
En umfram allt er valið á merkilegum atburðum háð persónulegum smekk og verðmætamati hvers og eins. Það er upplagður leikur fyrir þá sem hafa yndi af sögu að spreyta sig á því að tína til merkilegustu atburði eða þróunarferla tímabils og velta fyrir sér eða rökræða, hvers vegna einn atburður fær inngöngu en annar ekki. Nokkurn veginn þetta verða sagnfræðingar líka að gera, til dæmis þegar þeir skrifa yfirlitsrit um sögu. Þeir verða sífellt að velja úr því sem þeir vita um söguna, meta hvort hver og einn atburður eða þróunarferill sé nægilega mikilvægur til að fá inngöngu í rit sem er ætlað að vera af ákveðinni lengd. Ef ég ætti að velja úr sögu Íslendinga á 20. öld tíu efnisatriði, sem gætu til dæmis myndað tíu kafla bók um sögu aldarinnar, þá gætu þau orðið fyrir valinu sem fara hér á eftir. Að hætti sagnfræðinga held ég mig ekki strangt við einstaka atburði, enda stundum vandi að ákvarða hvað eigi að teljast einn atburður. Sömuleiðis vel ég ferla sem ég tel mikilvæga í sögunni, hvort sem mér líkar betur eða verr að þeir skuli hafa orðið:
- Vélvæðing sjávarútvegsins í upphafi aldar, markast af fyrstu bátavélinni 1902 og fyrsta togaranum í eigu Íslendinga 1905.
- Heimastjórn og þingræði 1904.
- Almennur kosningaréttur karla og kvenna 1915 – sem raunar komst ekki á fyllilega fyrr en 1920.
- Upphaf verkalýðshreyfingar með endahnút í stofnun Alþýðusambands Íslands 1916.
- Fullveldi 1918.
- Síðari heimsstyrjöldin og lífskjarabyltingin sem fylgdi henni.
- Sambandsslitin við Dani og stofnun lýðveldis 1944.
- Innganga Íslendinga í vestrænt hernaðarsamstarf, innganga í NATO 1949 og koma Bandaríkjahers 1951.
- Sigur Íslendinga í landhelgisbaráttunni 1950-75.
- Innganga í Evrópska efnahagssvæðið 1992-94.
- Rúv - hernám Íslands. Ljósmyndasafn Reykjavíkur. Sótt 4.8.2010.