Sólin Sólin Rís 05:51 • sest 21:06 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 09:47 • Sest 06:52 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 00:02 • Síðdegis: 12:48 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 06:36 • Síðdegis: 18:53 í Reykjavík

Hvaða máli skiptir votlendi?

Bryndís Marteinsdóttir

Votlendi sem er stærra en tveir hektarar hefur notið sérstakrar verndar samkvæmt lögum um náttúruvernd frá árinu 2013.[1] Samkvæmt lögunum er óheimilt að raska því nema brýna nauðsyn beri til. En hvers vegna nýtur votlendi þessarar sérstöku verndar, hvað er svona sérstakt við það?

Votlendi er mikilvægt búsvæði plantna, fugla, fiska og smádýra. Allt að 90% íslenskra varpfugla, og þá eru sjófuglar ekki teknir með, farfugla og vetrargesta byggja afkomu sína að einhverju leyti á votlendi og þar eru oft mjög fjölbreyttar tegundir plantna og smádýra. Votlendi er talið svo mikilvægt að fyrsti alþjóðasamningurinn um náttúruvernd og sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda, Ramsar-samningurinn frá árinu 1971, var um verndun og skynsamlega nýtingu votlendis, með áherslu á vernd alþjóðlegra mikilvægra svæða sem eru búsvæði votlendisfugla. Ísland hefur verið aðili að þessum samningi frá 1978.

Votlendi er einnig mikilvægt þar sem það geymir verulegan hluta kolefnisforða jarðar. Talið er að um 3% yfirborðs jarðar sé votlendi en engu að síður er þar að finna þriðjung alls kolefnis sem jarðvegur geymir. Kolefni safnast fyrir í jarðvegi votlendis sem lífrænt efni vegna þess að þar eru aðstæður vatnsmettaðar og súrefnissnauðar. Aðstæður í votlendisjarðvegi eru því ekki hliðhollar rotverum og sá lífræni massi sem fellur til ár hvert, til dæmis í formi sölnaðra plantna, brotnar ekki niður nema að hluta til, en safnast þess í stað upp.

Mór er lífrænn massi úr jurtaleifum sem myndast hefur í votlendi. Hann var nýttur sem eldsneyti á Íslandi fyrr á tíð og er enn nýttur víða í heiminum.

Votlendi bætir líka vatnsbúskap svæða og temprar vatnsflæði. Í miklum rigningum dregur votlendi til sín vatn eins og svampur en miðlar því frá sér í þurrkatíð. Þannig viðheldur það jöfnu rennsli í ám og lækjum sem er mikilvægt fyrir þær lífverur sem þar búa, og votlendi dregur enn fremur úr hættu á flóðum og minnkar sveiflur í vatnsrennsli og jarðvegsrofi. Þau hamfaraflóð sem orðið hafa í heiminum á síðustu árum má mörg rekja til þess að votlendi er horfið og því ekkert til að tempra áhrif mikilla rigninga eða leysinga. Votlendi er því eitt af merkilegustu og mikilvægustu vistkerfum landsins og jarðarinnar í heild og þess vegna nýtur það þessarar sérstöku verndar í lögum landsins.

Votlendi hefur þó ekki alltaf notið verndar á Íslandi og á árunum 1945-1985 var það þurrkað upp í stórum stíl með framræslu sem styrkt var af opinberum sjóðum. Til að byrja með var það gert til að auka við og bæta skilyrði til túnræktar, enda voru mýrar á láglendi víða frjósamar og hentuðu vel til ræktunar. Síðar þróaðist framræslan yfir í skurði í þeim tilgangi að bæta beitilönd. Skurðir voru jafnvel grafnir til að skipta upp landi í stað þess að nota girðingar, enda var vinnan við skurðina að mestu leyti kostuð með opinberum styrkjum.

Til viðbótar við framræslu til túnræktar og stækkunar beitilanda hefur talsverð framræsla farið fram vegna annarra framkvæmda, einkum vegagerðar og þurrkunar byggingarlands og sú framræsla er enn í fullum gangi.

Við framræslu eru skurðir grafnir og vatni veitt af svæðinu, grunnvatnsyfirborð lækkar og svæðin þorna. Við það hætta svæðin að vera hentug búsvæði fyrir flesta þá fugla og smádýr sem voru þar áður, og tegundasamsetning gróðurs breytist. Svæðin hætta einnig að tempra vatnsflæði, enda rennur vatn óhindrað eftir farvegum skurða en helst ekki í vistkerfinu. Í rigningu tapast næringarefnin svo hratt úr jarðveginum og flytjast með rigningarvatninu út í skurðina og til sjávar.

Á árunum 1945-1985 var mikið af votlendi á Íslandi ræst fram með skurðum, bæði til rækta tún og til að nýta mýrarnar sem beitiland. Endurheimt votlendis snýst um að færa landið aftur til fyrra horfs og draga þannig úr losun koltvísýrings sem fylgir þegar mýrum er raskað.

Lækkun grunnvatnshæðar leiðir síðan til þess að jarðvegshitinn hækkar og súrefni kemst að lífræna efninu í votlendisjarðveginum. Þetta verður til þess að það lífræna efni sem safnast hefur upp árhundruðum saman tekur að brotna niður með tilheyrandi losun gróðurhúsalofttegunda. Losun frá framræstu votlendi er gífurleg, svo mikil að framræst votlendi ber ábyrgð á meirihluta losunar kolefnis á Íslandi.

Nú er svo komið að tiltölulega lítið er eftir af óröskuðu votlendi á láglendi, í sumum landshlutum er talið að innan við 5% af votlendi sé óraskað. Í dag er þó aðeins verið að nýta brot af þessum framræstu svæðum. Að hluta til vegna breyttra búskaparhátta og að hluta til vegna þess að opinberu styrkirnir gerðu það að verkum að meira var þurrkað upp en þurfti enda framræslan atvinnuskapandi og í þá daga voru slæm áhrif framræslu á kolefnisbúskap og lífverur ekki þekkt.

Til að reyna að fá til baka eitthvað af þeim gæðum sem tapast hafa við röskun votlendis, hefur verið farið í að endurheimta þau. Við endurheimt votlendis hefur vatnsyfirborð hækkað, til dæmis þegar fyllt í skurði eða þeir stíflaðir. Þá er settur „tappi í útflæði vatns“ með það að markmiði að grunnvatnshæð nái aftur sömu hæð og var fyrir framræslu, eða eins nálægt því og hægt er.

Við þetta myndast á ný ákjósanleg búsvæði fyrir votlendisfugla og smádýr og votlendisplöntur fara að finnast á ný á svæðinu. Svæðið fer einnig smám saman að verða aftur öflugur vatnsmiðlari. Við það að hækka vatnsstöðuna hættir einnig niðurbrot lífrænna efna og þar með losun kolefnis. Þess vegna hefur endurheimt votlendis verið nefnd ein öflugasta leiðin í baráttunni við loftslagsvána.

Við endurheimt votlendis verður að sjálfsögðu að vanda vel til verka. Ef endurheimtin á að takast er ekki bara nóg að moka ofan í skurði, það þarf að vinna með eiginleika og aðstæður hvers svæðis. Miðað við allar þær aðgerðir sem Ísland er að fara í til að draga úr losun kolefnis, og uppfylla þannig þá alþjóðlegu samninga sem landið er aðili að, er endurheimt votlendis frekar ódýr og einföld aðgerð. Með henni er ekki eingöngu dregið úr losun heldur er einnig verið að endurheimta eitt af mögnuðustu vistkerfum jarðarinnar, með allri sinni tegundafjölbreytni og virkni.

Þess ber að geta að þótt hægt sé að endurheimta votlendi, á það ekki að vera ávísun á það að hægt sé að raska votlendi, því að það tekur endurheimt votlendi líklegast hundruð ára að ná sömu virkni og tegundafjölbreytni og sambærilegt óraskað votlendi.

Tilvísun:
  1. ^ Birkiskógar njóta einnig sömu verndar.

Myndir:

Þetta svar birtist fyrst sem pistill í þættinum Samfélagið á Rás 1 17.11.2022.

Höfundur

Bryndís Marteinsdóttir

sviðsstjóri sjálfbærni og loftslags hjá Landgræðslunni

Útgáfudagur

6.12.2022

Spyrjandi

Arnar Harðarson

Tilvísun

Bryndís Marteinsdóttir. „Hvaða máli skiptir votlendi?“ Vísindavefurinn, 6. desember 2022. Sótt 16. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=17243.

Bryndís Marteinsdóttir. (2022, 6. desember). Hvaða máli skiptir votlendi? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=17243

Bryndís Marteinsdóttir. „Hvaða máli skiptir votlendi?“ Vísindavefurinn. 6. des. 2022. Vefsíða. 16. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=17243>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvaða máli skiptir votlendi?
Votlendi sem er stærra en tveir hektarar hefur notið sérstakrar verndar samkvæmt lögum um náttúruvernd frá árinu 2013.[1] Samkvæmt lögunum er óheimilt að raska því nema brýna nauðsyn beri til. En hvers vegna nýtur votlendi þessarar sérstöku verndar, hvað er svona sérstakt við það?

Votlendi er mikilvægt búsvæði plantna, fugla, fiska og smádýra. Allt að 90% íslenskra varpfugla, og þá eru sjófuglar ekki teknir með, farfugla og vetrargesta byggja afkomu sína að einhverju leyti á votlendi og þar eru oft mjög fjölbreyttar tegundir plantna og smádýra. Votlendi er talið svo mikilvægt að fyrsti alþjóðasamningurinn um náttúruvernd og sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda, Ramsar-samningurinn frá árinu 1971, var um verndun og skynsamlega nýtingu votlendis, með áherslu á vernd alþjóðlegra mikilvægra svæða sem eru búsvæði votlendisfugla. Ísland hefur verið aðili að þessum samningi frá 1978.

Votlendi er einnig mikilvægt þar sem það geymir verulegan hluta kolefnisforða jarðar. Talið er að um 3% yfirborðs jarðar sé votlendi en engu að síður er þar að finna þriðjung alls kolefnis sem jarðvegur geymir. Kolefni safnast fyrir í jarðvegi votlendis sem lífrænt efni vegna þess að þar eru aðstæður vatnsmettaðar og súrefnissnauðar. Aðstæður í votlendisjarðvegi eru því ekki hliðhollar rotverum og sá lífræni massi sem fellur til ár hvert, til dæmis í formi sölnaðra plantna, brotnar ekki niður nema að hluta til, en safnast þess í stað upp.

Mór er lífrænn massi úr jurtaleifum sem myndast hefur í votlendi. Hann var nýttur sem eldsneyti á Íslandi fyrr á tíð og er enn nýttur víða í heiminum.

Votlendi bætir líka vatnsbúskap svæða og temprar vatnsflæði. Í miklum rigningum dregur votlendi til sín vatn eins og svampur en miðlar því frá sér í þurrkatíð. Þannig viðheldur það jöfnu rennsli í ám og lækjum sem er mikilvægt fyrir þær lífverur sem þar búa, og votlendi dregur enn fremur úr hættu á flóðum og minnkar sveiflur í vatnsrennsli og jarðvegsrofi. Þau hamfaraflóð sem orðið hafa í heiminum á síðustu árum má mörg rekja til þess að votlendi er horfið og því ekkert til að tempra áhrif mikilla rigninga eða leysinga. Votlendi er því eitt af merkilegustu og mikilvægustu vistkerfum landsins og jarðarinnar í heild og þess vegna nýtur það þessarar sérstöku verndar í lögum landsins.

Votlendi hefur þó ekki alltaf notið verndar á Íslandi og á árunum 1945-1985 var það þurrkað upp í stórum stíl með framræslu sem styrkt var af opinberum sjóðum. Til að byrja með var það gert til að auka við og bæta skilyrði til túnræktar, enda voru mýrar á láglendi víða frjósamar og hentuðu vel til ræktunar. Síðar þróaðist framræslan yfir í skurði í þeim tilgangi að bæta beitilönd. Skurðir voru jafnvel grafnir til að skipta upp landi í stað þess að nota girðingar, enda var vinnan við skurðina að mestu leyti kostuð með opinberum styrkjum.

Til viðbótar við framræslu til túnræktar og stækkunar beitilanda hefur talsverð framræsla farið fram vegna annarra framkvæmda, einkum vegagerðar og þurrkunar byggingarlands og sú framræsla er enn í fullum gangi.

Við framræslu eru skurðir grafnir og vatni veitt af svæðinu, grunnvatnsyfirborð lækkar og svæðin þorna. Við það hætta svæðin að vera hentug búsvæði fyrir flesta þá fugla og smádýr sem voru þar áður, og tegundasamsetning gróðurs breytist. Svæðin hætta einnig að tempra vatnsflæði, enda rennur vatn óhindrað eftir farvegum skurða en helst ekki í vistkerfinu. Í rigningu tapast næringarefnin svo hratt úr jarðveginum og flytjast með rigningarvatninu út í skurðina og til sjávar.

Á árunum 1945-1985 var mikið af votlendi á Íslandi ræst fram með skurðum, bæði til rækta tún og til að nýta mýrarnar sem beitiland. Endurheimt votlendis snýst um að færa landið aftur til fyrra horfs og draga þannig úr losun koltvísýrings sem fylgir þegar mýrum er raskað.

Lækkun grunnvatnshæðar leiðir síðan til þess að jarðvegshitinn hækkar og súrefni kemst að lífræna efninu í votlendisjarðveginum. Þetta verður til þess að það lífræna efni sem safnast hefur upp árhundruðum saman tekur að brotna niður með tilheyrandi losun gróðurhúsalofttegunda. Losun frá framræstu votlendi er gífurleg, svo mikil að framræst votlendi ber ábyrgð á meirihluta losunar kolefnis á Íslandi.

Nú er svo komið að tiltölulega lítið er eftir af óröskuðu votlendi á láglendi, í sumum landshlutum er talið að innan við 5% af votlendi sé óraskað. Í dag er þó aðeins verið að nýta brot af þessum framræstu svæðum. Að hluta til vegna breyttra búskaparhátta og að hluta til vegna þess að opinberu styrkirnir gerðu það að verkum að meira var þurrkað upp en þurfti enda framræslan atvinnuskapandi og í þá daga voru slæm áhrif framræslu á kolefnisbúskap og lífverur ekki þekkt.

Til að reyna að fá til baka eitthvað af þeim gæðum sem tapast hafa við röskun votlendis, hefur verið farið í að endurheimta þau. Við endurheimt votlendis hefur vatnsyfirborð hækkað, til dæmis þegar fyllt í skurði eða þeir stíflaðir. Þá er settur „tappi í útflæði vatns“ með það að markmiði að grunnvatnshæð nái aftur sömu hæð og var fyrir framræslu, eða eins nálægt því og hægt er.

Við þetta myndast á ný ákjósanleg búsvæði fyrir votlendisfugla og smádýr og votlendisplöntur fara að finnast á ný á svæðinu. Svæðið fer einnig smám saman að verða aftur öflugur vatnsmiðlari. Við það að hækka vatnsstöðuna hættir einnig niðurbrot lífrænna efna og þar með losun kolefnis. Þess vegna hefur endurheimt votlendis verið nefnd ein öflugasta leiðin í baráttunni við loftslagsvána.

Við endurheimt votlendis verður að sjálfsögðu að vanda vel til verka. Ef endurheimtin á að takast er ekki bara nóg að moka ofan í skurði, það þarf að vinna með eiginleika og aðstæður hvers svæðis. Miðað við allar þær aðgerðir sem Ísland er að fara í til að draga úr losun kolefnis, og uppfylla þannig þá alþjóðlegu samninga sem landið er aðili að, er endurheimt votlendis frekar ódýr og einföld aðgerð. Með henni er ekki eingöngu dregið úr losun heldur er einnig verið að endurheimta eitt af mögnuðustu vistkerfum jarðarinnar, með allri sinni tegundafjölbreytni og virkni.

Þess ber að geta að þótt hægt sé að endurheimta votlendi, á það ekki að vera ávísun á það að hægt sé að raska votlendi, því að það tekur endurheimt votlendi líklegast hundruð ára að ná sömu virkni og tegundafjölbreytni og sambærilegt óraskað votlendi.

Tilvísun:
  1. ^ Birkiskógar njóta einnig sömu verndar.

Myndir:

Þetta svar birtist fyrst sem pistill í þættinum Samfélagið á Rás 1 17.11.2022....