Sólin Sólin Rís 05:08 • sest 21:44 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 08:47 • Síðdegis: 21:08 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 02:49 • Síðdegis: 14:50 í Reykjavík

Hver er munurinn á tilgátu og kenningu í vísindum?

Finnur Dellsén

Sumum staðhæfingum sem vísindin fjalla um er lýst sem kenningum; öðrum er lýst sem tilgátum. Ekki er alltaf gerður skýr greinarmunur á þessu tvennu enda eru þessi hugtök sjaldnast skilgreind nákvæmlega í vísindunum sjálfum. Vísindamenn sjálfir eru nefnilega ekkert endilega að velta fyrir sér hvort það sem þeir setja fram í greinum eða á öðrum vettvangi sé tilgáta eða kenning. En þegar þessi greinarmunur á tilgátum og kenningum er á annað borð settur fram er það yfirleitt í tvennskonar tilgangi.

Í fyrra lagi til að gera greinarmun á hreinni ágiskun og staðfestri staðhæfingu í vísindum. Tilgáta er þá notað um staðhæfingu sem einhver vísindamaður hefur sett fram sem mögulegt svar við tiltekinni rannsóknarspurningu án þess endilega að hafa nokkuð fyrir sér í þeim efnum að svo stöddu. Tilgangurinn með að setja fram slíka tilgátu er ekki að sannfæra nokkurn mann um að hún sé sönn, heldur að varpa fram hugmynd sem síðan er hægt að staðfesta eða hrekja með vísindalegum aðferðum. Kenning væri þá á hinn bóginn notað um staðhæfingar sem hafa verið prófaðar með vísindalegum hætti, til dæmis í tilraunum eða með kerfisbundnum athugunum, og reynst standast þessi próf. Því má segja að í þessum skilningi breytist tilgáta í kenningu ef og þegar hún er staðfest með vísindalegum hætti.

Vísindamenn eru ekkert endilega að velta því fyrir sér hvort það sem þeir setja fram í greinum eða á öðrum vettvangi sé tilgáta eða kenning.

Í öðru lagi er stundum gerður greinarmunur á tilgátum og kenningum til að vísa til misumfangsmikilla staðhæfinga í vísindum. Tilgáta er þá staðhæfing um tiltölulega afmarkað eða einstakt fyrirbæri en kenning almennari eða kerfisbundnari staðhæfing eða safn staðhæfinga. Staðhæfingar um þyngd sólarinnar eða þróunarfræðilegan uppruna tiltekinnar dýrategundar væru þá dæmi um tilgátur, en almennari staðhæfingar um þyngdarkrafta milli hluta almennt (svo sem hin almenna afstæðiskenning Einsteins) eða uppruna og þróun allra dýrategunda (svo sem þróunarkenning Darwins) væru dæmi um kenningar. Þegar orðin tilgáta og kenning eru notuð í þessum skilningi eru engin skýr mörk milli þess hvað teljist til tilgátna og kenninga almennt heldur ræðst það af samhenginu hverju sinni.

Því má segja að munurinn á tilgátu og kenningu geti annars vegar snúist um hvort viðkomandi staðhæfing sé staðfest eða rökstudd með vísindalegum hætti, og hins vegar um hvort staðhæfingin sé nægilega umfangsmikil eða almenn. Langur vegur er frá því að þetta tvennt fari alltaf saman. Sumar staðhæfingar sem eru mjög vel staðfestar fjalla um afmörkuð fyrirbæri, svo sem staðhæfingin um að manneskjur og apar eigi sér sameiginlegan forföður. Eins gildir að sumar mjög almennar staðhæfingar eru afar illa staðfestar, svo sem sú staðhæfing smáskammtalækna að styrkja megi áhrif virkra efna með því að þynna þau óhemju mikið. Ef gerður er greinarmunur á tilgátum og kenningum er því mikilvægt að hafa vel í huga hvaða mun er átt við. Af þessu sést líka að hugtökin tilgáta og kenning eru ekki bara notuð af vísindamönnunum sjálfum, eða um það sem vísindin fjalla, heldur getur hver sem er beitt þeim og þá í ýmiskonar tilgangi sem fellur ekkert endilega undir vísindalegar aðferðir.

Mynd:

Spurningin hljóðaði upphaflega svona:

Lýsir Vísindavefurinn því einhvers staðar, hver sé munur á tilgátu og kenningu? Leitaði og fann ekki.

Er Vísindavefurinn sammála framsetningu á: https://is.wikipedia.org/wiki/V%C3%ADsindi og https://is.wikipedia.org/wiki/Tilg%C3%A1ta?

Ástæða spurninga: Algengt er, að fyrsta hugdetta einhvers um eitthvert málefni sé nefnd kenning.

Kv/TBÓ

Höfundur

Finnur Dellsén

dósent í heimspeki

Útgáfudagur

31.1.2019

Spyrjandi

Tómas Björn Ólafsson

Tilvísun

Finnur Dellsén. „Hver er munurinn á tilgátu og kenningu í vísindum?“ Vísindavefurinn, 31. janúar 2019. Sótt 28. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=76990.

Finnur Dellsén. (2019, 31. janúar). Hver er munurinn á tilgátu og kenningu í vísindum? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=76990

Finnur Dellsén. „Hver er munurinn á tilgátu og kenningu í vísindum?“ Vísindavefurinn. 31. jan. 2019. Vefsíða. 28. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=76990>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hver er munurinn á tilgátu og kenningu í vísindum?
Sumum staðhæfingum sem vísindin fjalla um er lýst sem kenningum; öðrum er lýst sem tilgátum. Ekki er alltaf gerður skýr greinarmunur á þessu tvennu enda eru þessi hugtök sjaldnast skilgreind nákvæmlega í vísindunum sjálfum. Vísindamenn sjálfir eru nefnilega ekkert endilega að velta fyrir sér hvort það sem þeir setja fram í greinum eða á öðrum vettvangi sé tilgáta eða kenning. En þegar þessi greinarmunur á tilgátum og kenningum er á annað borð settur fram er það yfirleitt í tvennskonar tilgangi.

Í fyrra lagi til að gera greinarmun á hreinni ágiskun og staðfestri staðhæfingu í vísindum. Tilgáta er þá notað um staðhæfingu sem einhver vísindamaður hefur sett fram sem mögulegt svar við tiltekinni rannsóknarspurningu án þess endilega að hafa nokkuð fyrir sér í þeim efnum að svo stöddu. Tilgangurinn með að setja fram slíka tilgátu er ekki að sannfæra nokkurn mann um að hún sé sönn, heldur að varpa fram hugmynd sem síðan er hægt að staðfesta eða hrekja með vísindalegum aðferðum. Kenning væri þá á hinn bóginn notað um staðhæfingar sem hafa verið prófaðar með vísindalegum hætti, til dæmis í tilraunum eða með kerfisbundnum athugunum, og reynst standast þessi próf. Því má segja að í þessum skilningi breytist tilgáta í kenningu ef og þegar hún er staðfest með vísindalegum hætti.

Vísindamenn eru ekkert endilega að velta því fyrir sér hvort það sem þeir setja fram í greinum eða á öðrum vettvangi sé tilgáta eða kenning.

Í öðru lagi er stundum gerður greinarmunur á tilgátum og kenningum til að vísa til misumfangsmikilla staðhæfinga í vísindum. Tilgáta er þá staðhæfing um tiltölulega afmarkað eða einstakt fyrirbæri en kenning almennari eða kerfisbundnari staðhæfing eða safn staðhæfinga. Staðhæfingar um þyngd sólarinnar eða þróunarfræðilegan uppruna tiltekinnar dýrategundar væru þá dæmi um tilgátur, en almennari staðhæfingar um þyngdarkrafta milli hluta almennt (svo sem hin almenna afstæðiskenning Einsteins) eða uppruna og þróun allra dýrategunda (svo sem þróunarkenning Darwins) væru dæmi um kenningar. Þegar orðin tilgáta og kenning eru notuð í þessum skilningi eru engin skýr mörk milli þess hvað teljist til tilgátna og kenninga almennt heldur ræðst það af samhenginu hverju sinni.

Því má segja að munurinn á tilgátu og kenningu geti annars vegar snúist um hvort viðkomandi staðhæfing sé staðfest eða rökstudd með vísindalegum hætti, og hins vegar um hvort staðhæfingin sé nægilega umfangsmikil eða almenn. Langur vegur er frá því að þetta tvennt fari alltaf saman. Sumar staðhæfingar sem eru mjög vel staðfestar fjalla um afmörkuð fyrirbæri, svo sem staðhæfingin um að manneskjur og apar eigi sér sameiginlegan forföður. Eins gildir að sumar mjög almennar staðhæfingar eru afar illa staðfestar, svo sem sú staðhæfing smáskammtalækna að styrkja megi áhrif virkra efna með því að þynna þau óhemju mikið. Ef gerður er greinarmunur á tilgátum og kenningum er því mikilvægt að hafa vel í huga hvaða mun er átt við. Af þessu sést líka að hugtökin tilgáta og kenning eru ekki bara notuð af vísindamönnunum sjálfum, eða um það sem vísindin fjalla, heldur getur hver sem er beitt þeim og þá í ýmiskonar tilgangi sem fellur ekkert endilega undir vísindalegar aðferðir.

Mynd:

Spurningin hljóðaði upphaflega svona:

Lýsir Vísindavefurinn því einhvers staðar, hver sé munur á tilgátu og kenningu? Leitaði og fann ekki.

Er Vísindavefurinn sammála framsetningu á: https://is.wikipedia.org/wiki/V%C3%ADsindi og https://is.wikipedia.org/wiki/Tilg%C3%A1ta?

Ástæða spurninga: Algengt er, að fyrsta hugdetta einhvers um eitthvert málefni sé nefnd kenning.

Kv/TBÓ

...