Sólin Sólin Rís 02:57 • sest 24:00 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 13:31 • Sest 02:09 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 12:23 • Síðdegis: 24:44 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 06:08 • Síðdegis: 18:28 í Reykjavík

Af hverju voru yfirvöld á Íslandi áður á móti borgarsamfélagi og Reykjavík?

Gunnar Karlsson (1939-2019)

Það er sagt vera algengt í vanþróuðum landbúnaðarsamfélögum að fólk leitist við að takmarka aðra atvinnuvegi, svo sem verslun, og loka þá úti frá samfélaginu. Slíkt er að sjálfsögðu að einhverju leyti gert með fordæmingu.

Á Íslandi kemur andúð á verslun fram strax í Íslendingasögum, einkum verslun sem er stunduð í ábataskyni. Á sama tíma er líka tekið að takmarka leyfi fólks til að stofna heimili án þess að hafa jarðnæði og búfé til að lifa á, og hefur því banni einkum verið stefnt gegn því að hafa fiskveiðar að aðalatvinnu. Í lögbókinni Grágás, sem er safn íslenskra laga, skráð á 13. öld, er þetta ákvæði:
Búðsetumenn skulu engir vera, þeir er búfjárlaust búi, nema hreppsmenn lofi. En ef hreppsmenn lofa búðsetuna, þá eru þeir skyldir að annast hann eða færa til framfærslu ef hann má eigi sjálfur bjargast.
Slíkar takmarkanir á öðrum búskap en sveitabúskap ganga í gegnum Íslandssöguna í dálítið ólíkum og misströngum myndum. Svo seint sem árið 1887 samþykkti Alþingi lög, sem gengu í gildi árið eftir, þar sem mönnum var bannað að setjast að í þurrabúð nema með skriflegu leyfi hreppsnefndar, eftir að hafa sannað með vottorðum tveggja skilríkra manna að þeir væru reglumenn og ráðdeildarsamir.


Íslenskur burstabær, 1893.

Einhleypingum var á hliðstæðan hátt haldið í vinnumennsku í sveitum með vistarskyldu sem var misjafnlega ströng en oftast einhver í gildi allt frá Grágásartíma og fram á 20. öld. Lög um takmarkanir á þurrabúðarvist og lausamennsku voru raunar aldrei numin úr gildi að fullu. Síðast voru þau endurskoðuð árið 1907, en eftir það var þeim leyft að gleymast í umróti 20. aldar.

Tvennt gat einkum vakað fyrir þeim sem vildu takmarka þéttbýlismyndun. Annars vegar var því trúað, með réttu eða röngu, að fiskveiðar væru stopulli atvinnuvegur en landbúnaður. Því væri meiri hætta á að fólk sem lifði á fiskveiðum yrði bjargþrota og lenti á ómagaframfæri hjá bændum. Þessi ótti endurspeglast í lagaákvæðum um að búðseta sé háð leyfi hreppsbúa eða fyrirliða þeirra og hreppsbændur ábyrgir ef búðsetumenn gætu ekki bjargað sér sjálfir.

Hins vegar gera sagnfræðingar nú jafnan ráð fyrir að það hafi ráðið miklu um afstöðu efnaðra bænda, þeirra á meðal flestra embættismanna landsins, að þeir hafi óttast að missa vinnuafl til sjávarsíðunnar og að þurfa að keppa við sjávarútveg um vinnufólk. Bak við umhyggju löggjafans fyrir óforsjálu fólki sem elti svipulan sjávarafla út úr öryggi sveitanna þykjast fræðimenn greina ágjarna tilhneigingu til að einoka vinnuafl landsmanna í þágu landbúnaðar.

Að vísu gerðu margir auðugir bændur og embættismenn út fiskibáta á vertíðum, en þá gátu þeir notað vistarbandið til að láta vinnumenn sína róa á sjó, draga húsbændum sínum afla og fá aðeins brot af verðmæti hans greitt í laun. Aldrei verður skorið úr því með vissu hvort þessara tveggja sjónarmiða réði meiru um andúð ráðandi afla í samfélaginu á þéttbýlismyndun í sjávarþorpum. Um það verður hver að hafa þá skoðun sem honum þykir sennilegust.


Gamla Reykjavík.

Þegar Reykjavíkurþorp tók að myndast, á 18. og 19. öld, hefur það vafalaust goldið þessarar rótgrónu andúðar á þéttbýli, þótt lítið væri. Við það hefur svo bæst að Reykjavík var ekki aðlaðandi staður á þessum tíma. „Ég minnist þess ekki að hafa séð ljótari bæ en Reykjavík,” segir enski ferðamaðurinn John Coles eftir heimsókn þangað árið 1881. Þó fannst honum sóðaskapurinn og ólyktin verri en ljótleikinn; sums staðar væri fýlan af úldnandi fiski og öðrum viðbjóði slík að ekki væri hægt að líkja við annað en kínverskar byggðir í námubæjum Kaliforníu.

Þorsteinn Thorarensen hefur rakið hvernig Benedikt Sveinsson, dómari við Landsyfirréttinn og síðar sýslumaður Þingeyinga, þráaðist við að búa uppi á Elliðavatni meðan hann var dómari í Reykjavík, á árunum 1859-70, þrátt fyrir ítrekuð fyrirmæli yfirvalda um að dómarar byggju í bænum. Ástæður Benedikts virðast einkum hafa verið tvær: að Reykjavík var ekki aðlaðandi og að sveitabúskapur var arðvænleg aukageta. Þannig hefur sjálfsagt verið um fleiri í svipaðri aðstöðu: það var stöðulækkun fyrir embættismann að flytjast af höfuðbóli í þröngt og lágreist timburhús við moldargötu í kvosinni í Reykjavík og þurfa að lifa á embættislaunum einum.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Heimildir:
 • Coles, John: Summer Travelling in Iceland; being the narrative of two journeys across the island by unfrequented routes. London, John Murray, 1882.
 • Grágás. Lagasafn íslenska þjóðveldisins. Gunnar Karlsson, Kristján Sveinsson, Mörður Árnason sáu um útgáfuna. Reykjavík, Mál og menning, 1992.
 • Gísli Gunnarsson: Upp er boðið Ísaland. Einokunarverslun og íslenskt samfélag 1602-1787. Reykjavík, Örn og Örlygur, 1987.
 • Helgi Þorláksson: „Social ideals and the concept of profit in thirteenth-century Iceland.” From Sagas to Society. Ritstj. Gísli Pálsson (Enfield Lock, Hisarlik Press, 1992), 231-45.
 • Jón Blöndal og Sverrir Kristjánsson: Alþingi og félagsmálin. Reykjavík, Alþingissögunefnd, 1954 (Saga Alþingis IV).
 • Þorsteinn Thorarensen: Gróandi þjóðlíf. Myndir úr lífi og viðhorfum þeirra, sem uppi voru um aldamótin. Reykjavík, Fjölvi, 1968.

Myndir:

Höfundur

Gunnar Karlsson (1939-2019)

prófessor emeritus í sagnfræði við HÍ

Útgáfudagur

29.6.2001

Spyrjandi

Guðmundur Geir Sigurðsson

Tilvísun

Gunnar Karlsson (1939-2019). „Af hverju voru yfirvöld á Íslandi áður á móti borgarsamfélagi og Reykjavík?“ Vísindavefurinn, 29. júní 2001. Sótt 14. júní 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=1754.

Gunnar Karlsson (1939-2019). (2001, 29. júní). Af hverju voru yfirvöld á Íslandi áður á móti borgarsamfélagi og Reykjavík? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=1754

Gunnar Karlsson (1939-2019). „Af hverju voru yfirvöld á Íslandi áður á móti borgarsamfélagi og Reykjavík?“ Vísindavefurinn. 29. jún. 2001. Vefsíða. 14. jún. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=1754>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Af hverju voru yfirvöld á Íslandi áður á móti borgarsamfélagi og Reykjavík?
Það er sagt vera algengt í vanþróuðum landbúnaðarsamfélögum að fólk leitist við að takmarka aðra atvinnuvegi, svo sem verslun, og loka þá úti frá samfélaginu. Slíkt er að sjálfsögðu að einhverju leyti gert með fordæmingu.

Á Íslandi kemur andúð á verslun fram strax í Íslendingasögum, einkum verslun sem er stunduð í ábataskyni. Á sama tíma er líka tekið að takmarka leyfi fólks til að stofna heimili án þess að hafa jarðnæði og búfé til að lifa á, og hefur því banni einkum verið stefnt gegn því að hafa fiskveiðar að aðalatvinnu. Í lögbókinni Grágás, sem er safn íslenskra laga, skráð á 13. öld, er þetta ákvæði:
Búðsetumenn skulu engir vera, þeir er búfjárlaust búi, nema hreppsmenn lofi. En ef hreppsmenn lofa búðsetuna, þá eru þeir skyldir að annast hann eða færa til framfærslu ef hann má eigi sjálfur bjargast.
Slíkar takmarkanir á öðrum búskap en sveitabúskap ganga í gegnum Íslandssöguna í dálítið ólíkum og misströngum myndum. Svo seint sem árið 1887 samþykkti Alþingi lög, sem gengu í gildi árið eftir, þar sem mönnum var bannað að setjast að í þurrabúð nema með skriflegu leyfi hreppsnefndar, eftir að hafa sannað með vottorðum tveggja skilríkra manna að þeir væru reglumenn og ráðdeildarsamir.


Íslenskur burstabær, 1893.

Einhleypingum var á hliðstæðan hátt haldið í vinnumennsku í sveitum með vistarskyldu sem var misjafnlega ströng en oftast einhver í gildi allt frá Grágásartíma og fram á 20. öld. Lög um takmarkanir á þurrabúðarvist og lausamennsku voru raunar aldrei numin úr gildi að fullu. Síðast voru þau endurskoðuð árið 1907, en eftir það var þeim leyft að gleymast í umróti 20. aldar.

Tvennt gat einkum vakað fyrir þeim sem vildu takmarka þéttbýlismyndun. Annars vegar var því trúað, með réttu eða röngu, að fiskveiðar væru stopulli atvinnuvegur en landbúnaður. Því væri meiri hætta á að fólk sem lifði á fiskveiðum yrði bjargþrota og lenti á ómagaframfæri hjá bændum. Þessi ótti endurspeglast í lagaákvæðum um að búðseta sé háð leyfi hreppsbúa eða fyrirliða þeirra og hreppsbændur ábyrgir ef búðsetumenn gætu ekki bjargað sér sjálfir.

Hins vegar gera sagnfræðingar nú jafnan ráð fyrir að það hafi ráðið miklu um afstöðu efnaðra bænda, þeirra á meðal flestra embættismanna landsins, að þeir hafi óttast að missa vinnuafl til sjávarsíðunnar og að þurfa að keppa við sjávarútveg um vinnufólk. Bak við umhyggju löggjafans fyrir óforsjálu fólki sem elti svipulan sjávarafla út úr öryggi sveitanna þykjast fræðimenn greina ágjarna tilhneigingu til að einoka vinnuafl landsmanna í þágu landbúnaðar.

Að vísu gerðu margir auðugir bændur og embættismenn út fiskibáta á vertíðum, en þá gátu þeir notað vistarbandið til að láta vinnumenn sína róa á sjó, draga húsbændum sínum afla og fá aðeins brot af verðmæti hans greitt í laun. Aldrei verður skorið úr því með vissu hvort þessara tveggja sjónarmiða réði meiru um andúð ráðandi afla í samfélaginu á þéttbýlismyndun í sjávarþorpum. Um það verður hver að hafa þá skoðun sem honum þykir sennilegust.


Gamla Reykjavík.

Þegar Reykjavíkurþorp tók að myndast, á 18. og 19. öld, hefur það vafalaust goldið þessarar rótgrónu andúðar á þéttbýli, þótt lítið væri. Við það hefur svo bæst að Reykjavík var ekki aðlaðandi staður á þessum tíma. „Ég minnist þess ekki að hafa séð ljótari bæ en Reykjavík,” segir enski ferðamaðurinn John Coles eftir heimsókn þangað árið 1881. Þó fannst honum sóðaskapurinn og ólyktin verri en ljótleikinn; sums staðar væri fýlan af úldnandi fiski og öðrum viðbjóði slík að ekki væri hægt að líkja við annað en kínverskar byggðir í námubæjum Kaliforníu.

Þorsteinn Thorarensen hefur rakið hvernig Benedikt Sveinsson, dómari við Landsyfirréttinn og síðar sýslumaður Þingeyinga, þráaðist við að búa uppi á Elliðavatni meðan hann var dómari í Reykjavík, á árunum 1859-70, þrátt fyrir ítrekuð fyrirmæli yfirvalda um að dómarar byggju í bænum. Ástæður Benedikts virðast einkum hafa verið tvær: að Reykjavík var ekki aðlaðandi og að sveitabúskapur var arðvænleg aukageta. Þannig hefur sjálfsagt verið um fleiri í svipaðri aðstöðu: það var stöðulækkun fyrir embættismann að flytjast af höfuðbóli í þröngt og lágreist timburhús við moldargötu í kvosinni í Reykjavík og þurfa að lifa á embættislaunum einum.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Heimildir:
 • Coles, John: Summer Travelling in Iceland; being the narrative of two journeys across the island by unfrequented routes. London, John Murray, 1882.
 • Grágás. Lagasafn íslenska þjóðveldisins. Gunnar Karlsson, Kristján Sveinsson, Mörður Árnason sáu um útgáfuna. Reykjavík, Mál og menning, 1992.
 • Gísli Gunnarsson: Upp er boðið Ísaland. Einokunarverslun og íslenskt samfélag 1602-1787. Reykjavík, Örn og Örlygur, 1987.
 • Helgi Þorláksson: „Social ideals and the concept of profit in thirteenth-century Iceland.” From Sagas to Society. Ritstj. Gísli Pálsson (Enfield Lock, Hisarlik Press, 1992), 231-45.
 • Jón Blöndal og Sverrir Kristjánsson: Alþingi og félagsmálin. Reykjavík, Alþingissögunefnd, 1954 (Saga Alþingis IV).
 • Þorsteinn Thorarensen: Gróandi þjóðlíf. Myndir úr lífi og viðhorfum þeirra, sem uppi voru um aldamótin. Reykjavík, Fjölvi, 1968.

Myndir:...