Sólin Sólin Rís 05:36 • sest 21:19 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 16:44 • Sest 05:50 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 04:37 • Síðdegis: 17:05 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:57 • Síðdegis: 23:09 í Reykjavík

Af hverju bulla stjórnmálamenn svona mikið?

Ólafur Páll Jónsson

Spurningin gerir ráð fyrir því að stjórnmálamenn bulli mikið. Um það kunna að vera skiptar skoðanir, því ekki er alltaf ljóst hvað er bull og hvað ekki. Auk þess kunna að vera skiptar skoðanir um það hvað sé lítið eða hæfilegt bull og hvað sé mikið.

Heimspekingurinn Harry Frankfurt hefur gefið út lítið kver sem heitir einfaldlega On Bullshit, það er um bull. Í þessari bók leitast Frankfurt við að skilgreina hugtakið „bullshit“ og jafnframt leita skýringa á því hvers vegna samtíminn, ekki bara stjórnmálin, einkennist jafn mikið af bulli og raun ber vitni. Frankfurt lýsir ástandinu svona:

Eitt af því sem einkennir menningu okkar er hversu mikið er af bulli. Allir vita þetta. Hvert og eitt okkar leggur til sinn skerf. En við virðumst taka ástandinu sem gefnu.

Bull og lygi

Frankfurt veltir talsvert fyrir sér muninum á bulli og lygum, því sá sem bullar segir ekki satt og virðist auk þess oft vera að blekkja áheyrendur. Skoðum dæmi til skýringar. Formaður stjórnmálaflokks ávarpaði flokksfélaga á landsfundi og sagði þá meðal annars: „við höfum ekkert að óttast nema óttann sjálfan“. Þetta er augljóslega ósatt. Auðvitað er margt sem fólk ætti að óttast. Fólk ætti til dæmis að óttast að gráðugir og siðlausir menn taki fjármál þjóðarinnar í sínar hendur, að óábyrgir og skammsýnir stjórnmálamenn spilli náttúrunni með óafturkræfum hætti, að hlýnun jarðar valdi meiriháttar hörmungum hjá milljónum manna, og þannig mætti lengi telja. Það er samt ekki rétt að líta svo á að formaðurinn hafi verið að ljúga að flokksfélögum sínum – það sem hann sagði var of augljóslega ósatt. Það sem stjórnmálamaðurinn sagði hafði vissulega yfirbragð þess að hann væri að lýsa staðreynd – þeirri staðreynd að ekkert væri að óttast – en samt er í raun ekki hægt að skilja orð hans þannig. Nær er að líta svo á að orð stjórnmálamannsins hafi verið algerlega ótengd viðmiðum um sannleika og lygi, það er að hann hafi verið að bulla. Bullið er oft lyginni líkt, en samt án þess að vera beinlínis lygi.

Það skýrir vafalaust hluta af bulli um stjórnmál að margir finna sig knúna til að tjá sig um pólitísk málefni án þess þó að hafa alltaf vit á þeim. Þessi ástæða skýrir þó ekki hvers vegna atvinnustjórnmálamenn, sem hafa aðgang að margvíslegum sérfræðingum og upplýsingaveitum, ganga jafnvel lengst í bullinu.

Í venjulegri lygi er villt til um tvennt. Sá sem lýgur því á þriðjudegi að það sé miðvikudagur, hann (i) lýsir ranglega því hvaða dagur er og (ii) villir um fyrir áheyrendum sínum um hvaða dagur hann heldur að sé. Bullarinn gerir þetta ekki og því er hans fyrirætlun önnur en lygarans. Við sjáum þetta vel ef við skoðum tilvitnunina í ávarp stjórnmálamannsins. Stjórnmálamaðurinn var ekki að reyna að telja fólki trú um að ekkert væri að óttast. Þótt yfirbragð orða hans hafi verið eins og hann væri að lýsa staðreyndum, þá voru orð hans í raun algerlega ótengd veruleikanum. Hann var ekki að segja neitt um veruleikann og ekki einu sinni að reyna að telja öðrum trú um að veruleikinn væri á einn veg frekar en annan. Frankfurt lýsir blekkingarleik bullarans með eftirfarandi orðum:

Bullarinn þarf ekki endilega að blekkja okkur, og það þarf ekki að hafa verið ætlun hans, hvorki um staðreyndirnar sjálfar eða um það hverjar hann telur staðreyndirnar vera. Það sem hann ætlar sér nauðsynlega að blekkja okkur um er fyrirætlun hans. Það eina sem ófrávíkjanlega einkennir hann er að hann lýsir ranglega hvað hann hyggst fyrir. (Frankfurt, 2005, bls. 54)

Hvers vegna er bullað í stjórnmálum?

En af hverju skyldi vera svona mikið bull í stjórnmálum? Undir lok bókar sinnar tilgreinir Frankfurt þrennskonar ástæður fyrir því að það skuli vera jafn mikið af bulli í samtímanum og raun ber vitni.

  1. Oft koma upp kringumstæður þar sem einhver neyðist til að tala um hluti sem hann hefur ekki vit á. Þá er bullið nærtækt því frekar en að fara með ósannindi kann að virðast skárra að segja eitthvað sem er algerlega ótengt nokkrum veruleika.
  2. Það er viðtekin skoðun að á borgurunum hvíli sú lýðræðislega ábyrgð að tjá sig um málefni þjóðarinnar. Hér kann það að gerast að krafan um að tjá sig verði yfirsterkari kröfunni um að tjá sig af viti og því grípi menn til bullsins.
  3. Ýmsir hafa neitað því að fólk hafi yfirleitt aðgang að hlutlægum veruleika og hafna þar af leiðandi þeirri hugmynd að hægt sé að vita hvernig hlutirnir eru í raun og veru. Þetta viðhorf kann að valda því að fólk geri ekki greinarmun á bulli annars vegar og lýsingum sem eiga að vera lýsingar á veruleika hins vegar.

Önnur ástæðan sem Frankfurt nefnir, sú að fólki finnist það nánast knúið til að tjá sig um pólitísk málefni án þess þó að hafa vit á þeim, skýrir vafalaust hluta af bullinu. En þessi ástæða skýrir ekki hvers vegna atvinnustjórnmálamenn ganga jafnvel lengst í bullinu, þrátt fyrir að hafa helgað sig stjórnmálunum, hafa jafnvel unnið á þeim vettvangi í fjölda ára, og hafa aðgang að margvíslegum sérfræðingum og upplýsingaveitum. Hvers vegna er bullið ekki bara leikmannsgaman, heldur alvara atvinnumannanna? Svars við þessari spurningu er kannski að finna í hugmyndum Georges Orwells, en hann segir á einum stað.

En að gangast við pólitískri ábyrgð nú á dögum þýðir því miður að maður beygir sig undir bókstafskreddur og „flokkslínur“, með öllu því hugleysi og þeirri óráðvendni sem það felur í sér. (Orwell, Stjórnmál og bókmenntir, bls. 293)

Orwell skýrir hér bullið með því að stjórnmálin ali á siðleysi af tilteknu tagi, það er hugleysi og óráðvendni, ekki síst óráðvendni í meðferð tungumálsins. Heimspekingurinn Calep Thompson greinir ástandið með eftirfarandi orðum:

Almennt talað þá er orðræðu stjórnmálanna ætlað að stýra skynjun fólks á aðstæðum á þann hátt sem samrýmist hagsmunum stjórnmálamannsins og flokki hans, hagsmunum sem þurfa ekki að vera samrýmanlegir hagsmunum áheyrenda. Slíkri orðræðu er ekki ætlað að kveikja hugleiðingar um mál, heldur frekar að losa þau undan þeirri kvöð að vera tekin til athugunar. Þegar verst gegnir er lítill eða engin áhugi á tengslum á milli þess sem talar og hvað hann segir, eða þess sem sagt er og þess hvernig hlutirnir eru. Nákvæmni tungumálsins er kastað fyrir áhrifamátt þess; sannleikurinn víkur fyrir metorðagirnd. (Thompson, „Philospohy and the corruption of language“, bls. 19)

Niðurstaðan er þá sú, að þau hlutverk tungumálsins að lýsa staðreyndum, miðla upplýsingum manna á milli, skiptast á skoðunum og fleira í líkum dúr víkja í stjórnmálunum fyrir blekkingarleikjum sem eru drifnir áfram af metorðagirnd. En það er samt skrítið að samskonar blekkingarleikir skuli ganga ár eftir ár, eins og fólki – kjósendum – sé ómögulegt að læra af reynslunni.

Heimildir:

  • Orwell, George. (2009). Stjórnmál og bókmenntir, íslensk þýðig eftir Ugga Jónsson, Hið íslenzka bókmenntafélag, Reykjavík.
  • Thompson, Calep. (1992). Philosophy and the corruption of language. Philosophy, 67, (259), bls. 19-31.

Mynd:

Höfundur

Ólafur Páll Jónsson

prófessor í heimspeki við HÍ

Útgáfudagur

11.3.2014

Spyrjandi

Ritstjórn

Tilvísun

Ólafur Páll Jónsson. „Af hverju bulla stjórnmálamenn svona mikið?“ Vísindavefurinn, 11. mars 2014. Sótt 20. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=67059.

Ólafur Páll Jónsson. (2014, 11. mars). Af hverju bulla stjórnmálamenn svona mikið? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=67059

Ólafur Páll Jónsson. „Af hverju bulla stjórnmálamenn svona mikið?“ Vísindavefurinn. 11. mar. 2014. Vefsíða. 20. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=67059>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Af hverju bulla stjórnmálamenn svona mikið?
Spurningin gerir ráð fyrir því að stjórnmálamenn bulli mikið. Um það kunna að vera skiptar skoðanir, því ekki er alltaf ljóst hvað er bull og hvað ekki. Auk þess kunna að vera skiptar skoðanir um það hvað sé lítið eða hæfilegt bull og hvað sé mikið.

Heimspekingurinn Harry Frankfurt hefur gefið út lítið kver sem heitir einfaldlega On Bullshit, það er um bull. Í þessari bók leitast Frankfurt við að skilgreina hugtakið „bullshit“ og jafnframt leita skýringa á því hvers vegna samtíminn, ekki bara stjórnmálin, einkennist jafn mikið af bulli og raun ber vitni. Frankfurt lýsir ástandinu svona:

Eitt af því sem einkennir menningu okkar er hversu mikið er af bulli. Allir vita þetta. Hvert og eitt okkar leggur til sinn skerf. En við virðumst taka ástandinu sem gefnu.

Bull og lygi

Frankfurt veltir talsvert fyrir sér muninum á bulli og lygum, því sá sem bullar segir ekki satt og virðist auk þess oft vera að blekkja áheyrendur. Skoðum dæmi til skýringar. Formaður stjórnmálaflokks ávarpaði flokksfélaga á landsfundi og sagði þá meðal annars: „við höfum ekkert að óttast nema óttann sjálfan“. Þetta er augljóslega ósatt. Auðvitað er margt sem fólk ætti að óttast. Fólk ætti til dæmis að óttast að gráðugir og siðlausir menn taki fjármál þjóðarinnar í sínar hendur, að óábyrgir og skammsýnir stjórnmálamenn spilli náttúrunni með óafturkræfum hætti, að hlýnun jarðar valdi meiriháttar hörmungum hjá milljónum manna, og þannig mætti lengi telja. Það er samt ekki rétt að líta svo á að formaðurinn hafi verið að ljúga að flokksfélögum sínum – það sem hann sagði var of augljóslega ósatt. Það sem stjórnmálamaðurinn sagði hafði vissulega yfirbragð þess að hann væri að lýsa staðreynd – þeirri staðreynd að ekkert væri að óttast – en samt er í raun ekki hægt að skilja orð hans þannig. Nær er að líta svo á að orð stjórnmálamannsins hafi verið algerlega ótengd viðmiðum um sannleika og lygi, það er að hann hafi verið að bulla. Bullið er oft lyginni líkt, en samt án þess að vera beinlínis lygi.

Það skýrir vafalaust hluta af bulli um stjórnmál að margir finna sig knúna til að tjá sig um pólitísk málefni án þess þó að hafa alltaf vit á þeim. Þessi ástæða skýrir þó ekki hvers vegna atvinnustjórnmálamenn, sem hafa aðgang að margvíslegum sérfræðingum og upplýsingaveitum, ganga jafnvel lengst í bullinu.

Í venjulegri lygi er villt til um tvennt. Sá sem lýgur því á þriðjudegi að það sé miðvikudagur, hann (i) lýsir ranglega því hvaða dagur er og (ii) villir um fyrir áheyrendum sínum um hvaða dagur hann heldur að sé. Bullarinn gerir þetta ekki og því er hans fyrirætlun önnur en lygarans. Við sjáum þetta vel ef við skoðum tilvitnunina í ávarp stjórnmálamannsins. Stjórnmálamaðurinn var ekki að reyna að telja fólki trú um að ekkert væri að óttast. Þótt yfirbragð orða hans hafi verið eins og hann væri að lýsa staðreyndum, þá voru orð hans í raun algerlega ótengd veruleikanum. Hann var ekki að segja neitt um veruleikann og ekki einu sinni að reyna að telja öðrum trú um að veruleikinn væri á einn veg frekar en annan. Frankfurt lýsir blekkingarleik bullarans með eftirfarandi orðum:

Bullarinn þarf ekki endilega að blekkja okkur, og það þarf ekki að hafa verið ætlun hans, hvorki um staðreyndirnar sjálfar eða um það hverjar hann telur staðreyndirnar vera. Það sem hann ætlar sér nauðsynlega að blekkja okkur um er fyrirætlun hans. Það eina sem ófrávíkjanlega einkennir hann er að hann lýsir ranglega hvað hann hyggst fyrir. (Frankfurt, 2005, bls. 54)

Hvers vegna er bullað í stjórnmálum?

En af hverju skyldi vera svona mikið bull í stjórnmálum? Undir lok bókar sinnar tilgreinir Frankfurt þrennskonar ástæður fyrir því að það skuli vera jafn mikið af bulli í samtímanum og raun ber vitni.

  1. Oft koma upp kringumstæður þar sem einhver neyðist til að tala um hluti sem hann hefur ekki vit á. Þá er bullið nærtækt því frekar en að fara með ósannindi kann að virðast skárra að segja eitthvað sem er algerlega ótengt nokkrum veruleika.
  2. Það er viðtekin skoðun að á borgurunum hvíli sú lýðræðislega ábyrgð að tjá sig um málefni þjóðarinnar. Hér kann það að gerast að krafan um að tjá sig verði yfirsterkari kröfunni um að tjá sig af viti og því grípi menn til bullsins.
  3. Ýmsir hafa neitað því að fólk hafi yfirleitt aðgang að hlutlægum veruleika og hafna þar af leiðandi þeirri hugmynd að hægt sé að vita hvernig hlutirnir eru í raun og veru. Þetta viðhorf kann að valda því að fólk geri ekki greinarmun á bulli annars vegar og lýsingum sem eiga að vera lýsingar á veruleika hins vegar.

Önnur ástæðan sem Frankfurt nefnir, sú að fólki finnist það nánast knúið til að tjá sig um pólitísk málefni án þess þó að hafa vit á þeim, skýrir vafalaust hluta af bullinu. En þessi ástæða skýrir ekki hvers vegna atvinnustjórnmálamenn ganga jafnvel lengst í bullinu, þrátt fyrir að hafa helgað sig stjórnmálunum, hafa jafnvel unnið á þeim vettvangi í fjölda ára, og hafa aðgang að margvíslegum sérfræðingum og upplýsingaveitum. Hvers vegna er bullið ekki bara leikmannsgaman, heldur alvara atvinnumannanna? Svars við þessari spurningu er kannski að finna í hugmyndum Georges Orwells, en hann segir á einum stað.

En að gangast við pólitískri ábyrgð nú á dögum þýðir því miður að maður beygir sig undir bókstafskreddur og „flokkslínur“, með öllu því hugleysi og þeirri óráðvendni sem það felur í sér. (Orwell, Stjórnmál og bókmenntir, bls. 293)

Orwell skýrir hér bullið með því að stjórnmálin ali á siðleysi af tilteknu tagi, það er hugleysi og óráðvendni, ekki síst óráðvendni í meðferð tungumálsins. Heimspekingurinn Calep Thompson greinir ástandið með eftirfarandi orðum:

Almennt talað þá er orðræðu stjórnmálanna ætlað að stýra skynjun fólks á aðstæðum á þann hátt sem samrýmist hagsmunum stjórnmálamannsins og flokki hans, hagsmunum sem þurfa ekki að vera samrýmanlegir hagsmunum áheyrenda. Slíkri orðræðu er ekki ætlað að kveikja hugleiðingar um mál, heldur frekar að losa þau undan þeirri kvöð að vera tekin til athugunar. Þegar verst gegnir er lítill eða engin áhugi á tengslum á milli þess sem talar og hvað hann segir, eða þess sem sagt er og þess hvernig hlutirnir eru. Nákvæmni tungumálsins er kastað fyrir áhrifamátt þess; sannleikurinn víkur fyrir metorðagirnd. (Thompson, „Philospohy and the corruption of language“, bls. 19)

Niðurstaðan er þá sú, að þau hlutverk tungumálsins að lýsa staðreyndum, miðla upplýsingum manna á milli, skiptast á skoðunum og fleira í líkum dúr víkja í stjórnmálunum fyrir blekkingarleikjum sem eru drifnir áfram af metorðagirnd. En það er samt skrítið að samskonar blekkingarleikir skuli ganga ár eftir ár, eins og fólki – kjósendum – sé ómögulegt að læra af reynslunni.

Heimildir:

  • Orwell, George. (2009). Stjórnmál og bókmenntir, íslensk þýðig eftir Ugga Jónsson, Hið íslenzka bókmenntafélag, Reykjavík.
  • Thompson, Calep. (1992). Philosophy and the corruption of language. Philosophy, 67, (259), bls. 19-31.

Mynd:...