Sólin Sólin Rís 03:42 • sest 23:23 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 17:28 • Sest 23:32 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 00:35 • Síðdegis: 13:20 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 06:50 • Síðdegis: 19:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 03:42 • sest 23:23 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 17:28 • Sest 23:32 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 00:35 • Síðdegis: 13:20 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 06:50 • Síðdegis: 19:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvers vegna eru jólin ekki haldin á sama tíma alls staðar?

Eyja Margrét Brynjarsdóttir

Upprunaleg spurning var á þessa leið:
Hvers vegna eru jólin ekki haldin á sama tíma alls staðar? Til dæmis annars vegar hjá kaþólikkum, kalvínistum og evangelísk-lúterskum og hins vegar hjá rétttrúnaðarmönnum?

Hér er einnig svarað spurningu Önnu Ásgeirsdóttur:
Af hverju er haldið upp á afmæli Jesú um jólin en ekki 1. janúar?

Talið er að vetrarsólstöðuhátíðir af ýmsu tagi hafi verið haldnar víða á norðurhveli jarðar löngu áður en kristnin kom til sögunnar. Til dæmis var orðið jól til í norrænum málum löngu fyrir kristnitöku og sama gildir um orðið yule í ensku. Ætla má að skammdegið hafi verið erfiður tími fyrir fólk til forna og því hafi þótt full ástæða til fagnaðar þegar sól fór að hækka aftur á lofti eftir 21. eða 22. desember. Með tímanum var öðrum þáttum sem tengdust trúarbrögðum á viðkomandi stað svo fléttað inn í þessar sólstöðuhátíðir.

Í hinu forna Rómaveldi stóð til dæmis Saturnalia-hátíðin yfir frá 17. til 23. desember en hún var upphaflega, eins og nafnið gefur til kynna, til heiðurs guðinum Satúrnusi. Á 3. öld voru Rómverjar undir sterkum áhrifum frá ýmsum trúarbrögðum. Fylgismenn flestra þeirra héldu fæðingarhátíðir guða sinna eða frelsara um vetrarsólstöður. Þannig áttu rómverski guðinn Attis og indversk-persneski guðinn Mítra til dæmis báðir að hafa fæðst 25. desember. Keisarinn Árelíanus sameinaði þessar sólstöðu- og frelsarahátíðir Saturnalia-hátíðinni og úr varð fæðingardagur hinnar ósigrandi sólar (dies natalis Solis invicti) sem haldinn var hátíðlegur 25. desember. Guðinn Mítra gegndi þar veigamiklu hlutverki og var einn helsti keppinautur Jesú Krists í Rómaveldi þar til kristni var lögtekin þar á 4. öld.

Í hinu forna Rómaveldi stóð Saturnalia-hátíðin yfir frá 17. til 23. desember en hún var upphaflega, eins og nafnið gefur til kynna, til heiðurs guðinum Satúrnusi.

Á fyrstu öldum kristninnar voru ekki uppi ákveðnar hugmyndir um fæðingardag Jesú og ekki endilega talin ástæða til að halda upp á hann. Sumir héldu þó upp á daginn og ýmsir dagar urðu fyrir valinu, svo sem 6. janúar, ýmsir dagar í mars, apríl og maí, 17. nóvember og 25. desember. Það lá því beint við fyrir kristna menn í Róm að taka upp fæðingarhátíð fyrir frelsara sinn sem féll að hátíðahöldunum á degi sólarinnar. Þessi siður var tekinn upp af mörgum þeirra á 4. öld og um 440 var 25. desember opinberlega lýstur fæðingardagur Jesú af hálfu kirkjunnar í Róm (sjá einnig þetta svar eftir Sigurjón Árna Eyjólfsson).

Um árið 200 varð sá siður til hjá gnostíkerum í Egyptalandi að minnast skírnar Jesú 6. janúar og náði hann töluverðri útbreiðslu áður en 25. desember varð síðar ofan á. Margir litu svo á að halda ætti upp á fæðingardag Jesú um leið og skírnina og litu því jafnframt á 6. janúar sem fæðingardag hans. Smám saman vék þessi dagur fyrir 25. desember nema hjá armensku kirkjunni sem enn þann dag í dag lítur á 6. janúar sem fæðingarhátíð Jesú. Þar sem armenska kirkjan notast við dagatal sem er einum degi á undan júlíanska dagatalinu fer þessi hátíð fram 19. janúar samkvæmt okkar dagatali.

Hér er komið að helstu ástæðunni fyrir mismunandi dagsetningum jólahalds, en það er einmitt mismunandi tímatal. Árið 1582 innleiddi Gregoríus páfi hið svokallaða gregoríanska tímatal í stað þess júlíanska sem verið hafði við lýði. Þetta var gert vegna 14 daga skekkju í árinu sem komin var í júlíanska dagatalið (sjá nánari skýringu í þessu svari eftir Þorstein Vilhjálmsson). Gregoríanska tímatalið var smám saman tekið upp af hinum ýmsu þjóðum allt fram á 20. öld.

Þótt austurkirkjan starfi í löndum sem tóku á endanum upp gregoríanska tímatalið er kirkjuárið enn samkvæmt hinu júlíanska tímatali eða 14 dögum á eftir okkar. Jóladagur, 25. desember, rennur því ekki upp samkvæmt dagatali austurkirkjunnar fyrr en þann dag sem við köllum 7. janúar (sjá nánar hér). Undantekning frá þessu er kirkjan í Grikklandi og á Kýpur sem notast við gregoríanska tímatalið fyrir hátíðir á borð við jólin sem eiga sér fastar dagsetningar, en júlíanska tímatalið fyrir færanlegar hátíðir á borð við páska.

Að sjálfsögðu felst engin sagnfræðileg vísun í tímasetningu jóla eða fæðingarhátíðar Krists; með tímasetningunni er ekki verið að fullyrða að tiltekinn raunverulegur atburður hafi orðið á þessum árstíma. Í fyrsta lagi er ekki fullvíst að Jesús hafi verið til sem sagnfræðileg persóna, sjá svar Sverris Jakobssonar um það efni. Jafnvel þótt heimildir teldust nógu traustar til að slá því föstu að Jesús hafi verið til, þá dygðu þær í öðru lagi engan veginn til að ákvarða hvenær ársins hann fæddist. Í þriðja lagi gerir kirkjan ekkert endilega ráð fyrir því að hann hafi í raun og veru fæðst á þessum dögum ársins. Slíkt er aukaatriði í samanburði við hitt að menn hafa valið þessa daga til að minnast þessa atburðar eða sagnanna um hann, og raunar síðan skipulagt kirkjuárið út jólum og páskum (sjá svar Sigurjóns Árna Eyjólfssonar).

Heimildir:

Mynd:

Höfundur

Eyja Margrét Brynjarsdóttir

prófessor í heimspeki og hagnýtri siðfræði

Útgáfudagur

15.12.2000

Spyrjandi

Gunnar Einar Steingrimsson, Anna Ásgeirsdóttir

Tilvísun

Eyja Margrét Brynjarsdóttir. „Hvers vegna eru jólin ekki haldin á sama tíma alls staðar?“ Vísindavefurinn, 15. desember 2000, sótt 15. júlí 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=1241.

Eyja Margrét Brynjarsdóttir. (2000, 15. desember). Hvers vegna eru jólin ekki haldin á sama tíma alls staðar? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=1241

Eyja Margrét Brynjarsdóttir. „Hvers vegna eru jólin ekki haldin á sama tíma alls staðar?“ Vísindavefurinn. 15. des. 2000. Vefsíða. 15. júl. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=1241>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvers vegna eru jólin ekki haldin á sama tíma alls staðar?
Upprunaleg spurning var á þessa leið:

Hvers vegna eru jólin ekki haldin á sama tíma alls staðar? Til dæmis annars vegar hjá kaþólikkum, kalvínistum og evangelísk-lúterskum og hins vegar hjá rétttrúnaðarmönnum?

Hér er einnig svarað spurningu Önnu Ásgeirsdóttur:
Af hverju er haldið upp á afmæli Jesú um jólin en ekki 1. janúar?

Talið er að vetrarsólstöðuhátíðir af ýmsu tagi hafi verið haldnar víða á norðurhveli jarðar löngu áður en kristnin kom til sögunnar. Til dæmis var orðið jól til í norrænum málum löngu fyrir kristnitöku og sama gildir um orðið yule í ensku. Ætla má að skammdegið hafi verið erfiður tími fyrir fólk til forna og því hafi þótt full ástæða til fagnaðar þegar sól fór að hækka aftur á lofti eftir 21. eða 22. desember. Með tímanum var öðrum þáttum sem tengdust trúarbrögðum á viðkomandi stað svo fléttað inn í þessar sólstöðuhátíðir.

Í hinu forna Rómaveldi stóð til dæmis Saturnalia-hátíðin yfir frá 17. til 23. desember en hún var upphaflega, eins og nafnið gefur til kynna, til heiðurs guðinum Satúrnusi. Á 3. öld voru Rómverjar undir sterkum áhrifum frá ýmsum trúarbrögðum. Fylgismenn flestra þeirra héldu fæðingarhátíðir guða sinna eða frelsara um vetrarsólstöður. Þannig áttu rómverski guðinn Attis og indversk-persneski guðinn Mítra til dæmis báðir að hafa fæðst 25. desember. Keisarinn Árelíanus sameinaði þessar sólstöðu- og frelsarahátíðir Saturnalia-hátíðinni og úr varð fæðingardagur hinnar ósigrandi sólar (dies natalis Solis invicti) sem haldinn var hátíðlegur 25. desember. Guðinn Mítra gegndi þar veigamiklu hlutverki og var einn helsti keppinautur Jesú Krists í Rómaveldi þar til kristni var lögtekin þar á 4. öld.

Í hinu forna Rómaveldi stóð Saturnalia-hátíðin yfir frá 17. til 23. desember en hún var upphaflega, eins og nafnið gefur til kynna, til heiðurs guðinum Satúrnusi.

Á fyrstu öldum kristninnar voru ekki uppi ákveðnar hugmyndir um fæðingardag Jesú og ekki endilega talin ástæða til að halda upp á hann. Sumir héldu þó upp á daginn og ýmsir dagar urðu fyrir valinu, svo sem 6. janúar, ýmsir dagar í mars, apríl og maí, 17. nóvember og 25. desember. Það lá því beint við fyrir kristna menn í Róm að taka upp fæðingarhátíð fyrir frelsara sinn sem féll að hátíðahöldunum á degi sólarinnar. Þessi siður var tekinn upp af mörgum þeirra á 4. öld og um 440 var 25. desember opinberlega lýstur fæðingardagur Jesú af hálfu kirkjunnar í Róm (sjá einnig þetta svar eftir Sigurjón Árna Eyjólfsson).

Um árið 200 varð sá siður til hjá gnostíkerum í Egyptalandi að minnast skírnar Jesú 6. janúar og náði hann töluverðri útbreiðslu áður en 25. desember varð síðar ofan á. Margir litu svo á að halda ætti upp á fæðingardag Jesú um leið og skírnina og litu því jafnframt á 6. janúar sem fæðingardag hans. Smám saman vék þessi dagur fyrir 25. desember nema hjá armensku kirkjunni sem enn þann dag í dag lítur á 6. janúar sem fæðingarhátíð Jesú. Þar sem armenska kirkjan notast við dagatal sem er einum degi á undan júlíanska dagatalinu fer þessi hátíð fram 19. janúar samkvæmt okkar dagatali.

Hér er komið að helstu ástæðunni fyrir mismunandi dagsetningum jólahalds, en það er einmitt mismunandi tímatal. Árið 1582 innleiddi Gregoríus páfi hið svokallaða gregoríanska tímatal í stað þess júlíanska sem verið hafði við lýði. Þetta var gert vegna 14 daga skekkju í árinu sem komin var í júlíanska dagatalið (sjá nánari skýringu í þessu svari eftir Þorstein Vilhjálmsson). Gregoríanska tímatalið var smám saman tekið upp af hinum ýmsu þjóðum allt fram á 20. öld.

Þótt austurkirkjan starfi í löndum sem tóku á endanum upp gregoríanska tímatalið er kirkjuárið enn samkvæmt hinu júlíanska tímatali eða 14 dögum á eftir okkar. Jóladagur, 25. desember, rennur því ekki upp samkvæmt dagatali austurkirkjunnar fyrr en þann dag sem við köllum 7. janúar (sjá nánar hér). Undantekning frá þessu er kirkjan í Grikklandi og á Kýpur sem notast við gregoríanska tímatalið fyrir hátíðir á borð við jólin sem eiga sér fastar dagsetningar, en júlíanska tímatalið fyrir færanlegar hátíðir á borð við páska.

Að sjálfsögðu felst engin sagnfræðileg vísun í tímasetningu jóla eða fæðingarhátíðar Krists; með tímasetningunni er ekki verið að fullyrða að tiltekinn raunverulegur atburður hafi orðið á þessum árstíma. Í fyrsta lagi er ekki fullvíst að Jesús hafi verið til sem sagnfræðileg persóna, sjá svar Sverris Jakobssonar um það efni. Jafnvel þótt heimildir teldust nógu traustar til að slá því föstu að Jesús hafi verið til, þá dygðu þær í öðru lagi engan veginn til að ákvarða hvenær ársins hann fæddist. Í þriðja lagi gerir kirkjan ekkert endilega ráð fyrir því að hann hafi í raun og veru fæðst á þessum dögum ársins. Slíkt er aukaatriði í samanburði við hitt að menn hafa valið þessa daga til að minnast þessa atburðar eða sagnanna um hann, og raunar síðan skipulagt kirkjuárið út jólum og páskum (sjá svar Sigurjóns Árna Eyjólfssonar).

Heimildir:

Mynd:

...