Sólin Sólin Rís 05:15 • sest 21:38 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 01:18 • Sest 04:30 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:36 • Síðdegis: 19:53 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:39 • Síðdegis: 13:42 í Reykjavík

Voru einhver fræg kventónskáld á 19. öld?

Árni Heimir Ingólfsson

Það ævagamla sjónarmið var sem fyrr ríkjandi á 19. öld að hljóðfæraleikur væri konum til prýði svo framarlega sem þær iðkuðu slíka list einungis innan veggja heimilisins. Fordómar feðraveldisins gerðu flestum konum ókleift að hafa hljóðfæraleik að lífsstarfi og enn minni trú höfðu menn á getu þeirra til að stunda tónsmíðar. Slík listsköpun þótti útheimta eiginleika sem aðeins karlmönnum hlotnuðust í vöggugjöf.

Stundum tíðkaðist að konur fengju verk sín gefin út undir karlmannsnafni, hvort sem var í bókmenntunum eða tónlist. Skáldkonur tóku sér sumar dulnefni en í öðrum tilvikum léðu ættmenni þeirra verkunum nafn sitt. Ef útgáfan taldist fullgild sem karlmannsverk máttu konan vel við una. „Ég skal hjartansfeginn eigna mér allt sem þú gerir,“ segir drengur nokkur við frænku sína í Grasaferð, smásögu sem Jónas Hallgrímsson samdi laust fyrir miðja 19. öld. Í huga piltsins eru orð hans bæði hrós og hvatning, en stúlkan svarar því til að það hafi „aldrei þótt mikil prýði á kvenfólki“ að yrkja ljóð. Þessi orðaskipti eru um margt lýsandi fyrir afstöðu 19. aldar karla til kvenhöfunda, einnig þeirra sem hugðust hasla sér völl sem tónskáld.

Fanny Mendelssohn (1805-1847). Málverk eftir Moritz Daniel Oppenheim frá árinu 1842.

Fanny Mendelssohn (1805-47) var eldri systir tónskáldsins Felix og ein fárra kvenna sem gátu sér orð fyrir tónsmíðar á 19. öld. Hún var samferða bróður sínum í tónlistarnáminu og naut góðs af því að hann þótti efnilegur; bæði fengu þau leiðsögn færustu kennara sem völ var á. Hún þótti „sannur tónsnillingur“, svo vitnað sé í H.C. Andersen sem heyrði hana leika í Berlín, en fjölskylda hennar lagðist gegn frekari áformum um frama á tónlistarsviðinu. Slíkt þótti ekki við hæfi þegar stúlka af svo auðugri ætt átti í hlut. Fanny gekk í hjónaband, tók upp eftirnafn eiginmanns síns (Hensel) og kom eingöngu fram fyrir fjölskyldu sína og vini, á sunnudagstónleikum sem hún efndi til á ættarsetri sínu. Hún samdi mestmegnis sönglög og einþáttunga fyrir píanó enda þóttu slík „smáverk“ betur hæfa konum en stærri form, sinfóníur og sónötur. Meðal helstu verka hennar er píanóverkið Das Jahr (1841), flokkur tólf þátta sem hver um sig lýsir einum mánuði ársins.

Fanny komst í aðstöðu sem minnir á Grasaferð Jónasar þegar sex sönglög sem hún hafði samið komu út á prenti undir nafni bróður hennar (op. 8 og 9, útg. 1829-30). Þetta olli nokkrum vandræðum síðar meir. Eitt sinn tóku Viktoría Bretadrottning og Albert prins á móti Felix í Buckingham-höll og þar sem drottning hafði dáfagra rödd dró hún fram nótur að söngvum hans og bað tónskáldið að leika með á píanó. Svo óheppilega vildi til að drottning vildi helst syngja eitt þeirra laga sem Felix átti enga hlutdeild í. „Þá varð ég að játa að Fanny hefði samið lagið – sem mér þótti afar erfitt, en dramb er falli næst ...,“ skrifaði hann móður sinni. Það var ekki fyrr en á síðustu árum ævinnar að Fanny safnaði kjarki og gaf út verk í eigin nafni, en eiginlegur ferill hennar varð ekki langur. Hún lést eftir hjartaáfall í maí 1847, á 42. aldursári, og fáeinum mánuðum síðar hlaut bróðir hennar sömu örlög.

Clara Wieck Schumann (1819-96) reyndi einnig að skapa sér rými sem tónskáld í karllægum listheimi 19. aldar. Hjá föður sínum fékk hún fyrirtaks tónlistaruppeldi, ekki aðeins í píanóleik heldur einnig í tónfræði og tónsmíðum. Á æskuárum sínum samdi hún og gaf út alls 23 verk. Sum þeirra voru áheyrendavæn glæsinúmer, til dæmis frumsamið stef með tilbrigðum sem hún lék við frumraun sína á tónleikapalli ellefu ára gömul. Hún tókst líka á við stærri form og sýndi þar hæfileika, samdi meðal annars píanókonsert. Clara mætti ekki sömu mótstöðu og Fanny Mendelssohn ends var hún ekki af efnafólki heldur dóttir píanókennara af millistétt. Því þótti ekki með öllu óviðeigandi að hún léki á opinberum tónleikum og seldi forleggjurum tónsmíðar sínar til útgáfu.

Clara Wieck Schumann (1819-1896). Mynd eftir Franz von Lenbach frá 1878/1879.

Flest verk sín samdi Clara á unglingsárum. Í hjónabandinu gengu tónsmíðar Roberts fyrir og þegar andinn kom yfir hann mátti hún hvorki semja né æfa sig. Við þessar erfiðu aðstæður tókst henni þó að skapa nokkur metnaðarfull verk, meðal annars píanótríó sem margir telja bestu tónsmíð hennar. En heimilislífið gaf Clöru lítið tóm til að rækta þennan metnað sinn. Hún ól manni sínum átta börn á árunum 1841-54 og yngsti sonur þeirra hjóna kom í heiminn eftir að Schumann hafði verið færður á geðsjúkrahús. Hvað tónsmíðarnar snerti þagnaði rödd Clöru þegar Robert féll frá. Eftir það sá hún börnum sínum farborða með tónleikaferðalögum víðsvegar um álfuna þar sem hún kynnti verk manns síns og sá til þess að þau voru loks metin að verðleikum. Clara hélt alls um 1300 tónleika áður en hún dró sig í hlé og alltaf klæddist hún svörtu til að heiðra minningu eiginmanns síns.

Myndir:


Þetta svar er fengið úr bókinni Saga tónlistarinnar sem Forlagið gaf út árið 2016 og birt með góðfúslegu leyfi höfundar og útgefanda.

Höfundur

Árni Heimir Ingólfsson

tónlistarfræðingur

Útgáfudagur

15.8.2018

Spyrjandi

Ritstjórn

Tilvísun

Árni Heimir Ingólfsson. „Voru einhver fræg kventónskáld á 19. öld?“ Vísindavefurinn, 15. ágúst 2018. Sótt 26. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=74785.

Árni Heimir Ingólfsson. (2018, 15. ágúst). Voru einhver fræg kventónskáld á 19. öld? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=74785

Árni Heimir Ingólfsson. „Voru einhver fræg kventónskáld á 19. öld?“ Vísindavefurinn. 15. ágú. 2018. Vefsíða. 26. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=74785>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Voru einhver fræg kventónskáld á 19. öld?
Það ævagamla sjónarmið var sem fyrr ríkjandi á 19. öld að hljóðfæraleikur væri konum til prýði svo framarlega sem þær iðkuðu slíka list einungis innan veggja heimilisins. Fordómar feðraveldisins gerðu flestum konum ókleift að hafa hljóðfæraleik að lífsstarfi og enn minni trú höfðu menn á getu þeirra til að stunda tónsmíðar. Slík listsköpun þótti útheimta eiginleika sem aðeins karlmönnum hlotnuðust í vöggugjöf.

Stundum tíðkaðist að konur fengju verk sín gefin út undir karlmannsnafni, hvort sem var í bókmenntunum eða tónlist. Skáldkonur tóku sér sumar dulnefni en í öðrum tilvikum léðu ættmenni þeirra verkunum nafn sitt. Ef útgáfan taldist fullgild sem karlmannsverk máttu konan vel við una. „Ég skal hjartansfeginn eigna mér allt sem þú gerir,“ segir drengur nokkur við frænku sína í Grasaferð, smásögu sem Jónas Hallgrímsson samdi laust fyrir miðja 19. öld. Í huga piltsins eru orð hans bæði hrós og hvatning, en stúlkan svarar því til að það hafi „aldrei þótt mikil prýði á kvenfólki“ að yrkja ljóð. Þessi orðaskipti eru um margt lýsandi fyrir afstöðu 19. aldar karla til kvenhöfunda, einnig þeirra sem hugðust hasla sér völl sem tónskáld.

Fanny Mendelssohn (1805-1847). Málverk eftir Moritz Daniel Oppenheim frá árinu 1842.

Fanny Mendelssohn (1805-47) var eldri systir tónskáldsins Felix og ein fárra kvenna sem gátu sér orð fyrir tónsmíðar á 19. öld. Hún var samferða bróður sínum í tónlistarnáminu og naut góðs af því að hann þótti efnilegur; bæði fengu þau leiðsögn færustu kennara sem völ var á. Hún þótti „sannur tónsnillingur“, svo vitnað sé í H.C. Andersen sem heyrði hana leika í Berlín, en fjölskylda hennar lagðist gegn frekari áformum um frama á tónlistarsviðinu. Slíkt þótti ekki við hæfi þegar stúlka af svo auðugri ætt átti í hlut. Fanny gekk í hjónaband, tók upp eftirnafn eiginmanns síns (Hensel) og kom eingöngu fram fyrir fjölskyldu sína og vini, á sunnudagstónleikum sem hún efndi til á ættarsetri sínu. Hún samdi mestmegnis sönglög og einþáttunga fyrir píanó enda þóttu slík „smáverk“ betur hæfa konum en stærri form, sinfóníur og sónötur. Meðal helstu verka hennar er píanóverkið Das Jahr (1841), flokkur tólf þátta sem hver um sig lýsir einum mánuði ársins.

Fanny komst í aðstöðu sem minnir á Grasaferð Jónasar þegar sex sönglög sem hún hafði samið komu út á prenti undir nafni bróður hennar (op. 8 og 9, útg. 1829-30). Þetta olli nokkrum vandræðum síðar meir. Eitt sinn tóku Viktoría Bretadrottning og Albert prins á móti Felix í Buckingham-höll og þar sem drottning hafði dáfagra rödd dró hún fram nótur að söngvum hans og bað tónskáldið að leika með á píanó. Svo óheppilega vildi til að drottning vildi helst syngja eitt þeirra laga sem Felix átti enga hlutdeild í. „Þá varð ég að játa að Fanny hefði samið lagið – sem mér þótti afar erfitt, en dramb er falli næst ...,“ skrifaði hann móður sinni. Það var ekki fyrr en á síðustu árum ævinnar að Fanny safnaði kjarki og gaf út verk í eigin nafni, en eiginlegur ferill hennar varð ekki langur. Hún lést eftir hjartaáfall í maí 1847, á 42. aldursári, og fáeinum mánuðum síðar hlaut bróðir hennar sömu örlög.

Clara Wieck Schumann (1819-96) reyndi einnig að skapa sér rými sem tónskáld í karllægum listheimi 19. aldar. Hjá föður sínum fékk hún fyrirtaks tónlistaruppeldi, ekki aðeins í píanóleik heldur einnig í tónfræði og tónsmíðum. Á æskuárum sínum samdi hún og gaf út alls 23 verk. Sum þeirra voru áheyrendavæn glæsinúmer, til dæmis frumsamið stef með tilbrigðum sem hún lék við frumraun sína á tónleikapalli ellefu ára gömul. Hún tókst líka á við stærri form og sýndi þar hæfileika, samdi meðal annars píanókonsert. Clara mætti ekki sömu mótstöðu og Fanny Mendelssohn ends var hún ekki af efnafólki heldur dóttir píanókennara af millistétt. Því þótti ekki með öllu óviðeigandi að hún léki á opinberum tónleikum og seldi forleggjurum tónsmíðar sínar til útgáfu.

Clara Wieck Schumann (1819-1896). Mynd eftir Franz von Lenbach frá 1878/1879.

Flest verk sín samdi Clara á unglingsárum. Í hjónabandinu gengu tónsmíðar Roberts fyrir og þegar andinn kom yfir hann mátti hún hvorki semja né æfa sig. Við þessar erfiðu aðstæður tókst henni þó að skapa nokkur metnaðarfull verk, meðal annars píanótríó sem margir telja bestu tónsmíð hennar. En heimilislífið gaf Clöru lítið tóm til að rækta þennan metnað sinn. Hún ól manni sínum átta börn á árunum 1841-54 og yngsti sonur þeirra hjóna kom í heiminn eftir að Schumann hafði verið færður á geðsjúkrahús. Hvað tónsmíðarnar snerti þagnaði rödd Clöru þegar Robert féll frá. Eftir það sá hún börnum sínum farborða með tónleikaferðalögum víðsvegar um álfuna þar sem hún kynnti verk manns síns og sá til þess að þau voru loks metin að verðleikum. Clara hélt alls um 1300 tónleika áður en hún dró sig í hlé og alltaf klæddist hún svörtu til að heiðra minningu eiginmanns síns.

Myndir:


Þetta svar er fengið úr bókinni Saga tónlistarinnar sem Forlagið gaf út árið 2016 og birt með góðfúslegu leyfi höfundar og útgefanda.

...