Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Talið er að suðurströnd Íslands hafi færst 4 km suður í Kötluhlaupinu 1918. Þá myndaðist Kötlutangi sem var syðsti punktur Íslands í nokkra áratugi, uns hafið hafði nagað hann burt og borið efnið vestur með ströndinni og meðal annars bætt vel í ströndina hjá Vík í Mýrdal. Á landnámsöld, og allt til 1179, var Hjörleifshöfði að minnsta kosti að hluta umlukinn sjó, og fyrir vestan hann var Kerlingarfjörður, hin ágætasta höfn, sem fylltist í Kötluhlaupi árið 1179 (Höfðárhlaup).
Þessi tvö litlu dæmi sýna hve mikilvirk jökulhlaupin eru í því að mynda sandana á Suðurlandi — Kötluhlaup, Skaftárhlaup, Skeiðarárhlaup — en Katla hefur stundum hlaupið undan Sólheimajökli og myndað þannig Skógasand og Sólheimasand, auk þess sem hún hefur hlaupið niður í Þórsmörk og þannig lagt til aura Markarfljóts. Þar fyrir utan bera jökulárnar kynstur af framburði til sjávar ár og síð, frá Hvítá í vestri til Jökulsár í Lóni í austri.
Þykkastur er Landeyjasandur í Vestur-Landeyjum þar sem hann nær 260 m niður fyrir sjávarmál, en þynnist þaðan til austurs og vesturs — er víða 60-70 m þykkur. Skeiðarársandur virðist vera um 200 m þar sem hann er þykkastur, en sennilega kringum 100 m þykkur að meðaltali. Þótt hér sé um mikið rúmmál að ræða — sem allt hefur myndast eftir ísöld, á síðustu 10.000 árum eða svo — er það ekki nema lítið brot af því sem árnar hafa í rauninni borið fram, því mestur hlutinn berst út í hafsauga með hafstraumum.
Berum þetta nú saman við Norður- og Norðausturland, þar sem miklu minna set hefur borist til sjávar. Þar er verulegar sandstrendur einkum að finna í Axarfirði og Héraðsflóa — framburð Jökulsár á Fjöllum og Jökulsár á Dal — en einnig hafa Blanda og Héraðsvötn borið fram myndarlega setstafla.
Úrkomu-vindáttin á Íslandi er suðlæg, og í slíkum áttum fellur mestur hluti úrkomunnar í suðurfjöllin og jöklana, þaðan sem árnar falla til suðurs. Af þeim sökum hafa hinir miklu sandar myndast á Suðurlandi og drekkt öllu landslagi sem þar var í ísaldarlok.
Sigurður Steinþórsson. „Hvers vegna er suðurströnd Íslands sandströnd eða sandeyrar frá Djúpavogi að Þorlákshöfn?“ Vísindavefurinn, 9. júlí 2001, sótt 5. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=1775.
Sigurður Steinþórsson. (2001, 9. júlí). Hvers vegna er suðurströnd Íslands sandströnd eða sandeyrar frá Djúpavogi að Þorlákshöfn? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=1775
Sigurður Steinþórsson. „Hvers vegna er suðurströnd Íslands sandströnd eða sandeyrar frá Djúpavogi að Þorlákshöfn?“ Vísindavefurinn. 9. júl. 2001. Vefsíða. 5. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=1775>.