Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Þjóðverjar réðust inn í Sovétríkin hinn 22. júní 1941 og þremur mánuðum síðar var Leníngrad umkringd á alla vegu. Umsátur Þjóðverja um borgina varði í 900 daga og afleiðingarnar voru hörmulegar. Alls er talið að um milljón manns – þriðjungur borgarbúa – hafi látið lífið í sprengjuárásum, eldsvoðum, úr hungri, smitsjúkdómum og fimbulkulda.
Í þann mund sem hersveitir nasista nálguðust úthverfi borgarinnar tók tónskáldið Dmítríj Shostakovitsj (1906–1975) að festa á blað tóna sjöundu sinfóníunnar, sem kölluð hefur verið „Leníngradsinfónían“. Þegar hann hafði lokið við fyrstu þrjá þættina fékk hann skipun frá yfirvöldum um að yfirgefa borgina ásamt konu sinni og börnum. Meðan á stríðinu stóð hafði sovéska stjórnin aðsetur í borginni Kuibyshev, norður af Kaspíahafi, og þangað voru listamenn Leníngradborgar einnig sendir, meðal annars heilu listaskólarnir, leikhús- og balletthópar, og hljómsveitir. Þar lauk Shostakovitsj við sinfóníuna í árslok 1941. Frumflutningurinn fór fram í Kuibyshev í mars 1942 og Moskvubúar fengu að heyra verkið nokkrum vikum síðar. Handritið var því næst ljósmyndað og þá fór af stað ævintýraleg atburðarás, filman var send með flugvél til Teheran, keyrð þaðan alla leið til Kaíró og loks flogið með hana til New York þar sem Arturo Toscanini stjórnaði hljómsveit NBC-útvarpsstöðvarinnar í beinni útsendingu um gjörvöll Bandaríkin. Sá flutningur vakti feikilega athygli og innsiglaði í huga almennings bandalag austurs og vesturs gegn Hitler og ríki hans.
Talið er að umsátur Þjóðverja um Leníngrad 1941-1943 hafi kostað um milljón borgarbúa lífið.
Ótrúlegastur var samt frumflutningur sinfóníunnar í sjálfri borginni sem fjallað er um. Þar ákváðu yfirvöld að láta flytja verkið til að stappa stálinu í borgarbúa, en Fílharmóníuhljómsveit borgarinnar hafði verið flutt á brott. Útvarpshljómsveitin var enn til staðar – eða réttara sagt hluti hennar, því að flestir meðlimir voru ýmist látnir eða nær dauða en lífi. Með því að fá spilara að láni úr herlúðrasveitum tókst að manna hina stóru hljómsveit sem tónskáldið krefst. Æfingar stóðu mánuðum saman enda höfðu hljóðfæraleikararnir fyrst um sinn ekki þrek til að æfa nema í um 20 mínútur í einu. Loks tókst að flytja verkið 9. ágúst – en þann dag hafði Hitler einmitt áformað að halda mikla veislu til að fagna sigrinum á Leníngrad sem aldrei varð. Sinfóníunni var útvarpað um risahátalara svo að allir borgarbúar – og hersveitir nasista skammt handan við borgarmörkin – gætu heyrt. Í tónleikasalnum sjálfum ætlaði fagnaðarlátunum aldrei að linna; sagt er að áheyrendur hafi klappað á fæti í heila klukkustund eftir að verkinu lauk.
Slíkar undirtektir koma í sjálfu sér ekki á óvart enda er Leníngradsinfónían mögnuð smíði. Hún hefst á stefi sem er öryggið uppmálað, og allt virðist fyrst um sinn vera í lukkunnar velstandi. En þegar hin hefðbundnu meginstef sónötuformsins hafa hljómað tekur verkið óvænta stefnu. Örveikur sneriltrommusláttur hljómar í fjarska og honum fylgir nýtt stef – eins konar mars, barnslega einfaldur. Hann er leikinn hvað eftir annað og hljóðfærin taka við hvert af öðru: fiðlur, flautur, óbó, trompet, klarínett, enskt horn, og svo framvegis. Í hvert sinn hljómar stefið sterkar en áður og tromman vex einnig í styrk þegar á líður, eins og tónlistin – eða innrásarliðið sem henni er ætlað að lýsa – færist sífellt nær. Það er varla tilviljun að talsverð líkindi eru með þessu stefi og vinsælli aríu úr Kátu ekkjunni, sem var eftirlætisóperetta Hitlers.
Leningradsinfónían undir stjórn Yevgeny Mravinsky. Verk frá 1980 eftir Lev Alexandrovich Russov (1926-1987). Yevgeny Mravinsky var aðalstjórnandi Fílharmóníuhljómsveitar Leníngrad 1938-1988. Þar sem hann ásamt hljómsveitinni hafði verið fluttur burt úr borginni kom það í hlut hljómsveitarstjórans Karl Eliasberg að stjórna frumflutningi 7. sinfóníu Shostakovitsj í Leníngrad.
Lýsing Shostakovitsj á innrás nasista á margt skylt við hermitónlist 19. aldar en margföld endurtekning stefsins með vaxandi styrk ber einnig vott um áhrif frá Bolero eftir Ravel. Ekki voru allir hrifnir af efnistökum Shostakovitsj. Árið 1943 gerði Béla Bartók, ungverski tónsnillingurinn sem bjó við kröpp kjör í New York og þótti lítið til vinsælda Leníngradsinfóníunnar koma, kostulegt grín að hinum „truflaða“ sinfóníukafla í meistaraverkinu Konsert fyrir hljómsveit (Intermezzo interrotto).
Eftir innrás þessa óvænta stefs stendur vart steinn yfir steini og þegar upphafsstef þáttarins snýr aftur er allt breytt. Það sem áður var björt og glaðvær tónlist hljómar nú í dökkum moll; blíðar fiðluhendingar eru orðnar að döprum fagotttónum. Kaflinn heldur sig á veiku nótunum það sem eftir er og undir lokin má enn heyra óm af trommuslætti í fjarska.
Annar kafli sinfóníunnar hefst með ljóðrænu og dansandi stefi í fiðlum; skömmu síðar leikur óbó tregablandna laglínu. Það er ekki fyrr en seinna að tónlistin skiptir um gír, tekur upp þrískiptan takt með skræku stefi í Es-klarínetti. Þriðji þáttur er alvaran uppmáluð. Tvær tónhugmyndir ráða ferðinni, annars vegar eins konar sálmalag sem blásarar leika, hins vegar fagurt stef í fiðlum. Áður en kaflanum lýkur hefur Shostakovitsj sameinað stefin tvö á áhrifamikinn hátt.
Lokaþátturinn hefst á hægum og veikum tónum. Andrúmsloftið einkennist af varkárni en spennan vex eftir því sem á líður, með glæsilegum tilþrifum og miklum lúðraþyt. Átökin eru á köflum töluverð, en undir lokin er eins og allt hafi verið leyst farsællega. Nú leikur hver eins og hann eigi lífið að leysa, en þó er nógu mikið af „vitlausum“ nótum til að draga nokkuð úr áhrifamætti lokasigursins. Kannski er það einmitt það sem Shostakovitsj ætlaði sér.
Myndir:
Árni Heimir Ingólfsson. „Hver er sagan á bak við Leníngradsinfóníuna og flutning hennar í umsátri Þjóðverja um borgina?“ Vísindavefurinn, 7. janúar 2019, sótt 14. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=12710.
Árni Heimir Ingólfsson. (2019, 7. janúar). Hver er sagan á bak við Leníngradsinfóníuna og flutning hennar í umsátri Þjóðverja um borgina? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=12710
Árni Heimir Ingólfsson. „Hver er sagan á bak við Leníngradsinfóníuna og flutning hennar í umsátri Þjóðverja um borgina?“ Vísindavefurinn. 7. jan. 2019. Vefsíða. 14. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=12710>.