Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
ForsíðaFélagsvísindiStjórnmálafræðiÞekkja íslenskir blaðamenn þjóðfélagið nógu vel til þess að geta tekið þátt í uppbyggilegri gagnrýni á stjórnarfar landsins?
Til að geta svarað þessari spurningu er nauðsynlegt að velta fyrir sér merkingu hennar: Hvers konar þekking og hve mikið af henni er nauðsynleg til að geta verið gagnrýninn? Hvers konar gagnrýni er uppbyggileg og hverjir stunda hana?
Sérfræðingar eru ekki þeir sem best eru til að gagnrýna það sem þeir eru sérfróðir um. Vísindamenn stunda vísindi en þeir sem stunda vísindagagnrýni eru yfirleitt ekki vísindamenn sjálfir. Á sama hátt er ólíklegt að blaðamaður sem er sérfræðingur í einhverri grein þjóðfélagsfræða væri betri þjóðfélagsgagnrýnandi en hinn sem hefur ekki þessa sérfræðiþekkingu. En alveg eins og vísindagagnrýnandinn þarf að þekkja aðferðir og innviði vísinda, þá þarf blaðamaðurinn helst að kunna eitthvað fyrir sér í félagsvísindum til að geta fjallað af viti um þjóðfélagsmál. Af þessu er hægt að draga almenna ályktun: Blaðamenn eiga að vera vel heima á mörgum sviðum en þeir eiga ekki að vera sérfræðingar.
En það má skilja spurninguna á fleiri vegu: Eitt er að hafa góða almenna menntun sem gerir blaðamanninum kleift að átta sig á efnahagsmálum, pólitík, vísindastarfsemi, löggjöf og dómsmálum, rekstri fyrirtækja, menningu og listum og svo framvegis. Annað er að hafa þá reynslu og innsýn í þjóðfélagið sem gerir gagnrýna afstöðu til stjórnarfars og stjórnmála áhugaverða og innihaldsríka. Það má kannski lýsa uppbyggilegri gagnrýni svo að hún sé gagnrýni þess sem hefur slíkan skilning á því sem hann eða hún fjallar um ásamt nægri menntun til að tileinka sér viðhorf hins upplýsta leikmanns í mörgum ólíkum málum.
Þessi skilyrði – innsýn og undirstöðugóð háskólamenntun – má segja að séu nauðsynleg skilyrði þess að blaðamaður geti tekið þátt í uppbyggilegri gagnrýni. En þau eru ekki nægjanleg skilyrði. Það er hægt að búa yfir getunni án þess að notfæra sér hana, vera áhugalaus um gagnrýni, jafnvel á valdi annarlegra sjónarmiða. Gagnrýninn blaðamaður er því líka skapandi og frjór í hugsun, áhugasamur og leitandi. Pólitísk róttækni, hvort sem er hægri, vinstri eða miðjuróttækni, er líka mikilvægur eiginleiki.
Hafa íslenskir blaðamenn þessa kosti til að bera? Flestir hafa vafalaust einhverja þeirra, en sennilega hafa fáir þá alla. Það má kannski taka örlítið dýpra í árinni: Þessir eiginleikar einkenna ekki íslenska fjölmiðla og ekkert bendir til þess að fjölmiðlarnir leggi sig fram um að ala upp eða þjálfa fólk sem hefur þá.
Ef íslenskir blaðamenn taka ekki þátt í uppbyggilegri þjóðfélagsgagnrýni má geta sér til að þá skorti annaðhvort skilning og undirstöðuþekkingu eða innsýn og reynslu eða eldmóð og áhuga. Nú getur verið að ástæðan fyrir því að þá skortir einhverja þessara eiginleika sé ekki að öllu leyti þeim sjálfum að kenna, heldur liggi í menningunni, samfélagsorðræðunni, ef svo má að orði komast. Það getur verið að samfélagið eða fjölmiðlaheimurinn á einum tíma, sé ekki móttækilegur fyrir uppbyggilegri gagnrýni.
Þess vegna má snúa spurningunni við: Væri uppbyggileg gagnrýni á stjórnarfar möguleg ef einhverjir væru færir um að stunda hana? Gallinn á samfélagsorðræðunni á Íslandi virðist undirrituðum vera sá að hún er þröng og einhæf. Umfjöllun fjölmiðla er undantekningarlítið bundin við aðgerðir og yfirlýsingar stjórnvalda og stórfyrirtækja, fjölmiðlarnir stunda enga sjálfstæða rannsóknablaðamennsku. Ljósvakafjölmiðlar, sem hafa gífurleg áhrif á alla almenna umræðu í landinu, hafa að því er virðist einsett sér að hafna faglegum vinnubrögðum við undirbúning og úrvinnslu fréttadagskrár. Þannig er iðulega alltof mikil áhersla á viðtöl þar sem viðmælandinn hefur yfirburðaþekkingu á umræðuefninu en fréttamaðurinn hefur varla kynnt sér það. Fjölmiðlar á Íslandi eru oft ófærir um áhugaverða efnisúrvinnslu vegna þess að fréttamennirnir þurfa að láta málsaðila hverju sinni fræða sig og eru því ekki óháðir þeim.
Íslenska blaðamenn skortir ekki menntun eða skilning á þjóðfélaginu til að geta tekið þátt í uppbyggilegri gagnrýni á stjórnarfar. Þá skortir eldmóð og róttækni, þeir eru í fjötrum metnaðarlausrar fjölmiðlamenningar. En hverjir stunda þá þessa gagnrýni hér á landi ef fjölmiðlarnir gera það ekki? Þó að vissulega gerist það að einstaklingar og hópar fólks móti gagnrýna afstöðu í einstökum málum og fylgi henni eftir, þá vantar hið stöðuga og virka eftirlit sem í sumum löndum kemur frá háskólum og sjálfstæðum rannsóknastofnunum. Kannski er það vegna þessa skorts sem stjórnmálamenning okkar er talsvert frumstæðari heldur en í nágrannalöndum, ekki vegna fámennisins.
Frekara lesefni á Vísindavefnum:
Jón Ólafsson. „Þekkja íslenskir blaðamenn þjóðfélagið nógu vel til þess að geta tekið þátt í uppbyggilegri gagnrýni á stjórnarfar landsins?“ Vísindavefurinn, 11. janúar 2002, sótt 4. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=2039.
Jón Ólafsson. (2002, 11. janúar). Þekkja íslenskir blaðamenn þjóðfélagið nógu vel til þess að geta tekið þátt í uppbyggilegri gagnrýni á stjórnarfar landsins? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=2039
Jón Ólafsson. „Þekkja íslenskir blaðamenn þjóðfélagið nógu vel til þess að geta tekið þátt í uppbyggilegri gagnrýni á stjórnarfar landsins?“ Vísindavefurinn. 11. jan. 2002. Vefsíða. 4. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=2039>.