Sólin Sólin Rís 05:15 • sest 21:38 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 01:18 • Sest 04:30 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:36 • Síðdegis: 19:53 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:39 • Síðdegis: 13:42 í Reykjavík

Hvort mæla vogir massa eða þyngd og hvernig kemur aðdráttarafl jarðar við sögu á baðvog?

Þorsteinn Vilhjálmsson

Þessu hefur í rauninni verið svarað að mestu í einu af allra fyrstu svörunum sem birt voru á Vísindavefnum: Er massi hlutar ekki sama og þyngd hans? eftir Tryggva Þorgeirsson og Þorstein Vilhjálmsson. Við skulum þó reyna að gera enn betur hér og koma þá beint að efninu.

Vogir mæla ýmist massa hluta eða þyngd. Vogir sem eru með einhvers konar lóðum mæla massa; í þeim er massinn sem veginn er borinn saman við tiltekna viðmiðunarmassa lóðanna sem eru í eða á voginni eða fylgja henni. Þetta gildir líka þó að massi lóðanna sé ekkert endilega sá sami og massinn sem veginn, til dæmis ef notuð er einhvers konar reisla eða vog með vogarstöngum. Þá er í rauninni verið að bera saman hlutföll milli massa lóðanna og óþekkta massans.

Gormvog mælir hins vegar þyngd hlutarins sem hengdur er í hana, það er að segja þyngdarkraftinn sem verkar á hlutinn þar sem hann er staddur. Ef við færum með hlutinn og vogina til dæmis upp á hátt fjall, upp í flugvél eða kannski bara til tunglsins, þá mundi vogin sýna aðra þyngd heldur en niðri á jafnsléttu á jörðinni. Margar baðvogir og aðrar vogir nú á dögum verka að þessu leyti eins og gormvogir; þær mæla þyngd en ekki massa. Hins vegar eru líka til baðvogir þar sem lóð eru notuð og þær mæla því massa.

Baðvog sem mælir þyngd eða kraft er í rauninni að mæla aðdráttarkraft jarðar á hlutinn sem veginn er. Aflesturinn á slíkri vog getur því breyst eins og fyrr segir, ef við förum með vogina á allt annan stað þar sem aðdráttarkrafturinn er annar.

Auðvitað má segja að baðvog með lóðum sé í rauninni að bera saman þyngdarkraftinn á lóðin annars vegar og hins vegar á hlutinn sem veginn er. Hins vegar eru þessir hlutir þá á nokkurn veginn sama stað og það þýðir að þyngdarkrafturinn er í beinu hlutfalli við massann eða með öðrum orðum að þyngdarkraftur á massaeiningu er sá sami fyrir hlutinn og lóðin.

Nú á dögum er afar mikilvægt að gera glöggan greinarmun á massa og þyngd, bæði vegna venjulegra ferðalaga, viðskipta og svo vegna geimferða. Sem dæmi má nefna að hlutur sem er í þyngdarleysi, eins og algengt er í geimferðum, hefur enga þyngd en massi hans er hins vegar nákvæmlega hinn sami og endranær. Þessi munur á massa og þyngd skipti minna máli áður fyrr enda var honum þá minni gaumur gefinn í vísindum.

Um þetta má lesa meira á Vísindavefnum í svörum sem hægt er að kalla fram með því að setja til dæmis orðin "þyngd", "massi" eða "þyngdarleysi" inn í leitarvélina efst til vinstri á skjánum.

Frekara lesefni af Vísindavefnum:



Mynd: HB

Höfundur

Þorsteinn Vilhjálmsson

prófessor emeritus, ritstjóri Vísindavefsins 2000-2010 og ritstjóri Evrópuvefsins 2011

Útgáfudagur

7.5.2002

Spyrjandi

6. og 7. bekkur Grunnskólans á Suðureyri

Tilvísun

Þorsteinn Vilhjálmsson. „Hvort mæla vogir massa eða þyngd og hvernig kemur aðdráttarafl jarðar við sögu á baðvog?“ Vísindavefurinn, 7. maí 2002. Sótt 26. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=2367.

Þorsteinn Vilhjálmsson. (2002, 7. maí). Hvort mæla vogir massa eða þyngd og hvernig kemur aðdráttarafl jarðar við sögu á baðvog? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=2367

Þorsteinn Vilhjálmsson. „Hvort mæla vogir massa eða þyngd og hvernig kemur aðdráttarafl jarðar við sögu á baðvog?“ Vísindavefurinn. 7. maí. 2002. Vefsíða. 26. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=2367>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvort mæla vogir massa eða þyngd og hvernig kemur aðdráttarafl jarðar við sögu á baðvog?
Þessu hefur í rauninni verið svarað að mestu í einu af allra fyrstu svörunum sem birt voru á Vísindavefnum: Er massi hlutar ekki sama og þyngd hans? eftir Tryggva Þorgeirsson og Þorstein Vilhjálmsson. Við skulum þó reyna að gera enn betur hér og koma þá beint að efninu.

Vogir mæla ýmist massa hluta eða þyngd. Vogir sem eru með einhvers konar lóðum mæla massa; í þeim er massinn sem veginn er borinn saman við tiltekna viðmiðunarmassa lóðanna sem eru í eða á voginni eða fylgja henni. Þetta gildir líka þó að massi lóðanna sé ekkert endilega sá sami og massinn sem veginn, til dæmis ef notuð er einhvers konar reisla eða vog með vogarstöngum. Þá er í rauninni verið að bera saman hlutföll milli massa lóðanna og óþekkta massans.

Gormvog mælir hins vegar þyngd hlutarins sem hengdur er í hana, það er að segja þyngdarkraftinn sem verkar á hlutinn þar sem hann er staddur. Ef við færum með hlutinn og vogina til dæmis upp á hátt fjall, upp í flugvél eða kannski bara til tunglsins, þá mundi vogin sýna aðra þyngd heldur en niðri á jafnsléttu á jörðinni. Margar baðvogir og aðrar vogir nú á dögum verka að þessu leyti eins og gormvogir; þær mæla þyngd en ekki massa. Hins vegar eru líka til baðvogir þar sem lóð eru notuð og þær mæla því massa.

Baðvog sem mælir þyngd eða kraft er í rauninni að mæla aðdráttarkraft jarðar á hlutinn sem veginn er. Aflesturinn á slíkri vog getur því breyst eins og fyrr segir, ef við förum með vogina á allt annan stað þar sem aðdráttarkrafturinn er annar.

Auðvitað má segja að baðvog með lóðum sé í rauninni að bera saman þyngdarkraftinn á lóðin annars vegar og hins vegar á hlutinn sem veginn er. Hins vegar eru þessir hlutir þá á nokkurn veginn sama stað og það þýðir að þyngdarkrafturinn er í beinu hlutfalli við massann eða með öðrum orðum að þyngdarkraftur á massaeiningu er sá sami fyrir hlutinn og lóðin.

Nú á dögum er afar mikilvægt að gera glöggan greinarmun á massa og þyngd, bæði vegna venjulegra ferðalaga, viðskipta og svo vegna geimferða. Sem dæmi má nefna að hlutur sem er í þyngdarleysi, eins og algengt er í geimferðum, hefur enga þyngd en massi hans er hins vegar nákvæmlega hinn sami og endranær. Þessi munur á massa og þyngd skipti minna máli áður fyrr enda var honum þá minni gaumur gefinn í vísindum.

Um þetta má lesa meira á Vísindavefnum í svörum sem hægt er að kalla fram með því að setja til dæmis orðin "þyngd", "massi" eða "þyngdarleysi" inn í leitarvélina efst til vinstri á skjánum.

Frekara lesefni af Vísindavefnum:



Mynd: HB...