Sólin Sólin Rís 06:57 • sest 19:45 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 19:50 • Sest 05:22 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:40 • Síðdegis: 17:56 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:49 • Síðdegis: 24:15 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 06:57 • sest 19:45 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 19:50 • Sest 05:22 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:40 • Síðdegis: 17:56 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:49 • Síðdegis: 24:15 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hverjir eru 10 merkilegustu atburðir Íslandssögunnar á 20. öld?

Gunnar Karlsson (1939-2019)

Á Vísindavefnum er svar mitt við spurningu um hvaða ár var merkilegast í sögu Íslands. Þar reyni ég að útskýra hvers vegna spurningum um hvað var merkilegt í sögunni verður ekki svarað á einfaldan vísindalegan hátt. Þar kemur til mat hvers og eins á því hvað sé merkilegt í mannlífinu yfirleitt. Þeir sem meta efnahagslegar framfarir mikils telja nýjungar í atvinnumálum merkilegastar. Þeir sem leggja mesta áherslu á pólitískt sjálfstæði þjóðarinnar velja tímamótaatburði í sjálfstæðisbaráttunni. Þeir sem vilja ákafir ganga inn í samstarf við önnur ríki finna atburði sem marka tímamót á þeim ferli.

Svo getur verið spurning um merkingu orðsins „merkilegur“. Sögubókahöfundar rekja jöfnum höndum atburði sem þeim þykja marka framfaraspor og þá sem þeir meta sem hörmulega, en þeir myndu samt hika við að kalla hörmulegu atburðina merkilega. Orðið „merkilegur“ hefur einhvern jákvæðan blæ sem heldur aftur af okkur að segja til dæmis að mannskætt slys sé merkilegur atburður.


Breski herinn við Reykjavíkurhöfn 10. maí 1940. Síðari heimsstyrjöldin var óneitanlega merkilegur atburður.

En umfram allt er valið á merkilegum atburðum háð persónulegum smekk og verðmætamati hvers og eins. Það er upplagður leikur fyrir þá sem hafa yndi af sögu að spreyta sig á því að tína til merkilegustu atburði eða þróunarferla tímabils og velta fyrir sér eða rökræða, hvers vegna einn atburður fær inngöngu en annar ekki.

Nokkurn veginn þetta verða sagnfræðingar líka að gera, til dæmis þegar þeir skrifa yfirlitsrit um sögu. Þeir verða sífellt að velja úr því sem þeir vita um söguna, meta hvort hver og einn atburður eða þróunarferill sé nægilega mikilvægur til að fá inngöngu í rit sem er ætlað að vera af ákveðinni lengd. Ef ég ætti að velja úr sögu Íslendinga á 20. öld tíu efnisatriði, sem gætu til dæmis myndað tíu kafla bók um sögu aldarinnar, þá gætu þau orðið fyrir valinu sem fara hér á eftir. Að hætti sagnfræðinga held ég mig ekki strangt við einstaka atburði, enda stundum vandi að ákvarða hvað eigi að teljast einn atburður. Sömuleiðis vel ég ferla sem ég tel mikilvæga í sögunni, hvort sem mér líkar betur eða verr að þeir skuli hafa orðið:

  1. Vélvæðing sjávarútvegsins í upphafi aldar, markast af fyrstu bátavélinni 1902 og fyrsta togaranum í eigu Íslendinga 1905.

  2. Heimastjórn og þingræði 1904.

  3. Almennur kosningaréttur karla og kvenna 1915 – sem raunar komst ekki á fyllilega fyrr en 1920.

  4. Upphaf verkalýðshreyfingar með endahnút í stofnun Alþýðusambands Íslands 1916.

  5. Fullveldi 1918.

  6. Síðari heimsstyrjöldin og lífskjarabyltingin sem fylgdi henni.

  7. Sambandsslitin við Dani og stofnun lýðveldis 1944.

  8. Innganga Íslendinga í vestrænt hernaðarsamstarf, innganga í NATO 1949 og koma Bandaríkjahers 1951.

  9. Sigur Íslendinga í landhelgisbaráttunni 1950-75.

  10. Innganga í Evrópska efnahagssvæðið 1992-94.

Þótt þessi upptalning sé ekki einskorðuð við einstaka atburði hef ég kannski gert helst til hátt undir höfði þeim söguefnum sem tengjast auðveldlega einstökum atburðum. Til dæmis mætti halda því fram að byltingin í samgöngumálum eða húsakosti séu mestu breytingarnar sem hafi orðið á lífi Íslendinga á 20. öld. En hvorug þessara breytinga varð í einstökum atburðum, þótt auðvitað hafi verið stigin þar stór skref, eins og til dæmis með opnun ritsímasambands við útlönd 1906. En ef við tökum þetta inn, hverju eigum við þá að rýma út í staðinn? Fram úr því verða lesendur að ráða, hver fyrir sig.

Mynd:

Höfundur

Gunnar Karlsson (1939-2019)

prófessor emeritus í sagnfræði við HÍ

Útgáfudagur

3.11.2000

Spyrjandi

Einar Þórhallsson

Tilvísun

Gunnar Karlsson (1939-2019). „Hverjir eru 10 merkilegustu atburðir Íslandssögunnar á 20. öld?“ Vísindavefurinn, 3. nóvember 2000, sótt 17. september 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=1083.

Gunnar Karlsson (1939-2019). (2000, 3. nóvember). Hverjir eru 10 merkilegustu atburðir Íslandssögunnar á 20. öld? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=1083

Gunnar Karlsson (1939-2019). „Hverjir eru 10 merkilegustu atburðir Íslandssögunnar á 20. öld?“ Vísindavefurinn. 3. nóv. 2000. Vefsíða. 17. sep. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=1083>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hverjir eru 10 merkilegustu atburðir Íslandssögunnar á 20. öld?
Á Vísindavefnum er svar mitt við spurningu um hvaða ár var merkilegast í sögu Íslands. Þar reyni ég að útskýra hvers vegna spurningum um hvað var merkilegt í sögunni verður ekki svarað á einfaldan vísindalegan hátt. Þar kemur til mat hvers og eins á því hvað sé merkilegt í mannlífinu yfirleitt. Þeir sem meta efnahagslegar framfarir mikils telja nýjungar í atvinnumálum merkilegastar. Þeir sem leggja mesta áherslu á pólitískt sjálfstæði þjóðarinnar velja tímamótaatburði í sjálfstæðisbaráttunni. Þeir sem vilja ákafir ganga inn í samstarf við önnur ríki finna atburði sem marka tímamót á þeim ferli.

Svo getur verið spurning um merkingu orðsins „merkilegur“. Sögubókahöfundar rekja jöfnum höndum atburði sem þeim þykja marka framfaraspor og þá sem þeir meta sem hörmulega, en þeir myndu samt hika við að kalla hörmulegu atburðina merkilega. Orðið „merkilegur“ hefur einhvern jákvæðan blæ sem heldur aftur af okkur að segja til dæmis að mannskætt slys sé merkilegur atburður.


Breski herinn við Reykjavíkurhöfn 10. maí 1940. Síðari heimsstyrjöldin var óneitanlega merkilegur atburður.

En umfram allt er valið á merkilegum atburðum háð persónulegum smekk og verðmætamati hvers og eins. Það er upplagður leikur fyrir þá sem hafa yndi af sögu að spreyta sig á því að tína til merkilegustu atburði eða þróunarferla tímabils og velta fyrir sér eða rökræða, hvers vegna einn atburður fær inngöngu en annar ekki.

Nokkurn veginn þetta verða sagnfræðingar líka að gera, til dæmis þegar þeir skrifa yfirlitsrit um sögu. Þeir verða sífellt að velja úr því sem þeir vita um söguna, meta hvort hver og einn atburður eða þróunarferill sé nægilega mikilvægur til að fá inngöngu í rit sem er ætlað að vera af ákveðinni lengd. Ef ég ætti að velja úr sögu Íslendinga á 20. öld tíu efnisatriði, sem gætu til dæmis myndað tíu kafla bók um sögu aldarinnar, þá gætu þau orðið fyrir valinu sem fara hér á eftir. Að hætti sagnfræðinga held ég mig ekki strangt við einstaka atburði, enda stundum vandi að ákvarða hvað eigi að teljast einn atburður. Sömuleiðis vel ég ferla sem ég tel mikilvæga í sögunni, hvort sem mér líkar betur eða verr að þeir skuli hafa orðið:

  1. Vélvæðing sjávarútvegsins í upphafi aldar, markast af fyrstu bátavélinni 1902 og fyrsta togaranum í eigu Íslendinga 1905.

  2. Heimastjórn og þingræði 1904.

  3. Almennur kosningaréttur karla og kvenna 1915 – sem raunar komst ekki á fyllilega fyrr en 1920.

  4. Upphaf verkalýðshreyfingar með endahnút í stofnun Alþýðusambands Íslands 1916.

  5. Fullveldi 1918.

  6. Síðari heimsstyrjöldin og lífskjarabyltingin sem fylgdi henni.

  7. Sambandsslitin við Dani og stofnun lýðveldis 1944.

  8. Innganga Íslendinga í vestrænt hernaðarsamstarf, innganga í NATO 1949 og koma Bandaríkjahers 1951.

  9. Sigur Íslendinga í landhelgisbaráttunni 1950-75.

  10. Innganga í Evrópska efnahagssvæðið 1992-94.

Þótt þessi upptalning sé ekki einskorðuð við einstaka atburði hef ég kannski gert helst til hátt undir höfði þeim söguefnum sem tengjast auðveldlega einstökum atburðum. Til dæmis mætti halda því fram að byltingin í samgöngumálum eða húsakosti séu mestu breytingarnar sem hafi orðið á lífi Íslendinga á 20. öld. En hvorug þessara breytinga varð í einstökum atburðum, þótt auðvitað hafi verið stigin þar stór skref, eins og til dæmis með opnun ritsímasambands við útlönd 1906. En ef við tökum þetta inn, hverju eigum við þá að rýma út í staðinn? Fram úr því verða lesendur að ráða, hver fyrir sig.

Mynd:...