Sólin Sólin Rís 06:49 • sest 19:56 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 20:38 • Sest 24:58 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 03:07 • Síðdegis: 15:47 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 09:22 • Síðdegis: 22:14 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 06:49 • sest 19:56 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 20:38 • Sest 24:58 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 03:07 • Síðdegis: 15:47 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 09:22 • Síðdegis: 22:14 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Er þróunarkenningin bara kenning eða er hún staðreynd?

Steindór J. Erlingsson

Hér er einnig að finna svar við spurningunum:
  • Er þróunarkenningin ennþá kenning, eða á eftir að sanna einhvern hluta hennar?
  • Hvernig er hægt að sanna að þróunarkenning Darwins sé rétt?
  • Telst þróunarkenningin nægilega sönnuð til þess að vera talin staðreynd, eða eins nálægt sannleikanum og við komumst?
Athugasemd ritstjóra:

Þar sem margir spyrjendur virðast gefa sér þá forsendu að hlutverk vísinda sé að „sanna“ tiltekin atriði, í þessu tilfelli þróunarkenninguna, bendum við einnig á svar Þorsteins Vilhjálmssonar við spurningunni Hvað eru hindurvitni? Þar er meðal annars sagt frá hugmyndum heimspekingsins Karls Poppers um að megineinkenni vísinda sé ekki sannanleikinn, heldur frekar það að vísindalegar niðurstöður séu hrekjanlegar.



Þróunarkenningin er einhver farsælasta vísindakenning sem fram hefur komið og hefur sem slík staðið af sér fleiri óveður en aðrar vísindakenningar. En dagleg notkun á hugtakinu „þróunarkenning“ er eilítið villandi því að tvær hugmyndir liggja því til grundvallar. Annars vegar er um að ræða hið almenna viðhorf að lífið hafi þróast og hins vegar á hvern hátt þróunin átti sér stað. Báðar þessar hugmyndir hafa þróast frá því að vera tilgátur upp í það að verða kenningar.

Þegar vísindamenn takast á við eitthvert vandmál setja þeir fram tilgátu, sem gjarnan kallast H0-tilgáta, og framkvæma síðan tilraunir eða athuganir sem annað hvort staðfesta eða hrekja tilgátuna. Því fleiri próf sem H0-tilgátan stenst þeim mun sterkari verður hún og á endanum nær tilgátan þeirri stöðu innan vísindasamfélagsins að hún verður að kenningu.

Tilgátur geta þó náð því að verða kenningar á undraskömmum tíma ef þær standast það sem kallast grundvallartilraun/athugun. Gott dæmi um þetta er almenna afstæðiskenning Einsteins. Þegar Einstein setti hana fram árið 1916 hafði hann aðeins örfáar tilraunir eða athuganir til að styðja sitt mál og var hugmyndin því tilgáta. Ein mikilvægasta forsögn tilgátunnar var að ljósgeisli ætti að sveigja að þungum hlut, eins og til dæmis stjörnu, sem hægt var að kanna með beinni athugun. Þetta var gert árið 1919 í frægum leiðangri breska stjörnufræðingsins Arthurs Eddingtons og stóðst tilgáta Einsteins þessa grundvallarathugun og hefur síðan verið kölluð afstæðiskenning.

Viðfangsefni líffræðinnar eru annars eðlis en vandamálin sem eðlisfræðin fæst við og er því sjaldan hægt að beita grundvallarathugun/tilraun til þess að varpa líffræðitilgátu upp á stall kenningar. Slíkt er einungis hægt með endurteknum tilraunum og athugunum yfir langan tíma. Saga þróunarhugmyndarinnar, sem nær aftur til upphafs 19. aldar, er gott dæmi um þetta.

Árið 1809 setti franski líffræðingurinn J. B. Lamarck fyrstur manna fram á skipulegan hátt tilgátuna um að lífið hafi þróast ásamt tilgátu um hvernig þróunin hafi átt sér stað. Hugmyndum hans var almennt illa tekið enda voru þróunarhugmyndir líffræðinga á þessum tíma nátengdar hugmyndum róttækra upplýsingarhugsuða um lýðræðislega þróun samfélagsins. Eftir því sem leið á nítjándu öldina söfnuðust upp vísbendingar sem styrktu þróunarhugmyndina í sessi og hún komst upp á stall kenningar 50 árum eftir að Lamarck kynnti hugmyndir sínar. Þetta gerðist með útkomu Uppruna tegundanna eftir Charles Darwin árið 1859, en með þessari bók sannfærðust flestir samtímamenn Darwins um að lífið á jörðinni hafi í raun þróast á löngum tíma. Þróunartilgátan varð því að þróunarkenningu á árunum eftir útkomu bókar Darwins. Hið sama átti hins ekki við um tilgátu Darwins um orsök þróunarinnar.

Darwin skýrði orsök þróunarinnar sem svo að hver einstaklingur fæðist með ákveðið erfðaupplag og að einungis þeir einstaklingar sem eru aðlagaðir umhverfinu á hverjum tíma og geta af sér flest afkvæmi lifa af. Þetta er kjarninn í tilgátu Darwins um náttúruval, sem var í grundvallarmótsögn við tilgátu Lamarcks er fól í sér að allar lífverur á hverjum tíma geta aðlagað sig að breytingum í umhverfinu. Ef hálslengd gíraffans er tekin sem dæmi fól kenning Darwins í sér að einungis þeir einstaklingar sem fæddust með langan háls lifðu af meðan kenning Lamarcks fól í sér að hálslengd allra gíraffa lengdist eftir því sem þeir þurftu að teygja sig lengra til að ná í fæðu. Þessar tvær tilgátur tókust á um stuðning líffræðinga á síðari hluta nítjándu aldar án þess að nokkur niðurstaða fengist.

Þessi mynd flæktist enn frekar árið 1900 er erfðalögmál Mendels voru enduruppgötvuð, því erfðafræði Mendels virtist fyrst um sinn vera í mótsögn við tilgátu Darwins um náttúruval auk þess sem hún stangaðist illilega á við hugmyndir Lamarcks. En er leið á tuttugustu öldina áttuðu líffræðingar sig á því að náttúruvalstilgáta Darwins og erfðalögmál Mendels voru samrýmanleg sem leiddi til „nýja samrunans“ á fjórða og fimmta áratug síðustu aldar, sem færði tilgátu Darwins upp á stall kenningar.

Tilgátan um náttúruval stóð því af sér óveðrið sem erfðafræði Mendels orsakaði. Almenna hugmyndin um þróun lífsins og tilgáta Darwins um náttúruval stóðust einnig þau próf sem sameindaerfðafræðibyltingin, er hófst með uppgötvun Watsons og Cricks á lögun erfðaefnisins DNA árið 1953, lagði fyrir þessar grundvallarhugmyndir líffræðinnar. Nægir hér að geta þess að vitneskjan um að nánast allar lífverur á jörðinni hafa DNA sem erfðaefni benda til þess að lífið á jörðinni sé allt komið af einni rót. Kenningin um að lífið hafi þróast er einhver best staðfesta vísindakenning sem um getur og sækir hún stuðning í allar undirgreinar líffræðinnar sem og margar af helstu greinum jarðfræðinnar.

Kenningin um náttúruval hefur ekki náð þessum sessi en hún er besta hugmyndin sem völ er á um orsakir þróunar lífsins á jörðinni. Þrátt fyrir þennan sterka sess sem þessar tvær kenningar hafa ber að hafa í huga að vísindakenningar eru í eðli sínu ekki endanlegur sannleikur, en í þessu tilfelli virðumst við vera ansi nálægt því sem satt getur talist. Endanlegur sannleikur er hins vegar viðfangsefni frumspeki og guðfræði.

Höfundur

doktor í vísindasagnfræði

Útgáfudagur

26.11.2004

Spyrjandi

Andri Þórarinsson
Hanna Líba Grosman
Elías Þorsteinn Elíasson
Helgi Guðnason

Tilvísun

Steindór J. Erlingsson. „Er þróunarkenningin bara kenning eða er hún staðreynd?“ Vísindavefurinn, 26. nóvember 2004, sótt 14. september 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=4630.

Steindór J. Erlingsson. (2004, 26. nóvember). Er þróunarkenningin bara kenning eða er hún staðreynd? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=4630

Steindór J. Erlingsson. „Er þróunarkenningin bara kenning eða er hún staðreynd?“ Vísindavefurinn. 26. nóv. 2004. Vefsíða. 14. sep. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=4630>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Er þróunarkenningin bara kenning eða er hún staðreynd?
Hér er einnig að finna svar við spurningunum:

  • Er þróunarkenningin ennþá kenning, eða á eftir að sanna einhvern hluta hennar?
  • Hvernig er hægt að sanna að þróunarkenning Darwins sé rétt?
  • Telst þróunarkenningin nægilega sönnuð til þess að vera talin staðreynd, eða eins nálægt sannleikanum og við komumst?
Athugasemd ritstjóra:

Þar sem margir spyrjendur virðast gefa sér þá forsendu að hlutverk vísinda sé að „sanna“ tiltekin atriði, í þessu tilfelli þróunarkenninguna, bendum við einnig á svar Þorsteins Vilhjálmssonar við spurningunni Hvað eru hindurvitni? Þar er meðal annars sagt frá hugmyndum heimspekingsins Karls Poppers um að megineinkenni vísinda sé ekki sannanleikinn, heldur frekar það að vísindalegar niðurstöður séu hrekjanlegar.



Þróunarkenningin er einhver farsælasta vísindakenning sem fram hefur komið og hefur sem slík staðið af sér fleiri óveður en aðrar vísindakenningar. En dagleg notkun á hugtakinu „þróunarkenning“ er eilítið villandi því að tvær hugmyndir liggja því til grundvallar. Annars vegar er um að ræða hið almenna viðhorf að lífið hafi þróast og hins vegar á hvern hátt þróunin átti sér stað. Báðar þessar hugmyndir hafa þróast frá því að vera tilgátur upp í það að verða kenningar.

Þegar vísindamenn takast á við eitthvert vandmál setja þeir fram tilgátu, sem gjarnan kallast H0-tilgáta, og framkvæma síðan tilraunir eða athuganir sem annað hvort staðfesta eða hrekja tilgátuna. Því fleiri próf sem H0-tilgátan stenst þeim mun sterkari verður hún og á endanum nær tilgátan þeirri stöðu innan vísindasamfélagsins að hún verður að kenningu.

Tilgátur geta þó náð því að verða kenningar á undraskömmum tíma ef þær standast það sem kallast grundvallartilraun/athugun. Gott dæmi um þetta er almenna afstæðiskenning Einsteins. Þegar Einstein setti hana fram árið 1916 hafði hann aðeins örfáar tilraunir eða athuganir til að styðja sitt mál og var hugmyndin því tilgáta. Ein mikilvægasta forsögn tilgátunnar var að ljósgeisli ætti að sveigja að þungum hlut, eins og til dæmis stjörnu, sem hægt var að kanna með beinni athugun. Þetta var gert árið 1919 í frægum leiðangri breska stjörnufræðingsins Arthurs Eddingtons og stóðst tilgáta Einsteins þessa grundvallarathugun og hefur síðan verið kölluð afstæðiskenning.

Viðfangsefni líffræðinnar eru annars eðlis en vandamálin sem eðlisfræðin fæst við og er því sjaldan hægt að beita grundvallarathugun/tilraun til þess að varpa líffræðitilgátu upp á stall kenningar. Slíkt er einungis hægt með endurteknum tilraunum og athugunum yfir langan tíma. Saga þróunarhugmyndarinnar, sem nær aftur til upphafs 19. aldar, er gott dæmi um þetta.

Árið 1809 setti franski líffræðingurinn J. B. Lamarck fyrstur manna fram á skipulegan hátt tilgátuna um að lífið hafi þróast ásamt tilgátu um hvernig þróunin hafi átt sér stað. Hugmyndum hans var almennt illa tekið enda voru þróunarhugmyndir líffræðinga á þessum tíma nátengdar hugmyndum róttækra upplýsingarhugsuða um lýðræðislega þróun samfélagsins. Eftir því sem leið á nítjándu öldina söfnuðust upp vísbendingar sem styrktu þróunarhugmyndina í sessi og hún komst upp á stall kenningar 50 árum eftir að Lamarck kynnti hugmyndir sínar. Þetta gerðist með útkomu Uppruna tegundanna eftir Charles Darwin árið 1859, en með þessari bók sannfærðust flestir samtímamenn Darwins um að lífið á jörðinni hafi í raun þróast á löngum tíma. Þróunartilgátan varð því að þróunarkenningu á árunum eftir útkomu bókar Darwins. Hið sama átti hins ekki við um tilgátu Darwins um orsök þróunarinnar.

Darwin skýrði orsök þróunarinnar sem svo að hver einstaklingur fæðist með ákveðið erfðaupplag og að einungis þeir einstaklingar sem eru aðlagaðir umhverfinu á hverjum tíma og geta af sér flest afkvæmi lifa af. Þetta er kjarninn í tilgátu Darwins um náttúruval, sem var í grundvallarmótsögn við tilgátu Lamarcks er fól í sér að allar lífverur á hverjum tíma geta aðlagað sig að breytingum í umhverfinu. Ef hálslengd gíraffans er tekin sem dæmi fól kenning Darwins í sér að einungis þeir einstaklingar sem fæddust með langan háls lifðu af meðan kenning Lamarcks fól í sér að hálslengd allra gíraffa lengdist eftir því sem þeir þurftu að teygja sig lengra til að ná í fæðu. Þessar tvær tilgátur tókust á um stuðning líffræðinga á síðari hluta nítjándu aldar án þess að nokkur niðurstaða fengist.

Þessi mynd flæktist enn frekar árið 1900 er erfðalögmál Mendels voru enduruppgötvuð, því erfðafræði Mendels virtist fyrst um sinn vera í mótsögn við tilgátu Darwins um náttúruval auk þess sem hún stangaðist illilega á við hugmyndir Lamarcks. En er leið á tuttugustu öldina áttuðu líffræðingar sig á því að náttúruvalstilgáta Darwins og erfðalögmál Mendels voru samrýmanleg sem leiddi til „nýja samrunans“ á fjórða og fimmta áratug síðustu aldar, sem færði tilgátu Darwins upp á stall kenningar.

Tilgátan um náttúruval stóð því af sér óveðrið sem erfðafræði Mendels orsakaði. Almenna hugmyndin um þróun lífsins og tilgáta Darwins um náttúruval stóðust einnig þau próf sem sameindaerfðafræðibyltingin, er hófst með uppgötvun Watsons og Cricks á lögun erfðaefnisins DNA árið 1953, lagði fyrir þessar grundvallarhugmyndir líffræðinnar. Nægir hér að geta þess að vitneskjan um að nánast allar lífverur á jörðinni hafa DNA sem erfðaefni benda til þess að lífið á jörðinni sé allt komið af einni rót. Kenningin um að lífið hafi þróast er einhver best staðfesta vísindakenning sem um getur og sækir hún stuðning í allar undirgreinar líffræðinnar sem og margar af helstu greinum jarðfræðinnar.

Kenningin um náttúruval hefur ekki náð þessum sessi en hún er besta hugmyndin sem völ er á um orsakir þróunar lífsins á jörðinni. Þrátt fyrir þennan sterka sess sem þessar tvær kenningar hafa ber að hafa í huga að vísindakenningar eru í eðli sínu ekki endanlegur sannleikur, en í þessu tilfelli virðumst við vera ansi nálægt því sem satt getur talist. Endanlegur sannleikur er hins vegar viðfangsefni frumspeki og guðfræði....