Sólin Sólin Rís 07:27 • sest 19:09 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 19:21 • Sest 05:17 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:24 • Síðdegis: 17:42 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:34 • Síðdegis: 24:00 í Reykjavík

Hvað eru líkindarök og þagnarrök í sagnfræði?

Helgi Skúli Kjartansson

Þegar sagnfræðingur talar um líkindarök á hann við rök sem duga til að gera ályktun eða niðurstöðu sennilega, en þó ekki óyggjandi. Rök, sem eru meira en líkindarök, ættu eiginlega að fela í sér sönnun á niðurstöðunni. En sönnunarhugtakið vill verða loðið og vandmeðfarið í sagnfræði, þar sem venjulega þarf að líta í einu lagi á margvísleg rök, og oft gagnrök líka, til að meta niðurstöðu.

Ef tiltekin röksemdafærsla dugir ein og sér til að sanna niðurstöðu, eins og til dæmis er algengt í stærðfræði, þá er frekari röksemdum ofaukið, og gagnrök hljóta að vera ógild. Sagnfræðingur er sjaldan svo viss í sinni sök að honum þyki ekki ávinningur að nýjum rökum eða heimildum sem styðja ályktun hans, eða að honum þyki óþarft að kynna sér gagnrök.

Samt er gerður greinarmunur á niðurstöðu, sem aðeins er studd líkindarökum og rétt er að setja fram með fyrirvara, kannski sem tilgátu, og hinni sem óhætt er að hafa fyrir satt án fyrirvara, eða setja fram sem söguleg staðreynd, eins og stundum er sagt. Slíkar sögulegar staðreyndir eru ekki endilega studdar mjög sterkum rökum ef ekkert sérstakt mælir gegn þeim og þær falla vel að öðru sem vitað er. Ný þekking getur orðið til þess að vekja vafa um viðteknar staðreyndir, og þá reynir á hvort rökin fyrir þeim voru nokkurn tíma meira en líkindarök.


Manntalið árið 1703 segir ekki til um íbúa í Viðey.

Þagnarrök er stutt heiti á því sem líka er kallað ályktun af þögn heimilda. Sem sagt ályktun í þá veru að úr því að einhvers sé ekki getið í heimildum, þá hafi það aldrei gerst eða verið. Slík rök eru oft gagnleg, en þarf að nota með gát.

Í manntalinu 1703 er til dæmis ekki getið neinna íbúa í Viðey. Af því að manntalið átti að geta allra íbúa landsins, og virðist yfirleitt bera með sér að vera gert mjög samviskusamlega, hafa menn ályktað af þessari þögn heimildarinnar að engin föst búseta hafi verið í Viðey um þær mundir. Þetta eru þó bara líkindarök. Af því að Viðey var í Seltjarnarneshreppi, en tilheyrði búrekstri amtmannsembættisins á Bessastöðum í Álftaneshreppi, kann vel að vera að hreppstjórarnir, sem tóku manntalið, hafi ruglast í því hvor hreppurinn ætti að telja fram íbúana þar.

Annað þekkt dæmi má sækja í Íslendingabók Ara fróða. Þar segir frá kristniboði Þangbrands, en engum fyrri kristniboðum, hvorki Þorvaldi víðförla né Stefni Þorgilssyni. Ef ályktað er af þögn Ara að hann hafi annaðhvort aldrei heyrt þessara manna getið eða ekki talið sögur af þeim trúverðugar, þá eru það þagnarrök sem styðja þá tilgátu (staðreynd væri of mikið sagt) að kristniboð Þorvalds og Stefnis sé einber þjóðsaga. En svo kann þögn Ara að eiga sér aðrar skýringar, kannski að honum hafi fundist hæfilegt að nefna aðeins áhrifaríkasta kristniboðann, eða að hann hafi haft meiri áhuga á þeim héruðum og þeim höfðingjaættum sem Þangbrandur hafði kristnað.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Mynd:

Höfundur

Helgi Skúli Kjartansson

prófessor í sagnfræði, Menntavísindasviði HÍ

Útgáfudagur

4.9.2001

Spyrjandi

Björn Björnsson

Tilvísun

Helgi Skúli Kjartansson. „Hvað eru líkindarök og þagnarrök í sagnfræði?“ Vísindavefurinn, 4. september 2001. Sótt 28. september 2023. http://visindavefur.is/svar.php?id=1859.

Helgi Skúli Kjartansson. (2001, 4. september). Hvað eru líkindarök og þagnarrök í sagnfræði? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=1859

Helgi Skúli Kjartansson. „Hvað eru líkindarök og þagnarrök í sagnfræði?“ Vísindavefurinn. 4. sep. 2001. Vefsíða. 28. sep. 2023. <http://visindavefur.is/svar.php?id=1859>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvað eru líkindarök og þagnarrök í sagnfræði?
Þegar sagnfræðingur talar um líkindarök á hann við rök sem duga til að gera ályktun eða niðurstöðu sennilega, en þó ekki óyggjandi. Rök, sem eru meira en líkindarök, ættu eiginlega að fela í sér sönnun á niðurstöðunni. En sönnunarhugtakið vill verða loðið og vandmeðfarið í sagnfræði, þar sem venjulega þarf að líta í einu lagi á margvísleg rök, og oft gagnrök líka, til að meta niðurstöðu.

Ef tiltekin röksemdafærsla dugir ein og sér til að sanna niðurstöðu, eins og til dæmis er algengt í stærðfræði, þá er frekari röksemdum ofaukið, og gagnrök hljóta að vera ógild. Sagnfræðingur er sjaldan svo viss í sinni sök að honum þyki ekki ávinningur að nýjum rökum eða heimildum sem styðja ályktun hans, eða að honum þyki óþarft að kynna sér gagnrök.

Samt er gerður greinarmunur á niðurstöðu, sem aðeins er studd líkindarökum og rétt er að setja fram með fyrirvara, kannski sem tilgátu, og hinni sem óhætt er að hafa fyrir satt án fyrirvara, eða setja fram sem söguleg staðreynd, eins og stundum er sagt. Slíkar sögulegar staðreyndir eru ekki endilega studdar mjög sterkum rökum ef ekkert sérstakt mælir gegn þeim og þær falla vel að öðru sem vitað er. Ný þekking getur orðið til þess að vekja vafa um viðteknar staðreyndir, og þá reynir á hvort rökin fyrir þeim voru nokkurn tíma meira en líkindarök.


Manntalið árið 1703 segir ekki til um íbúa í Viðey.

Þagnarrök er stutt heiti á því sem líka er kallað ályktun af þögn heimilda. Sem sagt ályktun í þá veru að úr því að einhvers sé ekki getið í heimildum, þá hafi það aldrei gerst eða verið. Slík rök eru oft gagnleg, en þarf að nota með gát.

Í manntalinu 1703 er til dæmis ekki getið neinna íbúa í Viðey. Af því að manntalið átti að geta allra íbúa landsins, og virðist yfirleitt bera með sér að vera gert mjög samviskusamlega, hafa menn ályktað af þessari þögn heimildarinnar að engin föst búseta hafi verið í Viðey um þær mundir. Þetta eru þó bara líkindarök. Af því að Viðey var í Seltjarnarneshreppi, en tilheyrði búrekstri amtmannsembættisins á Bessastöðum í Álftaneshreppi, kann vel að vera að hreppstjórarnir, sem tóku manntalið, hafi ruglast í því hvor hreppurinn ætti að telja fram íbúana þar.

Annað þekkt dæmi má sækja í Íslendingabók Ara fróða. Þar segir frá kristniboði Þangbrands, en engum fyrri kristniboðum, hvorki Þorvaldi víðförla né Stefni Þorgilssyni. Ef ályktað er af þögn Ara að hann hafi annaðhvort aldrei heyrt þessara manna getið eða ekki talið sögur af þeim trúverðugar, þá eru það þagnarrök sem styðja þá tilgátu (staðreynd væri of mikið sagt) að kristniboð Þorvalds og Stefnis sé einber þjóðsaga. En svo kann þögn Ara að eiga sér aðrar skýringar, kannski að honum hafi fundist hæfilegt að nefna aðeins áhrifaríkasta kristniboðann, eða að hann hafi haft meiri áhuga á þeim héruðum og þeim höfðingjaættum sem Þangbrandur hafði kristnað.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Mynd:...