Sólin Sólin Rís 05:26 • sest 21:28 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:24 • Sest 05:22 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 06:10 • Síðdegis: 18:30 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 00:11 • Síðdegis: 12:20 í Reykjavík

Getið þið sagt mér allt um blettatígur?

Jón Már Halldórsson

Á erlendum tungum er blettatígurinn (Acinonyx jubatus) nefndur 'cheetah' sem upprunnið er úr hindí og þýðir sá blettótti. Hann er eini meðlimur undirættarinnar Acinonychinae enda byggingarlag hans frábrugðið öðrum kattardýrum. Bæði er hann grannvaxinn og hlutfallslega lappalengri en aðrir kettir. Fjölmörg önnur líkamseinkenni eru sérstök fyrir blettatígurinn. Til dæmis er hann með smá eyru, er hlutfallslega höfuðsmærri en aðrir kettir og með stór nasaop sem nauðsynleg eru til að kæla hann eftir spretti. Blettatígurinn er einnig sérstakur að því leyti að hann getur ekki dregið klærnar inn nema að hluta en allir aðrir kettir geta dregið þær alveg inn.



Blettatígurinn (Acinonyx jubatus) er bæði grennri og lappalengri en margir aðrir kettir.

Blettatígur getur verið á bilinu 67-94 cm á hæð miðað við herðakamb. Skrokkurinn er 120-150 cm langur og rófan 70-80 cm löng. Lítilsháttar útlitsmunur er á kynjunum þar sem karldýrin eru aðeins stærri en kvendýrin en slíkt er algengt hjá kattardýrum.

Blettatígurinn er sprettharðasta landdýr jarðarinnar og getur náð allt að 120 km hraða á klukkustund. Hann er þó ekki úthaldsgóður, en rannsóknir hafa sýnt að hann getur aðeins haldið hámarkshraða á um 275 m kafla. Það er því mikilvægt fyrir hann að komast sem næst bráðinni áður en hann leggur til atlögu ef veiðin á að heppnast.

Helsta bráð blettatígursins eru meðal annars ýmsar tegundir gasella, impalahirtir og ungviði vörtusvína, en auk þess fúlsar hann ekki við öðrum smærri spendýrum og fuglum þegar slíkt stendur honum til boða. Blettatígurinn veiðir í ljósaskiptunum snemma á morgnana og á kvöldin. Venjulega hefst veiðiferðin á því að hann kemur sér fyrir á hól eða termítahrauk til þess að fá yfirsýn yfir veiðilendurnar. Ef hann kemur auga á hentuga bráð laumast hann eins nærri henni og hægt er áður en hann leggur til atlögu. Þegar bráðin er í innan við 50 metra fjarlægð tekur blettatígurinn á rás og upp hefst eitt magnaðasta sjónarspil í dýraríkinu.



Blettatígurinn er sprettharðastur allra landdýra.

Flestar veiðitilraunir blettatígursins misheppnast, en þegar hann nær bráðinni þá fellir hann hana og ræðst því næst á hálsinn og kæfir hana. Eftir drápið er blettatígurinn úrvinda og oft kemur fyrir að ljón eða hýenur ræna bráðinni áður en hann getur gætt sér á henni. Þá er ekki annað að gera en að flýja vonsvikinn af hólmi því hann ræður ekkert við svo öflug dýr.

Blettatígurinn getur átt afkvæmi allt árið um kring þó mest sé um got frá mars til júní. Meðgöngutíminn er á bilinu 90-95 dagar. Fjöldi kettlinga í hverju goti getur verið frá einum og upp í átta, en algengast er að þeir séu þrír til fimm talsins. Kettlingarnir eru gráleitir að lit og með talsvert síðan makka sem nær aftur eftir baki þeirra. Fræðimenn telja að litarhaftið og makkinn sé einhvers konar felubúningur eða dulbúningur gagnvart ljónum.

Talsverð afföll verða meðal kettlinga blettatígursins. Móðirin hefur mikið fyrir því að koma þeim á legg því hún þarf að ná að minnsta kosti einni bráð á dag til þess að fæða þá. Til samanburðar þurfa fullorðin karldýr aðeins að veiða á 2-5 daga fresti. Það er þó ekki eingöngu fæðuskortur sem dregur kettlinganna til dauða, heldur drepa ljón og hýenur stóran hluta þeirra. Rannsóknir á afföllum hafa sýnt að á sumum svæðum í Afríku drepa ljón allt að 80% af blettatígrakettlingum. Heildar afföllin eru rúmlega 90%, sem þýðir að aðeins um einn af hverjum tíu kettlingum blettatígra kemst á legg. Svona mikil afföll eru óþekkt meðal flestra annarra stórra og meðalstórra rándýra.



Kettlingar blettatígra eru með makka sem nær aftur eftir baki.

Kettlingarnir eru vandir af spena við þriggja til sex mánaða aldur, en halda til hjá móður sinni þar til þeir verða 13-20 mánaða. Á meðan kennir hún þeim það helsta sem þeir þurfa að kunna til þess að komast af í miskunnarlausri lífsbaráttunni, það er að segja listina að veiða.

Talið er að blettatígurinn hafi komið fram fyrir um fjórum milljónum ára og telst samkvæmt bestu vitund steingervingafræðinga vera eldri en núlifandi tegundir stórkatta (Panthera spp.). Steingerðar leifar blettatígra og mjög skyldra tegunda hafa fundist víða í Norður-Ameríku og er sennilegt að þeir hafi lifað þar þangað til fyrir um 10 þúsund árum.

Blettatígurinn finnst nú aðeins villtur í suður- og austurhluta Afríku og á litlu svæði í austurhluta Íran. Dýrin í Íran eru síðustu leifar asíska blettatígursins, en áður fyrr náði útbreiðsla hans allt austur til Indlands. Álitið er að íranski stofninn sé nú aðeins um 50 dýr og telja líffræðingar nánast öruggt að asíski blettatígurinn verði útdauður innan 20 ára. Afríski blettatígurinn er talsvert betur staddur þó honum hafi fækkað mjög á undanförnum áratugum, en stofninn telur nú um 12-15 þúsund einstaklinga.



Útbreiðsla blettatígurs í Afríku og Asíu fyrr og nú.

Fram eftir 20. öldinni var mikið sótt í villta blettatígra þar sem feldur þeirra var tákn auðs og valda, auk þess var eitthvað um að þeir væru hafðir sem gæludýr. Þeir voru jafnframt ofsóttir af bændum sem kenndu þeim um að drepa búfénað sinn. Réttmæti þess er þó mjög umdeilt þar sem ýmsir telja að meiri líkur séu á því að búfénaður falli fyrir flestum öðrum stórum rándýrum en blettatígrum.

Á Vísindavefnum er að finna fleiri svör um blettatígra, til dæmis:

Einnig eru á Vísindavefnum ýmis svör um stórketti, til dæmis þessi eftir Jón Má Halldórsson:

Heimildir og myndir:
  • Alderton, D. 1995. Wild Cats Of The World. New York.
  • Caro, T. 1994. Cheetahs Of The Seregeti Plains. Chicago: University of Chicago Press.
  • Nowak, R. 1999. Walker's Mammals Of The World. Baltimore: Johns Hopkins University Press.
  • Terrambiente.org
  • Djur och Natur
  • ZooGoer 34(5) 2005
  • Kort af heimasíðu Jan Decher, upprunalega frá Conniff og Johns 1999.

Höfundur

Jón Már Halldórsson

líffræðingur

Útgáfudagur

14.12.2005

Spyrjandi

Óðinn Elvarsson, f. 1992

Tilvísun

Jón Már Halldórsson. „Getið þið sagt mér allt um blettatígur?“ Vísindavefurinn, 14. desember 2005. Sótt 23. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=5482.

Jón Már Halldórsson. (2005, 14. desember). Getið þið sagt mér allt um blettatígur? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=5482

Jón Már Halldórsson. „Getið þið sagt mér allt um blettatígur?“ Vísindavefurinn. 14. des. 2005. Vefsíða. 23. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=5482>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Getið þið sagt mér allt um blettatígur?
Á erlendum tungum er blettatígurinn (Acinonyx jubatus) nefndur 'cheetah' sem upprunnið er úr hindí og þýðir sá blettótti. Hann er eini meðlimur undirættarinnar Acinonychinae enda byggingarlag hans frábrugðið öðrum kattardýrum. Bæði er hann grannvaxinn og hlutfallslega lappalengri en aðrir kettir. Fjölmörg önnur líkamseinkenni eru sérstök fyrir blettatígurinn. Til dæmis er hann með smá eyru, er hlutfallslega höfuðsmærri en aðrir kettir og með stór nasaop sem nauðsynleg eru til að kæla hann eftir spretti. Blettatígurinn er einnig sérstakur að því leyti að hann getur ekki dregið klærnar inn nema að hluta en allir aðrir kettir geta dregið þær alveg inn.



Blettatígurinn (Acinonyx jubatus) er bæði grennri og lappalengri en margir aðrir kettir.

Blettatígur getur verið á bilinu 67-94 cm á hæð miðað við herðakamb. Skrokkurinn er 120-150 cm langur og rófan 70-80 cm löng. Lítilsháttar útlitsmunur er á kynjunum þar sem karldýrin eru aðeins stærri en kvendýrin en slíkt er algengt hjá kattardýrum.

Blettatígurinn er sprettharðasta landdýr jarðarinnar og getur náð allt að 120 km hraða á klukkustund. Hann er þó ekki úthaldsgóður, en rannsóknir hafa sýnt að hann getur aðeins haldið hámarkshraða á um 275 m kafla. Það er því mikilvægt fyrir hann að komast sem næst bráðinni áður en hann leggur til atlögu ef veiðin á að heppnast.

Helsta bráð blettatígursins eru meðal annars ýmsar tegundir gasella, impalahirtir og ungviði vörtusvína, en auk þess fúlsar hann ekki við öðrum smærri spendýrum og fuglum þegar slíkt stendur honum til boða. Blettatígurinn veiðir í ljósaskiptunum snemma á morgnana og á kvöldin. Venjulega hefst veiðiferðin á því að hann kemur sér fyrir á hól eða termítahrauk til þess að fá yfirsýn yfir veiðilendurnar. Ef hann kemur auga á hentuga bráð laumast hann eins nærri henni og hægt er áður en hann leggur til atlögu. Þegar bráðin er í innan við 50 metra fjarlægð tekur blettatígurinn á rás og upp hefst eitt magnaðasta sjónarspil í dýraríkinu.



Blettatígurinn er sprettharðastur allra landdýra.

Flestar veiðitilraunir blettatígursins misheppnast, en þegar hann nær bráðinni þá fellir hann hana og ræðst því næst á hálsinn og kæfir hana. Eftir drápið er blettatígurinn úrvinda og oft kemur fyrir að ljón eða hýenur ræna bráðinni áður en hann getur gætt sér á henni. Þá er ekki annað að gera en að flýja vonsvikinn af hólmi því hann ræður ekkert við svo öflug dýr.

Blettatígurinn getur átt afkvæmi allt árið um kring þó mest sé um got frá mars til júní. Meðgöngutíminn er á bilinu 90-95 dagar. Fjöldi kettlinga í hverju goti getur verið frá einum og upp í átta, en algengast er að þeir séu þrír til fimm talsins. Kettlingarnir eru gráleitir að lit og með talsvert síðan makka sem nær aftur eftir baki þeirra. Fræðimenn telja að litarhaftið og makkinn sé einhvers konar felubúningur eða dulbúningur gagnvart ljónum.

Talsverð afföll verða meðal kettlinga blettatígursins. Móðirin hefur mikið fyrir því að koma þeim á legg því hún þarf að ná að minnsta kosti einni bráð á dag til þess að fæða þá. Til samanburðar þurfa fullorðin karldýr aðeins að veiða á 2-5 daga fresti. Það er þó ekki eingöngu fæðuskortur sem dregur kettlinganna til dauða, heldur drepa ljón og hýenur stóran hluta þeirra. Rannsóknir á afföllum hafa sýnt að á sumum svæðum í Afríku drepa ljón allt að 80% af blettatígrakettlingum. Heildar afföllin eru rúmlega 90%, sem þýðir að aðeins um einn af hverjum tíu kettlingum blettatígra kemst á legg. Svona mikil afföll eru óþekkt meðal flestra annarra stórra og meðalstórra rándýra.



Kettlingar blettatígra eru með makka sem nær aftur eftir baki.

Kettlingarnir eru vandir af spena við þriggja til sex mánaða aldur, en halda til hjá móður sinni þar til þeir verða 13-20 mánaða. Á meðan kennir hún þeim það helsta sem þeir þurfa að kunna til þess að komast af í miskunnarlausri lífsbaráttunni, það er að segja listina að veiða.

Talið er að blettatígurinn hafi komið fram fyrir um fjórum milljónum ára og telst samkvæmt bestu vitund steingervingafræðinga vera eldri en núlifandi tegundir stórkatta (Panthera spp.). Steingerðar leifar blettatígra og mjög skyldra tegunda hafa fundist víða í Norður-Ameríku og er sennilegt að þeir hafi lifað þar þangað til fyrir um 10 þúsund árum.

Blettatígurinn finnst nú aðeins villtur í suður- og austurhluta Afríku og á litlu svæði í austurhluta Íran. Dýrin í Íran eru síðustu leifar asíska blettatígursins, en áður fyrr náði útbreiðsla hans allt austur til Indlands. Álitið er að íranski stofninn sé nú aðeins um 50 dýr og telja líffræðingar nánast öruggt að asíski blettatígurinn verði útdauður innan 20 ára. Afríski blettatígurinn er talsvert betur staddur þó honum hafi fækkað mjög á undanförnum áratugum, en stofninn telur nú um 12-15 þúsund einstaklinga.



Útbreiðsla blettatígurs í Afríku og Asíu fyrr og nú.

Fram eftir 20. öldinni var mikið sótt í villta blettatígra þar sem feldur þeirra var tákn auðs og valda, auk þess var eitthvað um að þeir væru hafðir sem gæludýr. Þeir voru jafnframt ofsóttir af bændum sem kenndu þeim um að drepa búfénað sinn. Réttmæti þess er þó mjög umdeilt þar sem ýmsir telja að meiri líkur séu á því að búfénaður falli fyrir flestum öðrum stórum rándýrum en blettatígrum.

Á Vísindavefnum er að finna fleiri svör um blettatígra, til dæmis:

Einnig eru á Vísindavefnum ýmis svör um stórketti, til dæmis þessi eftir Jón Má Halldórsson:

Heimildir og myndir:
  • Alderton, D. 1995. Wild Cats Of The World. New York.
  • Caro, T. 1994. Cheetahs Of The Seregeti Plains. Chicago: University of Chicago Press.
  • Nowak, R. 1999. Walker's Mammals Of The World. Baltimore: Johns Hopkins University Press.
  • Terrambiente.org
  • Djur och Natur
  • ZooGoer 34(5) 2005
  • Kort af heimasíðu Jan Decher, upprunalega frá Conniff og Johns 1999.
...