
Ýmsar goðsagnir hafa verið við lýði um Kínamúrinn eins og til dæmis að hann sé fleiri þúsund ára gamall, ein órofa heild og eina mannvirkið á jörðinni sem sjáist úr geimnum. Það væri villandi að segja að Kínamúrinn sé mörg þúsund ára gamall því hann hefur verið endurbyggður svo oft. Auk þess eru elstu hlutar hans ekki sjáanlegir lengur þó vissulega séu hlutar hans gamlir. Einnig væri hæpið að halda því fram að Kínamúrinn sé einn langur heilsteyptur veggur því að víða eru göt í honum. Honum er kannski betur lýst sem röð margra múra og varðturna með bilum á milli. Þá segja geimfarar að það sé rangt að Kínamúrinn sjáist með berum augum frá tunglinu. Með þessa fyrirvara í huga er þó hægt að segja í aðalatriðum að múrinn sé 7 til 8 metra hár og víða um 4 til 8 metra breiður. Hann er gerður úr grjóti, tré, múrsteinum og mold. Ytri og innri veggir úr steini eru á múrnum og á milli þeirra er göngustígur. Með jöfnu millibili má sjá varðturna sem eru um það bil 24.000 talsins. Múrinn er alls um 7300 kílómetrar að lengd og talið eitt mesta mannvirki heims.

- Hvað tók langan tíma að byggja Kínamúrinn? eftir HMS
- Getið þið sagt mér allt um Kína, helst sem fyrst? eftir Sigrúnu Harðardóttur
- Hvernig í ósköpunum hefur Mongólía getað haldið landamærum í öll þessi ár á móti Rússlandi í norðri og Kína í suðri? eftir Gísla Gunnarsson
- Encarta. Skoðað 29.5.2002.
- Britannica Online
- Wikipedia.com. Sótt 2.7.2010.
- Encarta. Sótt 29.5.2002.