Sólin Sólin Rís 05:26 • sest 21:28 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:24 • Sest 05:22 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 06:10 • Síðdegis: 18:30 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 00:11 • Síðdegis: 12:20 í Reykjavík

Hvað eru falsfréttir?

Finnur Dellsén

Í stuttu máli má segja að falsfréttir séu fréttir sem með einhverjum hætti standast ekki þær kröfur sem almennt eru gerðar til frétta og annarra upplýsinga sem aðrir láta okkur í té. Falsfréttir eru ekki einhlítt fyrirbæri því við gerum ýmsar ólíkar kröfur til slíkra upplýsinga: Fréttir eiga að vera sannar, þær eiga ekki að byggjast á lygum, þær eiga að vera vel rökstuddar, og þær eiga helst ekki að vera villandi eða misvísandi. Falsfréttir eru þá fréttir sem ekki standast kröfur af þessu tagi. Við skulum skoða þetta aðeins nánar.

Ein tegund falsfrétta eru ósannar fréttir. Slíkar falsfréttir eru ekki í samræmi við veruleikann sem þær eiga að lýsa. Ef blaðamaður Dagblaðsins skrifar að Jóna hafi stolið kökunni í gær, en í raun var það Nonni sem framdi verknaðinn, þá er frétt Dagblaðsins ósönn. Ætla má að allir fjölmiðlar segi ósannar fréttir endrum og sinnum, til dæmis fyrir misskilning, vegna mannlegra mistaka eða vegna þess að heimildarmenn þeirra gætu verið að segja ósatt. Því er ekki endilega við blaðamann Dagblaðsins að sakast að fréttin reyndist vera einskonar falsfrétt í þessu dæmi.

Ef blaðamaður Dagblaðsins skrifar að Jóna hafi stolið kökunni í gær, en í raun var það Nonni sem framdi verknaðinn, þá er frétt Dagblaðsins ósönn.

Önnur tegund falsfrétta eru lygafréttir. Slíkar falsfréttir byggjast á lygum þeirra sem segja fréttirnar. Lygi er það þegar einhver segir eitthvað sem viðkomandi telur vera ósatt. Að ljúga er ekki það sama og að segja ósatt, meðal annars vegna þess að lygin getur reynst vera sönn þótt lygarinn ætli sér að segja ósatt. Ef blaðamaður Dagblaðsins veit mætavel að Jóna stal ekki kökunni en skrifar samt að svo hafi verið, þá er er um að ræða lygafrétt. Í tilfelli lygafrétta liggur sökin hjá fjölmiðlafólkinu sjálfu, því þá er fjölmiðlafólkið sjálft að fullyrða eitthvað gegn betri vitund.

Þriðja tegund falsfrétta eru órökstuddar fréttir. Í slíkum falsfréttum er einhverju haldið fram sem fréttaveitendurnir hafa ekki nægilega góða ástæðu til að telja satt. Ef blaðamaður Dagblaðsins hefur til dæmis engar upplýsingar um hver gæti hafa stolið kökunni en fullyrðir samt að Jóna hafi stolið henni þá er um órökstudda frétt að ræða. Af þessu dæmi sést að órökstuddar fréttir eru ekki endilega ósannar fréttir, því Jóna gæti hafa stolið kökunni í þessu dæmi. Einnig sést að órökstuddar fréttir eru ekki endilega lygafréttir, því blaðamaðurinn gæti jafnframt talið að Jóna hafi stolið kökunni.

Loks má nefna fjórðu tegund falsfrétta, villandi fréttir. Slíkar fréttir eru vísvitandi hannaðar til þess að fá fólk til að trúa einhverjum ósannindum án þess að neitt sem í fréttinni stendur sé endilega beinlínis ósatt, logið eða órökstutt. Villandi fréttir eru sumsé vísvitandi misvísandi. Til dæmis getum við ímyndað okkur að blaðamaður Dagblaðsins setti flennistóra mynd af Jónu undir fyrirsögninni „Hver stal kökunni?“ og útlistaði svo í meðfylgjandi frétt ýmsar kenningar um það hvernig Jóna hefði getað farið að því að stela kökunni, án þess að minnast orði á að Nonni hefði allt eins getað stolið kökunni með sambærilegum hætti. Fullyrðingar Dagblaðsins væru þá ekki endilega ósannar, lygar eða órökstuddar, en fréttin í heild sinni væri verulega villandi.

Mynd frá fjöldamótmælum í Kaupmannahöfn vegna loftslagsráðstefnu sem þar var haldin í desember 2009. Brotist var inn í tölvupóstkerfi loftslagsvísindafólks nokkrum vikum fyrir þá ráðstefnuna.

Eitt raunverulegt dæmi af falsfrétt af þessu tagi – villandi frétt – er fjölmiðlamál sem kallað hefur verið „Climategate“. Árið 2009 var brotist inn í tölvupóstkerfi loftslagsvísindafólks við Háskólann í Austur-Anglíu og upplýsingar úr tölvupóstunum komust í kjölfarið í hendur fólks sem hafði lýst yfir efasemdum um loftslagsbreytingar af mannavöldum. Þessu efasemdarfólki tókst að finna ýmsar tilvitnanir í tölvupóstunum sem hljóma grunsamlega, svo sem fullyrðingar loftslagsvísindamannsins Phil Jones um að hægt væri að „fela minnkun“ (e. „hide the decline“) í hitastig með því að beita „brellu“ (e. „trick“). Þegar betur er að gáð var Jones einfaldlega að segja frá því að hann hefði notað áreiðanlegri aðferð við hitastigsmælingar undanfarinna ára í þeim tilfellum sem vitað er að aðrar mælingaaðferðir eru óáreiðanlegar. Engu að síður voru þessar villandi tilvitnanir í Jones birtar í fjölmörgum fjölmiðlum, án samhengis og útskýringar á því hvað Jones var í reynd að segja. Samkvæmt bandarískri rannsókn sem gerð var í kjölfarið dró verulega úr tiltrú almennings til loftslagsbreytingar og trausti til loftslagsvísindafólks vegna fréttanna af „Climategate“.[1]

Allar tegundir falsfrétta – ósannar fréttir, lygafréttir, órökstuddar fréttir og villandi fréttir – eru óæskilegar. En eins og tæpt hefur verið á hér að ofan eru þær líka ólíkar að mörgu leyti. Til dæmis er tæpast hægt að draga fréttafólk til ábyrgðar fyrir að segja falsfréttir þegar aðeins er um ósannar fréttir að ræða, en öðru máli gegnir um lygafréttir, órökstuddar fréttir og villandi fréttir. Á undanförnum árum hafa sprottið upp ýmis samtök og fyrirtæki sem eiga að vinna gegn falsfréttum með því að koma auga á ósannar og órökstuddar fréttir, til dæmis Snopes.com og FactCheck.org. Þessar tilraunir eru lofsverðar og mikilvægar til að taka á mörgum tegundum falsfrétta en erfitt gæti reynst að nota slík tæki til að vinna gegn villandi fréttum, enda eru þær vísvitandi hannaðar til að afvegaleiða fólk án þess að innihalda ósannar fullyrðingar.

Tilvísun:
  1. ^ Leiserowitz, Anthony A., Edward W. MaibachConnie Roser-RenoufNicholas Smith og Erica Dawson. 2013. „Climategate, Public Opinion, and the Loss of Trust“, American Behavioral Scientist 57: 818–837.

Myndir:

Höfundur

Finnur Dellsén

dósent í heimspeki

Útgáfudagur

17.3.2020

Spyrjandi

Ritstjórn

Tilvísun

Finnur Dellsén. „Hvað eru falsfréttir?“ Vísindavefurinn, 17. mars 2020. Sótt 23. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=78865.

Finnur Dellsén. (2020, 17. mars). Hvað eru falsfréttir? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=78865

Finnur Dellsén. „Hvað eru falsfréttir?“ Vísindavefurinn. 17. mar. 2020. Vefsíða. 23. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=78865>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvað eru falsfréttir?

Í stuttu máli má segja að falsfréttir séu fréttir sem með einhverjum hætti standast ekki þær kröfur sem almennt eru gerðar til frétta og annarra upplýsinga sem aðrir láta okkur í té. Falsfréttir eru ekki einhlítt fyrirbæri því við gerum ýmsar ólíkar kröfur til slíkra upplýsinga: Fréttir eiga að vera sannar, þær eiga ekki að byggjast á lygum, þær eiga að vera vel rökstuddar, og þær eiga helst ekki að vera villandi eða misvísandi. Falsfréttir eru þá fréttir sem ekki standast kröfur af þessu tagi. Við skulum skoða þetta aðeins nánar.

Ein tegund falsfrétta eru ósannar fréttir. Slíkar falsfréttir eru ekki í samræmi við veruleikann sem þær eiga að lýsa. Ef blaðamaður Dagblaðsins skrifar að Jóna hafi stolið kökunni í gær, en í raun var það Nonni sem framdi verknaðinn, þá er frétt Dagblaðsins ósönn. Ætla má að allir fjölmiðlar segi ósannar fréttir endrum og sinnum, til dæmis fyrir misskilning, vegna mannlegra mistaka eða vegna þess að heimildarmenn þeirra gætu verið að segja ósatt. Því er ekki endilega við blaðamann Dagblaðsins að sakast að fréttin reyndist vera einskonar falsfrétt í þessu dæmi.

Ef blaðamaður Dagblaðsins skrifar að Jóna hafi stolið kökunni í gær, en í raun var það Nonni sem framdi verknaðinn, þá er frétt Dagblaðsins ósönn.

Önnur tegund falsfrétta eru lygafréttir. Slíkar falsfréttir byggjast á lygum þeirra sem segja fréttirnar. Lygi er það þegar einhver segir eitthvað sem viðkomandi telur vera ósatt. Að ljúga er ekki það sama og að segja ósatt, meðal annars vegna þess að lygin getur reynst vera sönn þótt lygarinn ætli sér að segja ósatt. Ef blaðamaður Dagblaðsins veit mætavel að Jóna stal ekki kökunni en skrifar samt að svo hafi verið, þá er er um að ræða lygafrétt. Í tilfelli lygafrétta liggur sökin hjá fjölmiðlafólkinu sjálfu, því þá er fjölmiðlafólkið sjálft að fullyrða eitthvað gegn betri vitund.

Þriðja tegund falsfrétta eru órökstuddar fréttir. Í slíkum falsfréttum er einhverju haldið fram sem fréttaveitendurnir hafa ekki nægilega góða ástæðu til að telja satt. Ef blaðamaður Dagblaðsins hefur til dæmis engar upplýsingar um hver gæti hafa stolið kökunni en fullyrðir samt að Jóna hafi stolið henni þá er um órökstudda frétt að ræða. Af þessu dæmi sést að órökstuddar fréttir eru ekki endilega ósannar fréttir, því Jóna gæti hafa stolið kökunni í þessu dæmi. Einnig sést að órökstuddar fréttir eru ekki endilega lygafréttir, því blaðamaðurinn gæti jafnframt talið að Jóna hafi stolið kökunni.

Loks má nefna fjórðu tegund falsfrétta, villandi fréttir. Slíkar fréttir eru vísvitandi hannaðar til þess að fá fólk til að trúa einhverjum ósannindum án þess að neitt sem í fréttinni stendur sé endilega beinlínis ósatt, logið eða órökstutt. Villandi fréttir eru sumsé vísvitandi misvísandi. Til dæmis getum við ímyndað okkur að blaðamaður Dagblaðsins setti flennistóra mynd af Jónu undir fyrirsögninni „Hver stal kökunni?“ og útlistaði svo í meðfylgjandi frétt ýmsar kenningar um það hvernig Jóna hefði getað farið að því að stela kökunni, án þess að minnast orði á að Nonni hefði allt eins getað stolið kökunni með sambærilegum hætti. Fullyrðingar Dagblaðsins væru þá ekki endilega ósannar, lygar eða órökstuddar, en fréttin í heild sinni væri verulega villandi.

Mynd frá fjöldamótmælum í Kaupmannahöfn vegna loftslagsráðstefnu sem þar var haldin í desember 2009. Brotist var inn í tölvupóstkerfi loftslagsvísindafólks nokkrum vikum fyrir þá ráðstefnuna.

Eitt raunverulegt dæmi af falsfrétt af þessu tagi – villandi frétt – er fjölmiðlamál sem kallað hefur verið „Climategate“. Árið 2009 var brotist inn í tölvupóstkerfi loftslagsvísindafólks við Háskólann í Austur-Anglíu og upplýsingar úr tölvupóstunum komust í kjölfarið í hendur fólks sem hafði lýst yfir efasemdum um loftslagsbreytingar af mannavöldum. Þessu efasemdarfólki tókst að finna ýmsar tilvitnanir í tölvupóstunum sem hljóma grunsamlega, svo sem fullyrðingar loftslagsvísindamannsins Phil Jones um að hægt væri að „fela minnkun“ (e. „hide the decline“) í hitastig með því að beita „brellu“ (e. „trick“). Þegar betur er að gáð var Jones einfaldlega að segja frá því að hann hefði notað áreiðanlegri aðferð við hitastigsmælingar undanfarinna ára í þeim tilfellum sem vitað er að aðrar mælingaaðferðir eru óáreiðanlegar. Engu að síður voru þessar villandi tilvitnanir í Jones birtar í fjölmörgum fjölmiðlum, án samhengis og útskýringar á því hvað Jones var í reynd að segja. Samkvæmt bandarískri rannsókn sem gerð var í kjölfarið dró verulega úr tiltrú almennings til loftslagsbreytingar og trausti til loftslagsvísindafólks vegna fréttanna af „Climategate“.[1]

Allar tegundir falsfrétta – ósannar fréttir, lygafréttir, órökstuddar fréttir og villandi fréttir – eru óæskilegar. En eins og tæpt hefur verið á hér að ofan eru þær líka ólíkar að mörgu leyti. Til dæmis er tæpast hægt að draga fréttafólk til ábyrgðar fyrir að segja falsfréttir þegar aðeins er um ósannar fréttir að ræða, en öðru máli gegnir um lygafréttir, órökstuddar fréttir og villandi fréttir. Á undanförnum árum hafa sprottið upp ýmis samtök og fyrirtæki sem eiga að vinna gegn falsfréttum með því að koma auga á ósannar og órökstuddar fréttir, til dæmis Snopes.com og FactCheck.org. Þessar tilraunir eru lofsverðar og mikilvægar til að taka á mörgum tegundum falsfrétta en erfitt gæti reynst að nota slík tæki til að vinna gegn villandi fréttum, enda eru þær vísvitandi hannaðar til að afvegaleiða fólk án þess að innihalda ósannar fullyrðingar.

Tilvísun:
  1. ^ Leiserowitz, Anthony A., Edward W. MaibachConnie Roser-RenoufNicholas Smith og Erica Dawson. 2013. „Climategate, Public Opinion, and the Loss of Trust“, American Behavioral Scientist 57: 818–837.

Myndir:...