Sólin Sólin Rís 10:49 • sest 15:45 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 06:52 • Síðdegis: 19:06 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 00:36 • Síðdegis: 13:09 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:49 • sest 15:45 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 06:52 • Síðdegis: 19:06 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 00:36 • Síðdegis: 13:09 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvers vegna getur einstaklingur ekki ráðstafað öllum eignum sínum að vild í erfðaskrá, heldur þurfa 2/3 eigna að ganga til lögerfingja?

Halldór Gunnar Haraldsson

Gert er ráð fyrir því í spurningunni að 2 þriðjuhlutar eigna skuli alltaf ganga til lögerfingja. Það er ónákvæmt. Lögerfingjar eru þeir erfingjar sem erfa arfleifanda (hinn látna) ef engri erfðaskrá er til að dreifa. Ef arfleifandi á maka eða niðja ganga eignir hans til þeirra. Sé engum maka eða niðjum til að dreifa ganga eignir arfleifanda til annarra lögerfingja samkvæmt ákvæðum erfðalaga nr. 8/1962.

Skylduerfingjar eru hins vegar aðeins maki og niðjar arfleifanda, ekki aðrir lögerfingjar. Eigi arfleifandi enga skylduerfingja er honum heimilt að ráðstafa öllum eignum sínum með erfðaskrá. Ef hann á skylduerfingja má hann að hámarki ráðstafa 1/3 með erfðaskrá, en að minnsta kosti 2/3 verða að ganga til skylduerfingja.

Í skilningi erfðalaga telst sambýlingur ekki maki nema um sé að ræða hjúskap eða staðfesta samvist samkynhneigðra, sbr. lög nr. 87/1996 um staðfesta samvist. Svokölluð óvígð sambúð myndar til dæmis ekki lögerfðatengsl.

Þá þurfa niðjar arfleifanda að eiga arfleifanda að kynforeldri eða að vera ættleiddir til að um lögerfðatengsl sé að ræða. Fósturbörn sem eru ekki ættleidd eiga til að mynda ekki lögerfðarétt. Þá er rétt að geta þess hér að áður en arfskipti eftir arfleifanda fara fram verður að ljúka fjárskiptum við maka ef um hann hefur verið að ræða.

Spurt er hvers vegna arfleifanda er ekki heimilt að ráðstafa öllum arfi sínum með erfðaskrá þótt hann eigi maka eða niðja. Því er til að svara að svona hefur löggjafinn kosið að haga þessu þó að sumir kunni að telja það til forsjárhyggju. Sanngirnisrök eru talin liggja til þess að maki og niðjar skuli erfa meginhluta eigna arfleifanda auk þess sem ósanngjarnt þykir að arfleifandi geti mismunað niðjum sínum um of vegna ýmiss konar sárinda sem slíkt kann að valda, til dæmis ef ákvarðanir eru teknar út frá tímabundnum duttlungum eða undir annarlegum áhrifum.

Ef til vill eru þessi sjónarmið arfur frá gamalli tíð, en á þjóðveldisöld var mönnum til dæmis ekki heimilt að gefa eigur sínar nema upp að vissu marki. Tilgangurinn með slíkum ákvæðum var að tryggja hag fjölskyldunnar. Fjölskyldan var tryggingafélag og menn höfðu ríkum skyldum að gegna gagnvart fjölskyldum sínum. Fjölskyldufaðirinn valdi til dæmis eiginmenn handa dætrum sínum. Hjónabönd voru að vissu leyti útvíkkun fjölskyldunnar og þar með tryggingafélagsins ef svo má segja.

Spyrja má hvort sjónarmið af þessu tagi þjóni nokkrum tilgangi nú á dögum. Þegar arfleifandi deyr eru niðjar hans iðulega fullorðið fólk. Hvaða siðferðilega rétt hafa þeir til eigna foreldra sinna? Er ekki nóg að foreldrar fæði börn sín og klæði, mennti þau og veiti þeim alla sína ástúð og umhyggju á meðan þau eru að komast til manns? Er ekki skyldum foreldranna lokið þegar barnið flytur að heiman? Jafnvel mætti ganga lengra og spyrja hvort börn gangist ekki undir skyldur við foreldra sína þegar þeir eru orðnir gamlir og gráhærðir. Er það ekki sanngjarnt endurgjald fyrir uppeldið að börn annist foreldra sína í ellinni?

Ljóst er þó að löggjafanum hefur þótt sanngjarnt að maki og niðjar arfleifanda erfi hann að meginstefnu til. Í þessu tilliti hallast íslenski löggjafinn greinilega meira að einhvers konar fjölskyldu- eða félagshyggju en einstaklings- eða frjálshyggju. Þessi sjónarmið vegast alls staðar á í lögum. Oft ráða tískubylgjur för. Einn daginn er einstaklingshyggjan allsráðandi, annan félagshyggjan. Í raun ræðir hér miklu fremur um sígilt pólitískt viðfangsefni en lögfræðilegt, og um leið um grundvallarviðhorf sem kunna að breytast hægt og hægt með tímanum.

Þó að löggjafinn hafi vissulega tekið mikið tillit til skylduerfingja, sumir myndu segja á kostnað eignarréttar arfleifanda, eru skylduerfðareglurnar ekki algjörlega undantekningarlausar. Í 1. mgr. 23. gr. erfðalaga er kveðið á um að hafi maður af ásetningi framið brot á ákvæðum almennra hegningarlaga, sem haft hefur í för með sér dauða annars manns, megi ákveða með dómi að hann hafi fyrirgert sjálfum sér til handa rétti til þess arfs sem háður var dauða hins.

Þá segir í 2. mgr. 23. gr. erfðalaga að hafi maður vísvitandi í frammi ofbeldi við foreldri sitt eða annan ættingja í beinum legg upp á við, heitist við hann eða hóti honum óförum, meiði æru hans eða gerist sekur við hann um stórfelldar mótgerðir, svo að refsivert sé, þá megi dæma hann til að hafa fyrirgert erfðarétti sínum eftir þann mann, sem fyrir misgerðinni varð, ef hann krefst þess. Má ætla að þessi ákvæði mildi skylduerfðareglurnar nokkuð. Er sú vísast ástæðan til þess, að þegjandi sátt hefur lengst af ríkt um skylduerfðareglur hér á landi sem annars staðar.

Heimild

Páll Sigurðsson, Erfðaréttur, útg. 1998

Höfundur

Útgáfudagur

22.5.2001

Spyrjandi

Ólafur Jónsson

Tilvísun

Halldór Gunnar Haraldsson. „Hvers vegna getur einstaklingur ekki ráðstafað öllum eignum sínum að vild í erfðaskrá, heldur þurfa 2/3 eigna að ganga til lögerfingja?“ Vísindavefurinn, 22. maí 2001, sótt 2. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=1630.

Halldór Gunnar Haraldsson. (2001, 22. maí). Hvers vegna getur einstaklingur ekki ráðstafað öllum eignum sínum að vild í erfðaskrá, heldur þurfa 2/3 eigna að ganga til lögerfingja? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=1630

Halldór Gunnar Haraldsson. „Hvers vegna getur einstaklingur ekki ráðstafað öllum eignum sínum að vild í erfðaskrá, heldur þurfa 2/3 eigna að ganga til lögerfingja?“ Vísindavefurinn. 22. maí. 2001. Vefsíða. 2. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=1630>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvers vegna getur einstaklingur ekki ráðstafað öllum eignum sínum að vild í erfðaskrá, heldur þurfa 2/3 eigna að ganga til lögerfingja?
Gert er ráð fyrir því í spurningunni að 2 þriðjuhlutar eigna skuli alltaf ganga til lögerfingja. Það er ónákvæmt. Lögerfingjar eru þeir erfingjar sem erfa arfleifanda (hinn látna) ef engri erfðaskrá er til að dreifa. Ef arfleifandi á maka eða niðja ganga eignir hans til þeirra. Sé engum maka eða niðjum til að dreifa ganga eignir arfleifanda til annarra lögerfingja samkvæmt ákvæðum erfðalaga nr. 8/1962.

Skylduerfingjar eru hins vegar aðeins maki og niðjar arfleifanda, ekki aðrir lögerfingjar. Eigi arfleifandi enga skylduerfingja er honum heimilt að ráðstafa öllum eignum sínum með erfðaskrá. Ef hann á skylduerfingja má hann að hámarki ráðstafa 1/3 með erfðaskrá, en að minnsta kosti 2/3 verða að ganga til skylduerfingja.

Í skilningi erfðalaga telst sambýlingur ekki maki nema um sé að ræða hjúskap eða staðfesta samvist samkynhneigðra, sbr. lög nr. 87/1996 um staðfesta samvist. Svokölluð óvígð sambúð myndar til dæmis ekki lögerfðatengsl.

Þá þurfa niðjar arfleifanda að eiga arfleifanda að kynforeldri eða að vera ættleiddir til að um lögerfðatengsl sé að ræða. Fósturbörn sem eru ekki ættleidd eiga til að mynda ekki lögerfðarétt. Þá er rétt að geta þess hér að áður en arfskipti eftir arfleifanda fara fram verður að ljúka fjárskiptum við maka ef um hann hefur verið að ræða.

Spurt er hvers vegna arfleifanda er ekki heimilt að ráðstafa öllum arfi sínum með erfðaskrá þótt hann eigi maka eða niðja. Því er til að svara að svona hefur löggjafinn kosið að haga þessu þó að sumir kunni að telja það til forsjárhyggju. Sanngirnisrök eru talin liggja til þess að maki og niðjar skuli erfa meginhluta eigna arfleifanda auk þess sem ósanngjarnt þykir að arfleifandi geti mismunað niðjum sínum um of vegna ýmiss konar sárinda sem slíkt kann að valda, til dæmis ef ákvarðanir eru teknar út frá tímabundnum duttlungum eða undir annarlegum áhrifum.

Ef til vill eru þessi sjónarmið arfur frá gamalli tíð, en á þjóðveldisöld var mönnum til dæmis ekki heimilt að gefa eigur sínar nema upp að vissu marki. Tilgangurinn með slíkum ákvæðum var að tryggja hag fjölskyldunnar. Fjölskyldan var tryggingafélag og menn höfðu ríkum skyldum að gegna gagnvart fjölskyldum sínum. Fjölskyldufaðirinn valdi til dæmis eiginmenn handa dætrum sínum. Hjónabönd voru að vissu leyti útvíkkun fjölskyldunnar og þar með tryggingafélagsins ef svo má segja.

Spyrja má hvort sjónarmið af þessu tagi þjóni nokkrum tilgangi nú á dögum. Þegar arfleifandi deyr eru niðjar hans iðulega fullorðið fólk. Hvaða siðferðilega rétt hafa þeir til eigna foreldra sinna? Er ekki nóg að foreldrar fæði börn sín og klæði, mennti þau og veiti þeim alla sína ástúð og umhyggju á meðan þau eru að komast til manns? Er ekki skyldum foreldranna lokið þegar barnið flytur að heiman? Jafnvel mætti ganga lengra og spyrja hvort börn gangist ekki undir skyldur við foreldra sína þegar þeir eru orðnir gamlir og gráhærðir. Er það ekki sanngjarnt endurgjald fyrir uppeldið að börn annist foreldra sína í ellinni?

Ljóst er þó að löggjafanum hefur þótt sanngjarnt að maki og niðjar arfleifanda erfi hann að meginstefnu til. Í þessu tilliti hallast íslenski löggjafinn greinilega meira að einhvers konar fjölskyldu- eða félagshyggju en einstaklings- eða frjálshyggju. Þessi sjónarmið vegast alls staðar á í lögum. Oft ráða tískubylgjur för. Einn daginn er einstaklingshyggjan allsráðandi, annan félagshyggjan. Í raun ræðir hér miklu fremur um sígilt pólitískt viðfangsefni en lögfræðilegt, og um leið um grundvallarviðhorf sem kunna að breytast hægt og hægt með tímanum.

Þó að löggjafinn hafi vissulega tekið mikið tillit til skylduerfingja, sumir myndu segja á kostnað eignarréttar arfleifanda, eru skylduerfðareglurnar ekki algjörlega undantekningarlausar. Í 1. mgr. 23. gr. erfðalaga er kveðið á um að hafi maður af ásetningi framið brot á ákvæðum almennra hegningarlaga, sem haft hefur í för með sér dauða annars manns, megi ákveða með dómi að hann hafi fyrirgert sjálfum sér til handa rétti til þess arfs sem háður var dauða hins.

Þá segir í 2. mgr. 23. gr. erfðalaga að hafi maður vísvitandi í frammi ofbeldi við foreldri sitt eða annan ættingja í beinum legg upp á við, heitist við hann eða hóti honum óförum, meiði æru hans eða gerist sekur við hann um stórfelldar mótgerðir, svo að refsivert sé, þá megi dæma hann til að hafa fyrirgert erfðarétti sínum eftir þann mann, sem fyrir misgerðinni varð, ef hann krefst þess. Má ætla að þessi ákvæði mildi skylduerfðareglurnar nokkuð. Er sú vísast ástæðan til þess, að þegjandi sátt hefur lengst af ríkt um skylduerfðareglur hér á landi sem annars staðar.

Heimild

Páll Sigurðsson, Erfðaréttur, útg. 1998...