Ásgrindin samanstendur af höfði, hrygg og brjóstkassa. Í höfðinu eru 28 bein, átta í höfðukúpunni sjálfri en afgangurinn eru andlitsbein, bein í miðeyra og málbeinið. Höfuðið tengist svo hryggnum eða hryggsúlunni, sem samanstendur af 32 hryggjarliðum. Þeir umlykja og verja mænuna. Frá hryggjarliðunum liggja 12 pör af rifbeinum sem tengjast bringubeini að framan.
Limagrindin tengist ásgrindinni við axlir og mjaðmir. Herðarnar hafa tvö flöt bein (herðablöð) sem tengjast bringubeininu með viðbeini. Þess má til gamans geta að viðbeinið er það bein sem oftast brotnar hjá fólki. Handleggirnir, sem hvor um sig hafa 30 bein, tengjast herðunum. Mjaðmagrindin er nokkurs konar skál og tengir efri hluta líkamans við fæturna sem halda líkamsþunganum uppi. Í hvorum fæti og fótlegg eru 32 bein.
Heimild:
Peter H. Raven, George B. Johnson, 1995. Understanding Biology, 3.útgáfa. Dubuque: Wm. C. Brown Publishers.
Mynd: MPIRE: Massively Parallel Interactive Rendering Environment