Sólin Sólin Rís 05:12 • sest 21:41 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 08:09 • Síðdegis: 20:27 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 02:12 • Síðdegis: 14:14 í Reykjavík

Hvað er merkilegt við prentsmiðjuna í Hrappsey á 18. öld og hvers konar rit voru prentuð þar?

Sveinn Yngvi Egilsson

Frá því að prentverk var fyrst flutt til Íslands um 1530 höfðu kirkjunnar menn - með biskupinn á Hólum í fararbroddi - stjórnað bókaútgáfu í landinu og að vonum lagt höfuðáherslu á trúarleg rit. Einokun kirkjunnar á prentun bóka var ekki aflétt fyrr en 1773 með stofnun prentsmiðju i Hrappsey á Breiðafirði og urðu þá tímamót í útgáfu veraldlegra rita á Íslandi. Fyrir daga Hrappseyjarprents höfðu Íslendingar fengið ýmis rit af því tagi gefin út í Danmörku og þar höfðu nýlega komið út bækur sem sættu tíðindum. Árið 1772 var Ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Páls sonar (1719-1779) prentuð í Sórey á Sjálandi (Rejse igennem Island). Sama ár leit fyrsta útgáfa Brennu-Njáls sögu dagsins ljós í Kaupmannahöfn (Sagan af Njáli Þorgeirssyni og sonum hans) og var umsjónarmaður hennar Ólafur Olavius (Ólafur Ólafsson, 1741-1788).

Í Hrappsey voru prentuð 83 rit, flest veraldlegs eðlis, en trúarrit sem komu þar út má telja á fingrum annarrar handar enda var markmiðið að skemmta og fræða í anda upplýsingarinnar. Eyjan er í mynni Hvammsfjarðar og um sjö kílómetra norðaustur af Stykkishólmi. Þar var lengi búseta enda góð fjárbeit í eynni og mikil dún- og fuglatekja. Bóndinn í Hrappsey, Bogi Benediktsson (1723-1803), var fjárhagslegur bakhjarl prentsmiðjunnar en frumkvæðið að stofnun hennar átti Njáluútgefandinn og lærdómsmaðurinn Ólafur Olavius. Olavius hafði umsjón með prentsmiðjunni í Hrappsey fyrsta árið en fór til Danmerkur 1774 og eftir það var hún einkum í umsjón Magnúsar Ketilssonar sýslumanns í Dölum (um 1732-1803). Reksturinn gekk illa þegar fram í sótti og þá einkum í kjölfar móðuharðindanna 1783-1785 þegar erfitt var að halda úti prentsmiðju og menningarstarfi vegna harðæris. Prentsmiðjan starfaði í rúma tvo áratugi eða til 1794. Hún var svo flutt til Leirárgarða í Borgarfirði 1795 og þar stóðu Magnús Stephensen (1762-1833) og Landsuppfræðingarfélagið (stofnað 1794) fyrir margvíslegri útgáfu. Árið 1814 var prentsmiðjan flutt að Beitistöðum í Borgarfirði og svo út í Viðey, þar sem hún var starfrækt 1819-1844, fyrst á vegum Magnúsar en síðan tók við rekstrinum sonur hans Ólafur Stephensen (1791-1872).

Prentsmiðja. Mynd úr Frönsku alfræðinni frá síðari hluta 18. aldar.

Meðal ritanna sem prentuð voru í Hrappsey voru lögbækur, rímur, kvæði, fræðslurit, annálar og Íslendingasögur; Egla kom þar út 1782 og áform voru um útgáfu á fleiri fornum sögum. Þar var enn fremur gefið út fyrsta íslenska tímaritið, Islandske Maanedstidender, sem reyndar var skrifað á dönsku og einkum ætlað þeim mörgu áskrifendum útgáfunnar sem búsettir voru í Danmörku.

Þau fjölmörgu fræðslurit sem prentuð voru í Hrappsey miðuðu einkum að því að upplýsa þjóðina og stuðla að framförum á Íslandi í samræmi við stefnumið upplýsingarinnar. Eitt af þessum ritum var Atli eður ráðagjörðir yngismanns um búnað sinn, helst um jarðar- og kvikfjárrækt, atferð og ágóða, með andsvari gamals bónda, samanskrifað fyrir fátækis frumbýlinga (1780, 2. útgáfa 1783) eftir séra Björn Halldórsson (1724-1794). Búnaðarbálkur eftir Eggert Ólafsson kom út í Hrappsey 1783 og einnig fyrstu veraldlegu ljóðin sem fengust prentuð á Íslandi að höfundi liðnum. Að lokum má nefna að fyrsta þýdda barnabókin, Sumargjöf handa börnum, kom út 1795 eftir að prentverkið hafði verið flutt að Leirárgörðum í Borgarfirði.

Mynd:

Þetta svar er fengið úr bókinni Íslenskar bókmenntir: Saga og samhengi, Hið íslenska bókmenntafélag, Reykjavík 2021. Textinn er lítillega aðlagaður Vísindavefnum.

Höfundur

Sveinn Yngvi Egilsson

prófessor í íslenskum bókmenntum

Útgáfudagur

16.11.2022

Spyrjandi

Fjóla Þórisdóttir, ritstjórn

Tilvísun

Sveinn Yngvi Egilsson. „Hvað er merkilegt við prentsmiðjuna í Hrappsey á 18. öld og hvers konar rit voru prentuð þar?“ Vísindavefurinn, 16. nóvember 2022. Sótt 27. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=84310.

Sveinn Yngvi Egilsson. (2022, 16. nóvember). Hvað er merkilegt við prentsmiðjuna í Hrappsey á 18. öld og hvers konar rit voru prentuð þar? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=84310

Sveinn Yngvi Egilsson. „Hvað er merkilegt við prentsmiðjuna í Hrappsey á 18. öld og hvers konar rit voru prentuð þar?“ Vísindavefurinn. 16. nóv. 2022. Vefsíða. 27. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=84310>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvað er merkilegt við prentsmiðjuna í Hrappsey á 18. öld og hvers konar rit voru prentuð þar?
Frá því að prentverk var fyrst flutt til Íslands um 1530 höfðu kirkjunnar menn - með biskupinn á Hólum í fararbroddi - stjórnað bókaútgáfu í landinu og að vonum lagt höfuðáherslu á trúarleg rit. Einokun kirkjunnar á prentun bóka var ekki aflétt fyrr en 1773 með stofnun prentsmiðju i Hrappsey á Breiðafirði og urðu þá tímamót í útgáfu veraldlegra rita á Íslandi. Fyrir daga Hrappseyjarprents höfðu Íslendingar fengið ýmis rit af því tagi gefin út í Danmörku og þar höfðu nýlega komið út bækur sem sættu tíðindum. Árið 1772 var Ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Páls sonar (1719-1779) prentuð í Sórey á Sjálandi (Rejse igennem Island). Sama ár leit fyrsta útgáfa Brennu-Njáls sögu dagsins ljós í Kaupmannahöfn (Sagan af Njáli Þorgeirssyni og sonum hans) og var umsjónarmaður hennar Ólafur Olavius (Ólafur Ólafsson, 1741-1788).

Í Hrappsey voru prentuð 83 rit, flest veraldlegs eðlis, en trúarrit sem komu þar út má telja á fingrum annarrar handar enda var markmiðið að skemmta og fræða í anda upplýsingarinnar. Eyjan er í mynni Hvammsfjarðar og um sjö kílómetra norðaustur af Stykkishólmi. Þar var lengi búseta enda góð fjárbeit í eynni og mikil dún- og fuglatekja. Bóndinn í Hrappsey, Bogi Benediktsson (1723-1803), var fjárhagslegur bakhjarl prentsmiðjunnar en frumkvæðið að stofnun hennar átti Njáluútgefandinn og lærdómsmaðurinn Ólafur Olavius. Olavius hafði umsjón með prentsmiðjunni í Hrappsey fyrsta árið en fór til Danmerkur 1774 og eftir það var hún einkum í umsjón Magnúsar Ketilssonar sýslumanns í Dölum (um 1732-1803). Reksturinn gekk illa þegar fram í sótti og þá einkum í kjölfar móðuharðindanna 1783-1785 þegar erfitt var að halda úti prentsmiðju og menningarstarfi vegna harðæris. Prentsmiðjan starfaði í rúma tvo áratugi eða til 1794. Hún var svo flutt til Leirárgarða í Borgarfirði 1795 og þar stóðu Magnús Stephensen (1762-1833) og Landsuppfræðingarfélagið (stofnað 1794) fyrir margvíslegri útgáfu. Árið 1814 var prentsmiðjan flutt að Beitistöðum í Borgarfirði og svo út í Viðey, þar sem hún var starfrækt 1819-1844, fyrst á vegum Magnúsar en síðan tók við rekstrinum sonur hans Ólafur Stephensen (1791-1872).

Prentsmiðja. Mynd úr Frönsku alfræðinni frá síðari hluta 18. aldar.

Meðal ritanna sem prentuð voru í Hrappsey voru lögbækur, rímur, kvæði, fræðslurit, annálar og Íslendingasögur; Egla kom þar út 1782 og áform voru um útgáfu á fleiri fornum sögum. Þar var enn fremur gefið út fyrsta íslenska tímaritið, Islandske Maanedstidender, sem reyndar var skrifað á dönsku og einkum ætlað þeim mörgu áskrifendum útgáfunnar sem búsettir voru í Danmörku.

Þau fjölmörgu fræðslurit sem prentuð voru í Hrappsey miðuðu einkum að því að upplýsa þjóðina og stuðla að framförum á Íslandi í samræmi við stefnumið upplýsingarinnar. Eitt af þessum ritum var Atli eður ráðagjörðir yngismanns um búnað sinn, helst um jarðar- og kvikfjárrækt, atferð og ágóða, með andsvari gamals bónda, samanskrifað fyrir fátækis frumbýlinga (1780, 2. útgáfa 1783) eftir séra Björn Halldórsson (1724-1794). Búnaðarbálkur eftir Eggert Ólafsson kom út í Hrappsey 1783 og einnig fyrstu veraldlegu ljóðin sem fengust prentuð á Íslandi að höfundi liðnum. Að lokum má nefna að fyrsta þýdda barnabókin, Sumargjöf handa börnum, kom út 1795 eftir að prentverkið hafði verið flutt að Leirárgörðum í Borgarfirði.

Mynd:

Þetta svar er fengið úr bókinni Íslenskar bókmenntir: Saga og samhengi, Hið íslenska bókmenntafélag, Reykjavík 2021. Textinn er lítillega aðlagaður Vísindavefnum.

...