Sólin Sólin Rís 05:08 • sest 21:44 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 08:47 • Síðdegis: 21:08 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 02:49 • Síðdegis: 14:50 í Reykjavík

Hver konar kvæði er Lilja sem Eysteinn Ásgrímsson á að hafa ort?

Aðalheiður Guðmundsdóttir

Eysteinn Ásgrímsson (d. 1361) er talinn höfundur Lilju, eins merkasta helgikvæðis sem samið hefur verið á íslensku. Lilja er svokölluð heimssögudrápa þar sem höfundur færir okkur heimssögu kristninnar í bundnu máli frá sköpun heims og fram á dómsdag. Eins og aðrar drápur einkennist Lilja af kvæðaforminu sem skiptist í þrennt; upphaf, stefjabálk og slæm. Upphaf drápu er eins konar inngangur sem nær fram að fyrsta stefi. Með fyrsta stefi hefst stefjabálkurinn (stundum nefndur stefjamál) sem er meginkafli kvæðisins og einkennist af því að stef eða nokkurs konar viðlög (ýmist vísa eða hluti úr vísu) eru endurtekin með jöfnu millibili. Þegar stefjabálki er lokið, það er stefin og vísurnar á milli þeirra, tekur við slæmur, sem er lokakafli kvæðisins, án stefja. Í Lilju er upphafið 25 erindi, stefjabálkurinn 50 erindi og slæmurinn 25 erindi. Kvæðið er því alls 100 erindi og ort undir hrynhendum hætti sem einkennist af átta vísuorðum og átta atkvæðum í hverju.

Myndmál Lilju er fjölbreytt og tilheyrir því litríka skáldamáli sem heita má dæmigert fyrir þann blæ sem einkenndi helgikvæði á síðmiðöldum. Í 89. erindi kvæðisins sjáum við dæmi um það hvernig skáldið notar algengar líkingar á borð við dúfu, geisla og gimstein í ávarpi sínu til heilagrar Maríu:

Þú ert hreinlífis dygðar dúfa, / dóttir guðs og lækning sótta, / giftu vegur og geisli lofta, / gimsteinn brúða og drottning himna, / guðs herbergi og gleyming sorga, / gleðinnar past og eyðing lasta / líknar æður og lífgan þjóða, / lofleg mær, þú ert englum hærri.[1]

Eins og þetta erindi er kvæðið allt mikið listaverk enda var lengi haft á orði að „allir vildu Lilju kveðið hafa“. Orðatiltækið gæti annaðhvort bent til þess að önnur skáld hafi reynt að stæla Lilju eða átt sér þann draum að geta ort á borð við Eystein munk.

Lilja er varðveitt í mörgum uppskriftum, hér í ungu pappírshandriti, ÍB 200 8vo, bl. 67v og 68r.

Ljóst er að Eysteinn var ekki einungis gott skáld heldur einnig hálærður. Þekking hans á öðrum kveðskap kemur fram í því að Lilja þykir að mörgu leyti hefðbundið helgikvæði þótt það sé á hinn bóginn sérlega vel ort. Ekki er vitað nákvæmlega hvaða ár Eysteinn orti Lilju en þar sem mikillar iðrunar gætir í kvæðinu gæti hann hafa ort það í afplánun sinni í Þykkvabæjarklaustri - að því gefnu að um sama mann sé að ræða. Bent hefur verið á að áhrifa frá Lilju gæti í Guðmundardrápu (Guðmundarkvæði biskups) eftir Arngrím Brandsson sem hann orti árið 1345 og muni Lilja þá væntanlega vera eldri. Það er engu að síður erfitt að útiloka þann möguleika að Eysteinn hafi orðið fyrir áhrifum frá Arngrími en ekki öfugt. Vegna yfirburða Lilju er þó yfirleitt talið að drápa Arngríms bergmáli hina. Af öðrum kvæðum sem hafa greinilega orðið fyrir áhrifum frá Lilju má nefna Guðmundardrápu eftir Árna Jónsson (d. e. 1379) ábóta á Munkaþverá. Þriðja skáldið, Einar Gilsson (d. 1369), orti tvö kvæði um Guðmund biskup og af þessu má ljóst vera að Guðmundur hefur höfðað mjög til hinna lærðu skálda.

Um Eystein er fjallað nánar í svari við spurningunni Hver var Eysteinn Ásgrímsson sem talinn er höfundur helgikvæðisins Lilju?

Tilvísun:
  1. ^ Chase, Martin (útg.), „Anonymous, Lilja,“ Skaldic Poetry of the Scandinavian Middle Ages: Poetry on Christian Subjects II, Margaret Clunies Ross (ritstj.), Turnhout 2007, 662.

Mynd:

Þetta svar er fengið úr bókinni Íslenskar bókmenntir: Saga og samhengi, Hið íslenska bókmenntafélag, Reykjavík 2021. Textinn er lítillega aðlagaður Vísindavefnum.

Höfundur

Aðalheiður Guðmundsdóttir

prófessor í íslenskum bókmenntum fyrri alda

Útgáfudagur

7.6.2023

Spyrjandi

Kristín Káradóttir

Tilvísun

Aðalheiður Guðmundsdóttir. „Hver konar kvæði er Lilja sem Eysteinn Ásgrímsson á að hafa ort?“ Vísindavefurinn, 7. júní 2023. Sótt 28. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=69411.

Aðalheiður Guðmundsdóttir. (2023, 7. júní). Hver konar kvæði er Lilja sem Eysteinn Ásgrímsson á að hafa ort? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=69411

Aðalheiður Guðmundsdóttir. „Hver konar kvæði er Lilja sem Eysteinn Ásgrímsson á að hafa ort?“ Vísindavefurinn. 7. jún. 2023. Vefsíða. 28. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=69411>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hver konar kvæði er Lilja sem Eysteinn Ásgrímsson á að hafa ort?
Eysteinn Ásgrímsson (d. 1361) er talinn höfundur Lilju, eins merkasta helgikvæðis sem samið hefur verið á íslensku. Lilja er svokölluð heimssögudrápa þar sem höfundur færir okkur heimssögu kristninnar í bundnu máli frá sköpun heims og fram á dómsdag. Eins og aðrar drápur einkennist Lilja af kvæðaforminu sem skiptist í þrennt; upphaf, stefjabálk og slæm. Upphaf drápu er eins konar inngangur sem nær fram að fyrsta stefi. Með fyrsta stefi hefst stefjabálkurinn (stundum nefndur stefjamál) sem er meginkafli kvæðisins og einkennist af því að stef eða nokkurs konar viðlög (ýmist vísa eða hluti úr vísu) eru endurtekin með jöfnu millibili. Þegar stefjabálki er lokið, það er stefin og vísurnar á milli þeirra, tekur við slæmur, sem er lokakafli kvæðisins, án stefja. Í Lilju er upphafið 25 erindi, stefjabálkurinn 50 erindi og slæmurinn 25 erindi. Kvæðið er því alls 100 erindi og ort undir hrynhendum hætti sem einkennist af átta vísuorðum og átta atkvæðum í hverju.

Myndmál Lilju er fjölbreytt og tilheyrir því litríka skáldamáli sem heita má dæmigert fyrir þann blæ sem einkenndi helgikvæði á síðmiðöldum. Í 89. erindi kvæðisins sjáum við dæmi um það hvernig skáldið notar algengar líkingar á borð við dúfu, geisla og gimstein í ávarpi sínu til heilagrar Maríu:

Þú ert hreinlífis dygðar dúfa, / dóttir guðs og lækning sótta, / giftu vegur og geisli lofta, / gimsteinn brúða og drottning himna, / guðs herbergi og gleyming sorga, / gleðinnar past og eyðing lasta / líknar æður og lífgan þjóða, / lofleg mær, þú ert englum hærri.[1]

Eins og þetta erindi er kvæðið allt mikið listaverk enda var lengi haft á orði að „allir vildu Lilju kveðið hafa“. Orðatiltækið gæti annaðhvort bent til þess að önnur skáld hafi reynt að stæla Lilju eða átt sér þann draum að geta ort á borð við Eystein munk.

Lilja er varðveitt í mörgum uppskriftum, hér í ungu pappírshandriti, ÍB 200 8vo, bl. 67v og 68r.

Ljóst er að Eysteinn var ekki einungis gott skáld heldur einnig hálærður. Þekking hans á öðrum kveðskap kemur fram í því að Lilja þykir að mörgu leyti hefðbundið helgikvæði þótt það sé á hinn bóginn sérlega vel ort. Ekki er vitað nákvæmlega hvaða ár Eysteinn orti Lilju en þar sem mikillar iðrunar gætir í kvæðinu gæti hann hafa ort það í afplánun sinni í Þykkvabæjarklaustri - að því gefnu að um sama mann sé að ræða. Bent hefur verið á að áhrifa frá Lilju gæti í Guðmundardrápu (Guðmundarkvæði biskups) eftir Arngrím Brandsson sem hann orti árið 1345 og muni Lilja þá væntanlega vera eldri. Það er engu að síður erfitt að útiloka þann möguleika að Eysteinn hafi orðið fyrir áhrifum frá Arngrími en ekki öfugt. Vegna yfirburða Lilju er þó yfirleitt talið að drápa Arngríms bergmáli hina. Af öðrum kvæðum sem hafa greinilega orðið fyrir áhrifum frá Lilju má nefna Guðmundardrápu eftir Árna Jónsson (d. e. 1379) ábóta á Munkaþverá. Þriðja skáldið, Einar Gilsson (d. 1369), orti tvö kvæði um Guðmund biskup og af þessu má ljóst vera að Guðmundur hefur höfðað mjög til hinna lærðu skálda.

Um Eystein er fjallað nánar í svari við spurningunni Hver var Eysteinn Ásgrímsson sem talinn er höfundur helgikvæðisins Lilju?

Tilvísun:
  1. ^ Chase, Martin (útg.), „Anonymous, Lilja,“ Skaldic Poetry of the Scandinavian Middle Ages: Poetry on Christian Subjects II, Margaret Clunies Ross (ritstj.), Turnhout 2007, 662.

Mynd:

Þetta svar er fengið úr bókinni Íslenskar bókmenntir: Saga og samhengi, Hið íslenska bókmenntafélag, Reykjavík 2021. Textinn er lítillega aðlagaður Vísindavefnum....