Sólin Sólin Rís 08:37 • sest 18:45 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:24 • Sest 08:50 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 09:01 • Síðdegis: 21:19 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 02:59 • Síðdegis: 15:12 í Reykjavík

Geta veirusýkingar fylgt mat? Hverjar eru þær helstu og afleiðingar þeirra?

Guðmundur Pétursson

Ýmsar veirusýkingar geta borist með mat og drykk. Margar þeirra valda iðrakvefi, það er bólgu í meltingarvegi. Einkennin geta verið niðurgangur, ógleði og uppköst og stundum höfuðverkur, sótthiti og kveisuverkir. Sjúkdómseinkenni koma oftast fram 1-2 sólarhringum eftir smit og standa mislengi eftir veirutegundum, allt frá einum og upp í 10 daga. Oftast nær er ekki um alvarlegan sjúkdóm að ræða en vökvatap vegna uppkasta og niðurgangs getur valdið hættuástandi hjá ungbörnum, gamalmennum, þeim sem hafa lélegt ónæmiskerfi og öðru veikluðu fólki.

Margar veirutegundir geta valdið iðrakvefi. Má þar nefna rota-veirur, adeno-veirur, astro-veirur, corona-veirur og calici-veirur (svokallaðar Norwalk-veirur og aðrar skyldar þeim). Þessar veirur skiljast út með saur og geta borist í matvæli og vatn. Því er mikilvægt að þeir sem vinna við matvæli og matartilbúning gæti hreinlætis í hvívetna og þvoi sér vel um hendur eftir salernisferðir. Ýmis matvæli eru öðrum varasamari og má þar nefna ostrur og annan hráan skelfisk, salat, ýmsa forrétti, ávexti, samlokur og aðra ósoðna rétti. Þær veirur sem geta borist með mat og drykk geta einnig borist frá manni til manns og geta þannig valdið hópsýkingum án þess að matvæli komi við sögu, til dæmis á barnaheimilum og elliheimilum.

Af öðrum veirum sem sýkja munnleiðis má nefna veiru (hepatitis A) sem veldur lifrarbólgu og tengist oft neyslu á menguðu drykkjarvatni, hráum skelfiski og öðrum ósoðnum matvælum. Þeir sem ferðast um þróunarlönd þurfa að gæta sín sérstaklega gegn þessu en hægt er að bólusetja við þessari veirusýkingu.

Ýmsar veirur sýkja meltingarveg án þess að valda iðrakvefi en skiljast út með saur og geta borist með menguðu drykkjarvatni og matvælum. Þekktasta dæmi um slíkt eru væntanlega mænusóttarveirur, en meðal annarra í þessum flokki má nefna coxsackie-veirur, echo-veirur og aðrar entero-veirur og reo-veirur. Þess má geta að mænusóttarveirum hefur verið útrýmt með bólusetningu víða um lönd og gera menn sér vonir um að það takist að losna alveg við þessa hættulegu veiru úr heiminum á næstu árum.

Höfundur

fyrrverandi forstöðumaður Tilraunastöðvar HÍ í meinafræði að Keldum

Útgáfudagur

1.2.2001

Spyrjandi

Ingibjörg Óttarsdóttir

Tilvísun

Guðmundur Pétursson. „Geta veirusýkingar fylgt mat? Hverjar eru þær helstu og afleiðingar þeirra?“ Vísindavefurinn, 1. febrúar 2001. Sótt 29. febrúar 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=1314.

Guðmundur Pétursson. (2001, 1. febrúar). Geta veirusýkingar fylgt mat? Hverjar eru þær helstu og afleiðingar þeirra? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=1314

Guðmundur Pétursson. „Geta veirusýkingar fylgt mat? Hverjar eru þær helstu og afleiðingar þeirra?“ Vísindavefurinn. 1. feb. 2001. Vefsíða. 29. feb. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=1314>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Geta veirusýkingar fylgt mat? Hverjar eru þær helstu og afleiðingar þeirra?
Ýmsar veirusýkingar geta borist með mat og drykk. Margar þeirra valda iðrakvefi, það er bólgu í meltingarvegi. Einkennin geta verið niðurgangur, ógleði og uppköst og stundum höfuðverkur, sótthiti og kveisuverkir. Sjúkdómseinkenni koma oftast fram 1-2 sólarhringum eftir smit og standa mislengi eftir veirutegundum, allt frá einum og upp í 10 daga. Oftast nær er ekki um alvarlegan sjúkdóm að ræða en vökvatap vegna uppkasta og niðurgangs getur valdið hættuástandi hjá ungbörnum, gamalmennum, þeim sem hafa lélegt ónæmiskerfi og öðru veikluðu fólki.

Margar veirutegundir geta valdið iðrakvefi. Má þar nefna rota-veirur, adeno-veirur, astro-veirur, corona-veirur og calici-veirur (svokallaðar Norwalk-veirur og aðrar skyldar þeim). Þessar veirur skiljast út með saur og geta borist í matvæli og vatn. Því er mikilvægt að þeir sem vinna við matvæli og matartilbúning gæti hreinlætis í hvívetna og þvoi sér vel um hendur eftir salernisferðir. Ýmis matvæli eru öðrum varasamari og má þar nefna ostrur og annan hráan skelfisk, salat, ýmsa forrétti, ávexti, samlokur og aðra ósoðna rétti. Þær veirur sem geta borist með mat og drykk geta einnig borist frá manni til manns og geta þannig valdið hópsýkingum án þess að matvæli komi við sögu, til dæmis á barnaheimilum og elliheimilum.

Af öðrum veirum sem sýkja munnleiðis má nefna veiru (hepatitis A) sem veldur lifrarbólgu og tengist oft neyslu á menguðu drykkjarvatni, hráum skelfiski og öðrum ósoðnum matvælum. Þeir sem ferðast um þróunarlönd þurfa að gæta sín sérstaklega gegn þessu en hægt er að bólusetja við þessari veirusýkingu.

Ýmsar veirur sýkja meltingarveg án þess að valda iðrakvefi en skiljast út með saur og geta borist með menguðu drykkjarvatni og matvælum. Þekktasta dæmi um slíkt eru væntanlega mænusóttarveirur, en meðal annarra í þessum flokki má nefna coxsackie-veirur, echo-veirur og aðrar entero-veirur og reo-veirur. Þess má geta að mænusóttarveirum hefur verið útrýmt með bólusetningu víða um lönd og gera menn sér vonir um að það takist að losna alveg við þessa hættulegu veiru úr heiminum á næstu árum....