Sólin Sólin Rís 05:19 • sest 21:35 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 25:18 • Sest 04:56 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:07 • Síðdegis: 19:24 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:08 • Síðdegis: 13:14 í Reykjavík

Hvað eru til mörg eldfjöll?

EDS

Það þarf að taka tillit til ýmissa þátta þegar telja á hversu mörg eldfjöll eru í heiminum. Til að mynda þarf að ákveða hvort aðeins er átt við eldfjöll sem gosið hafa á sögulegum tíma, öll eldfjöll sem talin eru virk (það er hafa gosið á nútíma - síðustu 10.000 ár) eða öll fjöll sem hafa gosið einhvern tímann í jarðsögunni. Einnig þarf að taka afstöðu til þess hvort eingöngu er átt við eldfjöll ofansjávar eða hvort einnig á að telja með eldfjöll á hafsbotni sem ekki rísa upp fyrir sjávarmál.



Eldfjallið Stromboli á samnefndri eyju rétt norðan Sikileyjar á Ítalíu er eitt af virkustu eldfjöllum heims.

Þar með er ekki allt upp talið því oft þarf líka að skera úr um hvað telst vera eitt eldfjall. Í mörgum tilfellum er það einfalt mál en þar sem gýs úr löngum sprungum, jafnvel margra kílómetra löngum, getur verið skilgreiningaratriði hvort um eitt eða fleiri eldfjöll er að ræða.

Í töflunni hér á eftir er gerð tilraun til þess að kasta tölu á fjölda eldfjalla í heiminum út frá þeim forsendum sem tilteknar eru fyrir neðan töfluna. Það er þó vert að hafa í huga að líklega er ekkert eitt rétt og endanlegt svar við því hversu mörg eldfjöll eru í heiminum heldur fer svarið allt eftir því hvaða forsendur eru notaðar til þess að nálgast viðfangsefnið.

Fjöldi eldfjalla sem gýs á hverjum tíma:Kannski um 20
Fjöldi eldfjalla sem gýs á hverju ári:50-70
Fjöldi eldfjalla sem gýs á hverjum áratug:Um 160
Fjöldi eldfjalla sem gosið hafa á sögulegum tíma (historical eruptions):Um 550
Fjöldi eldfjalla sem gosið hafa á nútíma (holocene, síðustu 10.000 ár):Um 1300

Þær forsendur sem hér er gengið út frá eru þær að telja hvert eldstöðvakerfi (en það er sprungurein með gossprungum og oftast með megineldstöð sem fær kvikuna frá sömu kvikuuppsprettu) sem eitt eldfjall þó gosefni geti komið upp á fleiri en einum stað. Yfirleitt eru að minnsta kosti 20 km á milli einstakra eldfjalla og sárasjaldan eru þau nær hvert öðru en í 10 km fjarlægð. Ekki eru talin með eldfjöll á hafsbotni en talið er að allt að ¾ hlutar þeirrar kviku sem berst úr iðrum jarðar komi upp í eldgosum á neðansjávarhryggjum.

Heimild og mynd:

Höfundur

Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir

landfræðingur og starfsmaður Vísindavefsins

Útgáfudagur

4.10.2005

Spyrjandi

Ragnar Þór, Valborg Bjarnadóttir, Rakel Magnúsdóttir, Sara Margrét Jóhannsdóttir

Tilvísun

EDS. „Hvað eru til mörg eldfjöll?“ Vísindavefurinn, 4. október 2005. Sótt 25. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=5306.

EDS. (2005, 4. október). Hvað eru til mörg eldfjöll? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=5306

EDS. „Hvað eru til mörg eldfjöll?“ Vísindavefurinn. 4. okt. 2005. Vefsíða. 25. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=5306>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvað eru til mörg eldfjöll?
Það þarf að taka tillit til ýmissa þátta þegar telja á hversu mörg eldfjöll eru í heiminum. Til að mynda þarf að ákveða hvort aðeins er átt við eldfjöll sem gosið hafa á sögulegum tíma, öll eldfjöll sem talin eru virk (það er hafa gosið á nútíma - síðustu 10.000 ár) eða öll fjöll sem hafa gosið einhvern tímann í jarðsögunni. Einnig þarf að taka afstöðu til þess hvort eingöngu er átt við eldfjöll ofansjávar eða hvort einnig á að telja með eldfjöll á hafsbotni sem ekki rísa upp fyrir sjávarmál.



Eldfjallið Stromboli á samnefndri eyju rétt norðan Sikileyjar á Ítalíu er eitt af virkustu eldfjöllum heims.

Þar með er ekki allt upp talið því oft þarf líka að skera úr um hvað telst vera eitt eldfjall. Í mörgum tilfellum er það einfalt mál en þar sem gýs úr löngum sprungum, jafnvel margra kílómetra löngum, getur verið skilgreiningaratriði hvort um eitt eða fleiri eldfjöll er að ræða.

Í töflunni hér á eftir er gerð tilraun til þess að kasta tölu á fjölda eldfjalla í heiminum út frá þeim forsendum sem tilteknar eru fyrir neðan töfluna. Það er þó vert að hafa í huga að líklega er ekkert eitt rétt og endanlegt svar við því hversu mörg eldfjöll eru í heiminum heldur fer svarið allt eftir því hvaða forsendur eru notaðar til þess að nálgast viðfangsefnið.

Fjöldi eldfjalla sem gýs á hverjum tíma:Kannski um 20
Fjöldi eldfjalla sem gýs á hverju ári:50-70
Fjöldi eldfjalla sem gýs á hverjum áratug:Um 160
Fjöldi eldfjalla sem gosið hafa á sögulegum tíma (historical eruptions):Um 550
Fjöldi eldfjalla sem gosið hafa á nútíma (holocene, síðustu 10.000 ár):Um 1300

Þær forsendur sem hér er gengið út frá eru þær að telja hvert eldstöðvakerfi (en það er sprungurein með gossprungum og oftast með megineldstöð sem fær kvikuna frá sömu kvikuuppsprettu) sem eitt eldfjall þó gosefni geti komið upp á fleiri en einum stað. Yfirleitt eru að minnsta kosti 20 km á milli einstakra eldfjalla og sárasjaldan eru þau nær hvert öðru en í 10 km fjarlægð. Ekki eru talin með eldfjöll á hafsbotni en talið er að allt að ¾ hlutar þeirrar kviku sem berst úr iðrum jarðar komi upp í eldgosum á neðansjávarhryggjum.

Heimild og mynd: ...