Hví freyðir mikið í gosi í glösum sem eru sápuþvegin?Sápuþvottur á glösum hefur yfirleitt ekki þau áhrif að gosdrykkir freyði meira í glösunum. Sápan hreinsar óhreinindi af yfirborði glasanna og það hefur í raun þau áhrif að færri tækifæri eru fyrir svonefndar koltvíoxíðbólur að myndast í glösunum en þegar örlítil óhreinindi eins rykkorn sitja eftir í glösunum. Koltvíoxíðsameindir í drykkjum fara annað hvort stakar að yfirborðinu og losna út í andrúmsloftið eða safnast saman í loftbólur við ákveðin skilyrði. Þegar loftbólurnar eru orðnar nægilega stórar, rísa þær upp að yfirborðinu, springa og koltvíoxíðið losnar út í andrúmsloftið. Þegar gosdrykk er hellt í glas eykst yfirborð drykkjarins verulega á stuttum tíma. Þá getur fjöldi koltvíoxíðsameinda sloppið hratt úr drykknum, annað hvort sem stakar sameindir við yfirborð vökvans eða sem loftbólur sem myndast á innanverðu glasinu og rísa upp og springa við yfirborð vökvans. Vegna þess hversu margar koltvíoxíðsameindir rísa á skömmum tíma, ná þær að ryðja vökvanum við yfirborðið upp á við og þá myndast froða. Froðan er í raun bara efsta lag gosdrykkjarins yfirfullt af innlyksa koltvíoxíði. Loftbólurnar lifa þó ekki lengi og því hjaðnar froðan tiltölulega fljótt. Forsenda þess að koltvíoxíðloftbólur myndist er ójafnt yfirborð, til dæmis vegna rykkorns eða rispu í glasi. Á þessum stöðum koma koltvíoxíðsameindirnar saman og mynda örloftbólur sem stækka hratt þegar fleiri koltvíoxíðsameindir bætast við.

Í glösum sem eru vel þvegin freyðir gosið yfirleitt minna en ef einhver óhreinindi eru eftir í glösunum. Þá eru færri tækifæri fyrir koltvíoxíðsameindir til að safnast saman í bólur.
- Yfirlitsmynd: Soap bubbles 4 - Flickr. (Sótt 16.09.2025).
- como burbujas - Flickr. (Sótt 16.09.2025).