Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Leif er grundvallarhugtak í heimildafræði sagnfræðinga. Leifar eru öll bein ummerki fortíðarinnar, allar varðveittar menjar liðins tíma sem bera uppruna sínum vitni. Þar með eru allar heimildir sagnfræðinnar óhjákvæmilega leifar.
Hvaða gagn er þá að þessu sérstaka hugtaki, frekar en tala bara um heimildir? Jú, þó að allar heimildir séu leifar, sem geyma upplýsingar um uppruna sinn, þá eru sumar heimildir ekki bara leifar heldur líka frásagnir. Frásögn felur í sér upplýsingar sem heimildarmaður miðlar vitandi vits, og sem heimild hefur hún aðeins gildi að því marki sem upplýsingarnar eru réttar; leif hefur hins vegar gildi ef hún er túlkuð rétt. Leifar eru hinar einu sönnu samtímaheimildir, en frásagnir fjalla um liðinn tíma þótt þær teljist samtímaheimildir ef skammt er um liðið.
Íslendingabók geymir til dæmis frásögn Ara af kristniboði Þangbrands en þar er ekki getið um fyrri kristniboða, hvorki Þorvald víðförla né Stefni Þorgilsson. Ef Íslendingabók er notuð sem heimild um kristniboð á Íslandi, til dæmis til að álykta að Þangbrandur hafi gegnt merkara hlutverki en Þorvaldur, þá er verið að nota heimildina sem frásögn. Ef við reynum hins vegar að álykta um Ara sjálfan og sagnaritun hans, til dæmis að það sýni varfærni hans að segja aðeins frá þeim kristniboðanum sem hann hafði traustastar heimildir um, eða að það sýni hlutdrægni hans að þegja um fyrsta kristniboðann af því að hann starfaði á Norðurlandi, þá erum við að nota Íslendingabók sem leif, sem bein ummerki um viðhorf og vinnubrögð Ara.
Þannig getur jafnvel rituð frásögn komið að notum sem leif. Sama á við um „frásögn“ í formi myndar. Það er til dæmis til málverk af Jóni Sigurðssyni ungum og ákaflega fallegum, málað um það leyti sem hann var fyrst í framboði til þings. Sem heimild um útlit Jóns er málverkið í eðli sínu frásögn, lýsing listamannsins á andliti Jóns. Miðað við hefðir í portrettmálverki og þekkta hæfileika málarans mætti ætla að lýsingin sé sæmilega nákvæm, en þó heldur fegruð. Samanburður við aðrar heimildir, það er að segja yngri ljósmyndir og ritaðar lýsingar, staðfestir þetta. Málarinn vandar sig að „ná“ Jóni en hefur til dæmis leyft sér að stækka talsvert augun í honum, sem frásögnum ber saman um að hafi verið sérkennilega fögur. En málverkið er líka leif sem segir okkur til dæmis að eitthvað hafi þótt sérstakt við Jón fyrst gerð var svo vönduð mynd af honum ungum, sem var allt annað en algengt um íslenska Hafnarstúdenta.
Stundum er mjótt á munum hvað eiginlega sé leif. Sem heimildir um útlit Jóns Sigurðssonar eru ljósmyndir af honum strangt tekið leifar, því að þær verða til í myndavélinni án þess að upplýsingarnar komi úr hugskoti ljósmyndarans. Samt reynir ljósmyndarinn, með uppstillingu, lýsingu og þess háttar, að ná fram því sem hann „vill sagt hafa“ um Jón, og með því að láta myndina frá sér er hann að staðfesta að hún sé sæmilega lík Jóni; í því felst ákveðin „frásögn“ svo langt sem það nær.
Gripir á minjasafni eru auðvitað leifar, en skýringartextar með þeim eru frásagnir, og auk þess felst eins konar „frásögn“ safnmannsins í því hvernig hann velur hluti til sýningar og raðar þeim í samhengi. Bæði gripavalið og textana má svo aftur nota sem leifar ef við ályktum af þeim um starfsemi safnsins eða söguskoðun þess sem fyrir sýningunni stóð. Um lögformleg skjöl og skírteini getur líka verið vandi að segja hvort þau eru notuð einungis sem leifar eða líka sem frásagnir.
Þannig getur þessi greinarmunur orðið býsna flókinn, kannski hálfgerð hugarleikfimi þegar hugsað er um nýlega liðinn tíma þar sem miklu er til að dreifa af alls konar heimildum. Um fjarlægari sögu, segjum til dæmis Ísland á víkingaöld, er hins vegar bæði einfalt og gagnlegt að flokka heimildirnar í ritaðar frásagnir annars vegar og varðveittar leifar hins vegar.
Frekara lesefni á Vísindavefnum:
Helgi Skúli Kjartansson. „Hvað er leif í sagnfræði?“ Vísindavefurinn, 4. september 2001, sótt 7. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=1858.
Helgi Skúli Kjartansson. (2001, 4. september). Hvað er leif í sagnfræði? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=1858
Helgi Skúli Kjartansson. „Hvað er leif í sagnfræði?“ Vísindavefurinn. 4. sep. 2001. Vefsíða. 7. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=1858>.