Sólin Sólin Rís 05:15 • sest 21:38 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 01:18 • Sest 04:30 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:36 • Síðdegis: 19:53 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:39 • Síðdegis: 13:42 í Reykjavík

Hvert fóru Íslendingar til iðnnáms fyrr á öldum og hvaða iðngreinar lærðu þeir?

Gunnar Karlsson (1939-2019)

Framan af sögu Íslendinga var ekki gerður skýr greinarmunur á iðnnámi og hverri annarri þjálfun í að vinna hvers kyns verk við landbúnað eða fiskveiðar. Svolítill vísir að slíkri aðgreiningu birtist þó í Grágás, lagasafni íslenska þjóðveldisins. Þar eru ákvæði um að búlaust fólk á vinnualdri sé skyldugt að eiga heimili hjá bónda og vinna við bú hans, fyrir ákveðið hámarkskaup, að minnsta kosti meginhluta ársins. Frá þessari reglu var ein undantekning: „Smiðar þeir er hús gera úr austrænum [það er innfluttum] viði eða brúar um ár þær er netnæmir fiskar ganga í eða gera búðir á Alþingi, þeir eigu kost að taka dagakaup um engiverk [það er heyskapartíma].“ Hér vottar fyrir því að trésmiðir njóti sérréttinda af því að verkkunnátta þeirra þyki of mikilvæg til að þeir eyði tímanum í heyvinnu fyrir venjulegt kaup. Í öðru handriti laganna er bætt við þessa upptalningu þeim sem „fara með sverðskreið“ það er kunna að brýna sverð. Annars eru öldum saman litlar heimildir um verkkunnáttu sem taldist svo vandasöm og verðmæt að þeir sem réðu yfir henni nytu sérstakra réttinda. Þó mætti sjálfsagt tína eitthvað til ef vel væri leitað.

Hallgrímur Pétursson var undir handleiðslu iðnmeistara í Kaupmannahöfn áður en hann lærði til prests.

Fyrsta manntalið var tekið á Íslandi árið 1703, og er þar fyrsta heildaryfirlitið yfir starfsstéttir þjóðarinnar. Þá voru aðeins 114 menn taldir starfa í greinum sem eru löggiltar iðngreinar hjá okkur nú, 108 smiðir, tveir bókbindarar og fjórir brytar. Nokkrir eru auk þess sagðir starfa við sérhæfðar starfsgreinar sem við höfum ekki þörf fyrir lengur, til dæmis sex fálkafangarar og sjö böðlar.

Sjálfsagt hafa smiðirnir, bókbindararnir og brytarnir verið flokkaðir svo í manntalinu vegna þess að þeir höfðu atvinnu sína einkum af þessum störfum, hvernig sem þeir hafa aflað sér kunnáttu til þeirra. Hitt er vitað að á þessum tímum voru Íslendingar farnir að stunda nám hjá iðnmeisturum í Kaupmannahöfn. Þannig er sagt um prestinn og sálmaskáldið Hallgrím Pétursson að hann hafi horfið úr latínuskóla á biskupsstólnum á Hólum á unglingsárum, líklega um 1627, og er lítið vitað um hann þangað til Brynjólfur Sveinsson, síðar Skálholtsbiskup, heyrði ljótt orðbragð á íslensku þar sem hann var á gangi í Kaupmannahöfn. Þar reyndist Hallgrímur vera kominn; var hann þá við nám í járnsmíði í borginni, hafði fengið skammir frá meistara sínum og svaraði þeim utanhúss á móðurmáli sínu. Sagan er sögð vegna þess að Brynjólfur hreifst af orðkynngi Hallgríms, kom honum í latínuskóla í Kaupmannahöfn þannig að hann varð prestur en ekki járnsmiður.

Þeir sem öfluðu sér formlegrar iðnmenntunar á þessum árum hafa líklega farið að líkt og Hallgrímur, komið sér í vist hjá iðnmeistara, unnið fyrir þá og fengið fæði og húsnæði að launum, kannski einhver laun líka. Mesta formlega og opinbera ráðstöfunin til að afla Íslendingum iðnmenntunar fyrr en á síðari hluta 19. aldar var gerð í tengslum við svokallaðar Innréttingar, iðnverkstæði sem voru reist í Reykjavík upp úr miðri 18. öld. Þar unnu vefarar, spunakonur og spinnarar, lóskerar, þófarar og fleiri karlar og konur kennd við ákveðna starfsgrein, auk vinnumanna. Ekki er einfalt að ákvarða hverja þeirra eigi að telja faglærða iðnaðarmenn. Ástæða er þó til að telja til iðngreina störf þar sem eru tilgreindir nemar eða sveinar. Í Innréttingunum á það við um vefnað, lóskurð, skinnaverkun, reipasnúning, járnsmíði, beykisiðn, litun, smíðar og múrverk. Á vegum Innréttinganna og danskra stjórnvalda voru tvisvar á 18. öld sendir hópar ungra Íslendinga til Danmerkur til að læra iðnir. Fyrst gerðist það árið 1759, og fóru þá sjö piltar með Hólmsskipi (frá Reykjavík) til að læra byggingariðnir og gert ráð fyrir að jafnmargir færu frá öðrum verslunarhöfnum, hvort sem meira eða minna hefur orðið úr því. Á árunum 1784–91 voru svo 20–30 ungir Íslendingar við nám í spuna og vefnaði í Danmörku. Meðal þeirra voru konur í meirihluta. Um helmingur nemanna mun hafa snúið heim til Íslands að námi loknu til að kenna löndum sínum handverk sitt.

Á tímabilinu 1814-1918 voru að minnsta kosti 29 Íslendingar sem lærðu beykisiðn í Kaupmannahöfn.

Þeim sem sóttu iðnmenntun til Kaupmannahafnar að eigin frumkvæði hefur farið smáfjölgandi á næstu öldum. Í nýlegri sögu borgarinnar sem höfuðborgar Íslands kemur fram að höfundar hafa fundið nöfn 680 íslenskra iðnaðarmanna sem voru við nám og störf í Höfn á rúmlega aldarlöngu bili milli 1814 og 1918. Það merkir að farið hafa að meðaltali 6–7 Íslendingar árlega til Hafnar, svo að kunnugt sé um, til að afla sér iðnkunnáttu. Telja höfundar bókarinnar þó að þeir hafi verið talsvert fleiri. Auk þess hafa sjálfsagt einhverjir stundað nám í öðrum dönskum bæjum, og nokkrir fóru til annarra landa, einkum Noregs. En meðal hinna 680 voru 270 sem lögðu fyrir sig trésmíðar, 50 ljósmyndun, 44 klæðskeraiðn, hattagerð og saumaskap, 42 járn- og vélsmíði, 40 málaraiðn, 33 gull- og silfursmíði, 30 prentverk, 29 beykisiðn, 27 úrsmíði, 26 bókband, 22 skósmíðar, 18 bakaraiðn. Þá eru ótaldir 49 sem hafa stundað aðrar iðngreinar eða að ókunnugt er um greinar þeirra.

Flestir voru þessir nemar karlkyns, en vitað er um 25 íslenskar konur sem lærðu saumaskap í Kaupmannahöfn á árabilinu 1850–1918, án þess þó að fá formlega námsgráðu. En reykvísk stúlka, Ásta K. Árnadóttir, lauk málaranámi í Höfn árið 1907, fékk sveinspróf og átti eftir að fá meistararéttindi. Litlu síðar fór Ragnheiður Berthelsen sömu leið í húsgagnasmíði. Rétt er að geta þess líka að talsvert af dönskum iðnaðarmönnum settist að á Íslandi á 19. og einkum 20. öld, fyrst einkum steinsmiðir og húsasmiðir.

Um sama leyti var formlegt iðnskólanám að hefjast á Íslandi. Iðnskólinn í Reykjavík hóf starf árið 1904. Hann var þá kvöldskóli með átta mánaða bóklegri kennslu á ári, fyrst í þremur bekkjum en síðar fjórum. Þar lærðu menn bóknám til sveinsprófs, en verklegt nám varð að sækja til iðnmeistara. Löggiltar iðngreinar voru þá 25 og nemendur upphaflega 82. Fljótlega voru stofnaðir iðnskólar í öðrum kaupstöðum, Akureyri og Ísafirði 1907, Seyðisfirði 1909. Það var þó ekki fyrr en 1927 að leitt var í lög að iðnskólanám væri skilyrði fyrir því að mega gangast undir sveinspróf.

Heimildir og myndir:

  • Grágás. Lagasafn íslenska þjóðveldisins. Gunnar Karlsson, Kristján Sveinsson, Mörður Árnason sáu um útgáfuna. Reykjavík, Mál og menning, 1992.
  • Guðjón Friðriksson, Jón Þ. Þór: Kaupmannahöfn sem höfuðborg Íslands II. Reykjavík, Bókmenntafélag, 2013.
  • Gunnar Karlsson: „Atvinnubylting og ríkismyndun 1874–1918.“ Saga Íslands X. Ritstjórar Sigurður Líndal, Pétur Hrafn Árnason (Reykjavík, Bókmenntafélag, 2009), 1–312.
  • Hagskinna. Sögulegar hagtölur um Ísland. Icelandic Historical Statistics. Ritstjórar Guðmundur Jónsson, Magnús S. Magnússon. Reykjavík, Hagstofa Íslands, 1997.
  • Lýður Björnsson: „18. öldin.“ Saga Íslands VIII. Ritstjóri Sigurður Líndal (Reykjavík, Bókmenntafélag, 2006), 1–289.
  • Lýður Björnsson: Íslands hlutafélag. Rekstrarsaga Innréttinganna. Safn til iðnsögui Íslendinga XI. Ritstjóri Ásgeir Ásgeirsson. Reykjavík, Bókmenntafélag, 1998.
  • Magnús Jónsson: Hallgrímur Pétursson. Æfi hans og starf I. Reykjavík, Leiftur, 1947.
  • Mynd af Hallgrími Péturssyni: Hallgrimur petursson.png - Wikimedia Commons. (Sótt 6. 10. 2016).
  • Mynd af beyki: Billedskærer og bødker - Den Gamle By. (Sótt 5. 10. 2016).

Höfundur

Gunnar Karlsson (1939-2019)

prófessor emeritus í sagnfræði við HÍ

Útgáfudagur

2.12.2016

Spyrjandi

Guðrún Bjarkadóttir

Tilvísun

Gunnar Karlsson (1939-2019). „Hvert fóru Íslendingar til iðnnáms fyrr á öldum og hvaða iðngreinar lærðu þeir?“ Vísindavefurinn, 2. desember 2016. Sótt 26. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=61301.

Gunnar Karlsson (1939-2019). (2016, 2. desember). Hvert fóru Íslendingar til iðnnáms fyrr á öldum og hvaða iðngreinar lærðu þeir? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=61301

Gunnar Karlsson (1939-2019). „Hvert fóru Íslendingar til iðnnáms fyrr á öldum og hvaða iðngreinar lærðu þeir?“ Vísindavefurinn. 2. des. 2016. Vefsíða. 26. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=61301>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvert fóru Íslendingar til iðnnáms fyrr á öldum og hvaða iðngreinar lærðu þeir?
Framan af sögu Íslendinga var ekki gerður skýr greinarmunur á iðnnámi og hverri annarri þjálfun í að vinna hvers kyns verk við landbúnað eða fiskveiðar. Svolítill vísir að slíkri aðgreiningu birtist þó í Grágás, lagasafni íslenska þjóðveldisins. Þar eru ákvæði um að búlaust fólk á vinnualdri sé skyldugt að eiga heimili hjá bónda og vinna við bú hans, fyrir ákveðið hámarkskaup, að minnsta kosti meginhluta ársins. Frá þessari reglu var ein undantekning: „Smiðar þeir er hús gera úr austrænum [það er innfluttum] viði eða brúar um ár þær er netnæmir fiskar ganga í eða gera búðir á Alþingi, þeir eigu kost að taka dagakaup um engiverk [það er heyskapartíma].“ Hér vottar fyrir því að trésmiðir njóti sérréttinda af því að verkkunnátta þeirra þyki of mikilvæg til að þeir eyði tímanum í heyvinnu fyrir venjulegt kaup. Í öðru handriti laganna er bætt við þessa upptalningu þeim sem „fara með sverðskreið“ það er kunna að brýna sverð. Annars eru öldum saman litlar heimildir um verkkunnáttu sem taldist svo vandasöm og verðmæt að þeir sem réðu yfir henni nytu sérstakra réttinda. Þó mætti sjálfsagt tína eitthvað til ef vel væri leitað.

Hallgrímur Pétursson var undir handleiðslu iðnmeistara í Kaupmannahöfn áður en hann lærði til prests.

Fyrsta manntalið var tekið á Íslandi árið 1703, og er þar fyrsta heildaryfirlitið yfir starfsstéttir þjóðarinnar. Þá voru aðeins 114 menn taldir starfa í greinum sem eru löggiltar iðngreinar hjá okkur nú, 108 smiðir, tveir bókbindarar og fjórir brytar. Nokkrir eru auk þess sagðir starfa við sérhæfðar starfsgreinar sem við höfum ekki þörf fyrir lengur, til dæmis sex fálkafangarar og sjö böðlar.

Sjálfsagt hafa smiðirnir, bókbindararnir og brytarnir verið flokkaðir svo í manntalinu vegna þess að þeir höfðu atvinnu sína einkum af þessum störfum, hvernig sem þeir hafa aflað sér kunnáttu til þeirra. Hitt er vitað að á þessum tímum voru Íslendingar farnir að stunda nám hjá iðnmeisturum í Kaupmannahöfn. Þannig er sagt um prestinn og sálmaskáldið Hallgrím Pétursson að hann hafi horfið úr latínuskóla á biskupsstólnum á Hólum á unglingsárum, líklega um 1627, og er lítið vitað um hann þangað til Brynjólfur Sveinsson, síðar Skálholtsbiskup, heyrði ljótt orðbragð á íslensku þar sem hann var á gangi í Kaupmannahöfn. Þar reyndist Hallgrímur vera kominn; var hann þá við nám í járnsmíði í borginni, hafði fengið skammir frá meistara sínum og svaraði þeim utanhúss á móðurmáli sínu. Sagan er sögð vegna þess að Brynjólfur hreifst af orðkynngi Hallgríms, kom honum í latínuskóla í Kaupmannahöfn þannig að hann varð prestur en ekki járnsmiður.

Þeir sem öfluðu sér formlegrar iðnmenntunar á þessum árum hafa líklega farið að líkt og Hallgrímur, komið sér í vist hjá iðnmeistara, unnið fyrir þá og fengið fæði og húsnæði að launum, kannski einhver laun líka. Mesta formlega og opinbera ráðstöfunin til að afla Íslendingum iðnmenntunar fyrr en á síðari hluta 19. aldar var gerð í tengslum við svokallaðar Innréttingar, iðnverkstæði sem voru reist í Reykjavík upp úr miðri 18. öld. Þar unnu vefarar, spunakonur og spinnarar, lóskerar, þófarar og fleiri karlar og konur kennd við ákveðna starfsgrein, auk vinnumanna. Ekki er einfalt að ákvarða hverja þeirra eigi að telja faglærða iðnaðarmenn. Ástæða er þó til að telja til iðngreina störf þar sem eru tilgreindir nemar eða sveinar. Í Innréttingunum á það við um vefnað, lóskurð, skinnaverkun, reipasnúning, járnsmíði, beykisiðn, litun, smíðar og múrverk. Á vegum Innréttinganna og danskra stjórnvalda voru tvisvar á 18. öld sendir hópar ungra Íslendinga til Danmerkur til að læra iðnir. Fyrst gerðist það árið 1759, og fóru þá sjö piltar með Hólmsskipi (frá Reykjavík) til að læra byggingariðnir og gert ráð fyrir að jafnmargir færu frá öðrum verslunarhöfnum, hvort sem meira eða minna hefur orðið úr því. Á árunum 1784–91 voru svo 20–30 ungir Íslendingar við nám í spuna og vefnaði í Danmörku. Meðal þeirra voru konur í meirihluta. Um helmingur nemanna mun hafa snúið heim til Íslands að námi loknu til að kenna löndum sínum handverk sitt.

Á tímabilinu 1814-1918 voru að minnsta kosti 29 Íslendingar sem lærðu beykisiðn í Kaupmannahöfn.

Þeim sem sóttu iðnmenntun til Kaupmannahafnar að eigin frumkvæði hefur farið smáfjölgandi á næstu öldum. Í nýlegri sögu borgarinnar sem höfuðborgar Íslands kemur fram að höfundar hafa fundið nöfn 680 íslenskra iðnaðarmanna sem voru við nám og störf í Höfn á rúmlega aldarlöngu bili milli 1814 og 1918. Það merkir að farið hafa að meðaltali 6–7 Íslendingar árlega til Hafnar, svo að kunnugt sé um, til að afla sér iðnkunnáttu. Telja höfundar bókarinnar þó að þeir hafi verið talsvert fleiri. Auk þess hafa sjálfsagt einhverjir stundað nám í öðrum dönskum bæjum, og nokkrir fóru til annarra landa, einkum Noregs. En meðal hinna 680 voru 270 sem lögðu fyrir sig trésmíðar, 50 ljósmyndun, 44 klæðskeraiðn, hattagerð og saumaskap, 42 járn- og vélsmíði, 40 málaraiðn, 33 gull- og silfursmíði, 30 prentverk, 29 beykisiðn, 27 úrsmíði, 26 bókband, 22 skósmíðar, 18 bakaraiðn. Þá eru ótaldir 49 sem hafa stundað aðrar iðngreinar eða að ókunnugt er um greinar þeirra.

Flestir voru þessir nemar karlkyns, en vitað er um 25 íslenskar konur sem lærðu saumaskap í Kaupmannahöfn á árabilinu 1850–1918, án þess þó að fá formlega námsgráðu. En reykvísk stúlka, Ásta K. Árnadóttir, lauk málaranámi í Höfn árið 1907, fékk sveinspróf og átti eftir að fá meistararéttindi. Litlu síðar fór Ragnheiður Berthelsen sömu leið í húsgagnasmíði. Rétt er að geta þess líka að talsvert af dönskum iðnaðarmönnum settist að á Íslandi á 19. og einkum 20. öld, fyrst einkum steinsmiðir og húsasmiðir.

Um sama leyti var formlegt iðnskólanám að hefjast á Íslandi. Iðnskólinn í Reykjavík hóf starf árið 1904. Hann var þá kvöldskóli með átta mánaða bóklegri kennslu á ári, fyrst í þremur bekkjum en síðar fjórum. Þar lærðu menn bóknám til sveinsprófs, en verklegt nám varð að sækja til iðnmeistara. Löggiltar iðngreinar voru þá 25 og nemendur upphaflega 82. Fljótlega voru stofnaðir iðnskólar í öðrum kaupstöðum, Akureyri og Ísafirði 1907, Seyðisfirði 1909. Það var þó ekki fyrr en 1927 að leitt var í lög að iðnskólanám væri skilyrði fyrir því að mega gangast undir sveinspróf.

Heimildir og myndir:

  • Grágás. Lagasafn íslenska þjóðveldisins. Gunnar Karlsson, Kristján Sveinsson, Mörður Árnason sáu um útgáfuna. Reykjavík, Mál og menning, 1992.
  • Guðjón Friðriksson, Jón Þ. Þór: Kaupmannahöfn sem höfuðborg Íslands II. Reykjavík, Bókmenntafélag, 2013.
  • Gunnar Karlsson: „Atvinnubylting og ríkismyndun 1874–1918.“ Saga Íslands X. Ritstjórar Sigurður Líndal, Pétur Hrafn Árnason (Reykjavík, Bókmenntafélag, 2009), 1–312.
  • Hagskinna. Sögulegar hagtölur um Ísland. Icelandic Historical Statistics. Ritstjórar Guðmundur Jónsson, Magnús S. Magnússon. Reykjavík, Hagstofa Íslands, 1997.
  • Lýður Björnsson: „18. öldin.“ Saga Íslands VIII. Ritstjóri Sigurður Líndal (Reykjavík, Bókmenntafélag, 2006), 1–289.
  • Lýður Björnsson: Íslands hlutafélag. Rekstrarsaga Innréttinganna. Safn til iðnsögui Íslendinga XI. Ritstjóri Ásgeir Ásgeirsson. Reykjavík, Bókmenntafélag, 1998.
  • Magnús Jónsson: Hallgrímur Pétursson. Æfi hans og starf I. Reykjavík, Leiftur, 1947.
  • Mynd af Hallgrími Péturssyni: Hallgrimur petursson.png - Wikimedia Commons. (Sótt 6. 10. 2016).
  • Mynd af beyki: Billedskærer og bødker - Den Gamle By. (Sótt 5. 10. 2016).

...