Sólin Sólin Rís 05:15 • sest 21:38 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 01:18 • Sest 04:30 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:36 • Síðdegis: 19:53 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:39 • Síðdegis: 13:42 í Reykjavík

Af hverju heitir Nýja-Sjáland þessu nafni?

Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir

Hér er einnig svarað spurningunum:
  • Hvar er Sjálandið í nafninu Nýja-Sjáland?
  • Hvaðan fær Nýja-Sjáland nafnið sitt? Er það eitthvað tengt Sjálandi í Danmörku?

Árið 1642 kom hollenski sæfarinn og landkönnuðurinn Abel Janszoon Tasman fyrstur Evrópumanna auga á landið sem við þekkjum í dag undir nafninu Nýja-Sjáland. Það er útbreidd alþýðuskýring að Tasman hafi nefnt þetta nýja land eftir heimahéraði sínu, en Sjáland, eða Zeeland, er strandhérað í suðvesturhluta Hollands.

Það er rétt að Nýja-Sjáland er nefnt eftir Sjálandi í Hollandi en það var ekki Tasman sem gerði það og raunar hafði hann engin sérstök tengsl við héraðið. Í dagbók sinni kallaði Tasman landið sem hann fann Staten Landt því hann taldi að það gæti verið hluti af landi sem Jacob Le Maire uppgötvaði sunnan við meginland Suður-Ameríku árið 1616 og nefnt var Staten Landt.

Ári eftir að Tasman fann og nefndi hið nýja land Staten Landt sýndi Hendrik nokkur Brouwer fram á að hið upprunalega Staten Landt væri í raun eyja og gæti alls ekki teygt sig í átt að því svæði þar sem Tasman hafði verið á ferð. Því var ljóst að landið sem Tasman hafði uppgötvað væri ekki hluti Staten Landts og fljótlega var hætt að nota það nafn og nafnið Nieuw Zeeland á hollensku, eða Zeelandi Nova á latínu, kom í staðinn.



Ekki er hægt að segja nákvæmlega til um hvenær þessi nafnabreyting átti sér stað en flest bendir til þess að það hafi verið á tímabilinu 1644-1648. Á kortum sem gefin voru út skömmu eftir að Tasman fann Nýja-Sjáland er nafnið Staten Landt notað um svæðið sem hann uppgötvaði. Í Hollandi er hins vegar varðveitt hnattlíkan eftir Joannes Blaeu, kortagerðarmann hjá Hollenska Austur-Indía félaginu sem líklega er frá árinu 1648 eða 1650. Þar kemur nafnið „Zeelandia Nova“ fyrir. Nafnið kemur einnig fyrir á heimskorti sem Blaeu útbjó og er líklega frá árinu 1648.

Gömlu kort gefa sterka vísbendingu um hvenær Nýja-Sjáland fékk nafn sitt en erfiðara er að fá úr því skorið hvers vegna þetta nafn var valið frekar en eitthvað annað. Menn hafa getið sér þess til að uppruni nafnsins tengist því að vesturströnd Ástralíu og síðar Ástralía öll var á þessum árum nefnd „Nieuw Nederland“ eða „Hollandia Nova“. Það hafi því verið fullkomlega eðlilegt og rökrétt að nefna nýtt land í nágrenni „Nýja-Hollands“ eftir hollensku sjávarhéraði. Þessi ástæða nafngiftarinnar er þó aðeins tilgáta og líklega munum við aldrei vita fyrir víst hvers vegna þetta nafn var valið.

Þess má að lokum geta að eyjan Tasmanía við Ástralíu er nefnd eftir Abel Tasman en hann uppgötvaði hana í sama leiðangri og hann fann Nýja-Sjáland. Hann nefndi eyjuna þó ekki í höfuðið á sjálfum sér heldur gaf henni nafnið Van Diemen's Land eftir landstjóranum í Austur-Indíum sem sendi hann í leiðangurinn. Það var ekki fyrr en árið 1856 sem eyjan fékk sitt núverandi nafn til heiðurs Tasman.

Heimildir og mynd:

Höfundur

Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir

landfræðingur og starfsmaður Vísindavefsins

Útgáfudagur

26.11.2004

Spyrjandi

Ingvar Gíslason
Bjarni Ólafsson, f. 1994
Einar Óli Guðmundsson, f. 1986

Tilvísun

Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir. „Af hverju heitir Nýja-Sjáland þessu nafni?“ Vísindavefurinn, 26. nóvember 2004. Sótt 26. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=4631.

Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir. (2004, 26. nóvember). Af hverju heitir Nýja-Sjáland þessu nafni? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=4631

Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir. „Af hverju heitir Nýja-Sjáland þessu nafni?“ Vísindavefurinn. 26. nóv. 2004. Vefsíða. 26. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=4631>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Af hverju heitir Nýja-Sjáland þessu nafni?
Hér er einnig svarað spurningunum:

  • Hvar er Sjálandið í nafninu Nýja-Sjáland?
  • Hvaðan fær Nýja-Sjáland nafnið sitt? Er það eitthvað tengt Sjálandi í Danmörku?

Árið 1642 kom hollenski sæfarinn og landkönnuðurinn Abel Janszoon Tasman fyrstur Evrópumanna auga á landið sem við þekkjum í dag undir nafninu Nýja-Sjáland. Það er útbreidd alþýðuskýring að Tasman hafi nefnt þetta nýja land eftir heimahéraði sínu, en Sjáland, eða Zeeland, er strandhérað í suðvesturhluta Hollands.

Það er rétt að Nýja-Sjáland er nefnt eftir Sjálandi í Hollandi en það var ekki Tasman sem gerði það og raunar hafði hann engin sérstök tengsl við héraðið. Í dagbók sinni kallaði Tasman landið sem hann fann Staten Landt því hann taldi að það gæti verið hluti af landi sem Jacob Le Maire uppgötvaði sunnan við meginland Suður-Ameríku árið 1616 og nefnt var Staten Landt.

Ári eftir að Tasman fann og nefndi hið nýja land Staten Landt sýndi Hendrik nokkur Brouwer fram á að hið upprunalega Staten Landt væri í raun eyja og gæti alls ekki teygt sig í átt að því svæði þar sem Tasman hafði verið á ferð. Því var ljóst að landið sem Tasman hafði uppgötvað væri ekki hluti Staten Landts og fljótlega var hætt að nota það nafn og nafnið Nieuw Zeeland á hollensku, eða Zeelandi Nova á latínu, kom í staðinn.



Ekki er hægt að segja nákvæmlega til um hvenær þessi nafnabreyting átti sér stað en flest bendir til þess að það hafi verið á tímabilinu 1644-1648. Á kortum sem gefin voru út skömmu eftir að Tasman fann Nýja-Sjáland er nafnið Staten Landt notað um svæðið sem hann uppgötvaði. Í Hollandi er hins vegar varðveitt hnattlíkan eftir Joannes Blaeu, kortagerðarmann hjá Hollenska Austur-Indía félaginu sem líklega er frá árinu 1648 eða 1650. Þar kemur nafnið „Zeelandia Nova“ fyrir. Nafnið kemur einnig fyrir á heimskorti sem Blaeu útbjó og er líklega frá árinu 1648.

Gömlu kort gefa sterka vísbendingu um hvenær Nýja-Sjáland fékk nafn sitt en erfiðara er að fá úr því skorið hvers vegna þetta nafn var valið frekar en eitthvað annað. Menn hafa getið sér þess til að uppruni nafnsins tengist því að vesturströnd Ástralíu og síðar Ástralía öll var á þessum árum nefnd „Nieuw Nederland“ eða „Hollandia Nova“. Það hafi því verið fullkomlega eðlilegt og rökrétt að nefna nýtt land í nágrenni „Nýja-Hollands“ eftir hollensku sjávarhéraði. Þessi ástæða nafngiftarinnar er þó aðeins tilgáta og líklega munum við aldrei vita fyrir víst hvers vegna þetta nafn var valið.

Þess má að lokum geta að eyjan Tasmanía við Ástralíu er nefnd eftir Abel Tasman en hann uppgötvaði hana í sama leiðangri og hann fann Nýja-Sjáland. Hann nefndi eyjuna þó ekki í höfuðið á sjálfum sér heldur gaf henni nafnið Van Diemen's Land eftir landstjóranum í Austur-Indíum sem sendi hann í leiðangurinn. Það var ekki fyrr en árið 1856 sem eyjan fékk sitt núverandi nafn til heiðurs Tasman.

Heimildir og mynd:...