Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
ForsíðaFélagsvísindiÞjóðfræðiHversu útbreidd er álfatrúin um heiminn, í hvers kyns myndum sem hún kann að koma fram?
Til þess að svara þessari spurningu þarf að vera ljóst við hvað er átt með hugtakinu álfur. Ljóst er að álfar í fornnorræni trú, sérstaklega í eddukvæðunum, eru bæði ólíkir álfum sem koma fyrir í þjóðtrú Íslendinga í dag1 og álfum í íslenskum þjóðsögum. Einnig þarf að taka tillit til þess að nú á dögum tala margir Íslendingar um álfa og huldufólk sem sama fyrirbærið. Upphaflega virðast „álfar“ í norrænni trú, til að mynda sums staðar í Svíþjóð, hafa verið álitnir jafn kraftmiklir og guðir og jötnar. Ef til vill er álfaímynd Tolkiens í bókunum The Lord of The Rings (ísl. Hringadróttinssaga) og The Simarillion (ísl. Silmerillinn) ekki svo frábrugðin upprunalegri mynd þeirra, enda þekkti Tolkien fornnorrænar heimildir mjög vel2.
Á landnámsöld notuðu menn ekki orðin huldufólk eða álfar en töluðu þess í stað um „náttúruvætti“3. Í seinni tíð fóru menn síðan að blanda saman hugmyndum um álfa og náttúruvætti, bæði á Íslandi og í nágrannalöndum. Hér á landi gera menn iðulega lítinn greinarmun á „álfum“ og „huldufólki“4 sem Norðmenn kalla huldre, en það er líklega svokallað veigrunaryrði („noa“-orð) sem notað er til að ræða um yfirnáttúrlegar verur án þess að nefna þær beint. Önnur dæmi um slíkt er til dæmis „the little people“ og „the good people“ sem samheiti fyrir „fairies“ á Írlandi og Skotlandi5; eða „Old Nick“, „Gammel Erik“, „Skam“ og „kölski“ fyrir Satan.
Fræg fölsuð mynd sem á að sýna svokallaða 'fairies'.
Íslenskir álfar og huldufólk eiga sér nána ættinga í svonefndum „underjordisk“-verum í Skandinavíu, en þær hafa ýmis svæðisbundin sérkenni eins og reyndar íslensku verurnar líka6. Svipaðar sagnir eru til um þessar verur. Sérkenni íslensks huldufólks og álfa er þó skyldleiki við „the fairies“ á Írlandi og Skotlandi. Þær verur tengdust fyrrverandi „guðaætt“, Tuatha Dé Danaan (gyðjunnar Danu) sem átti bústað í hæðum og hólum á Írlandi og sú ætt tengdist einnig hinum dauðu7.
Það er vandasamt að fullyrða nokkuð um „trú“ á álfa og huldufólk. Fyrir nokkrum árum var gerð könnum í samstarfi þjóðfræða í HÍ, Félagsvísindastofnunar HÍ og Erlends Haraldssonar, prófessor emeritus í sálfræði, en hann hafði einmitt gert svipaða könnun árið 1974. Könnunin sýnir að þótt fáir Íslendingar segjast beinlínis „trúa“ á álfa og huldufólk, eru þeir einnig mjög fáir sem neita tilveru þeirra. Flestir virðast vera opnir fyrir hugmyndinni um álfa og huldufólk. Þeir reyna að fara varlega við álagabletti og eru á móti því að álfasteinar séu eyðilagðir. Svipuð trú var greinilega til staðar í Vestur-Noregi fyrir 50 árum og lifir ennþá góðu lifi á Vestur-Írlandi þar sem menn fara með mikilli varkárni í námunda við svokallaða raths (e. fairy forts; álfavirki). Vestur-Írar segja ennþá sögur af sambandi manna og the fairies, líkt og Íslendingar gera um sína álfa.
Neðanmálsgreinar:1 Terry Gunnell, : “Það er til fleira á himni og jörðu, Hóras”: Kannanir á íslenskri þjóðtrú og trúarviðhorfum 2006-2007. Í Rannsóknum í Félagsvísindum VIII (Félagsvísindadeild): Erindi flutt á ráðstefnu í desember 2007, rits. Gunnar Þór Jóhannesson. Félagsvísindastofnun. (Reykjavík, 2007). 801-812.
2 Sjá meðal annars Terry Gunnell, How Elvish Were the Álfar? Í Constructing Nations, Reconstructing Myth: Essays in Honour of T. A. Shippey, ed. Andrew Wawn, Graham Johnson and John Walter (Turnhout, 2007). 111-130.
3 Sjá neðanmálsgrein 2.
4 Ásdís Aðalbjörg Arnalds, Ragna Benedikta Garðarsdóttir og Unnur Diljá Teitsdóttir. Könnun á íslenskri þjóðtrú og trúarviðhorfum. (Reykjavík, 2008).
5 Sjá Daíthí Ó hÓgáin, The Lore of Ireland: An Encyclopedia of Myth, Legend and Romance (Cork, 2006) og Katherine Briggs, An Encyclopedia of Fairies: Hobgoblins, Brownies, Bogies and Other Supernatural Creatures (New York, 1976) og greinar í Peter Narváez, ed., The Good People: New Fairylore Essays (Lexington, 1991).
6 Sjá Reimund Kvideland og Henning K. Sehmsdorf (eds.), Scandinavian Folk Belief and Legend (Minneaopolis, 1988) og Jacqueline Simpson, Scandinavian Folktales (London, 1988).
7Sjá Daíthí Ó hÓgáin, The Lore of Ireland og Lizanne Henderson og Edward J. Cowan, Scottish Fairy Belief (East Linton, 2001).
Meira lesefni á Vísindavefnum:
Annað lesefni: Terry Gunnell, Introduction to Hildur, Queen of the Elves and Other Icelandic Legends, retold by J. M. Bedell; introduced and translated by Terry Gunnell. (Northhampton, Mass, 2006). 1-26.
Mynd:
Terry Gunnell. „Hversu útbreidd er álfatrúin um heiminn, í hvers kyns myndum sem hún kann að koma fram?“ Vísindavefurinn, 19. desember 2008, sótt 4. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=23875.
Terry Gunnell. (2008, 19. desember). Hversu útbreidd er álfatrúin um heiminn, í hvers kyns myndum sem hún kann að koma fram? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=23875
Terry Gunnell. „Hversu útbreidd er álfatrúin um heiminn, í hvers kyns myndum sem hún kann að koma fram?“ Vísindavefurinn. 19. des. 2008. Vefsíða. 4. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=23875>.