Sólin Sólin Rís 05:43 • sest 21:13 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 13:37 • Sest 06:11 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 02:59 • Síðdegis: 15:47 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 09:39 • Síðdegis: 21:50 í Reykjavík

Hvenær varð fyrsti íslenski fjölmiðillinn til og hvenær hóf hann starfsemi sína?

Gunnar Karlsson (1939-2019)

Um leið og við svörum því þurfum við að gera upp við okkur hvað við meinum með orðinu fjölmiðill. Hægt væri að leika sér að því að segja að förukonurnar sem segir frá í Njáls sögu og báru fréttir á milli bæja hafi verið fjölmiðlar síns tíma, eða að lóan sé sá fjölmiðill sem boði Íslendingum komu vorsins. En þá erum við að tala líkingamál; í alvöru köllum við þau tæki ein fjölmiðla sem eru manngerð til að miðla upplýsingum til fjölda fólks, gera það með nokkurri tækni, ekki eldri eða frumstæðari en prenttækni, og gera það reglulega. Þannig köllum við eina sérstaka bók ekki fjölmiðil, en um leið og við erum komin með prentgrip sem kemur aftur og aftur með sama heiti og hlaupandi tölum, þá er þar væntanlega kominn fjölmiðill. Kannski þarf þó að vera einhver lágmarksfjölbreytni í efni miðils til þess að við könnumst við hann sem fjölmiðil. Ekki mundum við telja símaskrána til fjölmiðla nú, nema hálfgert í gríni.

Fyrsta íslenska ritið sem uppfyllir þessi skilyrði nokkurn veginn er Alþingisbókin sem kom í fyrsta sinn út, prentuð í Skálholti, 1696-97. Síðan varð nokkurt hlé á að Alþingisbók væri prentuð; næst kom út bók um þingið 1704 svo 1713-16, og eftir það falla aldrei úr nema fá ár í senn meðan Alþingi hið forna var haldið á Þingvöllum, fram undir aldamótin 1800. Alþingisbókin var nokkurs konar lögbirtingarblað; þar komu ný lög og tilskipanir, auk dóma yfir einstaklingum sem voru dæmdir á þinginu.

Ef lesendum þykir efni Alþingisbókar of sérhæft til þess að taka hana gilda sem fjölmiðil komum við næst að tímaritinu Islandske Maaneds-Tidender sem hóf göngu sína í Hrappsey á Breiðafirði árið 1773. Fyrsta heftið var kennt við októbermánuð, 16 blaðsíðna langt í smáu bókarbroti, skrifað á dönsku, eins og titillinn bendir til. Þetta var fréttamiðill; á blaðsíðu 1 á eftir titli kemur einfaldlega fyrirsögnin „Nyheder” (Fréttir) og undirtitillinn „Fra Sönderlandet” (Frá Suðurlandi). Á 6. blaðsíðu er svo komið að fréttum frá Norðurlandi og síðan úr öðrum landsfjórðungum. Íslensk mánaðartíðindi komu út mánaðarlega í þrjú ár og voru prentuð í Hrappsey fram á þriðja árið, en síðan í Kaupmannahöfn. Þar luku þau göngu sinni með septemberhefti 1776.

Prentsmiðja var stofnuð í Hrappsey árið 1773 að frumkvæði Ólafs nokkurs Ólafssonar sem kallaði sig Olavius og kom víða við framfaramál Íslendinga á 18. öld. Samstarfsmaður hans og eigandi prentsmiðjunnar lengst af var bóndinn í Hrappsey, Bogi Benediktsson, en nánasti samstarfsmaður hans var Magnús Ketilsson sýslumaður, og mun hann hafa ritstýrt Mánaðartíðindunum. Til að koma prentsmiðjunni á legg hafði verið safnað framlögum frá mönnum í Danmörku; handa þeim voru Mánaðartíðindin gefin út og þess vegna á dönsku.

Litlu síðar fóru að koma út tímarit á íslensku, bæði í Kaupmannahöfn og á Íslandi. Fyrst eru Rit þess Konúngliga íslenzka Lærdóms-Lista Félags sem komu út árlega í Kaupmannahöfn 1781-98. En fyrsti fréttamiðillinn á íslensku var kallaður Íslensk sagnablöð og gefinn út af Hinu íslenska bókmenntafélagi í Kaupmannahöfn 1817-26. Síðan tók Skírnir við af sagnablöðunum og flutti Íslendingum erlendar fréttir einu sinni á ári. Heima á Íslandi var Reykjavíkurpósturinn, 1846-49, nokkurs konar undanfari blaða, gefinn út mánaðarlega, 16 blaðsíður í hvert skipti, með efni svipuðu því sem einkenndi blöð 19. aldar, en brotið var enn þá bókarbrot. Fyrsta ritið sem tekur á sig greinilega blaðsmynd, brot á við stórt tímaritsbrot, uppsetningu í dálkum, úgáfutíma hálfsmánaðarlega og eftir nokkur ár vikulega, var Þjóðólfur, sem fór að koma út í Reykjavík árið 1848. Síðan er þróunin óslitin til dagblaða okkar tíma.

Sjálfsagt er að lesendur velji sér hvert þessara rita þeir vilja kalla fyrsta íslenska fjölmiðilinn. En ætti ég að velja yrðu það Islandske Maaneds-Tidender.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Mynd:

Höfundur

Gunnar Karlsson (1939-2019)

prófessor emeritus í sagnfræði við HÍ

Útgáfudagur

15.6.2001

Spyrjandi

Einar Hafliðason, f. 1985

Tilvísun

Gunnar Karlsson (1939-2019). „Hvenær varð fyrsti íslenski fjölmiðillinn til og hvenær hóf hann starfsemi sína?“ Vísindavefurinn, 15. júní 2001. Sótt 18. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=1707.

Gunnar Karlsson (1939-2019). (2001, 15. júní). Hvenær varð fyrsti íslenski fjölmiðillinn til og hvenær hóf hann starfsemi sína? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=1707

Gunnar Karlsson (1939-2019). „Hvenær varð fyrsti íslenski fjölmiðillinn til og hvenær hóf hann starfsemi sína?“ Vísindavefurinn. 15. jún. 2001. Vefsíða. 18. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=1707>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvenær varð fyrsti íslenski fjölmiðillinn til og hvenær hóf hann starfsemi sína?
Um leið og við svörum því þurfum við að gera upp við okkur hvað við meinum með orðinu fjölmiðill. Hægt væri að leika sér að því að segja að förukonurnar sem segir frá í Njáls sögu og báru fréttir á milli bæja hafi verið fjölmiðlar síns tíma, eða að lóan sé sá fjölmiðill sem boði Íslendingum komu vorsins. En þá erum við að tala líkingamál; í alvöru köllum við þau tæki ein fjölmiðla sem eru manngerð til að miðla upplýsingum til fjölda fólks, gera það með nokkurri tækni, ekki eldri eða frumstæðari en prenttækni, og gera það reglulega. Þannig köllum við eina sérstaka bók ekki fjölmiðil, en um leið og við erum komin með prentgrip sem kemur aftur og aftur með sama heiti og hlaupandi tölum, þá er þar væntanlega kominn fjölmiðill. Kannski þarf þó að vera einhver lágmarksfjölbreytni í efni miðils til þess að við könnumst við hann sem fjölmiðil. Ekki mundum við telja símaskrána til fjölmiðla nú, nema hálfgert í gríni.

Fyrsta íslenska ritið sem uppfyllir þessi skilyrði nokkurn veginn er Alþingisbókin sem kom í fyrsta sinn út, prentuð í Skálholti, 1696-97. Síðan varð nokkurt hlé á að Alþingisbók væri prentuð; næst kom út bók um þingið 1704 svo 1713-16, og eftir það falla aldrei úr nema fá ár í senn meðan Alþingi hið forna var haldið á Þingvöllum, fram undir aldamótin 1800. Alþingisbókin var nokkurs konar lögbirtingarblað; þar komu ný lög og tilskipanir, auk dóma yfir einstaklingum sem voru dæmdir á þinginu.

Ef lesendum þykir efni Alþingisbókar of sérhæft til þess að taka hana gilda sem fjölmiðil komum við næst að tímaritinu Islandske Maaneds-Tidender sem hóf göngu sína í Hrappsey á Breiðafirði árið 1773. Fyrsta heftið var kennt við októbermánuð, 16 blaðsíðna langt í smáu bókarbroti, skrifað á dönsku, eins og titillinn bendir til. Þetta var fréttamiðill; á blaðsíðu 1 á eftir titli kemur einfaldlega fyrirsögnin „Nyheder” (Fréttir) og undirtitillinn „Fra Sönderlandet” (Frá Suðurlandi). Á 6. blaðsíðu er svo komið að fréttum frá Norðurlandi og síðan úr öðrum landsfjórðungum. Íslensk mánaðartíðindi komu út mánaðarlega í þrjú ár og voru prentuð í Hrappsey fram á þriðja árið, en síðan í Kaupmannahöfn. Þar luku þau göngu sinni með septemberhefti 1776.

Prentsmiðja var stofnuð í Hrappsey árið 1773 að frumkvæði Ólafs nokkurs Ólafssonar sem kallaði sig Olavius og kom víða við framfaramál Íslendinga á 18. öld. Samstarfsmaður hans og eigandi prentsmiðjunnar lengst af var bóndinn í Hrappsey, Bogi Benediktsson, en nánasti samstarfsmaður hans var Magnús Ketilsson sýslumaður, og mun hann hafa ritstýrt Mánaðartíðindunum. Til að koma prentsmiðjunni á legg hafði verið safnað framlögum frá mönnum í Danmörku; handa þeim voru Mánaðartíðindin gefin út og þess vegna á dönsku.

Litlu síðar fóru að koma út tímarit á íslensku, bæði í Kaupmannahöfn og á Íslandi. Fyrst eru Rit þess Konúngliga íslenzka Lærdóms-Lista Félags sem komu út árlega í Kaupmannahöfn 1781-98. En fyrsti fréttamiðillinn á íslensku var kallaður Íslensk sagnablöð og gefinn út af Hinu íslenska bókmenntafélagi í Kaupmannahöfn 1817-26. Síðan tók Skírnir við af sagnablöðunum og flutti Íslendingum erlendar fréttir einu sinni á ári. Heima á Íslandi var Reykjavíkurpósturinn, 1846-49, nokkurs konar undanfari blaða, gefinn út mánaðarlega, 16 blaðsíður í hvert skipti, með efni svipuðu því sem einkenndi blöð 19. aldar, en brotið var enn þá bókarbrot. Fyrsta ritið sem tekur á sig greinilega blaðsmynd, brot á við stórt tímaritsbrot, uppsetningu í dálkum, úgáfutíma hálfsmánaðarlega og eftir nokkur ár vikulega, var Þjóðólfur, sem fór að koma út í Reykjavík árið 1848. Síðan er þróunin óslitin til dagblaða okkar tíma.

Sjálfsagt er að lesendur velji sér hvert þessara rita þeir vilja kalla fyrsta íslenska fjölmiðilinn. En ætti ég að velja yrðu það Islandske Maaneds-Tidender.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Mynd:...