Sjálfráða maður ræður einn öðru en fé sínu, nema lög mæli á annan veg.Svo segir í 2. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Þannig verður ekki tæmandi talið hvað í sjálfræði felst heldur er þar um að ræða öll þau lagalegu réttindi og skyldur sem fullorðnir menn bera í samfélaginu, þó með þeim mikilvægu takmörkunum sem getið er í einstökum lögum. Þar ber vitaskuld hæst hina mikilvægu takmörkun 2. gr. lögræðislaganna sjálfra að sjálfráða maður ræður ekki fé sínu. Í sjálfræðinu felst með öðrum orðum ekki fjárræði þótt fátítt muni núorðið að sjálfráða menn séu ekki fjárráða einnig, þar sem fjárræðis- og sjálfræðisaldur er nú hinn sami eða 18 ár, ólíkt því sem áður var. Má með nokkrum sanni segja að sjálfræði hafi í reynd verið heldur tilkomulítið án fjárræðisins. Saman mynda fjárræði og sjálfræði lögræði en lögráða maður hefur öll helstu réttindi og skyldur fullorðins manns og ber þar vafalaust hæst að hann er laus undan foreldravaldinu og ákvæðum barnalaga. Eftir að lögræðisaldri er náð hafa menn því fáar sérstakar lagalegar skyldur við foreldra eða forráðamenn sína og þeir ekki við börn sín hvað sem siðvenjum og almennum viðhorfum fólks líður. Þannig ber foreldri ekki skylda til að framfleyta sjálfráða barni sínu. Þegar börn búa í foreldrahúsum fram yfir sjálfræðisaldur er foreldrum vitaskuld heimilt að setja börnum sínum skilyrði fyrir uppihaldinu. Er hér aðeins um almennt samningssamband að ræða. Þá hefur sjálfráða maður miklu ríkari réttindi og skyldur gagnvart ríkisvaldinu sem nú kemur að mestu fram við hann sem fullorðinn mann en ekki lengur sem barn. Þó er ekki loku fyrir það skotið að einstök réttindi eða skyldur hljótist áður en eða eftir að sjálfræðisaldri er náð. Um þetta má nefna mýmörg dæmi en hér skulu aðeins nefnd nokkur af handahófi. Í 1. mgr. 19. greinar lögræðislaga segir að sjálfráða maður verði ekki vistaður nauðugur í sjúkrahúsi. Þó má samkvæmt 2.-5. mgr. sömu greinar vista sjálfráða mann nauðugan í sjúkrahúsi að uppfylltum ströngum skilyrðum. Í 7. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 segir að
karl og kona mega stofna til hjúskapar þegar þau hafa náð 18 ára aldri. Dóms- og kirkjumálaráðuneytið getur veitt yngra fólki leyfi til að ganga í hjúskap, enda liggi fyrir afstaða forsjárforeldra til hjúskaparstofnunarinnarÞannig gæti ósjálfráða maður gengið í hjúskap, að vísu aðeins að uppfylltum þessum ströngu skilyrðum. Í 13. gr. vopnalaga nr. 16/1998 segir að skilyrði fyrir veitingu skotvopnaleyfis séu 20 ára aldur auk sjálfræðis. Í 14. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 er sakhæfisaldur ákvarðaður 15 ár. Þannig getur ósjálfráða maður verið dæmdur til refsingar, hafi hann til þess unnið, þótt tekið sé tillit til ungs aldurs við ákvörðun refsingar. Hins vegar geta enn yngri menn orðið skaðabótaskyldir, en um það eru reglur að mestu byggðar á dómvenju. Þannig geta og hafa börn allt niður að sex ára aldri og jafnvel yngri orðið skaðabótaskyld, valdi þau tjóni á saknæman og ólögmætan hátt. Til saknæmis telst bæði gáleysi og ásetningur en þó verður að hafa þann fyrirvara á að gáleysishugtakinu er beitt varfærnislegar þegar börn eiga í hlut. Þannig gæti hegðun talist ósaknæm hjá sex ára gömlu barni sem þætti gálaus og þar með saknæm hjá fullorðnum manni. Jafnframt eru til þess heimildir í lögræðislögum að lækka bótafjárhæðir þegar um börn er að ræða. Í 18. gr. laga nr. 25/1975 um ráðgjöf og fræðslu varðandi kynlíf og barneignir og um fóstureyðingar og um ófrjósemisaðgerðir er mönnum almennt því aðeins heimilt að fara í ófrjósemisaðgerð að þeir séu fullra 25 ára. Þá má að lokum geta annars vegar hinnar sívinsælu 18. gr. áfengislaga nr. 75/1998 þar sem segir að óheimilt sé að selja, veita eða afhenda áfengi þeim sem er yngri en 20 ára og hins vegar þess sem alkunna er að margs konar ökuréttindi eru veitt fyrir sjálfræðisaldur. Af þessari upptalningu er ljóst að engin algild svör verða veitt við því hvað í sjálfræði felst. Aðeins að sjálfráða maður telst fullorðinn í skilningi laganna nema annað sé tekið fram. Þá verður að ætla að lög taki almennt til allra manna, barna sem fullorðinna nema annað megi ráða af lögunum sjálfum (til dæmis barna- og barnaverndarlögum), venju eða hlutarins eðli.
Mynd: HB