnrýnenda hafa bent á að hugmyndir strúktúralista um ófrávíkjanlegar reglur mannshugans, geri lítið úr sköpunarmætti mannsins, en undanfarin ár hafa kenningar um hvers kyns athafnir, gerðir og segðir einmitt átt miklu fylgi að fagna, sérstaklega í félagsvísindum.

Þrátt fyrir breytta tíma hefur strúktúralisminn haldið velli á sumum sviðum mannfræði. Mörgum mannfræðingum þykja hófsamar útgáfur strúktúralismans henta vel til túlkunar á tilteknum sviðum, til að mynda goðsögum, bókmenntum, listum og trúarbrögðum, þótt þær henti síður eða alls ekki við rannsóknir á öðrum sviðum. Hvað sem líður örlögum strúktúralismans hafa verk Lévi-Strauss sett varanlegt mark á alla mannfræðiumræðu. Tungutak hans og athugasemdir um aðskiljanlegustu efni hafa orðið órofa hluti af dæmasafni og þekkingarforða mannfræðinnar. Þótt kenning hans um tvenndir og andstæður sé ekki lengur efst á vinsældalistanum, eru margar af þeim spurningum sem hann setti fram um mannshugann og afurðir hans sígilt viðfangsefni. Til marks um endurnýjaða lífdaga verka Lévi-Strauss og gildi þeirra í samtímanum eru nýleg rit bæði um höfundarverk hans í heild sinni og afmarkaða þætti kenningar hans, meðal annars þýðingu hennar fyrir fagurfræði og skilning á menningarbundum hugmyndum um listsköpun, ekki síst svonefnda „frumstæða“ list.Íslenska ríkið á og rekur öll fangelsi hér á landi.[1]

Eflaust er Lévi-Strauss gott dæmi um fræðimann sem unir sér vel í svonefndum fílabeinsturni háskólans og forðast í lengstu lög að blanda sér í deilur um þjóðfélagsmál. Hann hafði til dæmis enga samúð með byltingarsinnum '68 kynslóðarinnar, sem hann taldi grafa undan helstu stoðum hins sígilda háskóla. Eina mikilvæga undantekningu gerði hann þó í þessum efnum. Að beiðni UNESCO ritaði hann tvo bæklinga um kynþáttahyggju: Kynþátt og sögu (1952) og Kynþátt og menningu (1971). Þessi verk, sem gagnrýndu fordómafullar hugmyndir um kynþætti í ljósi mannfræðilegrar vitneskju um breytileika mannkyns, fóru víða og höfðu mikil áhrif, áttu þátt í að auka skilning á því sem nú er gjarna nefnt „fjölmenning“.

Lévi-Strauss hlotnaðist margs konar heiður á lífsleiðinni. Sennilega er ekki meira ritað um aðra hugsuði tuttugustu aldar. Viðhorf hans til sjálfs sín og eigin verka einkenndust hins vegar af mikilli hófsemi og einlægu lítillæti, eins og glöggt má sjá í viðtalsbókinni Samræður við Claude Lévi-Strauss sem kom út þegar hann varð áttræður.Íslenska ríkið á og rekur öll fangelsi hér á landi.[2]

Tilvísanir:
  1. ^ Sjá til dæmis Robert Deliège 2007. Lévi-Strauss Today: An Introduction to Structural Anthropology. Berg; Boris Wiseman 2008. Lévi-Strauss, Anthropology and Aesthetics. Cambridge University Press.
  2. ^ Claude Lévi-Strauss og Didier Eribon 1991[1988]. Conversations with Claude Lévi-Strauss. The University of Chicago Press.

Myndir:

Höfundur

prófessor í mannfræði við Háskóla Íslands.

Útgáfudagur

31.5.2011

Spyrjandi

Þórunn Vilmarsdóttir

Tilvísun

Gísli Pálsson. „Hver var Claude Lévi-Strauss og hvaða áhrif hafði hann á mannfræðina?“ Vísindavefurinn, 31. maí 2011. Sótt 26. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=58390.

Gísli Pálsson. (2011, 31. maí). Hver var Claude Lévi-Strauss og hvaða áhrif hafði hann á mannfræðina? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=58390

Gísli Pálsson. „Hver var Claude Lévi-Strauss og hvaða áhrif hafði hann á mannfræðina?“ Vísindavefurinn. 31. maí. 2011. Vefsíða. 26. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=58390>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hver var Claude Lévi-Strauss og hvaða áhrif hafði hann á mannfræðina?
Mannfræðingurinn Claude Lévi-Strauss (1908-2009) var einn af áhrifamestu kenningasmiðum síðustu aldar. Hann lagði í upphafi stund á lögfræði og heimspeki við Sorbonneháskóla, en í kjölfar vettvangsferðar á slóðir Brasilíuindjána hneigðist hugur hans æ meir að mannfræði. Skömmu eftir að hann sneri aftur til Frakklands frá Brasilíu braust seinni heimsstyrjöldin út. Lévi-Strauss flúði til New York þar sem hann taldi að sér væri ekki vært í heimalandinu. Gyðinglegt ættarnafn hans var óheppilegt vegarnesti í hersetinni Parísarborg.

Lévi-Strauss í safnheimsókn í Ríó ásamt öðrum mannfræðingum úr Columbia-háskólanum. Lévi-Strauss er lengst til vinstri.

Dvöl Lévi-Strauss í New York hafði afdrifarík áhrif á feril hans. Hér kynntist hann mörgum af áhrifamestu fræðimönnum samtímans á sviði mannfræði, málvísinda og heimspeki. Á skömmum tíma tileinkaði hann sér haldgóða þekkingu á mannfræðirannsóknum og lagði drög að fyrstu verkum sínum. Bók hans Formgerðir sifja, sem kom út árið 1949, þótti byltingarkennt verk, en þar freistaði hann þess að varpa ljósi á reglurnar að baki ættrakningu ólíkra sifjakerfa. Bókin er að mörgu leyti dæmigerð fyrir helstu verk hans, hún er tyrfin og langt frá því að vera aðgengileg. Með bókinni Regnskógabeltið raunamædda (1955) sýndi hann hins vegar á sér allt aðra hlið, en sú bók er eitt af helstu bókmenntaverkum Frakka frá síðari helmingi tuttugustu aldar.

Það er engan veginn auðvelt að lýsa kenningu Lévi-Strauss í fáum orðum. Kjarninn í strúktúralismanum er kannski sá að gera ráð fyrir að allt sem maðurinn skapar endurspegli „formgerðir“ mannshugans. Tungumálin eru aðeins eitt dæmi: Þau eru gerólík en eiga öll eitthvað sammerkt, sem rekja má til þess hvernig hugur homo sapiens er gerður og starfar. Önnur dæmi eru goðsögur, trúarbrögð, listir og svo mætti lengi telja. Samkvæmt þessu eru allar goðsögur - norræn goðafræði og goðafræði Forngrikkja og annarra þjóða - áþekk glíma manna við sams konar tilvistarvanda. Líkt og tungumálin, sagði Lévi-Strauss, byggir öll hugsun mannsins á tvenndum af einu eða örðu tagi: heitt/kalt, upp/niður, plús/mínus.

Þótt strúktúralismi Lévi-Strauss hafi verið frumleg nýjung og áhrifa hans gæti í margs konar rannsóknum, var hann barn síns tíma. Áþekkur strúktúralismi setti svip á önnur fræði á seinni hluta 20. aldar, meðal annars kenningar um vitsmunaþroska barna (Jean Piaget), málvísindi (Roman Jakobson, Noam Chomsky) og líffræðilega erfðahyggju (François Jacob). Höfundar þessara kenninga drógu yfirleitt ekki dul á það sem sameinaði þá, leitina að öreindum, reglum eða kóðum sem skýrðu þroska manna, athafnir og sköpunarverk.

Verk Lévi-Strauss höfðu afar mikil áhrif á kenningalega umræðu á mörgum sviðum, langt út fyrir raðir mannfræðinga. Hugmyndir hans um innviði mannshugans skírskotuðu til breiðs hóps á vettvangi mannvísinda. Lévi-Strauss skipaði sér þannig á bekk með helstu hugsuðum síðustu aldar. Undanfarin ár hafa metnaðarfullar og heildrænar kenningar á borð við strúktúralisma hins vegar átt undir högg að sækja. Margt hefur grafið undan þeim: örar og illskiljanlegar breytingar á flestum sviðum mannlífs, póstmódernísk gagnrýni á hvers kyns stórasannleik og áleitnar efasemdir um gildi vísinda í manngerðum heimi sem lætur illa að stjórn. Strúktúralisminn, af hvaða tagi sem hann er, hefur verið í róttækri endurskoðun að undanförnu, en helst er það sennilega í líffræði sem hugsun strúktúralismans stendur enn traustum fótum. Erfðahyggjan sem gerir ráð fyrir að erfðaefnið sé „lykillinn“ að lífinu sjálfu, vexti lífverunnar og heilsu er hvarvetna ofarlega á baugi, þótt hún sæti líka vaxandi gagnrýni.

Bernharður Hollandsprins afhendir Leví-Strauss Erasmusverðlaunin í maí 1973

Oftar en ekki hefur bjartsýni og ákafi strúktúralistanna sem settu svip á kenningalega umræðu á mörgum fræðasviðum um miðbik síðustu aldar, gott ef ekki alla þjóðfélagsumræðu, orðið að víkja fyrir kenningalegu fjöllyndi. Margir gagnrýnenda hafa bent á að hugmyndir strúktúralista um ófrávíkjanlegar reglur mannshugans, geri lítið úr sköpunarmætti mannsins, en undanfarin ár hafa kenningar um hvers kyns athafnir, gerðir og segðir einmitt átt miklu fylgi að fagna, sérstaklega í félagsvísindum.

Þrátt fyrir breytta tíma hefur strúktúralisminn haldið velli á sumum sviðum mannfræði. Mörgum mannfræðingum þykja hófsamar útgáfur strúktúralismans henta vel til túlkunar á tilteknum sviðum, til að mynda goðsögum, bókmenntum, listum og trúarbrögðum, þótt þær henti síður eða alls ekki við rannsóknir á öðrum sviðum. Hvað sem líður örlögum strúktúralismans hafa verk Lévi-Strauss sett varanlegt mark á alla mannfræðiumræðu. Tungutak hans og athugasemdir um aðskiljanlegustu efni hafa orðið órofa hluti af dæmasafni og þekkingarforða mannfræðinnar. Þótt kenning hans um tvenndir og andstæður sé ekki lengur efst á vinsældalistanum, eru margar af þeim spurningum sem hann setti fram um mannshugann og afurðir hans sígilt viðfangsefni. Til marks um endurnýjaða lífdaga verka Lévi-Strauss og gildi þeirra í samtímanum eru nýleg rit bæði um höfundarverk hans í heild sinni og afmarkaða þætti kenningar hans, meðal annars þýðingu hennar fyrir fagurfræði og skilning á menningarbundum hugmyndum um listsköpun, ekki síst svonefnda „frumstæða“ list.Íslenska ríkið á og rekur öll fangelsi hér á landi.[1]

Eflaust er Lévi-Strauss gott dæmi um fræðimann sem unir sér vel í svonefndum fílabeinsturni háskólans og forðast í lengstu lög að blanda sér í deilur um þjóðfélagsmál. Hann hafði til dæmis enga samúð með byltingarsinnum '68 kynslóðarinnar, sem hann taldi grafa undan helstu stoðum hins sígilda háskóla. Eina mikilvæga undantekningu gerði hann þó í þessum efnum. Að beiðni UNESCO ritaði hann tvo bæklinga um kynþáttahyggju: Kynþátt og sögu (1952) og Kynþátt og menningu (1971). Þessi verk, sem gagnrýndu fordómafullar hugmyndir um kynþætti í ljósi mannfræðilegrar vitneskju um breytileika mannkyns, fóru víða og höfðu mikil áhrif, áttu þátt í að auka skilning á því sem nú er gjarna nefnt „fjölmenning“.

Lévi-Strauss hlotnaðist margs konar heiður á lífsleiðinni. Sennilega er ekki meira ritað um aðra hugsuði tuttugustu aldar. Viðhorf hans til sjálfs sín og eigin verka einkenndust hins vegar af mikilli hófsemi og einlægu lítillæti, eins og glöggt má sjá í viðtalsbókinni Samræður við Claude Lévi-Strauss sem kom út þegar hann varð áttræður.Íslenska ríkið á og rekur öll fangelsi hér á landi.[2]

Tilvísanir:
  1. ^ Sjá til dæmis Robert Deliège 2007. Lévi-Strauss Today: An Introduction to Structural Anthropology. Berg; Boris Wiseman 2008. Lévi-Strauss, Anthropology and Aesthetics. Cambridge University Press.
  2. ^ Claude Lévi-Strauss og Didier Eribon 1991[1988]. Conversations with Claude Lévi-Strauss. The University of Chicago Press.

Myndir:

...