Af hverju freyða gosdrykkir meira í bollum en glerglösum?Það sem við köllum kolsýru er einfaldlega lofttegundin koltvíoxíð (einnig nefnd koltvíildi) sem hefur bundist vatni samkvæmt eftirfarandi efnahvarfi:
CO2 + H2O ⇌ H2CO3Þar sem CO2 er koltvíoxíð, H2O er vatn og H2CO3 er kolsýra. Koltvíoxíði er bætt út í drykki til að gefa þeim frískandi áferð. Koltvíoxíðinu er dælt út í drykkina undir miklum þrýstingi til að leysa mun meira koltvíoxíð upp í drykknum en hægt er undir venjulegum loftþrýstingi. Þetta verður til þess að þegar flaskan eða dósin með gossdrykknum er opnuð, fellur þrýstingurinn í ílátinu og verður jafn þrýstingnum fyrir utan. Efnahvarfið hér fyrir ofan gengur þá að hluta til baka og við það losnar koltvíoxíð úr drykknum. Stakar koltvíoxíðsameindir í drykkjum geta annað hvort farið að yfirborðinu og losnað út í andrúmsloftið eða safnast saman í loftbólur við ákveðin skilyrði. Þegar loftbólurnar eru orðnar nægilega stórar, rísa þær upp að yfirborðinu, springa og koltvíoxíðið losnar út í andrúmsloftið. Þessi frískandi og skemmtilega áferð á gosdrykkjum er einmitt koltvíoxíðloftbólur sem verða til í drykkjunum þegar efnahvarfið að ofan gengur til baka. Við skynjum loftbólurnar með tungunni og munninum þegar við drekkum drykkina. Forsenda þess að koltvíoxíðloftbólur myndist er ójafnt yfirborð, til dæmis vegna rykkorns eða rispu í glasi. Á þessum stöðum koma koltvíoxíðsameindirnar saman og mynda örloftbólur sem stækka hratt þegar fleiri koltvíoxíðsameindir bætast við. Myndun örloftbóla kallast „nucleation“ á ensku og mætti þýða sem „kjarnamyndun“. Staðurinn þar sem örloftbólurnar myndast gæti þá kallast „kjarnamyndunarstaður“ (e. nucleation site).

Þegar yfirborð glerglasa, bolla og plastglasa er skoðað í smásjá sést að yfirborð glerglasanna er mun sléttara en hinna ílátanna. Með öðrum orðum, þá eru fleiri litlar holur eða rákir á yfirborði bolla og plastglasa sem henta vel sem kjarnamyndunarstaðir fyrir myndun koltvíoxíðloftbóla. Þetta er skýringin á því af hverju gosdrykkir freyða meira í bollum og plastglösum en í glerglösum.
- Yfirlitsmynd: Diet Coca Cola Bubbles Detail-1 | Mirror Photography | zeevveez | Flickr. (Sótt 12.09.2025).
- Free Stock Photo of Carbonated drink served in a pint glass | Download Free Images and Free Illustrations. (Sótt 12.09.2025).