Sólin Sólin Rís 11:02 • sest 15:37 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 04:24 • Sest 14:29 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 03:07 • Síðdegis: 15:16 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 09:18 • Síðdegis: 21:34 í Reykjavík

Hvað hefur Ísland að bjóða umfram Írland sem skattaparadís fyrir erlend fyrirtæki?

Hannes Hólmsteinn Gissurarson

Eins og kemur óbeint fram í spurningunni hefur Írland haslað sér völl hin síðari ár sem fjármálamiðstöð. Nokkurs konar skattafríhafnir voru stofnaðar við Shannon-flugvöll og höfnina í Dyflinni. Erlend fyrirtæki, sem vildu setjast þar að, þurftu ekki að greiða nema 10% tekjuskatt og nutu annarra ívilnana opinberra aðila. Þetta bar góðan árangur. Hagvöxtur var mikill á Írlandi, og árið 2000 urðu lífskjör í landinu í fyrsta skipti betri en meðaltal í Evrópusambandinu.

Skattastefna Íra er hins vegar litin hornauga í háskattalöndum Evrópu, meðal annars vegna þess að erlend og innlend fyrirtæki hafa notið ólíkra skattakjara. Vegna óánægju og kvartana annarra aðildarríkja Evrópusambandsins ákváðu Írar að hækka skatta á erlend fyrirtæki sem settust að á Írlandi, og lækka um leið skatta á innlend fyrirtæki svo að öll slík fyrirtæki bera 12,5% tekjuskatt eftir nokkur ár.

Ísland hefur um margt svipuð skilyrði og Írland til að verða fjármálamiðstöð ef tekjuskattur á fyrirtæki verður lækkaður hér verulega. Þegar þetta er skrifað stendur til að lækka hann niður í 18%, en væri hann lækkaður niður í 10% stæðu Íslendingar að sumu leyti enn betur að vígi í samkeppni um alþjóðlegt fjármagn en Írar. Enn fremur þyrfti í sama skyni að fella niður eignarskatt á fyrirtæki (en hann tíðkast mjög óvíða, enda felur hann í sér tvísköttun) og gera ýmsar aðrar ráðstafanir, til dæmis að skattleggja söluhagnað af hlutabréfum og arðgreiðslur úr landi öðru vísi og miklu minna en nú er gert.

Einn kostur við skattalækkanir á fyrirtæki á Íslandi er, að ríkissjóð munar ekki mjög mikið um skatttekjurnar af þeim nú. Þær munu því ekki breyta afkomu ríkissjóðs til hins verra, svo að heitið geti. Megintekjur ríkissjóðs Íslands eru af virðisaukaskatti.

Ísland hefur það fram yfir Írland að mati ýmissa stórfyrirtækja að vera ekki í Evrópusambandinu og því ekki undir sömu stjórnmálaáhrifum frá háskattalöndum innan sambandsins. Evrópusambandið hefur síðustu misseri verið að gera sig líklegt til að þrengja að Írlandi og annarri fjármálamiðstöð innan vébanda þess, Lúxemborg. Krafist er svokallaðrar skattasamræmingar í þessu sambandi enda hefur mikið fjármagn farið frá háskattalöndum Evrópu til Írlands og Lúxemborgar. Ýmis alþjóðleg stórfyrirtæki hafa líka af því verulegar áhyggju, að skattar og opinberar álögur verði sífellt þyngri í Evrópusambandinu, sérstaklega óbeinar álögur, til dæmis reglugerðir, sem gera vinnuveitendum erfitt um vik. Þessi fyrirtæki vilja hins vegar að sjálfsögðu hafa aðgang að Evrópumarkaðnum. Ísland hefur einmitt slíkan aðgang án þess að vera aðili að Evrópusambandinu.

Ísland getur sennilega ekki gert sér vonir um að verða jafnöflug fjármálamiðstöð og Írland vegna smæðar íslenska hagkerfisins, fjarlægðar frá mörkuðum og annarrar sérstöðu. Sem dæmi má nefna að í Írska lýðveldinu búa nú um 3,7 milljónir manna, Írar tala ensku og nota evru frá ársbyrjun 2002.Eyjan Mön en Írland má sjá á innfeldu myndinni

En Ísland ætti að geta gert sér vonir um að komast jafnlangt á þessu sviði og eyjan Mön. Þar eru skráð 42 þúsund alþjóðleg fyrirtæki. Þar starfa rúmlega 60 bankar og fjöldi tryggingafélaga, fjárfestingarsjóða og annarra fyrirtækja. Þar eru innstæður í bönkum tífalt meiri en á Íslandi, rúmlega 30 milljarðar Bandaríkjadala. Svipaða sögu er að segja af bresku Ermarsundseyjunum, Jersey og Guernsey. Fyrirtæki á þessum eyjum búa við önnur kjör en á Bretlandi sjálfu en þær tilheyra þó breska ríkinu og hafa það að bakhjarli; nota til dæmis sömu mynt, sterlingspundið.

Ísland er ekki síður í alfaraleið á Norður-Atlantshafi en bresku eyjarnar sem hér voru nefndar. Íslenska þjóðin er þokkalega menntuð, stjórnarfar er stöðugt og peningamál og fjármál í eins góðu lagi og víðast í Evrópu. Spurningin er aðeins, hvort leikreglur hér verði eins hagfelldar fjármálafyrirtækjum og til dæmis á Írlandi, í Lúxemborg, á Mön og á Ermarsundseyjum og hvort hugarfar og viðmót verði eins vinsamlegt.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Mynd:

Höfundur

prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands

Útgáfudagur

27.11.2001

Spyrjandi

Jón Gísli Ragnarsson

Tilvísun

Hannes Hólmsteinn Gissurarson. „Hvað hefur Ísland að bjóða umfram Írland sem skattaparadís fyrir erlend fyrirtæki? “ Vísindavefurinn, 27. nóvember 2001. Sótt 8. desember 2023. http://visindavefur.is/svar.php?id=1972.

Hannes Hólmsteinn Gissurarson. (2001, 27. nóvember). Hvað hefur Ísland að bjóða umfram Írland sem skattaparadís fyrir erlend fyrirtæki? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=1972

Hannes Hólmsteinn Gissurarson. „Hvað hefur Ísland að bjóða umfram Írland sem skattaparadís fyrir erlend fyrirtæki? “ Vísindavefurinn. 27. nóv. 2001. Vefsíða. 8. des. 2023. <http://visindavefur.is/svar.php?id=1972>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvað hefur Ísland að bjóða umfram Írland sem skattaparadís fyrir erlend fyrirtæki?
Eins og kemur óbeint fram í spurningunni hefur Írland haslað sér völl hin síðari ár sem fjármálamiðstöð. Nokkurs konar skattafríhafnir voru stofnaðar við Shannon-flugvöll og höfnina í Dyflinni. Erlend fyrirtæki, sem vildu setjast þar að, þurftu ekki að greiða nema 10% tekjuskatt og nutu annarra ívilnana opinberra aðila. Þetta bar góðan árangur. Hagvöxtur var mikill á Írlandi, og árið 2000 urðu lífskjör í landinu í fyrsta skipti betri en meðaltal í Evrópusambandinu.

Skattastefna Íra er hins vegar litin hornauga í háskattalöndum Evrópu, meðal annars vegna þess að erlend og innlend fyrirtæki hafa notið ólíkra skattakjara. Vegna óánægju og kvartana annarra aðildarríkja Evrópusambandsins ákváðu Írar að hækka skatta á erlend fyrirtæki sem settust að á Írlandi, og lækka um leið skatta á innlend fyrirtæki svo að öll slík fyrirtæki bera 12,5% tekjuskatt eftir nokkur ár.

Ísland hefur um margt svipuð skilyrði og Írland til að verða fjármálamiðstöð ef tekjuskattur á fyrirtæki verður lækkaður hér verulega. Þegar þetta er skrifað stendur til að lækka hann niður í 18%, en væri hann lækkaður niður í 10% stæðu Íslendingar að sumu leyti enn betur að vígi í samkeppni um alþjóðlegt fjármagn en Írar. Enn fremur þyrfti í sama skyni að fella niður eignarskatt á fyrirtæki (en hann tíðkast mjög óvíða, enda felur hann í sér tvísköttun) og gera ýmsar aðrar ráðstafanir, til dæmis að skattleggja söluhagnað af hlutabréfum og arðgreiðslur úr landi öðru vísi og miklu minna en nú er gert.

Einn kostur við skattalækkanir á fyrirtæki á Íslandi er, að ríkissjóð munar ekki mjög mikið um skatttekjurnar af þeim nú. Þær munu því ekki breyta afkomu ríkissjóðs til hins verra, svo að heitið geti. Megintekjur ríkissjóðs Íslands eru af virðisaukaskatti.

Ísland hefur það fram yfir Írland að mati ýmissa stórfyrirtækja að vera ekki í Evrópusambandinu og því ekki undir sömu stjórnmálaáhrifum frá háskattalöndum innan sambandsins. Evrópusambandið hefur síðustu misseri verið að gera sig líklegt til að þrengja að Írlandi og annarri fjármálamiðstöð innan vébanda þess, Lúxemborg. Krafist er svokallaðrar skattasamræmingar í þessu sambandi enda hefur mikið fjármagn farið frá háskattalöndum Evrópu til Írlands og Lúxemborgar. Ýmis alþjóðleg stórfyrirtæki hafa líka af því verulegar áhyggju, að skattar og opinberar álögur verði sífellt þyngri í Evrópusambandinu, sérstaklega óbeinar álögur, til dæmis reglugerðir, sem gera vinnuveitendum erfitt um vik. Þessi fyrirtæki vilja hins vegar að sjálfsögðu hafa aðgang að Evrópumarkaðnum. Ísland hefur einmitt slíkan aðgang án þess að vera aðili að Evrópusambandinu.

Ísland getur sennilega ekki gert sér vonir um að verða jafnöflug fjármálamiðstöð og Írland vegna smæðar íslenska hagkerfisins, fjarlægðar frá mörkuðum og annarrar sérstöðu. Sem dæmi má nefna að í Írska lýðveldinu búa nú um 3,7 milljónir manna, Írar tala ensku og nota evru frá ársbyrjun 2002.Eyjan Mön en Írland má sjá á innfeldu myndinni

En Ísland ætti að geta gert sér vonir um að komast jafnlangt á þessu sviði og eyjan Mön. Þar eru skráð 42 þúsund alþjóðleg fyrirtæki. Þar starfa rúmlega 60 bankar og fjöldi tryggingafélaga, fjárfestingarsjóða og annarra fyrirtækja. Þar eru innstæður í bönkum tífalt meiri en á Íslandi, rúmlega 30 milljarðar Bandaríkjadala. Svipaða sögu er að segja af bresku Ermarsundseyjunum, Jersey og Guernsey. Fyrirtæki á þessum eyjum búa við önnur kjör en á Bretlandi sjálfu en þær tilheyra þó breska ríkinu og hafa það að bakhjarli; nota til dæmis sömu mynt, sterlingspundið.

Ísland er ekki síður í alfaraleið á Norður-Atlantshafi en bresku eyjarnar sem hér voru nefndar. Íslenska þjóðin er þokkalega menntuð, stjórnarfar er stöðugt og peningamál og fjármál í eins góðu lagi og víðast í Evrópu. Spurningin er aðeins, hvort leikreglur hér verði eins hagfelldar fjármálafyrirtækjum og til dæmis á Írlandi, í Lúxemborg, á Mön og á Ermarsundseyjum og hvort hugarfar og viðmót verði eins vinsamlegt.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Mynd:

...