Út frá rannsóknum á steingervingum er sennilegt að tegund nokkur af fylkingu armfætlinga (brachiopoda), sem fengið hefur íslenska nafnið tyngla en nefnist á latínu lingula, sé sú tegund sem lengst hefur verið við lýði af núlifandi tegundum jarðarinnar. Tegund þessi hefur fundist í steingervingalögum frá kambríum tímabili jarðsögunnar. Það segir okkur að tegundin hefur verið til í rúm 500 miljón ár og lítið breyst í útliti á þeim tíma.
Armfætlingar teljast nú vera um 300 tegundir en mun fleiri tegundir eru nú útdauðar og hafa fundist steingerðar, eða allt að 20.000 tegundir. Talið er að áður en hin mikla útrýmingaralda reið yfir jörðina fyrir 250 milljónum ára, þar sem mörk forlífsaldar og miðlífsaldar liggja, hafi fylkinginn verið mun tegundaauðugri. Armfætlingar finnast í dag aðallega í köldum sjó á heimskautasvæðunum og/eða á mjög miklu dýpi þannig að líffræði fylkingarinnar er ekki nægilega vel þekkt.
Armflætlingar minna mjög á samlokur enda með tvær skeljar. Skyldleikinn við samlokur eða önnur lindýr er þó enginn og eru skyldustu fylkingarnar fornar fylkingar eins og mosadýr (bryozoa).
Önnur tegund sjávarhryggleysingja, skeifukrabbinn (limulus) hefur verið til í nokkur hundruð milljón ár. Í ljósi líffræðinnar er aldur þessara tegunda ákaflega merkilegur miðað við að "meðalaldur" tegunda eru einungis fáeinar milljónir ára.
Mynd: Science and Engineering Library: Underwater Field Guide to Ross Island & McMurdo Sound, Antarctica