Sólin Sólin Rís 04:10 • sest 22:56 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 23:27 • Sest 08:55 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 08:25 • Síðdegis: 20:45 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 02:23 • Síðdegis: 14:30 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 04:10 • sest 22:56 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 23:27 • Sest 08:55 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 08:25 • Síðdegis: 20:45 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 02:23 • Síðdegis: 14:30 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Losa framræstar mýrar enn koltvísýring þó 50 ár séu liðin frá framræsingunni?

Sunna Áskelsdóttir og Hlynur Óskarsson

Spurningin í fullri lengd hljóðaði svona:

Eru löngu framræstar mýrar, sem t.d. voru ræstar fram fyrir um 50 árum, enn að losa koltvísýring í jafn miklum mæli og þær gerðu í upphafi? Eða eru þær orðnar að þurrlendi í þeim skilningi?

Á jarðsögulegum tímaskala eru 50 ár skammur tími og því varla hægt að segja að mýrar sem voru ræstar fram fyrir 50 árum séu löngu framræstar. Til viðmiðunar má gera ráð fyrir að mýrar Íslands hafi verið að byggjast upp (með hléum) frá lokum síðustu ísaldar (um 10.000 ár). Sé miðað við önnur svæði heimsins og þá sérstaklega Evrópu, á Ísland sér afar stutta sögu framræslu. Til að mynda er upphaf framræslu í Hollandi rakið aftur um margar aldir og það hefur leitt til mikillar lækkunar á jarðvegsyfirborði á stórum svæðum. Í mörgum tilvikum hefur allur mórinn á sumum svæðum þar í landi brotnað niður með viðeigandi losun á koltvísýringi. Það sama á við mörg nágrannalanda okkar.

En er ennþá að losna koltvísýringur úr mýrum sem ræstar voru fram fyrir 50 árum síðan?

Lengd grafinna skurða á árabilinu 1924-2014 (byggt á gögnum frá Búnaðarfélagi Íslands og Ráðgjafamiðstöð landbúnaðarins).

Framræsla hófst af krafti hérlendis upp úr 1940 (með aukinni vélvæðingu) og var hámarkinu náð um 1970. Þannig var stór hluti framræst lands ræstur fram fyrir 50 árum eða meira og þær rannsóknir sem hafa farið fram hérlendis hafa því alla jafna verið gerðar á gömlu framræstu landi. Því miður er aldur framræslu oft óþekktur.

Gunnhildur E. G. Gunnarsdóttir skoðaði tap á kolefni úr efsta jarðvegslaginu á átta svæðum á SV-landi miðað við öskulag með þekktan aldur. Aldur framræslu var frá 21 – 58 árum og tap á kolefni úr jarðvegi virtist ekki minnka með aldri, þó erfitt sé að fullyrða það út frá gögnunum. Tap á kolefni úr þessu efsta lagi jarðvegsins reyndist 0,7 – 3,1 tonn á hektara á ári (jafngildir 2,6 – 11,4 tonnum af CO2 á hektara á ári).

Rannveig Ólafsdóttir mældi tap á kolefni frá mýri í Borgarfirði sem framræst var árið 1977. Losun koltvísýrings og metans var mæld sem og tap á kolefni með afrennslisvatni og reyndist það samtals 18,3 CO2 ígildi á hektara á ári.

Jón Guðmundsson og Hlynur Óskarsson mældu tap á kolefni í þrjú ár frá fimm mýrum í Borgarfirði ræstum fram á árunum 1955-77 og mældist það tap vera frá 4 - 8,25 tonnum á hektara á ári (jafngildir 14,7 – 30,3 tonnum CO2 á hektara á ári), mismunandi eftir svæðum og árum.

Svo framarlega sem til staðar sé lífrænt efni (ekki fast bundið í jarðveginum) og jarðvegurinn sé loftaður, heldur losun koltvísýrings áfram vegna rotnunar lífræna efnisins. Í sumum tilvikum minnkar virkni framræsluskurða með tímanum en í öðrum tilvikum, til dæmis þegar rof er í skurðarbotni, helst hún óbreytt eða eykst með tímanum. Ýmsir þættir hafa áhrif á losun koltvísýrings úr framræstu landi. Sá áhrifamesti er hversu vel landið er framræst miðað mið hæð grunnvatns í jarðvegi. Aðrir þættir sem hafa áhrif eru gerð- og næringarstaða jarðvegs, hitastig, gróðurfar og líklega aldur. Gera má ráð fyrir að við framræslu brotni það lífræna efni sem aðgengilegast er (besta fæðan fyrir örverur) allra fyrst niður en síðan það síður niðurbrjótanlegra. Því má gera ráð fyrir að það hægist á losuninni eftir fyrstu ár framræslunnar. Aftur á móti ber að benda á að allar mælingar á losun hér á landi hafa verið á svæðum sem framræst voru fyrir 20-70 árum, eða vel eftir að upphafsfasa losunar er lokið og jafnari langtímafasi losunar er hafinn.

Gamall skurður nýlega dýpkaður og hreinsaður.

Í stuttu máli má því segja að aldur framræslu hefur þau áhrif að losunin er hærri fyrstu árin á meðan gæðaefni eru að brotna niður, en síðan taki við hægari langtíma losun. Mýrar sem hafa verið framræstar í 50 ár eru því enn að losa koltvísýring. Aldur framræslu hefur áhrif á hversu mikið losnar af koltvísýringi úr svæðum, en hversu mikið og hvernig er ekki vel þekkt og líklega mjög breytilegt eftir öðrum eiginleikum svæða. Aðrir þættir hafa í heildina meiri áhrif og þá sérstaklega hæð grunnvatnsstöðu sem er afgerandi þáttur.

Heimildir og myndir:

Höfundar

Sunna Áskelsdóttir

verkefnastjóri hjá Landgræðslunni

Hlynur Óskarsson

dósent við Landbúnaðarháskóla Íslands

Útgáfudagur

5.11.2021

Spyrjandi

Hjördís B. Ásgeirsdóttir

Tilvísun

Sunna Áskelsdóttir og Hlynur Óskarsson. „Losa framræstar mýrar enn koltvísýring þó 50 ár séu liðin frá framræsingunni?“ Vísindavefurinn, 5. nóvember 2021, sótt 24. júlí 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=81434.

Sunna Áskelsdóttir og Hlynur Óskarsson. (2021, 5. nóvember). Losa framræstar mýrar enn koltvísýring þó 50 ár séu liðin frá framræsingunni? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=81434

Sunna Áskelsdóttir og Hlynur Óskarsson. „Losa framræstar mýrar enn koltvísýring þó 50 ár séu liðin frá framræsingunni?“ Vísindavefurinn. 5. nóv. 2021. Vefsíða. 24. júl. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=81434>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Losa framræstar mýrar enn koltvísýring þó 50 ár séu liðin frá framræsingunni?
Spurningin í fullri lengd hljóðaði svona:

Eru löngu framræstar mýrar, sem t.d. voru ræstar fram fyrir um 50 árum, enn að losa koltvísýring í jafn miklum mæli og þær gerðu í upphafi? Eða eru þær orðnar að þurrlendi í þeim skilningi?

Á jarðsögulegum tímaskala eru 50 ár skammur tími og því varla hægt að segja að mýrar sem voru ræstar fram fyrir 50 árum séu löngu framræstar. Til viðmiðunar má gera ráð fyrir að mýrar Íslands hafi verið að byggjast upp (með hléum) frá lokum síðustu ísaldar (um 10.000 ár). Sé miðað við önnur svæði heimsins og þá sérstaklega Evrópu, á Ísland sér afar stutta sögu framræslu. Til að mynda er upphaf framræslu í Hollandi rakið aftur um margar aldir og það hefur leitt til mikillar lækkunar á jarðvegsyfirborði á stórum svæðum. Í mörgum tilvikum hefur allur mórinn á sumum svæðum þar í landi brotnað niður með viðeigandi losun á koltvísýringi. Það sama á við mörg nágrannalanda okkar.

En er ennþá að losna koltvísýringur úr mýrum sem ræstar voru fram fyrir 50 árum síðan?

Lengd grafinna skurða á árabilinu 1924-2014 (byggt á gögnum frá Búnaðarfélagi Íslands og Ráðgjafamiðstöð landbúnaðarins).

Framræsla hófst af krafti hérlendis upp úr 1940 (með aukinni vélvæðingu) og var hámarkinu náð um 1970. Þannig var stór hluti framræst lands ræstur fram fyrir 50 árum eða meira og þær rannsóknir sem hafa farið fram hérlendis hafa því alla jafna verið gerðar á gömlu framræstu landi. Því miður er aldur framræslu oft óþekktur.

Gunnhildur E. G. Gunnarsdóttir skoðaði tap á kolefni úr efsta jarðvegslaginu á átta svæðum á SV-landi miðað við öskulag með þekktan aldur. Aldur framræslu var frá 21 – 58 árum og tap á kolefni úr jarðvegi virtist ekki minnka með aldri, þó erfitt sé að fullyrða það út frá gögnunum. Tap á kolefni úr þessu efsta lagi jarðvegsins reyndist 0,7 – 3,1 tonn á hektara á ári (jafngildir 2,6 – 11,4 tonnum af CO2 á hektara á ári).

Rannveig Ólafsdóttir mældi tap á kolefni frá mýri í Borgarfirði sem framræst var árið 1977. Losun koltvísýrings og metans var mæld sem og tap á kolefni með afrennslisvatni og reyndist það samtals 18,3 CO2 ígildi á hektara á ári.

Jón Guðmundsson og Hlynur Óskarsson mældu tap á kolefni í þrjú ár frá fimm mýrum í Borgarfirði ræstum fram á árunum 1955-77 og mældist það tap vera frá 4 - 8,25 tonnum á hektara á ári (jafngildir 14,7 – 30,3 tonnum CO2 á hektara á ári), mismunandi eftir svæðum og árum.

Svo framarlega sem til staðar sé lífrænt efni (ekki fast bundið í jarðveginum) og jarðvegurinn sé loftaður, heldur losun koltvísýrings áfram vegna rotnunar lífræna efnisins. Í sumum tilvikum minnkar virkni framræsluskurða með tímanum en í öðrum tilvikum, til dæmis þegar rof er í skurðarbotni, helst hún óbreytt eða eykst með tímanum. Ýmsir þættir hafa áhrif á losun koltvísýrings úr framræstu landi. Sá áhrifamesti er hversu vel landið er framræst miðað mið hæð grunnvatns í jarðvegi. Aðrir þættir sem hafa áhrif eru gerð- og næringarstaða jarðvegs, hitastig, gróðurfar og líklega aldur. Gera má ráð fyrir að við framræslu brotni það lífræna efni sem aðgengilegast er (besta fæðan fyrir örverur) allra fyrst niður en síðan það síður niðurbrjótanlegra. Því má gera ráð fyrir að það hægist á losuninni eftir fyrstu ár framræslunnar. Aftur á móti ber að benda á að allar mælingar á losun hér á landi hafa verið á svæðum sem framræst voru fyrir 20-70 árum, eða vel eftir að upphafsfasa losunar er lokið og jafnari langtímafasi losunar er hafinn.

Gamall skurður nýlega dýpkaður og hreinsaður.

Í stuttu máli má því segja að aldur framræslu hefur þau áhrif að losunin er hærri fyrstu árin á meðan gæðaefni eru að brotna niður, en síðan taki við hægari langtíma losun. Mýrar sem hafa verið framræstar í 50 ár eru því enn að losa koltvísýring. Aldur framræslu hefur áhrif á hversu mikið losnar af koltvísýringi úr svæðum, en hversu mikið og hvernig er ekki vel þekkt og líklega mjög breytilegt eftir öðrum eiginleikum svæða. Aðrir þættir hafa í heildina meiri áhrif og þá sérstaklega hæð grunnvatnsstöðu sem er afgerandi þáttur.

Heimildir og myndir:

...