Brandajól kalla gamlir menn á Íslandi þá jóladag ber á mánadag, áttadag á mánadag og þrettánda á laugardag. Segja þeir þá, eftir jólaskrá, hætt við húsbruna, aðrir halda það so kallað af miklum ljósabrennslum. Aðrir segja brandajól heita ei nema þegar jóladagurinn var fyrra árið á laugardegi og stökkur vegna hlaupárs á mánadag. Sed alterum communius (AM 732 a XII 4to).Samkvæmt öðrum heimildum var einnig stundum talað um brandajól þegar sunnudagur lenti á eftir jólahelginni, það er á þriðja í jólum. Jón frá Grunnavík (AM 433 fol.) kallar það brandajól hin minni en kallar það brandajól hin meiri þegar jóladagur lendir á mánudegi. Aðrar heimildir eru til þar sem annar skilningur er lagður í brandajól og einnig breyttist þetta eftir að laugardagurinn var gerður að almennum frídegi á 20. öld. Þó hljóta jólin í ár (árið 2000) að teljast til brandajóla þar sem fjórir frídagar fást í röð. Rétt er að benda á að þau uppfylla bæði skilyrðin sem Árni Magnússon nefnir; jóladag ber upp á mánudag og þetta ár er hlaupár. Einnig uppfylla þau skilyrði Jóns frá Grunnavík um brandajól hin meiri sem einnig mætti kalla stóru brandajól. Sjá meira um brandajól hér á vefsetri Almanaks Háskóla Íslands. Heimildir: Almanak Háskóla Íslands Árni Björnsson (1993), Saga daganna, Reykjavík: Mál og menning.
Hvað eru stóru brandajól?
Útgáfudagur
23.12.2000
Spyrjandi
Ari Bragason
Tilvísun
EMB. „Hvað eru stóru brandajól?“ Vísindavefurinn, 23. desember 2000, sótt 14. september 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=1248.
EMB. (2000, 23. desember). Hvað eru stóru brandajól? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=1248
EMB. „Hvað eru stóru brandajól?“ Vísindavefurinn. 23. des. 2000. Vefsíða. 14. sep. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=1248>.